p1011196
Sigga Björg Sigurðardóttir - 33
33 - Sigga Björg Sigurðardóttir
14. 04. 2012 - 06. 05. 2012
 
OPNUN LAUGARDAGINN 14.apríl KL.17.00

Að horfa í augun á djöfsa

Demónar, drýslar og dárar vitja okkar í draumum og sýnum. Þeir birtast á innra himinhvolfi okkar allra, líka englar, dísir og litlir álfar. Þeim bregður fyrir útundan sjón okkar en það eru hins vegar ekki margir sem eru til í að kannast við það eða teikna, festa á blað og flytja sýnina inn í þennan heim. Flestir afgreiða þetta sem óra og ofskynjanir og skammast sín meira að segja fyrir að segja frá því að þetta hafi hent. Dríslarnir og dárarnir standa samt fyrir eitthvað ákveðið. Þarna eru faldar hvatir okkar og kenndir. Rótin í þessari bælingu og andstöðu liggur í kristilegu uppeldi og hinu kristna samfélagi sem tengir sig svo sterkt hinu veraldlega valdi að hnífurinn gengur ekki á milli. Kristni hefur misst skilninginn á myndmáli á svo mörgum sviðum og orðið að innhaldslítilli bókstafstrú vegna þessara sambandsslita. Í árdaga kristninnar hafði kristsmyndin andstæðu sem var myndin af djöflinum. Á þriðju öld var honum úthýst. Honum var skóflað undir teppið og þegar á þarf að halda, sérstaklega eftir endurreisn og siðbót á 16. og 17. öld, er hann kenndur við hið kvenlæga, dýrslegar hvatir og kenndir og jafnvel við náttúruna sjálfa - móður jörð. 

Í bók sinni „Galdrar og brennudómar“ vísar höfundurinn Siglaugur Brynleifsson á elstu heimildirnar sem finnast og tengjast sýn kristninnar á demóna, „Canon Episcopi“, sem er að finna í bók skrifaðri af Regio frá Prüm frá 906. Þar segir: „að illar kvensniptir, sem hneigist til fylgis við Satan og ára hans, telji sig fara um ríðandi á ýmsum kvikindum að náttarþeli í fylgd Díönu [forn veiðigyðja] óraleiðir ásamt miklum fjölda manna og kvenna. Þessar hlýði henni (þ.e. Díönu) í einu og öllu. Prestum er því skylt að vinna gegn þess konar ímyndunum og þeim ber að útlista sem uppátæki illra anda sem blási kvinnunum þetta í brjóst í rutlkenndum draumum… Hver er slíkur bjáni að halda að það gerist í raun, sem aðeins er sjúkleg ímyndun og fáránlegt hugarfóstur?“1 Síðar segir Siglaugur: „Nokkrum öldum síðar [þ.e. á 16. og 17. öld] hafði hugmyndin um næturreiðir í fylgd Díönu, hinnar fornu veiðigyðju, tekið myndbreytingu, líklega fyrir áhrif kristinnar trúfræði. Í stað Díönu var fjandinn kominn í líki fresskattar og kveldriður kysstu hann og kjössuðu, einkum undir rófunni“ og „Afskræmilegar leifar fornra hindurvitna, svo sem að menn gætu umbreyst í dýr, lifðu enn meðal manna og þegar líður á miðaldir er tekið að útskýra slíka atburði sem verk djöfulsins.“2

Þegar myndbirtingar af Kristi eru raktar kemur í ljós að hann birtist skegglaus eins og Apollon með sólina á bak við sig. Fyrstu myndbirtingar sjást á 6.öld. Þar er hann alltaf hreinn og skegglaus. Við vitum af áhrifum grískrar fornmenningar á kristni. Hjá Grikkjum var andstæðan við Apollon, sem síðar nefnist kristur, Dionýsos sem síðar nefnist djöfullinn. Hann var guð dáranna í þessari merkingu. Þessir dárar eru taldir hættulegir vegna þess að þeir stýrist af sýnum, hvötum, kenndum og óreiðu. Það er af kristnum kennt við það illa. Þetta eru allt eiginleikar hins kvenlæga. Þeir eru andstæðan við reglu Apollons sem táknar það karllæga. Það er svo á 3. öld þegar Rómverjar gera kristni að ríkistrú og sameina hana veraldlegu valdi sem Dionýsosi eða djöfsa er vísað út úr myndinni. Hún hættir að vera vitræn og verður einsleit eða karllæag. Það vantar „Jin“ á móti „Janginu“.

Það sem er svo athyglisvert er að orðið „demon“ kemur úr grísku. Orðið „demon“ kemur úr orðinu „dynamic“ sem þýðir lífskrafturinn sjálfur. Demónarnir í okkur eru kraftur lífs okkar. Og svo er samfélag okkar og uppeldi þannig farið að það vill moka lífskraftinum undir teppið og ekki kannast við að óhugnaðurinn sé til staðar. Við erum svo á móti lífskraftinum sjálfum að hann skal barinn niður ef til hans sést. Honum er líkt við dreka sem riddarinn Apollon skal drepa með sverði sínu. Í raun standa demónarnir ekki fyrir neitt annað en bældar hvatir sem við getum ekki eða viljum ekki horfast í augu við.

Það hefur verið bent á að saga hugmynda endurtekur sig. Hugmyndir virðast ganga aftur. Ein kenningin er sú að á um það bil fimm alda fresti virðumst við umpólast. Umpólunin snýst um áhuga okkar á því sem gerist innra með okkur annars vegar og því sem gerist fyrir utan okkur hins vegar. Veröldin fyrir utan okkur í dag er býsna vel kortlögð miðað við veröldina fyrir innan. Á 16. og 17. öld hefjast þessar breytingar í vestrænu samfélagi fyrir alvöru með endurreisninni og tilurð rannsókna á ytra ljósi raunheimsins. Í þeim heimi ráða ríkjum verkfæri Apollons, spegillinn og mælistikan. Konan eða hið kvenlæga innsæi sem kennt er við djöfulinn er talað niður jafnvel enn þann dag í dag. Sjónarhóll karlægra valdhafa hefur orðið smátt og smátt ofan á. Þeir hætta að lesa myndmálið. Bókstafurinn skal ráða. Albert Einstein sagði: „Innsæið er fágæt gjöf og rökhugsun trúr þjónn. Við höfum skapað samfélag sem heiðrar þjóninn en hefur gleymt gjöfinni“. Sir Francis Bacon skrifaði heila bók í byrjun 17. aldar sem er einn af grunninum í þessari samfélagsköpun sem Einstein segir að heiðri þjóninn. Bók Bacons heitir „The Masculine Birth of Time“. Þar leggur hann grunnin að karlægri rökhugsun (ríki Apollons) sem fyrst nú á tímum er byrjað að snúa við. Hann segir þar að viskan hafi verið í höndum kvenna en nú sé tími til að fara taka upp karllæga þekkingu sem sé byggð á traustvekjandi staðreyndum. Það er út af fyrir sig ekki traustvekjandi að breyta áherslum frá gæðaskoðun í magnskoðun. Við erum farin að gera okkur grein fyrir því að rökugsun sé ekki heimspeki eða viska. Greiningar og tölulegar magnupplýsingar séu ekki það sama og skilningur og gæði. Að gagrýnin hugsun sé ekki skapandi þó að hún sé framúrskarandi þjónn. Vitsmunir og greiningar skapa ekki - þær megna það ekki. Þær eru góðir aftursætisbílstjórar. Einungis tilfinningar og innsæi ráða við stýrið.

Seiðskrattar, skrýmsli og varúlfar áttu orðið lítið friðland fyrir sjónaukum og smásjám - myndræn skynjun og hugsun var kæfð. Sem betur fer er þetta að breytast þótt hægt fari. Myndvæðing er orðin raunveruleiki í samfélagi dagsins í dag. Börn eiga auðvelt með þetta. Hugur ræður hálfri sjón! Hver hefur ekki sjálfur séð það í draumum sem hann sá aldrei í vöku? Skilningarvitin eru fimm; sýnin, heyrnin, snertingin, bragðið og lyktin. Af þeim er sýnin langsterkust. Því er haldið fram, af þeim sem hafa rannsakað, að börn grípi einungis 10% af því sem þau lesa, 20% af því sem þau heyra og 50% af því sem þau sjá.3 Sama á við um barnið í okkur öllum. Valdið er að komast í hendurnar á þeim sem þora að horfast í augu við djöfsa - lífskraftinn sjálfan sem býr í öllum börnum.

Guðmundur Oddur Magnússon

1.Migne: Patrologiar Cursus Completus: series latina. Paris 1841-1864, CXXXII, bls. 352-353. (Þýð. úr bók Siglaugs Brynleifssonar, Galdrar og brennudómar)
2. Siglaugur Brynleifsson: Galdrar og brennudómar. Reykjavík 1976, bls 13.
3. Minirth, Frank, M.D: A Brilliant Mind. Revell, Grand Rapids, Michigan, 2007.

www.siggabjorg.net

http://www.ruv.is/sarpurinn/vidsja/02052012

http://www.huffingtonpost.com/kari-adelaide/post_3332_b_1471536.html?ref=fb&src=sp&comm_ref=false#s930651

Kling & Bang gallerí
Hverfisgata 42
IS-101 Reykjavik

Opið fimmtudaga-sunnudaga frá kl.14-18

 
 
 
 
 
Grandagarður 20 - 101 Reykjavík kob@this.is