klin-bak_ask
David Askevold
Two Hanks
15. 05. 2004 - 06. 06. 2004
 
TWO HANKS
A Conjuring / invocation of
Hank Williams & Hank Snow
Kling og Bang gallerí 15.maí – 6.júní 2004


Frá árinu 1968 til 1974 stóð David Askevold fyrir hinu fræga Project Class þegar hann vann sem leiðbeinandi í Nova Scotia College of Art and Design í Halifax, Kanada.
Á þessu námskeiði bauð hann listamönnunum Vito Acconci, Robert Barry, James Lee Bayers, Mel Bochner, N.E. Thing Company, Jan Dibbets, Dan Graham, Douglas Huebler, Joseph Kosuth, Sol Lewitt, Robert Smithson og Lawrence Weiner að senda inn skriflega hugmyndir að samstarfsverkefnum með nemendunum. Þetta vægast sagt óhefðbundna námskeið varð að flöt sem þróaðist út í verkefni sem varð til þess að sumir áðurnefndra listamanna auk annarra heimsóttu skólann í Halifax en festi einnig Askevold í sessi sem frumkvöðul á sviði konseptlistarinnar sem þá var í mótun.

Upphefðin varð meðal annars til þess að Lucy Lippard fjallað um hann í áhrifamiklu riti sínu Six years: The Dematerialization of the Art of Object from 1966 to 1972, einnig birtist um hann grein eftir Rosalind Krauss „Notes on the Index, Seventies Art in America“ í tímaritinu October árið 1976, og árið 1975 var allt aprílblað þýska tímaritsins Extra tileinkað verkum hans og hann var einnig með í sjöundu útgáfunni af Documenta í Kassel í Þýskalandi. Nýlegri sýningar sýna enn verk hans sem tákn fyrir listsköpun áttunda áratugarins, sýningar eins og Reconsidering the Art Object 1965-75 í Nýlistasafninu í Los Angeles (The Museum of Contemporary Art) árið 1995 og Seventies: Art in Question í Nýlistasafninu í Bordeaux í Frakklandi (Musee dé art Contemporain de Bordeaux) árið 2002.
Í meira en þrjá áratugi hefur David Askevold haldið sýningar, bæði einka- og samsýningar, um alla Norður- og Suður-Ameríku, Asíu og Evrópu. Síðustu sýningar hans telja m.a. New Pictures and Older Videos á Los Angeles Contemporary Exhibitions (2001), 7th Lyon Bienalle of Contemporary Art (2003) og farandsýninguna 100 Artists See God (2004) sem er stýrt af John Baldessari og Meg Cranston.

Þótt eðlilegt sé að halda því fram að rætur verka David Askevolds liggi enn í hefð konseptlistarinnar þar sem að listamenn reyndu að fría sig frá efnishyggju og skipulagi að ofan þá hefur hann með árunum passað sig á gagnrýnin hátt að falla ekki í gryfju þurrar, einfeldnislegrar og formúlukenndrar framleiðslu. Fyrri og núverandi viðfangsefni hans virðast frekar vera yfir alla fylgispekt hafin en að svara straumum myndlistarsögulegrar orðræðu. Í eldri verkum var hann upptekinn af mönnum eins og Johannes Keppler, Franz Anton Mezmer, Levi Strauss og Colin Wilson. Í nýlegri athugunum má sjá vísanir í Sharon Tate, Hank Snow og Hank Williams sem staðsetja verk hans enn frekar innan rýmis mikilfenglegra tilvitnana á eigin forsendum.

Í sýningunni Two Hanks í Kling og Bang gallerí sækir David Askevold ekki aðeins aftur til verks sem var upphaflega hugsað á seinni hluta áttunda áratugarins heldur heimsækir hann einnig aftur Ísland en árið 1997 sýndi hann á Kjarvalsstöðum sem hluti af On Iceland. Sem listamaður og ferðamaður hefur Askevold enn á ný fundið sjálfan sig á kunnuglegum slóðum sem eru hlaðnar endurskoðun á þema og stöðum í stærri leit að annarskonar upplýsingu.

David Diviney
 
Two Hanks, David Askevold
Athuganir og yfirlit gjörnings fyrir vídeó og ljósmyndir í CANADA gallery, 55 Chrystie St. NYC, 26. apríl 2004

Ef það er hægt að nefna þema eða hugfengi í verkum David Askevolds þá væri það mikilvægi tilviljana, tilhneiginga, yfirlags og vangaveltur um þá möguleika sem felast í hinu dulræna. Hann hefur sjaldan gefið þessu jafn mikin gaum og í gjörningnum Two Hanks sem er einskonar særing/ákall til Hank Williams og Hank Snows.

Hugmyndin um Two Hanks leit fyrst dagsins ljós á árunum 1977 til 1980 sem gjörningurinn The Ghost of Hank Williams (Draugur Hank Williams) sem var særing/ákall en þá starfaði David við kennslu í Los Angeles í Kaliforníu. Gjörningurinn varð til í fjölda teikninga sem sýndu nákvæmlega hvaða tæki þurfti til, hvaða byggingu, stemningu og hljóð. Af óljósum ástæðum var þessi gjörningur aldrei framin opinberlega. Hinsvegar benda ítarlegar skýringamyndirnar til þess að David hafi framið allan hluta gjörningsins og að líkindum prófað sig áfram í að mynda aðstæður fyrir draug Hank Williams heima hjá sér og á vinnustofu sinni í Venice, Kaliforníu allan síðari hluta áttunda áratugarins.

Hulinn möguleiki á því yfirnáttúrulega er skurðpunktur atburða sem saman mynda atvik merkingarbærar tilviljunar. Athugun á yfirnáttúrulegri upplifun snýst um það hvort það sem gerðist hafi átt sér stað eða ekki og hvort að allt sé eins og það sýnist.
Atvik sem gerast samtímis, tvær eða fleiri tengdar upplifanir sem verða til á sama tíma undir ólíku yfirskini eru nauðsynlegur hluti þess yfirnáttúrulega. Hið dulræna er margslungið og magnað yfirlag skyldra upplifanna sem eru handan við skilning á einfaldri tilviljun þannig að efi, draumórar og innblástur verða eiginleg merking.

Í kjölfar andláts Hank Snows árið 1999 endursamdi David The Ghost of Hank Williams og nefndi verkið Two Hanks. Verkið sem hafði upphaflega sprottið af dálæti Davids á Hank Williams varð að óði til anda tveggja tónlistarmanna sem spiluðu aldrei saman og höfðu lifað ólíku lífi. Hinn fullkomni gjörningur fólst í því að sætta þessar ólíku hliðar þeirra og stilla þeim saman upp á svið.

Hávaði er bramlandi hljóðið hinu megin við samhljóminn. Það er munurinn á milli tveggja hljóða. Í Two Hanks er hávaðinn falinn í eftirnöfnum þeirra, Williams og Snow, og í eðli lífs þeirra. Særingin grundvallaðist á eiginnafni þeirra: Hank. Þessi hliðstæða féll saman í eitt samhljóða kall „Hank“.

Two Hanks var flutt í galleríinu Canada í New York 26. apríl 2003 frammi fyrir fáum áhorfendum. Munurinn á tónlistarmönnunum birtist bæði í leikrænu bragði særingar og í fræðilegri byggingu sem var nauðsynleg til að kalla fram anda Hank Williams og Hank Snows.




Hank Williams var Bandaríkjamaður sem lést af völdum ofneyslu lyfja og áfengis í aftursætinu á Cadillacbílnum sínum á leið á tónleika í Ohio á nýársdag 1953. Hann var 29 ára. Hank Snow fæddist í Brooklyn, Nova Scotia í Kanada og lést í desember árið 1999 að heimili sínu í Madison, Tennessee í Bandaríkjunum. Hann var 85 ára. Goðsögnin um Hank Williams hverfist um rómantíska listamanninn sem dó fyrir aldur fram, syngjandi af öllum lífs og sálar kröftum, brennandi helmingi bjartar og hraðar en aðrir. Sagan af Hank Snow er um þjarkinn og dugandi tónlistarmanninn, virtan fyrir langlífi sitt, framlög til góðgerðarmála og fyrir að lifa heilsusamlegu og allsgáðu lífi.

Hank Williams var ákallaður með lykkjaðri upptöku af Ramblin´ Man, tregasöng hans um rótleysið sem spratt af því að vera misskilinn. Hank Snow var ákallaður með stærilátum söng hans I’ve been Everywhere sem fjallar um dugnað hans og þrautseigju.

Lögin ómuðu aftur og aftur af tveimur diskaspilurum. Hljóðstyrkur þeirra og samtónun var keyrð í gegnum hljóðblöndunartæki með sérrás fyrir hljóðnema. David tónaði í hann án þess að til hans heyrðist nema þegar einstaka sinnum ómaði skært „Hank“. Blöndunartækið var tengt við hátalara sem var lokaður af innan ferhyrnings úr krossviði sem varð að táknrænni boðleið með hljóðnema við hinn endann sem endurvarpaði hljóðinu í gegnum magnaðan hátalara sem sneri inn að miðju rýmisins. David sat við endann á krossviðarsviðinu þar sem að draugarnir áttu að birtast og sá um hljóðlykkjurnar á milli þess sem hann sló á lausa strengi rauðs Fender bassagítars sem var tengdur við magnara.
Hljóðið minnti í senn á hríðskotabyssu, flugelda, þrumur og stormviðri og rokkað trommusóló. Kraftmikill slátturinn á bassann varð til þess að tveir marblettir mynduðust á brjósti Davids þannig að hann leit út fyrir að hafa verið sleginn með sokkum fullum af klinki.

Skammt frá spilaði Scott Marshall, þeremínisti, mismunandi útsetningar af lögunum. Hljóðfærið var holdtekning alls þess dulræna við gjörninginn. Þetta var hin hefðbundna hryllingsmyndatónlist. Þetta var tálmynd særingar með þessu hljóðfæri, leikari þess var að strjúka draugi, að handleika rafræna sviðið. Þetta var allt umlykjandi titringur, hljóðið blandað mistrinu og gufunni í herberginu.

Fyrir ofan 71 sm hátt og 2,4 m breitt krossviðarsviðið lágu tveir 20 kílóa klumpar af þurrís í sitthvoru netinu. Samsetning gufunnar og mistursins sem myndi fanga Two Hanks var gert á ólíkan hátt. David hellti bjór handa Williams en vatni fyrir Snow yfir klumpana. Við hápunkt gjörningsins úðaði David kampavíni yfir báða klumpana til að fagna opinberun. Bjórinn, vatnið og kampavínið féll á sviðið og hljómaði eins og lófatak.

Sígarettureykur áhorfenda blandaðist gufum þurríssins og myndaði óloft sem hið yfirnáttúrúlega smeygði sér um. Lituðum glærum og myndum af Hank Williams og Hank Snow var varpað inn í mistrið. Ljósið og þokan lögðust yfir hvort annað og inn í hvort annað, bókstafleg yfirlagning, hliðstæða hins dulræna.




Þurrísinn og þeremínómurinn urðu að hugsefjandi eteri. Herbergishitinn féll. Þótt að myndirnar sýni ljós þá var dimmt þarna fyrir utan hvítt kastljós og vörpuðum litum úr slidesvélinni. Þetta var sefjandi. Þetta bjó yfir stóískri gleði loftkældra kráa eða kaldra bjóra. Galleríið var fullkomlega svalt og friðsælt. Rörið/hljómberinn þjónaði tilgangi sem bekkur og allt galleríið utan við sviðið var ætlað áhorfendum. Á meðan sýningunni stóð var uppsetningin notuð sem einskonar setustofa þar sem vídeómyndir af gjörningnum gengu viðstöðulaust.

Two Hanks myndbandið er um það bil jafn langt sjálfum gjörningnum og þótt skipt sé á milli myndavéla þá er hljóðbandið óklippt. Það ómar aftur og aftur eins og timburmenn. Síbyljan og þeremíntónarnir eru pirrandi og harkalegir og blikkandi kastljósið veldur óþægindum. Á vissum augnablikum gjörningsins verður alvara hans jafn augljós og ofsafengin ánægjan.

Myndbandið er tekið með náttlinsu. Innrautt ljósið breytir áhorfendum í glóandi, græneygðar kynjaverur. Bros verða að grettum, húð þeirra nágræn. Frumatriði Two Hanks eru einföld: hljóð, ljós, efni, og bygging, allt heldur þetta ímynd augnabliksins á meðan handleikin myndavélin eltir það sem fram fer meðal flytjenda og áhorfenda. Þeir komu saman í nautnafullu atviki á dulrænum nótum og ómælanlegum tíma.
Það er í eðli hins yfirnáttúrulega og dulræna að vísa til skilnings og þessvegna er það aðeins trú vitnanna sem viðheldur sannleika atburðarins.

Það er lítið gagn að því að lýsa gjörningnum, það er munur á því að sjá draug og segja draugasögu. Annað er fyrirbærafræðilegt umbrot en gæði hins felast aðeins í hugarflugi þeirra sem taka þátt. En þeir sem sáu þetta eru knúnir af þörfinni til að reyna að segja frá því sem þeir sáu í skiljanlegt samhengi. En eins og allt sem hefur þau áhrif að breikka meðvitund okkar þá er það aldrei eins og maður ímyndaði sér það, gerist aldrei eins og maður bjóst við og það er í rauninni tilgangur þess.

Athugasemdir höfundar og athuganir:

Dagarnir rétt fyrir sýninguna voru einstaklega einfaldir. David mætti í galleríið síðdegis og punktaði hjá sér á hvít vélritunarblöð, stundum teiknaði hann litlar myndir sem vísuðu í stærri mynd sem útlistaði Two Hanks.

David kom aðeins með það nauðsynlegasta fyrir gjörninginn: upptökur af Hank Williams að syngja Ramblin’ Man og I’ve been Everywhere eftir Hank Snow, skýringarmynd fyrir gjörninginn, tvær tilkynningar og örk af lituðum glærum. Það sem eftir var af útfærslu og skipulagningu gerðist hægt og bítandi eins og aðdragandi að skólaballi eða hæfileikakeppni.

Þetta verk kallar fram hjá mér tilfinningu fyrir rými á vændishúsi og karaokeherbergi þar sem er bæði sýning og næði og sérstakur tími. Þótt hann sé útlistaður, maður greiðir hann með afborgunum og hann líður á undarlegan og órökréttan hátt. Hvað tekur langan tíma að fagna og syngja allt kvöldið? Hvað eru margir söngvar á einu kvöldi?

Návist drauga í herberginu var eins og að skynja birtu frá glymskratta. Við spiluðum uppáhaldslögin okkar aftur og aftur í leit að einhverju. Þau verða hluti af hugmyndasögu okkar um okkur sjálf. Endurtekningin brennir þau við tímann og þau glata eða öðlast merkingu þegar augnablikið verður skiljanlegt.

Draugarnir sem birtust á sviðinu voru ímyndir í skýjum eða andi í glösum eða bleyta eftir drykk á svörtum fleti barborðsins. Þetta var upplifun og ánægjan sem kemur af glymskrattanum, orðunum sem maður kann, þetta kemur manni í gírinn, heldur manni á floti.

Gjörningurinn skildi margt eftir sig, aðallega gersemar og ösku. Þarna var rauður Fender bassi og ljósmyndaröð af demöntum, safírum, rúbínum og smarögðum. Litir þeirra fóru eftir framköllunartímanum og samverkun þeirra með kastljósinu. Þeir afhjúpa, fletja herbergið, afskræma andlit og myndir í form sem gerast of hratt til að sjá með berum augum. Krossviðarsviðið var útatað og slitið.

Hvernig gjörningnum tókst til sem særingu er spurning um trú og allir þeir sem tóku þátt og allir sem horfa á myndbandið verða að ákveða sjálfir hvort það sem gefið er til kynna sé mögulegt eða raunverulegt. En veruleiki gjörningsins sem miðilsfundar hefur engin áhrif á efni hans sem flutningurinn tekur áþreifanlega og ítarlega á.
Fyrir ofan sviðið og hljómberan, leit langa rörið út eins og plötuspilari og nál. Þetta heyrir undir hugtakalist en þó óskráða hefð hennar sem býr yfir dægurvísunum. Two Hanks þurfti á b-mynda dramatíkinni að halda sem og kvikmyndaauglýsingunum. Barir, bíómyndir, glæpasögur, nútímagoðsagnir, staðir þar sem að fólk upplifir eitthvað í stórum hóp og dulur almenningur hafa legið eins og rauður þráður í verkum David Askevolds. Þetta er ekki bakherbergi, hulinn heimur eða menningarkimi. Þetta er mjög opinbert samfélag vináttu. Hið sameiginlega sem við búum yfir eða það sem við deilum með hvort öðru og er almennt stórbrotið eins og tónlist, áfengi og söngur. Two Hanks var ekki sóló gjörningur, yfir honum sveif andi brekkusöngva, varðelda, partís, bars eða karaokeherbergis. David var bæði veislustjórinn og miðillinn.

Aaron Brewer

 
mikekelleyectoplasm poltergeistphantommonkey 2hankshighscandraw8 wolfweb floorx3web vaporwebsnow vaporwebwilliams
 
 
 
Grandagarđur 20 - 101 Reykjavík kob@this.is