Þorgerður Þórhallsdóttir
Kóreógrafískt ljóð fyrir hljómsveit - Choreographic poem for orchestra
24. 06. 2017 - 13. 08. 2017
 
Kóreógrafískt ljóð fyrir hljómsveit

Glufur myndast í skýþyrlum, það glittir í pör sem stíga vals. Smátt og smátt tvístrast skýin og mikilfenglegur danssalur birtist þar sem hópur fólks þeytist um. Það birtir enn meira til og ljósakrónurnar virðast springa af birtunni þegar hljómsveitin spilar á hæsta styrk. Konungleg samkoma, um 1855.
Maurice Ravel, 1920

Að semja ballett um vals.

Ravel samdi ballett um vals árið 1920, óð til valsins, til tímabils í mannkynssögunni sem var við það að ljúka. Þegar ballettmeistarinn heyrði La Valse í fyrsta sinn sagði hann að verkið væri ekki ballett heldur portrett af ballett.

Eftir að La Valse var flutt vildu menn meina að það táknaði blóðbað, hörmungar og vandræði Evrópuþjóðanna í kjölfar fyrri heimstyrjaldarinnar. Ravel aftur á móti hélt því staðfastur fram alla tíð að verkið hefði ekki neinar pólitískar skírskotanir og væri aðeins um valsinn í allri sinni dýrð.

Heimurinn er alltaf við það að farast og rétt eins og fyrir dansarana sem Ravel sá fyrir sér, er listin griðarstaður. Hún getur veitt okkur lausn frá heiminum og tákngerir og vekur tilfinningar með því að líkja eftir þeim, til dæmis með risi og hnigi, spennu og slökun.

Saga mannkynsins er framfarasaga. Við förum áfram og þegar við erum komin ákveðið langt áfram er ekki hægt að fara afturábak. Eitt vandamál samtímans er að sögulegt samhengi okkar er í sjálfu sér írónískt. Ekkert þýðir það sem það virðist þýða. Við lifum í heimi tilvísanna, stælinga, eftirlíkinga og bölsýni: í allsherjar og alltumlykjandi íróníu. Umberto Eco heldur því fram að þegar módernisminn gat ekki gengið lengra í nýbreytni hafi hið póstmóderníska svar verið að viðurkenna tilvist fortíðarinnar, þar sem ekki sé hægt að hafna fortíðinni þá verði að endurskoða hana, með íróníu og án sakleysis.
Ég sé fortíðina ekki fyrir mér sem línulega tímalínu. Nútíðin er aldrei án fortíðarinnar, tíðirnar eru ávallt samliggjandi og samfelldar. Deleuze sagði að við eigum erfitt með að skynja fortíðina en hún er ekki hætt að vera þótt hún sé liðin.

Maurice Ravel samdi La Valse á milli 1919 og 1920 eftir að hann var beðinn um að semja tónlist fyrir ballett. Ravel hafði byrjað að semja óð til valsins og til Johann Strauss II (sem hafði samið fjöldann allan af vals tónlist) sem bar vinnutitilinn Vínarborg og hélt nú áfram með þá hugmynd. Miklar hræringar áttu sér stað á þessum tíma í Evrópu, heimsálfan var enn í sárum eftir fyrri heimsstyrjöldina og Vesturlönd breyttust mikið í kjölfar fyrra stríðsins. Vínarvalsinn er tákn fyrir ákveðinn tíma sem var við það að líða undir lok, keisaraveldið Austurríki-Ungverjaland hafði runnið út í sandinn.

Ravel samdi tónverkið út frá dansi og hreyfingu og ég vann vídeóverkið Kóreógrafískt ljóð fyrir hljómsveit út frá tónverkinu hans. Það er hljóðlaust vídeó á fjórum rásum, ein rás fyrir einn hóp hljóðfæra í sinfóníuhljómsveitinni: strengir, brass, tréblásturshljóðfæri og ásláttarhljóðfæri. Þöglar senur og ljós á sífelldri hreyfingu, túlka hið fallega og óhugnalega tónverk.

Kling & Bang works in collaboration with Thyssen-Bornemisza Art Contemporary, Vienna and The City of Reykjavík
 
-
Kling & Bang
Marshallhúsið
Grandagarður 20
101 Reykjavík
Ísland

Opnunartímar
Mið til sun 12 – 18
fim 12 – 21
lokað á mánudögum/þriðjudögum

Aðgangur ókeypis
 
 
 
 
Grandagarğur 20 - 101 Reykjavík kob@this.is