krossfestur02
Snorri Ásmundsson
Til Þín / To You
19. 07. 2003 - 04. 08. 2003
 
myndir á leiðinni

Aldrei gleymi ég þeirri stundu þegar Snorri Ásmundsson gekk fyrst inn í
skólastofu fyrsta bekks D í Glerárskóla Akureyrar, því hann var svo lágvaxinn.
Mín fyrstu viðbrögð voru þau að kannski hefði hann verið hækkaður um bekk og
væri ári yngri en við hin. Það reyndist ekki vera rétt hjá mér en ég komst
fljótt að því að hann var leiftrandi gáfaður og það sem meira var mikill
fjörkálfur, þrátt fyrir smæð sína. Hann var reyndar svo mikill fjörkálfur að í
dag væri drengur með hans skapgerð sendur til skólasálfræðings eða settur í
tossabekk. Það vakti einnig athygli mína hversu kappsfullur hann var og hafði
mergjaða framtíðardrauma. Á Akureyri eins og víða úti á landi snúast villtustu
framtíðardraumar barna um barneignir og því skar hann sig úr bekknum og varð
jafnvel fyrir aðkasti, enda er í litlum bæjarfélögum tilhneiging til að berja
niður þá sem skara fram úr. En allt hefur þetta verið einskær guðsblessun.
Robin Williams bandaríski æringinn og óskarsverðlaunahafinn var ofvirkur sem
barn. Það kemur líklega engum á óvart sem hefur séð hann í Jay Leno og öðrum
vönduðum skemmtiþáttum. Þar reitir hann af sér brandarana af þvílíkri
fífldirfsku að mörgum er nóg um, ekki síst eldri kynslóðinni. Ef leikarinn
frægi væri barn í dag væri hann settur á Rítalín. Það má vel ímynda sér að ef
hann hefði fengið lyfin sín, sem hann átti svo innilega skilið af því að hann
var þrátt fyrir allt góður drengur, hefði honum verið hlíft við erfiðleikum
unglingsáranna og átt fallega og góða æsku, en þá hefði hann ekki orðið sá
stórkostlegi listamaður sem hann er í dag. Það sama á við um Snorra
Ásmundsson. Það er ekki hægt að að hlífa mönnum við eldskírn þeirri sem
nauðsynleg er til að komast í hóp hinna útvöldu. Þá er eins gott að drepa
börnin í fæðingu. Auðvitað eru til þeir einstaklingar sem ljúga, svíkja og
smjaðra til að komast í þennan vinsæla hóp, en sagan dæmir þá úr leik. Hverju
hefur Ólafur Ragnar Grímsson til dæmis fórnað? Svarið liggur í augum uppi:
Engu.
Milljónir manna um allan heim hafa það að atvinnu sinni að smána náungann án
þess að við hin fáum rönd við reist. En ekki þó allir: allt frá
upphafi hefur Snorri Ásmundsson verið málsvari lítilmagnans og þeirra sem
vilja breyta rétt. Þetta sést best í innleggi Snorra til menningar og lista.
Hann hefur af fornfýsi skapað verk sem ekki bara hvetja fólk til að láta
drauma sína rætast, heldur einnig útvíkka drauma hins venjulega manns. Snorri
er í góðum tengslum við fólkið í landinu enda hefur hann unnið við sjómennsku
og gosdrykkjaframleiðslu svo eitthvað sé nefnt. Í listamanninum fara saman
göfuglyndi sálarinnar og ótakmarkaður vilji til gefandi sköpunar.
Sköpunarferli hans á sér engin takmörk því möguleikar mannskepnunnar og
einstaklinga tegundarinnar eru endalausir. Á síðasta ári var hann gerður að
heiðursborgara Akureyrar og var af því tilefni gerð brjóstmynd af
listamanninum. Nú í fyrsta sinn gefst Reykvíkingum tækifæri til að sjá þessa
mynd sem er sögð fanga afstöðu listamannsins til listgyðjunnar og besta
sköpunarverksins, þ.e. mannsins sjálfs.
Það er trúarlegur blær yfir nýjustu verkum Snorra sem nú prýða Gallerí Kling
og Bang. Listamaðurinn hefur af takmarkalausri þolinmæði leitað guðs og hefur
loksins eftir öll þessi ár náð sambandi. Það hefur gefið honum nýjan kraft sem
kristallast í voldugu myndbandi þar sem listamaðurinn hangir á krossi íslensku
þjóðarinnar og trúir því ekki í eitt augnablik að guð hafi yfirgefið sig. En
hvort þjóðin hafi yfirgefið hann kemur ekki í ljós fyrr en í forsetakosningum
á næsta ári.

Agnar Eggertsson a.k.a. Aggi Egga
 
Snorri Ásmundsson fæddist 1966 á Akureyri og stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri frá unga aldri. Hann hefur haldið á annan tug einkasýninga og tekið þátt í þó nokkrum samsýningum hérlendis og erlendis auk þess hefur hann staðið að hinum ýmsu uppákomum (Happenings).
Snorri rak sýningarrýmið „The International Gallery of Snorri Ásmundsson“ í Listagilinu á Akureyri 1994 - 1997, en rekur nú ásamt 10. öðrum listamönnum galleríið "Kling og bang" við Laugaveg 23 í Reykjavík.

Snorri er forseti og riddari Akureyrar-akademíunnar og formaður stjórnmálaflokksins Vinstri hægri snú og var borgarstjóraefni flokksins í borgarstjórnarkosningunum 2002, en tapaði naumlega fyrir Ingibjörgu Sólrúnu sitjandi borgarstjóra. Snorri er einnig framkvæmdastjóri málningarþjónustunnar Santa Barbara. Hann var gerður að heiðursborgara á Akureyri árið 2000 og var gerður að heiðursborgara á Seyðisfirði í desember 2003. (Ekki er vitað til þess að nokkur íslendingur hafi áður hlotnast sá heiður að vera heiðursborgari í tveimur bæjarfélögum á Íslandi.)
 
god_grant_people great_good_lord kross lovely_god_dont snorricrossfesturxxx toyou10 toyou13
 
 
 
Grandagarğur 20 - 101 Reykjavík kob@this.is