baldurgeir
Baldur Geir Bragason
Yfirborðskennd - Superficiality
13. 12. 2008 - 18. 01. 2009
 
Yfirborðskennd

Baldur Geir Bragason sýnir í Kling og Bang
OPNUN LAUGARDAGINN 13.DESEMBER KLUKKAN 17.00.

Margræður myndheimur Baldurs Geirs Bragasonar hverfist oftar en ekki um sjálfan sig. Um leið og hann setur fram grípandi hluti og einfaldar myndir sem eiga sér kunnuglegar fyrirmyndir, nær vísun þeirra fyrst og fremst til ferlis listaverksins sem slíks. Að listamaðurinn hafi gert verk, sett það fram og að áhorfandi sjái það. Þótt verkið kunni að minna á hitt eða þetta nær sú tenging skammt, enda myndmálið gjarnan sótt í eitthvað tiltölulega blátt áfram, teiknimyndir, bíó, tölvuleiki eða myndasögur. Það er ekki þar með sagt að verkin séu sjálfhverf í neikvæðum skilningi, þvert á móti koma þau mjög á móts við áhorfandann í einfaldleika sínum. Þau beina sjónum hins vegar að spurningunni um hvað myndlist sé yfir höfuð og hvaða væntingar fólk beri til hennar, bæði listamaðurinn við vinnu sína og áhorfandinn við upplifun hennar.

Tökum stólaskúlptúrana sem dæmi, Ruggustóll (2007). Um leið og skúlptúrarnir minna á ruggustóla er augljóst að þeir eru gagnslausir sem slíkir, veikbyggðir og furðulegir. Maður kann að leita að frekari tengingu við fyrirbærið sem húsgagn, í kúrekamynd þar sem söguhetjan situr og ruggar sér á veröndinni eða í minningunni um ömmu með prjónana á lofti. Hvort tveggja haldlitlar vangaveltur og athyglin beinist að skúlptúrunum sjálfum. Þeir eru afkáralega hornréttir og rúnir þeim eiginleikum að geta ruggað, þeir standa í stað í miðri sveiflu á kantaðri undirstöðu í stað boga. Þannig er gildi þeirrar myndar sem sett er fram sjálfkrafa brenglað. Burðargrindin er heftuð og límd saman úr þunnum spýtum og á hana er strengdur strigi sem mótar setu og bak. Síðan er allt málað í hlutlausum brúntónum. Efniviðurinn, meðferð hans og kantaður strúktúrinn vísar til efniseiginleika málverka þar sem strigi er strengdur á hornréttan blindramma. Þegar horft er á málverk dregur myndefnið mann oft frá verkinu sem slíku og yfir í ímyndaðan heim. Baldur snýr þessari tilhneigingu myndmálsins við, í stað málverks af ruggustól er kominn ruggustóll úr málverki

Pokarnir hans Baldurs, Pokar (2008), gætu verið sprottnir fram úr tölvuleik, hálfóraunverulegir með flatri og plastkenndri áferð. Líkt og ruggustólarnir eru þeir leikur að hugmyndinni um málverk. Og samkvæmt ströngustu skilgreiningu eru þeir það, málning á striga, nema striginn er límdur saman í pokaform og síðan málaður. Órætt innihaldið belgir hann síðan út og gefur honum form, eins og blindrammi spennir strigaflöt. Þrívíður skúlptúrinn virkar í eðli sínu eins og ef hann væri málaður í tvívídd á flöt, með skírar línur, fleti og form sem mótast af ljósi og skugga. Baldur hefur margoft áður sett fram einhvers konar ílát, vasa, tunnur og kassa, allt handunnið frá grunni. Eins konar handunnin fjöldaframleiðsla. Ílátin þekkir maður í samhengi við blóm, olíu eða annað en í verkunum hans er aldrei gerð grein fyrir innihaldinu.

Ef til vill stingur listamaðurinn upp á því að ráðist verði á þessi ílát og þau brotin til að komast að innihaldinu þegar hann sýnir þar til gerðar kylfur, Lurkur (2006). Enn eru hlutirnir ýktir, eins og úr stílfærðum myndheimi Tomma og Jenna eða Prúðuleikanna og ekki líklegir til að þjóna þeim tilgangi sem þeir vísa til. Allur virðist tilgangurinn helga meðalið, að afhjúpa blekkingarleik myndlistarinnar, um að í listaverkinu sjálfu sé falin einhver merking eða innihald. Baldur meðhöndlar þessa hugmyndfræði þó ekki af kulda eða hroka sem sést best á þeirri alúð sem hann leggur í verk sín. Hann varpar jafnframt hugmyndinni fram um að listamaður gefi eitthvað af sjálfum sér við iðju sína um leið og hann gerir góðlátlegt grín að sjálfum sér. Í myndbandinu Slugsi (2008) er húslaus snigill að skríða um í hægðum sínum en eiginleiki snigilsins er að skilja eftir sig slímslóð.

Baldur hefst iðulega handa með einfalda og skýra táknmynd um hverfulleik myndlistarinnar og væri sjálfsagt hreinræktaður konseptlistamaður ef hann héldi sig við þá mynd. En í vinnsluferlinu hverfur hann frá hinni hreinu hugmynd og dettur inn í úrvinnsluna því eins og öll hans verk bera með sér hefur hann einskæran áhuga á yfirborði, efnisáferð og lit. Þannig eru verkin langt frá því að vera hrein hugmyndfræðileg athugasemd og verða að mjög áþreifanlegum hlutum, sem bera keim af áráttukennd eða blætisdýrkun. Má nefna í þessu samhengi verk hans Universal (2004), sem var eins konar tunna, máluð í sérstökum ryðrauðum lit og hulin óteljandi plástrum. Hann útbjó einnig nokkra stílfærða svarta ruslapoka, Rusl (2004), úr bókbandspappa sem hann lakkaði með háglansandi svörtu lakki. Eða sexstrendingarnir sem hann málaði alla eftir kúnstarinnar reglum með rauðvíni, án titils (2003). Allt eru þetta verk sem þykjast vera ílát um eitthvert innihald, en allt púðrið fer í yfirborð ílátsins enda aldrei meiningin að setja fram nokkuð innihald. Kaldhæðnir myndu kalla það umbúðir utan um ekki neitt en listasagan sýnir fram á að gildi myndlistar byggir síður en svo á fyrirfram gefnu innihaldi eða umfjöllunarefni listaverkanna sem slíkra. Hún er samspil fólks, listamanna og áhorfenda, við ákveðnar aðstæður í tíma og rúmi og allur pakkinn á þátt í því að gefa listaverkinu gildi.

Markús Þór Andrésson

Kling & Bang gallerí
staðsetning: Hverfisgata 42 - 101 Reykjavík
Opið fimmtudaga-sunnudaga frá kl.14-18
e-mail: kob(at)this.is
 
 
2545590295_cddd151438 2546198676_562269f6a1 2546416810_88cd4b8843 2686697322_e9ecd5b94c 2545633075_26395f3b09
 
 
 
Grandagarğur 20 - 101 Reykjavík kob@this.is