bryndisweb
Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir
Snjór á himnum
28. 11. 2009 - 10. 01. 2010
 
Opnun laugardaginn 28.nóvember kl.17.00

Verkin tvö heita:
Nálæg bygging
Græðari/ Soother

Sýningin er mjög einföld í sjálfu sér og ég forðast að fara í miklar hugmyndafræðilegar vangaveltur um inntak eða tilgang.

Ég er að taka upp tilraun mína til þess að læra að spila á píanó eftir eyranu, verk eftir Bach sem gengur undir nafninu Goldberg variations. Verkið samdi Bach fyrir count Kaiserling sem þjáðist af svefnleysi og vildi að Bach semdi eitthvað sem píanóleikarinn Goldberg gæti spilað fyrir sig á nóttinni þegar hann væri andvaka, eitthvað sem fangaði huga hans og veitti honum gleði.
Útgáfan sem ég hlusta á og reyni að tileinka mér eftir er flutningur Glenn Gould.http://www.youtube.com/watch?v=g7LWANJFHEs
Ég les ekki nótur og hef enga reynslu eða vit á hljóðfæraleik.


Í fremra rými yrðu hátalarar vinstra megin sem spila upprunalega verkið í heild. Upptakan af mér að læra yrði í videorýminu hægra megin. Hljóð og myndbandsupptaka af öllu ferlinu óklipptu, 60- 70 klukkutímar.spiluð eftir opnunartíma gallerísins, fyrstu 4 tímarnir fyrsta daginn o.s.frv.

Annað verk á sýningunni eru brotnir glermunir og postulín sem ég bræði í flísar og legg niður á gólfið einhvers staðar í rýminu.

Um kveikjuna að verkunum..

Ég hafði verið að velta því fyrir mér hvernig ég eða nokkur gæti gert myndlist fyrir blinda, án þess að það væri eitthvað sem maður þreifar á, eða ljóð.
Mér fannst einhvern veginn að það þyrfti að vera eitthvað sem orsakaði hreyfingu, ekki bara tilfinningu.

Það er kannski tilhneiging mín til þess að líta á huglægar fjarlægðir sem rými sem hægt er að umfaðma. Svona hlutir sem kallast á og mynda þannig rými. Ég hef verið upptekin af því í gegnum tíðina að búa til þannig rými og kalla þau skúlptúr. Eða skúlptúra sem eiga að lýsa hugmynd að þannig rými sbr. límbandskúlan og textinn í Norræna húsinu eða innsetningin í bananananas galleríi þar sem klukkur í hljóðverki tóku undir með hallgrímskirkjuklukkunum á korters fresti.

Ég fór að dunda við consept sem vekur með manni tilfinningu fyrir hreyfingu, orðasambönd og þess háttar.
Þegar ég svo fékk vinnu sem lesari á Blindrabókasafninu varð ég heilluð af sambandinu milli lesarans sem situr einn í stúdíói og les bók sem síðan ókunn manneskja og manneskjur hlusta á í næði í sínu umhverfi. Mér fannst ég hafa fengið aðgang að heimi sem er algerlega þrívíður en jafnframt ósýnilegur, af því hann er hljóð og rými og áþreifanlegt samband einstaklinga við umhverfi sitt þar sem hlutir eru til útfrá fjarlægð.

Þegar ég heyrði Goldberg variations í fyrsta skipti sá ég skýra teikningu, tónlist Bach er svo kerfisbundin og symmetrísk að það er dáleiðandi. Nokkrum árum síðar fór mig að langa til þess að læra á píanó og þetta vildi ég gera, læra eftir eyranu uppáhaldspíanóverkið mitt, fannst ég hlyti að geta tileinkað mér eitthvað sem ég elskaði og kann utan að til þess að raula eða flauta.

Þarna í þessum blindrapælingum ákvað ég að gera þetta að listaverki, það yrði skúlptúr fyrir blinda. Upptakan af lærdómsferlinu, þar sem verða (vonandi) smám saman til brot úr verkinu sem kallast á við upprunalega verkið.

Svo veit ég náttúrulega ekkert hvort að blindir hafi áhuga á þessu ;/

Það eru þarna tvö meginstef í gangi; annars vegar réttlæting á því sem rýmisverki og hins vegar róandi áhrif þess sem ég sæki í, ég þrái að gera þetta. Það styrkir samband mitt við guð, ég viðurkenni vanmátt minn og er fús til þess að læra. Bach samdi lagið fyrir vin sinn sem þjáðist af svefnleysi svo það er kannski engin tilviljun að það veiti manni hugarró og frið.

Brotna leirtauinu og skrautmununum hafði ég safnað saman í poka þegar við vorum að ganga frá heimili ömmu minnar eftir að hún flutti á elliheimili, þó að þeir hefðu brotnað voru þeir geymdir upp í skáp árum saman til þess kannski að vera límdir saman seinna eða bara til að muna eftir þeim, að þeir hefðu verið til og kannski fengjust einhvern tímann nýjir í staðinn. Mér fannst verulega þungt að safna þessu saman í poka til að henda því, orku og anda nokkurra áratuga í lífi afa og ömmu.
Það var ótrúlegur léttir þegar ég kveikti á því að ég gæti brætt þetta og búið til annað úr því. Eldsnemma morguninn eftir hrökk ég upp við að öskukallar streymdu úr ruslabílnum og upp með húsinu til að sækja tunnurnar. Það mátti engu muna að þeir tækju tunnuna með pokanum í en ég bað þá að hinkra meðan ég næði honum uppúr
Það er gott að fara í gegnum hlutina og gefa þeim nýtt hlutverk, vont að henda þeim eins og einhverju rusli.

Hlutir og staðir geyma orku atburðanna held ég og það hefur meira að segja komið í ljós nýlega á Ítalíu þegar verið var að rífa gömul hús að eitthvert byggingarefni sem var notað í einangrun hefur verið að taka upp hljóðin í húsunum.

Bestu kveðjur

Bryndís


4 tilgátur:

Samið fyrir tónlistarunnendur, til upplífgunar andans:

Ráðgáta nr.1 (rými)

Okkur hættir til að hugsa til rýmisins sem óvéfengjanlegrar niðurstöðu: “ þú ert hér” í kjölfar þess að Newton ávann sér almenna hylli í löngu gleymdum kappræðum við Leibniz varðandi rými og afstöðu þess ( Þannig að við hvílum örugg í þeirri vissu að rými sé óvéfengjanlegur fasti).
Við vitum, en gleymum sem best við getum, að vísindamenn og ofsatrúarmenn af öllum toga styðjast við afstætt viðhorf til rýmis- í það minnsta að því marki að kjarni hlutanna virðist óþægilega óstöðugur.
Við erum þjökuð af nýtanleika þessa afstæðis á meðan við erum að sama skapi trú órökstuddri hugmynd um að allir hlutir séu til til jafns.

Niðurstaðan (sbr. grein á wikipedia um rými):

Kant hafnaði þeirri skoðun að rými hljóti að vera ýmist afstaða eða efni. Þess í stað komst hann að þeirri niðurstöðu að manneskjan upplifi tíma og rými sem hlutlægan þátt heimsins heldur sem þátt í mótuðum óumflýjanlegum viðmiðum er við greinum upplifun okkar útfrá.
Og þar höfum við það.

Ráðgáta nr. 2 (The Goldberg Variations):

Bach samdi verkið Goldberg Variations “til handa tónlistarunnendum, til endurnæringar andans”, uppbygging þess er gædd mótvægi gegn verkum ætluðum þeim “ er þrá að læra” og er því í berhögg við kaupsýslutengda farsæld verka hans (sem miðstéttar-viðvaningar eignuðu sér öðrum fremur).
Þetta er eina orðræðan sem tjáir hrifningu Bach´s sjálfs gagnvart margbreytileika verksins.
Tilbrigði er hins vegar endurtekin samsetning sem nærist á breytileika innan einsleitninnar.
Einsleitni er grundvöllur þess og verður myndræn sökum samsetningarinnar.

Ráðgáta nr.3 (Listamaðurinn):

Listamaðurinn tók upp tilraunir sínar til spila Goldberg Variations. Þær eru brokkgengar í fyrstu þar sem listamaðurinn kann ekki að lesa nótur. Hún reynir að spila sína útgáfu eftir eyranu. Upptökur af þessu ferli eru leiknar í helmingi rýmisins og kallast á við upptökur sama verks leiknu af Glen Gould sem spilaðar eru í hinum helmingnum. Sundurgreining á uppruna tónanna er vandkvæðum bundin þar sem tilraunin hermir eftir annarri útgáfu hverrar tilvera grundvallast á uppbyggingu þátta í tónverki. Það er bergmál innri óravídda gjörðum úr rými fylltu tilbrigðum endurtekninga.
Innblástur verksins á sér rætur í vanda- hvernig er mögulegt að skapa list fyrir blinda.
Tónlist og snerting er það sem liggur í augum uppi og því of augljós kostur til að fanga hugmyndina. Það sem gefur vægi er reynsla sem forðast sjónræna skynjun rýmis, sem hvort eð er, beinir sjónum sínum að takmörkunum þess sem augað skynjar fremur en inntakinu.
Niðurstaðan er reynsla af áþreifanlegu rými . það fyrirfinnst milli tveggja útgáfa af sama hlut.

Ráðgáta nr.4 (kjarni fléttaður í efni):

Blindrabókasafnið geymir gríðarlegt safn hljóðbóka. Hver bók lumar á rödd lesarans fangaðri í mynstur hljóðsnældunnar. Rödd listakonunnar er þar á meðal. Þetta er upptaka af orku sem flæddi í fortíðinni, en lúrir og bíður þess að losna úr læðingi þegar einhver vill njóta.
Þéttni verksins er skurðpunktur staðsettur einhversstaðar milli hinnar óskiljanlegu merkingar listmunar og þess sem ekkert er- þrúgandi tilfinning fyrir veru sem orsakast af alls engu.

Geirþrúður Finnbogadóttir Hjörvar

Kristín Sólveig Kristjánsdóttir þýddi úr ensku

Kling & Bang gallerí
Hverfisgata 42
101 Reykjavík

Opið fimmtudaga - sunnudaga frá kl.14-18
kob(at)this.is
 
 
bhr-klingogbang06 bhr-klingogbang10 bhr-klingogbang16 bhr-klingogbang23 bhr-klingogbang48 bhr-klingogbang58
 
 
 
Grandagarğur 20 - 101 Reykjavík kob@this.is