helgihjaltalin-poster-x
Helgi Hjaltalín Eyjólfsson
Haugsuga-Dreifari / Slurry pump-Spreader
05. 02. 2022 - 20. 03. 2022
 
Helgi Hjaltalín opnar einkasýningu í Kling & Bang með glænýjum verkum, laugardaginn 5.febrúar milli kl.14 og 18..

Fjögurra þátta samtal
Eftir Jón B. K. Ransu

Í listgagnrýni samtímans berast raddir sem halda því fram að við séum ófær um að rýna í listaverk, hvort sem það er kvikmynd, tónlist eða myndlist, nema að láta það í samhengi við önnur listaverk. Einhvern veginn minnir allt sem við sjáum, eða sköpum, okkur á eitthvað annað. Menning okkar er einfaldlega svo gegnsósa af ímyndum og upplýsingum að við höfum ekki undan að vinna úr þeim. Svo mögulega renna þær bara saman í eitt.
Sé þetta raunin heyrir ómengaði listamaðurinn, hreinræktaði náttúrutalentinn eða sjálfsprottni snillingurinn, sögunni til. Samtímalistamaðurinn bregst þess heldur við upplýsingum og ímyndum, vinnur úr þeim og lætur í spennandi samhengi þannig að til verður samtal forma, hugmynda og mynda, sem við að einhverju leyti þekkjum en nálgumst mögulega á nýjan eða óvæntan hátt.

Á sýningu Helga Hjaltalín, Haugsuga - dreifari í Kling og Bang, eru helst fjórir þættir sem skarast og skapa þetta nauðsynlega samtal. Þeir eru:

• Sagan og samtíminn
• Frummynd og eftirmyndir
• Hlutföll og rými
• List og tómstundir

Sagan og samtíminn

Í sögulegu samhengi er myndmál Helga Hjaltalín skylt popplist sjötta og sjöunda áratugar síðustu aldar, en popplistamenn véfengdu þáverandi gildi listarinnar og sköpuðu hliðstæður á milli myndlistar og dægurmenningar og neyslumenningar.
Þessar hliðstæður renna saman í verkum Helga í einskonar ofneyslu á myndum. Annars vegar með fjölföldunar- og framleiðslutækni til að búa til endurtekningar af sömu myndinni og hins vegar samsetningu vatnslitaarka, þar sem hver örk stendur sem sjálfstæð mynd eða málverk um leið og ákveðinn fjöldi þeirra sameinast í eina stóra vatnslitamynd.
Helgi sækir myndefnið á internetið og færir yfir í hlutlæg listaverk. Í samtímalist hefur hugtakið Póst-internet list fengið hljómgrunn í greiningu á aðferðafræði margra listamanna og er áhugavert að skoða í tengslum við verk Helga, án þess að ég vilji eyrnamerkja þau hugtakinu. Margt í Póst-internet list minnir á myndsköpun popplistar. Ekki síst þeirri er studdist við ljósmyndir fyrir málverk eða samklipp mynda. Póst-internet list er samt ekki liststefna í sama skilningi og popplist var á sínum tíma og hún á heldur ekki við um „list eftir internetið“ eins og t.d. póstmódernismi á við um „list eftir módernisma“. Póst-internet list á frekar við um list á tímum internetsins.
Lista- og fræðimenn eru ekki á eitt sammála um mikilvægi og merkingu hugtaksins, eða hvernig internetið á að endurspeglast í listinni til þess að hugtakið eigi við. Í grunninn getum við sagt að internetið eigi hlut í listsköpunarferli ef notast er við efni þaðan. Margir gera þó kröfu um að hugtakið eigi eingöngu við ef einhverjir eiginleikar internetsins haldist líka í listrænni útfærslu, t.d. eins og þegar Helgi sameinar margar vatnslitaarkir í eina mynd, líkt og þegar pixlum er púslað í stafrænni myndvinnslu.

Frummynd og eftirmynd

Þegar Helgi sækir mynd á leitarvef internetsins, og notar í eigin list, ögrar hann hugmyndinni um eftirmynd og frummynd og tekur eignarnám á eitthvað sem annar hefur gert. Það er samt ekki sjálfgefið að mynd sem Helgi notar sé frummynd. Það má finna ofgnótt af sömu myndinni á netinu og yfirleitt vitum við ekki hver þeirra sé frummyndin, né heldur hvort myndin sem við sjáum sé sönn frummyndinni eða ekki, enda oft óljóst hvort mynd á netinu hafi verið breytt með einhverjum hætti eða ekki. Þannig geta hlutar af umhverfi og textar sem birtast í myndum Helga hafa verið skeytt inn í þær og skáldað, rétt eins og listamaðurinn sjálfur tekur sér skáldaleyfi þegar hann útfærir þær í efni og form.

Hlutföll og rými

Að sækja mynd af internetinu og yfirfæra eða túlka hana í efni og form, breytir ekki einungis eðli hennar heldur gefur henni allt annað hlutverk út frá hlutföllum og rými. Slíkt skiptir miklu máli á sýningu Helga. Skúlptúr hefur, í gegnum tíðina, verið þungamiðjan í verkum hans. Eftir að vatnslitamyndir og þrykk fóru að bætast inn í mengið hefur það jafnan verið í einhverjum tengslum við skúlptúr.
Skúlptúr tilheyrir raunrými. Mynd er hins vegar tvívíð og ber því að hugsa hana sem myndrými. Myndir geta samt storkað mörkum myndrýmis og raunrýmis ef umfang þeirra er blásið upp úr öllu valdi. Hjá Helga gerist það annars vegar með fyrrnefndum ofur stórum samsettum vatnslitamyndum og hins vegar með fjölföldun á myndum sem þekja rýmið og yfirtaka það að hluta. Að ógleymdum vatnslitamyndum af vélum sem hanga yfir vinnubrettum og hafa drukkið í sig vélarolíu þannig að lykt fer jafnvel að hafa áhrif á rýmisupplifun áhorfandans.
Skúlptúrar á sýningunni spila hins vegar annað hlutverk. Þeir eru smækkaðar eftirmyndir, eða módel, af vélum og trépalli og sem slíkir birtast þeir í hlutfallslegu mótvægi við ofgnótt myndanna.
Módel er jafnan hugsað sem staðgengill fyrir hlut í fullri stærð og sýnt sem tillaga að honum. Þannig má horfa á módel Helga sem tillögu að annarri sýningu samhliða því að vera partur af sýningunni sem er. Módelin standa því sem skúlptúrar og tillögur að skúlptúrum í senn.

List og tómstundir

Módelin snerta mörkin á milli listsköpunar og tómstunda, en módelsmíðar eru þekkt tómstundariðja sem krefst ákveðinnar handverks- og verkþekkingar. Sérstaklega ef það er smíðað frá grunni. Þessi mörk listsköpunar og tómstunda, eða heimatilbúins handverkshlutar, eru Helga hugleikin og birtist í aðferðum og efnisvali listamannsins. Smáskúlptúrarnir eru tálgaðir úr tré, myndefnið tilbúið og fundið, allar þrykkaðferðir listamannsins heimatilbúnar og vatnslitamálun er vafalaust sá hluti málaralistar sem helst nær til tómstundaiðju. Allt stríðir þetta gegn upphafningu myndlistar þrátt fyrir að falla undir efni og aðferðir sem tilheyra listinni.
Þegar popplistamenn véfengdu gildi listarinnar réðust þeir einmitt gegn upphafningu og höfnuðu sannleiksgildi módernismans, s.s. hreintrúarstefnu strangflatarlistar og sjálfsprottnu sköpunarferli abstrakt expressjónismans.
Það fer ekki á milli mála að aðferðir og myndefni Helga Hjaltalín stríða gegn upphafningu listarinnar, en sjálf sýningin hafnar einnig sannleiksgildi hennar. Hliðstæðurnar sem hafa verið dregnar hér að ofan eru einungis áminning um að listsköpun hefur miklu meira með samtal að gera en sannleiksgildi. Og fyrir mitt leyti er sýningin vettvangur þessa. Vettvangur fyrir þátttöku í samtali forma, hugmynda og mynda sem við að einhverju leyti þekkjum en nálgumst mögulega á nýjan eða óvæntan hátt.

 
Kling & Bang
Marshallhúsið
Grandagarður 20
101 Reykjavík
Ísland

Opnunartímar
Mið til sun 12 – 18
fim 12 – 21
lokað á mánudögum/þriðjudögum

Aðgangur ókeypis

Kling & Bang er í samstarfi við Reykjavíkurborg.
 
 
 
 
Grandagarđur 20 - 101 Reykjavík kob@this.is