kling_poster
RYAN PARTEKA-BJÖRK GUÐNADÓTTIR-SIGRÍÐUR DÓRA JÓHANNSDÓTTIR
“KLING & BANG – GRÆÐARI INNAN OG UTAN”
21. 06. 2007 - 29. 07. 2007
 
RYAN PARTEKA - “Eucrasia / Dyscrasia”
BJÖRK GUÐNADÓTTIR - “Heiðríkja”
SIGRÍÐUR DÓRA JÓHANNSDÓTTIR

Sýningarstjóri: Birta Guðjónsdóttir


21.06. – 29.07.2007


Sýningin “Kling & Bang - Græðari innan og utan” sprettur uppúr löngun til að faðma að sér hið krefjandi rými Kling & Bang Gallerís og til þess að mæta, á mildan og ljóðrænan hátt, orkunni úr þeim mikla fjölda metnaðarfullra sýninga gallerísins, sem hafa margar hverjar verið afar áleitnar, óbeislaðar og jafnvel aggressífar. Sýningin kannar tengsl ljóss og tíma, hljóðs og mannshandar, rýmis og óhlutbundni.


Stjórnendur Kling & Bang Gallerís bjóða nú utanaðkomandi sýningarstjóra; Birtu Guðjónsdóttur, að vinna í rýminu við Laugaveg 23 og hefur Birta boðið þremur listamönnum að vinna með sér; þeim Björk Guðnadóttur, Sigríði Dóru Jóhannsdóttur og Ryan Parteka(US). Sýningin er unnin af hópnum í samvinnu, með það að leiðarljósi að leitast við að rannsaka kjarnann í starfsemi gallerísins og taka á móti gallerírýminu eins og það er og þeim áhrifum og hugmyndum sem upp koma í tengslum við það. Listamennirnir þrír hafa ekki unnið saman áður og hófu þeir samvinnuna ásamt sýningarstjóra útfrá samræðum um heilun og náttúru sköpunarinnar sem heilunaraðferðar, um sólina sjálfa sem uppsprettu heilunar og um þátt innsæis og undirmeðvitundar í hverskyns sköpunarferli. Hópurinn byrjaði á því að kynna sér verk hvors annars, ræða um þau og um fyrri sýningar í Kling & Bang Galleríi og upplifun sína af rýminu. Samræður hópsins hafa haldið áfram í öllu sköpunarferlinu og munu halda áfram að gera það á sýningartímabilinu.

• RyanParteka “Eucrasia / Dyscrasia”
Titillinn á innsetningu Ryans Parteka(1975); “Eucrasia / Dyscrasia”, merkir Jafnvægi / Ójafnvægi og vísar á beinan hátt til ástands líkamans og hinna aldagömlu og lífseigu kenninga Hippókratesar og síðar Galens, innan læknavísindanna, um að líðan manna ákvarðist af ferns konar vökvum í líkamanum; blóði, slími, gulu galli og svörtu galli, og að þeir þurfi að vera í jöfnu hlutfalli fyrir manneskjuna til þess að halda andlegu og líkamlegu jafnvægi. Ryan Parteka sýnir innsetningu í kjallararými gallerísins, þar sem hann vinnur með svartan vökva, sem vísar í svarta gallið; melankólíuna. Hann vinnur jafnframt með sílikon, polysterine plastefni og lyfja-sterkju, sem er steinefni sem pillur eru styrktar með. Ryan vinnur jafnframt með hljóð í verkinu en hann hefur tekið upp öndunarhljóð, með aðstoð Kórs Nýlistarsafnsins, sem er skeytt saman og mynda þá samfellda inn- og útöndun sem teygist upp í 1000 ár, sé upptakan spiluð svo lengi! Hljóðverkið tengist svörtum vökvanum, sem er pumpað í rýminu, í sama takti og öndunarhljóðin og því má segja að verkið gefi rýminu sjálfu andardrátt, að rýmið andi. Ryan Parteka dregur hugmynd sína að verkinu frá svokölluðum Drukknunar-klefum, sem notaðir voru sem refsi-aðferð í Evrópu fyrr á tímum. Fangar voru þá settir í sér gerða Drukknunar-klefa, þar sem inn lak endalaust vatn, sem þeir höfðu varla við að ausa út úr rýminu, að vissu leyti raunveruleg útlegging á goðsögum Forn-Grikkja um refsingu Seifs á Prómeþeifi.Annar hluti í innsetningu Ryans Parteka er loft-skúlptúr úr lyfja-sterkju; gerviefni, sem vísar til rofnunar á samband Manns við Náttúruna og þess hvernig manngerðar lækningaaðferðir hafa tekið við af heilunargjöfum náttúrunnar og hvernig Maðurinn hefur kortlagt eðli náttúrunnar og þar með tekið frá henni mysteríuna. Skúlptúrarnir hanga úr loftinu líkt og þeir sogi úr rýminu allan óþarfa-vökva til þess að koma rýminu í jafnvægi.
Ryan Parteka: www.this.is/ryan

• Sigríður Dóra Jóhannsdóttir

Sigríður Dóra Jóhannsdóttir(1948) hefur í list sinni fengist nokkuð við gjörninga, sem eru gjarnan tengdir hljóðum og hlutum, sem hún notar til þess að varpa fram nýrri sýn á það umhverfi sem hún vinnur með. Í Kling & Bang sýnir Sigríður Dóra teikningar sínar og myndbandsverk. Teikningarnar vinnur hún á þann hátt að á undirbúningstíma sýningarinnar hefur hún boðið til sín í galleríið Íslendingum af erlendum uppruna, frá Dóminíska Lýðveldinu, Póllandi, Hollandi og Columbíu. Þetta fólk hefur spjallað við Sigríði Dóru yfir kaffibolla og sagt henni frá sínum dýpstu hjartans málum á móðurmáli sínu en Sigríður Dóra talar ekkert af tungumálunum fjórum og er því ekki að einbeita sér að merkingu orðanna heldur hlustar hún á þau hljóð sem tungumálin mynda og miðla. Úrvinnsla hennar á þessari reynslu er í formi teikninga en Sigríður Dóra hefur teiknað með penna á A4 blað eftir tilfinningu sinni útfrá hlustun sinni á þennan óvenjulega hátt á orðin, sneydd merkingu þeirra. Sigríður Dóra hefur áður fengist við þessa abstrakt hlustun og ósjálfráða teikningu í sölum Hæstaréttar í Hamborg, Feneyjum og í Reykjavík en í þeim tilfellum hafa einnig komið fyrir fjöldamörg tungumál sem listamaðurinn talar ekki sjálf. Hún hefur svo og hlustað á íslenskuna, móðurmál sitt, og sneytt framhjá merkingu orðanna en einbeitt sér að blæbrigðum raddarinnar og tilfinningar fyrir þeirri spennu og samskiptum sem ná útfyrir orðin sjálf. Annar hluti sýningar Sigríðar Dóru felur í sér myndbandsverk, sem sýnir meðal annars máríuerlu, þennan farfugl frá Vestur-Afríku, sem er hændastur allra fugla að mannabústöðum. Verkið sprettur uppúr upplifun listamannsins af skerandi söng fuglsins á nóttunni, frá hreiðri á þaki íverustaðar listamannsins. Sigríður Dóra mun halda áfram að bjóða til sín Íslendinga af erlendum uppruna í rými Kling & Bang Gallerís á sýningartímabilinu og teikna upplifun sína af hlustun frásögn þeirra á ólíkum tungumálum.
Sigríður Dóra Jóhannsdóttir: www. simnet.is/sigdor


• Björk Guðnadóttir “Heiðríkja”

Björk Guðnadóttir(1969) vinnur með ýmis efni og miðla í listsköpun sinni. Verk hennar eru gjarnan í formi innsetninga, þar sem efniskenndin og tilvistarlegar hugleiðingar um mannlegt eðli eru aðal drifkraftur. Á sýningunni í Kling & Bang Gallerí sýnir Björk núningsþrykk á vegg og postulíns-skúlptúra. Núningsþrykkin eru gerð af ákveðnum hlutum veggja í aftara rými gallerísins en listamaðurinn hefur þar þrykkt veggmunstri af nákvæmlega sama bletti veggjarins á þrjú mismunandi blöð. Vangaveltur um frumgerð og eftirgerð birtist einnig í postulínsverkum Bjarkar, þar sem hún hefur steypt ákveðin form í mót og steypir fleiri en einn hlut uppúr sama móti, svokallað multiples. Í vinnu sinni við verkin, veltir Björk fyrir sér tilfinningu fyrir Tóminu og því hvernig hugsunin sveiflast, líkt og pendúll, frá því að vera ekkert, eitthvað og svo aftur ekkert á því ferðalagi sem hugsun er. Hún veltir fyrir sér hræðslunni við þetta”ekkert”, við Tómið, þaðan sem allt kemur og þangað sem allt fer og því hvernig hægt sé að faðma Tómið að sér og sleppa svo tökunum af því á réttum tíma. Við gerð postulínsverkanna veltir Björk fyrir sér tengslum líkamans við umhverfið, hvernig augað býst við ákveðinni mynd og skapar hana úr hverju því sem það sér, þrátt fyrir að form hlutarins sé annað af hálfu skapara þess.
Umfjöllun um sýningu Bjarkar í Gallerí Hlemmur 2002: www.hlemmur.is/umfjollun/mbl260502_bjork.htm

Kling & Bang Gallerí • Laugavegi 23 • opið: fim 14-21 fös-sun 14-18 • www.this.is/klingogbang • kob@this.is
 
 
 
 
 
Grandagarður 20 - 101 Reykjavík kob@this.is