photo_on_16-11-14_at_15.42
Daníel Björnsson
BISMÚT
08. 11. 2014 - 14. 12. 2014
 
Ef vel er að gætt draga verk Daníels Björnssonar fram hið stöðuga ferli sem núningur tímans við efni, anda og aðstæður er. Hvernig allt sem er rennur hvikult eftir umbreytandi rás tímans. Þessi einkasýning Daníels dregur nafn sitt af frumefninu bismút sem er þungur, brothættur, hvítsilfraður málmur sem umbreytist við hitun í kristal sem með tímanum oxíderast í öllum regnbogans litum. Sláandi einfalt dæmi um umbreytingu.

Form, ástand og efni á mörkum sínum, eða nýkomin yfir þau. Ónytjungs málmur umbreytist í kristal, plast bráðnar í annað form og myndar gosbrunn sem umbreytir lögun vatnsins. Hið útsnúna verður innhverft. Þetta er tilraun til að opna hugsun til að komast að kjarna, í flakki á milli hins innra og hins ytra. Svo er nú sumt á mörkunum að geta kallast umbreyting, sjónhverfingin þegar plastþræðir, mótor og tréplötur mynda eilífa sápukúlu.

Enda er það á mörkunum, rétt á brún orðræðunnar eða handan við jaðra hennar sem spennandi lendurnar eru. Þar sem jörðin er ekki föst undir fótunum og ekki er ljóst hvar stigið er niður og sokkið í fúlt fen og hvar tánni er tyllt á dýrðarinnar mosabrekku. Myndlistin á heima á mörkunum. Á mörkum orðræðunnar, á mörkum skilningsins, á mörkum hugsanakerfa, á mörkum þess leyfilega, á mörkum þekkingar. og svo fer listin yfir mörkin, í átt að umbreytingunni. Þessi mörk eru flest ósýnileg, svona eins og suðumark vatns. Þú sérð ekki hundrað gráður rétt áður en þeim er náð, en um leið og það gerist verða mörkin augljós. Daníel er sem listamaður sjálfur í stöðugu umbreytingarferli og oft á tíðum alveg á mörkunum. Það er alltaf allt alveg að ná suðupunkti.

Verk Daníels eru marglaga og leitandi og bera það með sér að vera sprottin af tilraunagleði og kankvísu daðri við táknfræði eða symbolisma. Það er Daníel líkt að marka sinn völl á ruslahaug sögunnar. Í byrjun þessarar aldar var Daníel einmitt veghefill í beitingu rómantíkur í íslenskri samtímamyndlist. Eftir slagsmál sín við félagsfræðilega myndlist sem ríkjandi var meðan á námi hans stóð steig Daníel fram á sjónarsviðið með skammlausum tilvísunum í rómantík. Ungur maður las hann Nieztche af kappi og reykti sígarettur. Rómantíski listamaðurinn sem ætlar að fanga hvað það er að vera til og reynir að tákngera heiminn í verkum sínum. Daníel hefur þó fyrir alllöngu skilið Caspar David Friedrich eftir í bauju úti á ballarhafi og fetar aðrar slóðir en það fylgir honum alltaf þessi þrá til að tákngera heiminn.

Þegar líða tekur á sýninguna kemur út sýningarskrá með viðtali við listamanninn þar sem tæpt er á þráhyggjunni við að vera handan við glerið, táknfræði, infrarauðu og útfjólubáu ljósi, cozy minimalism, gægjugatinu, sjálflýsandi gosbrunnum, jafnvægi, eftirlíkingu af frumskógi og þeirri ágætu staðreynd að þegar þú horfir í baksýnisspegilinn þá á kompásinn það til að vísa rétt.

Ingibjörg Sigurjónsdóttir

Sérstakar þakkir:
Andri Guðmundsson, Ástþór Helgason, Elísabet Brynhildardóttir, Erling T.V. Klingenberg, Eyjólfur Ingi Ásgeirsson, Guðmundur Oddur Magnússon, Hekla Dögg Jónsdóttir, Helgi Már Kristinsson, Hildur Björk Yeoman, Ingibjörg Sigurjónsdóttir, Katla Rós, Lilja Gunarsdóttir, Lilja Birgisdóttir, Ragnar Kjartansson, Ragnar Már Nikulásson, Sirra Sigrún Sigurðardóttir, Úlfur Grönvold og Kling & Bang

Kling & Bang gallerí
Hverfisgötu 42, 101 Reykjavík
http://this.is/klingogbang/

 
 
bis_yfirlit_loft bismuth_sample_1 bismuth_sample_2 conacave_vex plast_skulptur_2
 
 
 
Grandagarğur 20 - 101 Reykjavík kob@this.is