p1040811
JonOskar
RINGO
03. 04. 2004 - 25. 04. 2004
 
Ringo


Ringo Starr er líklega heppnasti náungi sem troðið hefur grundir. Eina sem
hann þurfti að gera var að brosa og kinka kolli. Jú, og svo sló hann taktinn
fyrir þrjá hæfleikaríkustu tónlistarmönnum 20. aldarinnar. Er hægt að hafa
aðra skoðun á því hvaða hlutverki Ringo gegndi á vegferð Bítlanna er þeir
sigruðu heiminn? Skipti Ringo einhverju máli? Ef Anthology 1 er rennt undir
geislann má heyra Pete Best og tvo aðra trommara slá taktinn í rúmlega 20
lögum Bítlana. Var Ringo ekki bara einfaldlega staddur fyrir einskæra
tilviljun á réttum stað á réttum tíma? Hér eru nokkrar staðreyndir sem benda
til annars.

Ringo var fyrstur rokktrommara til að koma fram í sjónvarpi. Allir þeir sem
trommarar sem áður höfðu komið fram með til dæmis rokkstjörnum á borð við
Elvis, Bill Haley, Little Richard, Fats Domino og Jerry Lee Lewis voru að
mestu Rhythm and Blues trommuleikarar. Stíll þeirra einkenndist af swing
tónlist 5. og 6. áratugsins þó að vissulega hafi þeir lagt sitt af mörkum í
þróun tónlistar til þess krafts sem brýst fram í „I Want To Hold Your Hand.“
Þeir klæddust smókingum og kjólfötum og héldu á kjuðunum á hefðbundinn hátt
líkt og jazztrommarar, eða trommarar í hermarseringu eða stórhljómsveitum.
Ringo opnaði augu fólks fyrir því að til þess að krafturinn í rokkinu
skilaði sér þurfti eitthvað annað að koma til, svo hann greip kjuðana
traustataki líkt og hann héldi um hamar og varðaði veginn til þess sem koma
skyldi.

Ringo breytti því hvernig trommarar halda um kjuðana með því að gera vinsælt
samstætt tak. Næstum allir á undan Ringo í hinum vestræna heimi héldu á
kjuðum sínum með hætti sem hefur verið skilgreint sem hið klassíska grip.
Það einkennist af því að vinstri kjuða er haldið líkt og matarprjóni. Það
tak var upphaflega þróað af trommurum í hermarseringum sem helgast af því
hvernig tromman er óluð á öxlina og miðar að því að betra sé að „þyrla“.
Rokk-trymblar, ásamt þeim sem spila í lúðrasveitum og stórsveitum, halda
halda nú um kjuða sína líkt og Ringo og fyrirtæki sem framleiða trommur hafa
breytt hönnun sinni í tak við það tak.

Ringo er upphafsmaður þess að trommarar séu staðsettir á palli þannig að
þeir sjást jafn vel og aðrir hljómsveitarmeðlimir. Þegar Ringo birtist í Ed
Sullivan Show árið 1964 greip hann samstundis athygli allra þeirra sem vildu
leggja trommuleik fyrir sig þar sem hann gnæfði yfir hinum Bítlunum þremur.
Útsýni trymbils Elvis einkenndist af baksvip hljómsveitarmeðlima.

Þá fór ekki framhjá einörðum áhugamönnum um trommuleik að Ringo lék á
Ludwig-trommur. Þeir létu ekki segja sér það tvisvar og fóru í þúsunda tali
í næstu hljóðfæraverslun og keyptu sér Ludwig - sem í kjölfarið varð eitt
virtasta nafnið á sviði framleiðslu trommusetta.

Ringo gerbreytti því hvernig trommuleikur er hljóðritaður og þar með „sándi“
trommusetta. Þegar Rubber Soul kom út í desember 1965 varð „soundið“ úr
trommusettinu miklu nákvæmara. Með hjálp frá vinum sínum í Abbey Road
Stúdíóinu gerði Ringo þá aðferð vinsæla að dempa hávaðann frá settinu með
ýmsum ráðum, svo sem teppum í bassatrommuna o.s.frv. Auk þess setti hann
míkrófón við hverja trumbu og þar með var hægt að hafa miklu betri stjórn á
settinu - til dæmis hvað hver trumba hljómað hátt o.s.frv.

Ringo hefur nánast óaðfinnalega tilfinningu fyrir „bíti“ og „tempói“ sem
reyndist Bítlunum algerlega ómetanlegt. Þeir gátu hljóðritað sama lagið 50
til 60 sinnum og skeytt síðan bestu brotunum saman því bítið var alltaf hið
sama. Í dag eru notaðar stafrænar aðferðir í sama tilgangi, þ.e. til að
hraði laga sé alltaf sá sami. Bítlarnir þurftu hins vegar að reiða sig á
óbrigðult tempo Ringos við gerð ódauðlegra laga sinna. Ef ekki hefði verið
fyrir þessa sérgáfu Ringos hefðu þessi lög hljómað allt öðruvísi.

Trommuleikur Ringos er nú hafður til viðmiðunar hjá fjölmörgum trommurum og
upptökustjórum. Afslappaður stíll hans er einkennandi en þó aldrei svo að
hann keyri ekki lögin áfram. Þegar grannt er hlustað má heyra að smekkvísi
og tónlistargáfa hefur ráðið því hvernig og hvar í lögunum hann slær settið
sitt. Við hljóðritanir er það oftast svo að trommarinn er líkt og barometer
fyrir alla hljómsveitina. Áherslur trommuleikarans ráða för og ef
trommuleikurinn er slappur er upptakan dæmd. Sagt er að engin keðja sé
sterkari en veikasti hlekkurinn. Þetta á ekki alveg við í þessu sambandi,
nær er að segja að engin hljómsveit sé betri en trymbillinn.

Ringo þoldi ekki trommusóló sem kann að koma á óvart því ófáir trymblar hafa
öðlast mikla virðingu áhorfenda með slíkum tilþrifum. Eftir hann liggur
aðeins eitt sóló á öllu því efni sem Bítlarnir hljóðrituðu. Þetta er átta
takta sóló sem heyra má í laginu „The End“ á B-hlið plötunnar Abbey Road.
Margur myndi segja að það sóló sýni lítil tilþrif og gefi ekki til kynna að
þar sitji mikill meistari bak við settið, en það er ekki með öllu rétt. Með
því að bera þetta trommusóló við starfænan taktmæli þá kemur í ljós að Ringo
heldur nákvæmlega sama bítinu frá upphafi til enda - sem lýsir ótrúlegri
nákvæmni.

Hæfileikar Ringos að tromma bít við ólíkar tónlistarstefnur og í ýmsum takti
hjálpuðu til að auka víddina í dægurtónlist. Tvö fyrirtaks dæmi gætu verið
lagið „All you Need is Love“ sem er í 7/4 takti og „Here comes the Sun“ er í
11/8, 4/4 og svo 7/8 í viðlaginu. Það vafðist ekki fyrir Ringo að skipta um
takt þegar svo bar undir.

Sá hæfileiki Ringos til að tromma ólíkar tegundir tónlistar s.s. í tveggja
takta („When I\\\'m Sixty-Four“), ballöður („Something“), R&B („Leave My Kitten
Alone“ og „Taxman“) eða kántrí til dæmis á Rubber Soul plötunni) gerði
Bítlunum kleift að prófa sig áfram í ýmsum tónlistarstefnum og þar með
margfalda fjölbreytni. Þarna kom honum að góðum notum reynsla sem hann bjó
að áður en hann gekk til liðs við Bítlana en þá starfaði hann sem
atvinnutónlistarmaður við að leika undir fyrir dansi.

Sú kenning að Ringo hafi verið einhver Happa-Hrólfur fór alla leið vegna
þess að hann kom sér upp smellnu sviðsnafni gengur ekki uppa. Raunin er sú
að George Martin, upptökustjóri Bítlana, lét í ljós vanþóknun sína eftir
fyrsta upptökutímann, einkum með þáverandi trommara Bítla Pete Best. Paul,
George og John tóku þá ákvörðun um að leita til þess sem þeir töldu fremstan
trommara í Liverpool - nefnilega Ringo Starr. Perónuleiki hans var aðeins
aukageta.

Þær sögusagnir að Ringo hafi ekki trommað nokkur Bítlalaga vegna þess að
hann var ekki nógu góður eru ekki á rökum reistar. Staðreyndin er sú að hann
spilaði allar trommur á þeim plötum sem Bítlarnir gáfu út ef undan er skilin
Anthology 1. Örfáar undantekningar eru þó en þær eiga sér allar eðlilega
skýringar: Í lögunum „Back In The USSR“ og „Dear Prudence“ leikur Paul á
trommur, en akkúrat á þeim tíma hafði Ringo hætt í Bítlunum, í „Ballad of
John and Yoko“ er Paul aftur á trommum en þá var Ríngó upptekinn við að
leika í kvikmynd og að endingu má geta þess að í „Love Me Do“ leikur
session-trommarinn Andy White. Öðru er ekki til að dreifa í þessu sambandi.

Þegar Bítlarnir hættu gerðu þeir allt til að forðast hver annan, en þetta á
reyndar ekki við um Ringo því John Lennon fékk hann til að tromma á fyrstu
sóló-plötu sinni. Eða einsog Lennon sagði: „Ef mér tekst að koma einhverju
af stað, þá veit Ringo nákvæmlega hvert skal halda.“ Meira getur frábær
lagasmiður ekki vænst af trymbli sínum, nema ef vera kynni að brosa og að
kinka kolli!

John Bryant
 
 
p1040819 p1040822
 
 
 
Grandagarður 20 - 101 Reykjavík kob@this.is