magenta_1
Unnar Örn J. Auðarson
“Miðgarður - Blárauður - Afgirtur reitur“ / Central Park - Magenta - Hortus Conclusus
12. 11. 2005 - 04. 12. 2005
 
Laugardaginn 12.nóvember kl.17 opnar Unnar Örn J. Auðarson sýninguna “Miðgarður - Blárauður - Afgirtur reitur“ í Kling & Bang gallerí, Laugavegi 23.




Montana Plains - Sléttur Montana



Við lögðum bílnum og gengum. Jafnvel án merkinga var leiðin augljós, á sama hátt og skipulag eða arkítektúr hjálpar manni að ná áttum í landslagi eða byggingar. Vegurinn sveigði rétt áður en kom að Robert Adams brúnni svo húsið og vatnið blöstu við. Á hinum enda brúarinnar var merking í grasinu - líkari götuskilti en því sem maður bjóst við að sjá á ensku sveitasetri - sem á stóð The Montana Plains, Sléttur Montana. Við gerðum ráð fyrir að það tengdist sýningunni sem við vorum komin að sjá - The American West, Ameríska vestrið. Í Huganum þeystum við útá slétturnar, út á meðal buffalahjarðanna, þrátt fyrir neo-klassísk bogagöngin í kringum okkur.



Til hægri var hrjóstrugt beitiland en á vinstri hönd lá grænt teppi af grasi út að litlum kjarrskógi og vatni. Manni fannst eins og hinu megin við það ætti að standa hof eða rústir - man ekki hvort þar hafi verið eitthvað svoleiðis. Compton Verney House var hannað af Robert Adam en Capability Brown hannaði allt útlit landareignarinnar og gróðursetti í hana. Eignin hefur verið gerð upp á síðustu árum og aftur færð í sitt upphaflega átjándualdarhorf og þar er sýnd bæði söguleg list og nútímalist. Hönnun Browns á bogagöngunum er náttúruleg og fyrirhafnarlaus fullkomnun, eins og sjá má í málverkum Nicolas Poussins og Claudes Lorraines, og er í sjálfu sér náttúrulegt sköpunarverk. Bogagöngin standa nú, gróin og raunveruleg og þar sem maður í landslaginu verður maður hluti sköpunarverksins, ómissandi partur sem gert var ráð fyrir í sviðsetningunni.


Í þessari sviðsetningu leitaði ég að göllum, einhverjum merkjum um smíðina, mig langaði að finna sjónarhornið sem hafði gleymst - þar sem maður sér glitta á bak við tjöldin, sér einhvern toga í strengina eða kemur auga á stoðirnar sem halda öllu uppi eins og í Galdrakarlinum frá Oz eða í kvikmyndaveri - sjónarhornið sem kemur upp um sviðsetninguna. Sýning Unnars Arnar J. Auðarsonar í Kling & Bang gallerí er eins og að ganga í þessu landslagi; þar hefur hann skapað náttúrusýn innan takmarkaðs rýmis sem gefur til kynna að það sé meira til. Í Compton Verney nær verkið út að sjóndeildarhringnum, í Kling & Bang takmarkast umhverfið af veggjum, en er þó órætt vegna þeirrar áttvillu sem skapast við að ganga inn um dyr sem eru venjulega ekki notaðar, inn í rými sem er yfirleitt ekki aðgengilegt og er enn fullt af tilfallandi dóti sem er að finna bakatil í öllum galleríum. Hulunni er svipt af blekkingunni um hina fullsköpuðu sýningu innan hins hreina og óaðfinnanlega ferhyrnda sýningarsalar með því einu að biðja fólk að ganga inn bakdyramegin og sjá hlutina frá annarri hlið.


Sýnin sem Unnar veitir okkur er einnig sköpunarverk, útpælt og sniðið til handa áhorfandanum. Inn af ganginum er kjallaraherbergið smekkfullt af pottaplöntum sem fengnar hafa verið að láni frá fólki úti um allan bæ. Sýningargestum er meinaður aðgangur að þessu herbergi og þangað sést aðeins inn um gægjugöt: lokaður leynigarður, fullur af lífi en þó viðkvæmur bæði vegna þess að sköpun hans er tilbúningur og birtan sem plönturnar reiða sig á ónáttúruleg. Eins og með öll pottablóm eiga plönturnar rætur að rekja langt frá íslenskum heimilum sínum, til hitabeltisskóga, eyðimarka og tempraðra hluta heimsins. Þetta eru plöntur sem þurfa ást og umhyggju, ákveðið hita- og rakastig, skjól frá súgi og trekki og ákveðna birtu til að lifa.


Þeir sem hafa lánað Unnari plönturnar sínar hafa sætt sig við tómið sem þær skilja eftir sig á heimilunum og munu gleðjast yfir að fá þær aftur og læra að meta þær að nýju. Traust þeirra til Unnars er verðskuldað því Unnar er eini maðurinn sem ég veit um sem hefur plantað akarni í jógúrtdollu og tekist að rækta lítið eikartré. Hann mun ekki íþyngja plöntunum með ónauðsynlegri umönnun og veseni heldur gefa þeim það sem þær þurfa. Eikin óx í venjulegri mold en ekki safnhaugamold, eins og akarnið hafi skotið rótum þar sem það datt úr trénu. Pottablómin í vörslu hans munu þjást nóg til að þrífast og þrá lífið. Í öllum verkum Unnars sættir hann sig við að ómögulegt er að hafa stjórn á öllum aðstæðum og þess í stað velur hann að skapa ákveðin mörk til að starfa innan. Með því að öðlast traust þeirra sem hafa lánað honum plönturnar og traust stofnunarinnar þar sem rýminu er snúið á rönguna, sýnir hann þetta sama traust til sýningargestanna sem koma inn og virkja umhverfið og hitta þar fyrir strengina og stoðirnar.



Lesley Young

Október 2005



Lesley Young er rithöfundur og sýningarstjóri í Manchester á Englandi.

Sýningin stendur til 4.desember og er opið í Kling & Bang gallerí frá fimmtudegi til sunnudags frá klukkan 14 – 18. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.

 
 
magenta_2 unnar_k-b_12_nov_ unnar_k-b_12_nov_1 unnar_k-b_12_nov_2 unnar_k-b_12_nov_3
 
 
 
Grandagarğur 20 - 101 Reykjavík kob@this.is