FRÉTTIR

18. maí 2004

Kæru landsmenn,

Fyrir nokkrum dögum fann ég fyrst lyktina af sigrinum fagra og sál mín lyftist upp á öldutopp. Þessi sigurvíma var ánægjuleg og góð uppskera eftir langa og reynsluríka baráttu. En eftir að hafa upplifað sigur og fagnað honum með kærum stuðningsmönnum mínum fékk ég tilboð sem erfitt er að hafna.

Vöknuðu þá efasemdir hjá mér að vilji minn til að sitja sem forseti Íslands væri ekki jafn innilegur og ég hélt. Efinn fékk mig til að endurskoða þetta framboð mitt til embættis forseta Íslands og hvort ég sé tilbúinn til að fórna fjórum árum einmitt á þessum tímapunkti þegar uppgangur er í myndlist og gæfan fylgir mér á þeirri braut.

Auk þess þarf ekki mikið innsæi til að sjá að komandi forsetakosningar verða eintómur skrípaleikur. Sjálfsvirðingar minnar vegna get ég ekki samþykkt að taka þátt í slíkum sirkus.

Ég dreg því hér með framboð mitt til forseta Íslands til baka, sáttur og þakklátur stuðningsmönnum mínum og velunnurum.
Spurningunni um hvort ég verði 6. forseti Íslands verður ekki svarað að sinni.

Ég óska herra Ólafi Ragnari Grímssyni til hamingju með væntanlegan sigur og ég er fullviss um að við getum orðið vinir.

Mér þykir vænt um Ástþór og Baldur og vonast til að þeir finni þær hillur í lífinu sem þeim er ætlað.

En ég lýk þessu framboði með því að vitna í orð 5 ára dóttur minnar: ” Pabbi, ekki vera forseti, vertu bara listamaður.”

Virðingarfyllst

Snorri Ásmundsson

 

 
© Snorri Asmundsson
Kosningasjóður. Reikningsnr.: 303-26-77777 Kt: 131166-4199