Workaholics Anonymous - 12 spora samtök vinnufíkla

Fundir

Við erum með fundi á mánudögum kl. 12:05 í Alanó-klúbbnum, Héðinsgötu 1-3 (herbergi 202 innarlega á efri hæðinni) – sjá kort

 

Verið velkomin!

 

Margir sem glíma við erfiðleika sem tengjast vinnu hafa náð bata innan 12 spora samtakanna Workaholics Anonymous. Á alþjóðlegri vefsíðu samtakanna er að finna margs konar fróðleik um þessa fíkn sem getur hjálpað fólki að átta sig á hvort mynstrið sé það alvarlegt að það geti jafnvel talist fíkill á þessu sviði.

 

Hér er bæklingur með íslensku lesefni um vinnufíkn

 

Hér er kynningarmiði um WA sem hægt er að dreifa

 

Meðal einkenna vinnufíknar eru: Þráhyggja vegna vinnu, of mikil vinna, vinnuóregla, kvíði og frestun, að láta stjórnast af áliti annarra, taka við pressu o.fl.

 

Ef þú tengir við einhver þessara einkenna hvetjum við þig til þess að koma á fund og skoða hvort þú sért með hegðunarmynstur sem veldur þér erfiðleikum. Því fylgir engin skuldbinding og það eru allir velkomnir! Það ákveður svo hver fyrir sig hvort viðkomandi telji sig þurfa á hjálp að halda og sé mögulega vinnufíkill.

 

Einkenni vinnufíknar

1. Það er mjög erfitt fyrir okkur að slaka á. Oft, ef ekki alltaf, finnst okkur við þurfa að klára bara nokkur verk áður en við getum verið ánægð með okkur og leyft okkur að slaka á. Þegar við höfum lokið þessum verkum finnum við nokkur í viðbót sem við þurfum að ljúka, og svo nokkur í viðbót... Þessi óstjórnlega löngun leiðir oft til örvæntingarfullrar og stjórnlausrar vinnu. Við erum vanmáttug gagnvart þessu mynstri.

2. Við erum svo vön að gera það sem ætlast er til af okkur að við vitum oft ekki hvað það er sem við viljum og þurfum að gera fyrir okkur sjálf.

3. Oft finnst okkur að við verðum að klára ákveðin verkefni, jafnvel þótt við viljum það ekki, samt erum við of hrædd til að hætta.

4. Við verðum oft gröm yfir því að verða að klára verkefni þegar við vildum frekar slaka á og leika okkur. Á þessum stundum slórum við, veltum okkur upp úr sjálfsvorkunn og dæmum okkur. Við festumst í „fúlum hugsunum“, getum ekki einbeitt okkur að verkinu en erum samt of óttaslegin til að stoppa um stund og gefa okkur það rými sem við þurfum.

5. Tilfinning okkar fyrir sjálfsvirðingu byggist að stórum hluta upp á skynjun okkar á hvernig aðrir dæma afköst okkar í vinnu og á öðrum sviðum lífs okkar.

6. Okkur finnst við annaðhvort vera gáfaðasta og hæfasta fólk sem við þekkjum eða að við séum óhæf og einskisnýt.

7. Það er erfitt fyrir okkur að sjá okkur heiðarlega og viðurkenna hver við erum í raun.

8. Við svíkjum oft sjálf okkur með því að láta undan kröfum fólks sem við upplifum að hafi „vald“.

9. Við störfum út frá smá-krísu ástandi sem við notum til að komast hjá því að upplifa okkar sönnu tilfinningar.

10. Við upplifum sjaldan æðruleysi.

11. Við þráum að skilja allt í lífi okkar, þar á meðal hverja tilfinningu. Við leyfum okkur ekki að upplifa tilfinningar sem við skiljum ekki af ótta við að missa stjórn.

12. Við erum með undirliggjandi ótta um að ef við gefumst upp á að stjórna og hleypum tilfinningum okkar upp á yfirborðið verðum við vitfirrt það sem eftir er.

13. Við dæmum okkur út frá afrekum okkar og erum haldin þeirri blekkingu að við verðum alltaf að vera að afreka eitthvað mikilsvert til að vera ánægð með okkur.

14. Við getum ekki sest niður og bara verið.

15. Við tökum oft stífar vinnutarnir í þeirri blekkingu að við þurfum hrós frá samstarfsfélögum og yfirmönnum til að líða vel.

16. Við trúum þeirri blekkingu að fólki muni líka betur við okkur ef við lítum út fyrir að vera hæfari en við erum í raun.

17. Þegar okkur er hrósað af öðrum finnst okkur oft að við séum ekki verðug hrósinu og gjaldfellum okkur.

18. Við höfum tilhneigingu til að taka að okkur meira en við komumst yfir í þeirri trú að fólki líki betur við okkur ef við getum gert meira og gert það hraðar.

19. Við erum oft óheiðarleg um fyrri reynslu okkar og núverandi hæfileika, leitumst við að minnast ekki á mistök og ýkja velgengni. Við trúum því að fólk muni ekki virða okkur eða líka við okkur eins og við erum í raun.

20. Okkur líður ekki vel.