25.06.10

Dr. Opinskár eitthvað að röfla í blaðinu. Ég gleymdi reyndar alveg að koma því að að ég er í svörtum Man Basic nærbuxum frá Dressman. Annað forsíðuviðtal?
---
Nei nei, þetta er ágætt viðtal. Manni finnst bara alltaf asnalegt hvernig hlutunum er slegið upp í "æsifréttastíl". Sérstaklega þegar það kemur út eins og maður sé að væla. En svona er þetta bara. Sköllótt fésið á mér verður svo starandi á mig í öllum sjoppum héðan til Patreksfjarðar (Pönk á Patreksfirði). Verð að muna að skipta um skyrtu. Verst að það er of heitt fyrir hárkolluna.
---
Ágætt HM-prógrammið hjá Þorsteini Joð. Flæðir fínt og maður nennir að horfa þótt maður sé ekkert forfallinn fótboltaáhugamaður (ég nenni reyndar bara að fylgjast með þegar er HM). Kostar víst ekki nema 2.8 millur, sem er algjört pínöts fyrir prógramm sem sýnt er oft á dag í heilan mánuð. Fáránlegt að einhver nenni að tuða yfir því. Fleiri konur í settið? Tja, alveg mín vegna. Var samt ekkert að pæla í því, það er ekki það fyrsta sem mér dettur í hug: Hmm, kynjahlutfallið er nú eitthvað skakkt hér. Ég er ekki með kynjahlutfall á heilanum. Ég sé samt alveg fyrir mér að kjarnorkukonur eins og Lana Kolbrún Eddudóttir, Kolbrún Bergþórs og Tobba Marínós gætu tekið að sér einn þátt. Væri eflaust athyglisvert.
---
Við Felix erum alveg kynjahlutfallaðir og reynum eins og við getum að hafa konur í Popppunkti. Skárra væri það nú. Held við höfum skafið upp flest kvennabönd á landinu í gegnum tíðina. Eigum samt eitthvað eftir, Grýlurnar, Kolrössu, Heimilistóna - ekkert víst að Grýlurnar myndu nást saman - þær eru nú lítið að hittast og rifja upp gamla tíma, held ég, Kolrassa gæti verið vesen af því Elíza býr úti en það er nú eiginlega bara athugunarleysi að hafa ekki fengið Heimilistóna með í þessa seríu - það er of góð hugmynd til að klikka á henni. Gengur bara betur næst. En talandi um Kolrössu þá er það náttúrlega frekar poppfræðilega merkilegt að bandið ætli að koma saman og spila á Eistnaflugi Laugardaginn 10. júlí. Ég held það sé alveg ástæða til að skella lagi með þeim á fóninn:


Bellatrix - Daredevil
Af plötunni It's all true, sem Fierce Panda gaf út 2000. Sú plata var að mig minnir síðasti þátturinn í meikdraumagöngu bandsins. Þau voru helvíti dugleg og héngu árum saman í London við fótskör rokksögunnar og spiluðu á hverjum klósettrúntinum á eftir öðrum. Voru hæpuð í vikublöðunum og fóru í gegnum þá vél alla. Loks tók raunveruleikinn við og bandið splittaðist í allar áttir. Það er þó alltaf stutt í rokkið eins og mun heyrast á Eistnaflugi. Skilaboð frá bandinu af Facebook: Kolrassa Krókríðandi vakna af værum þyrnirósar blundi -for one night ONLY - til að stíga á stokk á bestu rokk hátíð Íslands Eistnaflugi! Þetta er einstakur viðburður og í fyrsta skipti sem Kolrassa kemur saman í nær áratug. Allir upprunalegir meðlimir munu stíga á stokk . Elíza , Bíbí, Sigrún , Anna Magga, Kalli og fyrsti trymbill hjómsveitarinnar Birgitta Vilbergs óje. Klassísk rokk lög af plötunum Drápa , Kynjasögur og Köld eru kvennaráð verða flutt í fyrsta sinn í ára raðir og verður allt hækkað í 11! 

24.06.10
Dreymdi hræðilegan draum. Varð vitni að pyntingum á leikaranum John Cleese. Hann lá emjandi á bekk og búið var að rústa á honum annarri löppinni. Mölbrotin beinin stóðu upp úr lærinu, sem var búið að fletta skinni og kjöti af. Ég sá aldrei framan í pyntarann, en hann virtist hafa mjög gaman að þessu. Aldrei kom í ljós af hverju var verið að pynta John, eða frá hverju hann átti að kjafta. Kannski var þetta eitthvað út af Kaupþings-auglýsingunni? Sjálfur væri ég glataður á svona pyntingarbekk. Myndi kjafta frá öllu strax. Það þyrfti ekki nema að sveifla slípirokki við eistun á mér að þá væri ég farinn að gala. Djöfulsins viðbjóður. Hvaða sjúku mannleysur og ræflar fást til að vinna svona "störf"? Og hvaða sjúku mannleysisræflasamfélög leggja blessun sína yfir svona? 
---
Hugmyndir eru uppi um að koma út nýju Popppunkts-spili fyrir jólin - Popppunktur 2 - íslenska tónlistarspilið. Það er náttúrlega búið að vera að spyrja mig um þetta árum saman. Fyrra spilið kom út 2004 og var geðveikislega massíft. 2.5 kíló með 940 spjöldum og rúmlega 4000 spurningum, borði, bjöllu, hjóli, köllum og svo framvegis. Ef það yrði gert annað eins núna myndi líklega þurfa að selja spilið á 15.000 kall eða eitthvað (því það var betra gengi á krónunni 2004!) Nýja spilið verður því örugglega eitthvað öreigalegra, en ekki verra fyrir það. Það þarf að stíla verðið inn á 5-6 þús kall út úr búð svo það sé raunhæft að einhver kaupi þetta. Spilasala mun samt vera nokkuð góð núna í kreppunni. Fyrir jólin í fyrra komu út 3 ný borðspil og gengu víst öll nokkuð vel.
---

PP-spurningakeppnin er á Pönki á Patró á laugardagskvöldið eftir eða fyrir tónleika Pollapönk. Á sama tíma stendur yfir fjórði PP-þátturinn í sjónvarpinu. Þar erum við að tala um ungu rokkböndin Mammút og Agent Fresco, sem eiga það náttúrlega sameiginlegt að hafa unnið Músíktilraunir (2004 og 2008). Þetta er drullugóður þáttur náttúrlega:


---

Skakkamanage & Prins Póló - Partýþoka
Spikfeita sumarsafnplatan Hitaveitan er komin út. Allt fullt af stuði og kæti í sumarfílingi. Sjáið sílspikaðan lagalistann til dæmis hér. Hér er sýnishorn af safnplötunni, lag sem er stílað á Skakkamanage og Prins Póló, sem er nokkurn veginn sami hluturinn, en þó ekki. Plötu í fullri lengd mun vera að vænta frá Prins Póló í haust sem eru dúndurtíðindi (ellegar Dúndurfréttir) því Prins Póló er svo skemmtilegur. Húrra fyrir kökugerðarmanninum!

23.06.10
Ég verð ekki formaður strætó, enda bara varaborgarfulltrúi. Aðeins AÐALborgarfulltrúar mega taka þetta djobb að sér skv. nokkurra ára gömlum lagabreytingum. Einar Örn tekur því djobbið líklegast að sér. Hins vegar sé ég um Popppunkts-spurningakeppni á Patreksfirði á laugardagskvöldið (sjá nánar hér). Ég má það altént, nema það finnst einhvers staðar í smáa letrinu að ég megi það ekki. Smáa letrinu í samþykktum sveitarstjórna Vestfjarðarkjálkans þá væntanlega. Aðeins AÐALborgarfulltrúar frá Reykjavík mega sjá um spurningakeppnir á Vestfjörðum, ekki vara.
---
Ha, nei nei, ég er ekkert sár og svekktur - hvað þá bitur og með laskaða sjálfsmynd!
---
Misskipting heimsins er gargandi augljós. Það hlýtur að vera lokamarkmið allra jafnaðarmanna að allir í heiminum hafi það sirka jafn gott og séu þar af leiðandi með svipuð laun, því laun og peningar eru mælikvarði á líðan og hamingju. A.m.k. í þeim kapítalíska veruleika sem þegjandi samkomulag ríkir um. Meðallaun á Íslandi á mánuði voru 334 þús í fyrra, skv. þessu. Verg landsframleiðslu per haus (heitir það það ekki?) á Íslandi var 38,023$ á ári skv. þessu. Við erum alveg nálægt toppnum þrátt fyrir hrun og væl. Sé þessi tala, 38.023$ skellt inn hér: http://www.globalrichlist.com/ kemur í ljós að meðal Íslendingurinn er nálægt þess ríkasta í veröldinni, við erum á 3.74% toppi þeirra auðugustu í heiminum. Séu forsemdurnar á þessari Global síðu notaðar virðist sem 850$ sé meðal árslaun heimsins = sirka 8.500 kr. á mánuði. Það væri meðaltalið ef gæðum heimsins væri nákvæmlega jafnt skipt á milli þessara milljarða sem hírast hérna í tómu rugli og tilgangsleysi. Þá hlýtur fólk að spyrja sig: er algjör jöfnuður spennandi tilhugsun? Ert þú til í að vera með 8.500 kr á mánuði, eða verður alltaf eitthvað annað upp á teningnum á gamla góða einangraða Íslandi? Þetta er líka eftirtektarvert: "The world's 225 richest people now have a combined wealth of $1 trillion. That's equal to the combined annual income of the world's 2.5 billion poorest people."
---
Dagbjartur Óli sagði mjög góðan brandara upp úr eins manns hljóði um daginn:

Ég veit um eyju sem er bara fyrir álfa.
Ha, nú?
Já, Eyjaálfa!
---
Við fórum öll á Toy Story 3. Eins og við mátti búast var þetta stórfengleg mynd og ég grenjaði mest af öllum í fjölskyldunni. Vegna dramatíkurinnar í myndinni og af tilhugsuninni um peningaausturinn sem þarf til að koma 4 manna fjölskyldu á glænýja 3D mynd og fóðra hana svo með poppi og kók.
---

Þeyr - 2999
Er staddur í Þey í greinaskrifum mínum um íslenskt rokk fyrir Grapevine. Fyrri hlutinn birtist í nýjasta blaðinu. Mjötviður mær þótti ansi góð plata þegar hún kom út og þykir enn. Í þessu lagi, 2999, má í byrjun lagsins heyra í jarðýtu sem skrölti framhjá Hljóðrita þegar var verið að taka plötuna upp. Þetta er eitt af tilraunalögunum á plötunni, minnir jafnvel á Fan Houtens Kókó, sem Þeysarar fíluðu á þessum tíma, eðlilega. Á mínu heimili var bara til einn plötuspilari (Grundig í stórum skáp) sem var í stofunni og því þurfti ég að liggja þar og hlusta. Þetta var náttúrlega allskonar rugl músík fyrir foreldra mína að þola, Crass og Pop Group og Purrkur Pillnikk og Fræbbblarnir og hvað þetta var, en aldrei sögðu mapa neitt heldur létu þetta afskiptalaust. Nema einu sinni og því man ég það svona vel. Það var þegar ég var að hlusta á Mjötvið mær, nánar tiltekið lagið Hva-Than, sem inniheldur hommalegar stunur og spurninguna hvaðan kemur þessi helvítis skítafýla? Þá snappaði pabbi loksins og skipaði mér að lækka í þessu helvítis rugli. Sem og ég gerði.
---
Á sama tíma var Sigurjón Kjartansson 12 ára á Ísafirði og skrifaði þetta í hrifningarvímu eftir að hafa séð Þey í Ísafjarðarbíói í mars '81. Birtist í Dagblaðinu skömmu síðar:

 

21.06.10

Fór austur fyrir fjall, eins og það heitir. Keypti hverabrauð með hunangi í Hveragerði. Nokkuð næs. Sundlaugin á Selfossi er nú alveg málið - 4 stjörnu laug. Mjög krakkavæn. Sá að á Selfossi er kominn úti veitingavagn með grænmetisfæði til mótvægis við hinn fræga pulsuskúr. Spurning hvernig grænmetinu gengur en við tékkuðum ekki á því enda á leið til mapa í bústaðinn á Þingvöllum. Pabbi minn er að verða 84 ára og honum finnst gaman að vinna. Honum finnst eiginlega ekkert skemmtilegra. Hann er húsasmíðameistari og er búinn að byggja ótal viðbyggingar við sumarbústaðinn. Það heldur honum gangandi, að hugsa um þetta og framkvæma, kaupa efnið í Byko og fara með það í sveitina. Þá fer hann í gallann og smíðar. Segist vera orðinn styrður og hrörlegur, en mamma segir að hann lifni allur við þegar hann byrjar að smíða. Nú er hann byrjaður á litlu gistihúsi fyrir tvo og segist ætla að klára það í sumar. Mamma rorrar um bústaðinn á meðan, les og sefur, gefur fuglunum og smyr oní pabba. Þau eru að fíla þetta í botn.
---
Gestur Baldursson lánaði mér dularfulla litla plötu. Það er ekki vitað hverjir standa á bakvið hana svo allar ábendingar eru mjög vel þegnar.


The Gayser - Gas odour / Rock 'n' roll homotion
Þetta band gefur sig út fyrir að vera íslenskt, eins og sjá má á bakhliðinni. Að öllum líkindum er þjóðernið uppspuni til að passa betur við nafn sveitarinnar, The Gayser. Útgefandinn Bad Oxygen virðist vera finnskt, en annars finnst lítið sem ekkert við gúggl á þessari plötu. Innihaldið er ágætt skítaprótópönk í anda The Stooges. Tekið upp í Frozen popcicle studio 666 í Reykjavík, ha?

19.06.10

Kirsuberjahakkarinn #2 komst í spikfeitt í Nóatúni (mynd: Dagbjartur Óli). Stæðurnar af hálfskílóa kirsuberjaöskjum, sem kosta innan við 500 kall stk! (465 eða eitthvað). Ég hakkaði einni svona í mig á mettíma yfir hinum hundleiðinlega Eng-Als landsleik. Og átti það svo sem alveg inni því ég hafði gengið á Þverfellshorn fyrr um daginn. Það er erfiðara en mig minnti (nema ég sé farinn að hrörna). Allt upp í móti. Hef ekki farið upp síðan 2008. Klettabeltið efst er alltaf jafn skerí en ég slapp óbrotinn út úr þessu. Uppi var svo svartaþoka og ekkert að sjá:

---

Hljómsveitin Hjólið - Hjólið / Hljómsveitin Gústavus - Helgin
Safnplatan Eitt með öðru sem Tónaútgáfan gaf út 1976 sýnir popplífið á Akureyri um miðjan stuð áratuginn mikla. Þarna eru hljómsveitirnar Hjólið og Gústavus, sem voru væntanlega lókal hetjur á þessum tíma og spiluðu pjúra stuðrokk. Best heppnuðu lögin á plötunni eru þessi tvö. Hjólið mitt með Hjólinu er tyggjópoppsnilld e. Snorra Guðvarðsson. Textinn er líka skemmtilegur og minnir á Gunnar Jökul sem var bæði með lögin Kaffið mitt og Bíllinn minn - en hann minnir líka á svipuð dæmi sem voru í gangi þarna um miðjan seventís, lög eins og Mamma gefðu mér grásleppu. Gústavus eru með hreinræktað seventís-stuðrokk og fylliríis-texta þar sem séns rýmar óhikað við lens. Gaman að sjá notkun gæsalappa á textablaðinu. Engar heimildir fann ég um Gústavus en eina mynd af Hjólinu: 

(úr Dagblaðinu 1976)
Safnplötunni fylgdi vandað textablað svo hér koma textarnir. Athygli vekur að Ingimar Eydal leggur Gústavus lið og leikur á synthesizer. Hækkaðu í botn, fáðu þér Appelsín og ímyndaðu þér að það sé Valash... Reyndar skilst mér að það sé búið til Valash þegar Bíladagar standa yfir á Akureyri - þekkir það einhver? Er hægt að panta flösku?

18.06.10
Peningaplokk og biðraðir og maður endalaust að fá risablöðrur í andlitið = 17. júní.  Jæja, þetta er nú bara einu sinni á ári. Það var allt iðandi sniðugt í bænum, nema uppblásinn fótboltavöllur sem var vindlaus svo miðjan lagðist ofan á fótboltastrákana. Gaman var að sýna krökkunum alvöru músík með Retrön í Havarí. Gott band. Maður vafraði bara um tímunum saman í þjóðhátíðarfílingi.
---

Næsti stórleikur í PP er annað kvöld, þegar stálin stinn mætast: Bjartmar og Bergrisarnir á móti Fjallabræðrum. Hrútafnykurinn verður alls ráðandi og örstutt í mjög gott stuð.
---

Helena og Hljómsveit Ingimars Eydal - Ó, hvað get ég gert
Mér er nú yfirleitt alveg sama hvaða fólk fær Fálkaorður, en það var samt verulega gaman að sjá Helenu Eyjólfs fá eina í gær. Hún er frábær artisti og almennileg og góð kona eins og kom í ljós þegar ég bókaði hana sem leynigest í Brúðkaupsveislu í fyrra. Til hamingju Helena! Hér eru lag af 4-laga 7" EP sem SG gaf út 1967. Þetta lag eftir Þorvald Halldórsson, en textann á Ómar Ragnarsson - eins og alla hina á plötuni.


Erla Stefánsdóttir - Gallagripur
Erla var líka í Akureyrar-beatinu eins og Helena. Söng með bæði Hljómsveit Ingimars Eydal og Póló, en með Póló söng hún ofurhittarann Lóan er komin á 7" 1967 (þessi stórfína mynd af henni með heysátuna er einmitt framan á þessari 7"). Hér er hins vegar komið árið 1976 og Erla syngur You wont see me Bítlanna (kom út á Rubber Soul) á safnplötunni Eitt með öðru. Þarna mátti heyra ýmsa norðanmenn, en útgefandi var Tónaútgáfan. Lítið fór fyrir þessari plötu, enda enginn hittari á henni, en hins vegar skrýtin bönd eins og Hljómsveitin Hjólið (með lagið "Hjólið" - upplagður kandidat í "Úr glatkistunni" í náinni framtíð), hljómsveitirnar Gústavus og Völundur og einnig norðanmenn eins og Óðinn Valdemarsson. Íslenska textann sem Erla söng gerði Jónas Friðrik, en þeir sem spila undir hjá henni eru Sævar Benediktsson á bassa, Árni Friðriksson á trommur, Brynleifur Hallsson á gítar, Ingimar Eydal á píanó og um bakraddir sáu þær Helga Hilmarsdóttir, Gyða Halldórsdóttir og Kristín Sigtryggsdóttir. 

17.06.10

Ef það má ekki vera þjóðrembdur í dag hvenær má þá vera þjóðremdur? Áfram Ísland! Til hamingju með daginn. (myndir úr umfjöllun National Geography um Ísland 1951)




16.06.10

Hér er flott mynd frá því í gær sem Birgir Ísleifur Gunnarsson (í Stóns/Motion Boys/Last Boy) tók. Þegar Jón Gnarr var búinn með ræðuna hjólaði ég heim og hlustaði á restina af fundinum á netinu. Fannst alveg óþarfi að hanga þarna á stöppuðum pöllunum. Ég tók upp á kassettu þegar Hanna Birna tilkynnti um kosningu í stjórn Strætó BS. Hún var með tilraunastarssemi og eitthvað nýtt.
---
Það eru reyndar áhöld um það hvort ég sé löglegur í Strætó djobbið og þá verður það bara þannig. Ekki nenni ég að fara í fýlu út af því að ég sé ekki stjórnarformaður Strætó bs! En allavega, þangað til annað kemur í ljós, ef þið sjáið mann með hárkollu og sólgleraugu undir stýri í svörtum VW Passat þá er það ekki ég. Iggy Pop klikkar svo ekki með sitt Chairman of the bored.
---
Það vantaði ekki nema sex mörk upp á að spá mín um 7 - 2 sigur Norður Kóreu á Brözzum rættist. Áfram Norður Kórea!
---

Bjartmar og Bergrisarnir - Sagan
Nýtt lag með Bjartmari! Af plötunni væntanlegu. Bjartmar og Bergrisarnir keppa einmitt við Fjallabræður í næsta PP og það er eins gott að missa ekki af því. Bjartmar spilar á Sódómu Reykjavík í kvöld - miðvikudagskvöldið 16. júní, kl 22:00 - 1000 kall inn og ekkert rugl. Hér er fréttatilkynningin: Samtímaskáldið Bjartmar Guðlaugsson hefur stofnað nýja hljómsveit sem ber heitið Bjartmar og Bergrisarnir. Bjartmar hefur þar sankað að sér góðum hluta af heitasta rokkungviði landsins og hefur stefnan verið tekin á útgáfu nýs geisladisks sem verður troðfullur af heilsárssmellum. Nokkrir kitlarar hafa þegar fengið að hljóma í útvarpsmiðlum landsins eins og lögin "Feik meik" og "Í gallann Allan" ásamt því að nú er komið nýtt lag í spilun sem heitir "Sagan." Til að hita þjóðina upp fyrir geisladiskinn munu Bjartmar og Bergrisarnir stefna á víðreisn um landið þar sem að ný lög verða flutt ásamt því að allir helstu smellir Bjartmars verða fluttir í eins rokkuðum búningi og völ er á. Slagarar Bjartmars skipta tugum og eiga lög eins og "Týnda kynslóðin", "Hippinn", "Fimmtán ára á föstu" og "Sumarliði er fullur" fastan sess í hugum þjóðarinnar um ókomin ár.


Sonus Futurae - Myndbandið / Skyr með rjóma
Sonus Futrae var að öllum líkindum fyrsta hljómsveitin á Íslandi sem kenndi sig við tölvupopp. Kristinn Þórisson, Þorsteinn Jónsson og Jón Gústafsson skipuðu tríóið. Þorsteinn og Kristinn urðu útspekúleraðir fræðingar að ég tel, en Jón er kvikmyndagerðarmaður í Kanada í dag. Hann einn hélt áfram í tónlist eftir stutt æviferli Sonus Futurae, gerði sólóplötuna Frjáls 1983 og svo plötu með hljómsveitinni Afris 1986. Plata Sonus heitir Þeir sletta skyrinu.....sem eiga að, og var með gullfallegri mynd af Helga Hós (e. GVA) að sletta skyri á bakhliðinni. Þetta var sex laga plata og hér eru bestu lögin. Myndbandið er með hinu frábæra textabroti: Merkilegt hvað margir halda að band þetta sé bölvaldur / Skiljið ekki að byltingin er bylting á við örtölvur!
Árið áður hafði Grafík sent frá sér lagið Videó, svo það er ljóst að uppgangur myndbandsins (VHS v/s BETA!) var poppurum hugleikinn á þessum tíma. Talandi um: Gaman að heyra af þessum sjónvarpsþætti. Þessi myndbandaleiga á Hlemmi á sér stoð í raunveruleikanum. Þetta var alræmd leiga (var líklega þar sem Ban-Thai er núna) með nokkuð þétt úrval af ljósbláum klám- og ofbeldisspólum. Maður fór þarna stundum á árdögum videósins - leigði þá bæði tæki og spólur og svo var legið yfir þessu heilu helgarnar. Gúdd tæms!
Sonus Futurae ýtarefni: Viðtal Helgarpósturinn ág 82 / Viðtal Mogginn okt 82 / Viðtal Tíminn des 82

15.06.10

Jón Gnarr er orðinn borgarstjóri! Hér er hann í pontu að halda jómfrúarræðuna, sem fjallaði m.a. um margföldunartöfluna, Sirkus Billy Smart, Múmmínpabba og að Reykjavík og Kardimommubær væru orðnir vinabæjir. Mjög góð ræða! Hann klikkti út með kvóti í Bítlalag - All you need is love, love is all you need - sem er kannski frekar skrýtið því þeir sem hafa hlustað á Tvíhöfða ættu að vita að bæði Jón og Sigurjón þola ekki Bítlana. En allavega, þetta er fínt kvót, sem passar Besta flokknum. Svo: Til hamingju Reykjavík! 
---
Sjálfur er ég stjórnarformaður Strætó bs!
---
Valdataka Besta flokksins fer fram í dag. Þetta er búið að vera undursamlegt ævintýri sem er rétt að byrja í dag kl. 16 þegar Hanna Birna lætur Jón Gnarr fá lyklana að borginni. Besti byrjaði vitanlega sem djókflipp en vatt svona líka upp á sig. Það er ekki lengur djókflipp þegar 20.666 manns greiða manni háheilög atkvæði sín. Hér er fyrsta viðtalið sem birtist við Jón um flokkinn:

Stefna flokksins var nú frekar lítið göfug í byrjun, að moka sem mest undir rassinn á foringjanum og vinum hans. Líktist hann þannig mörgum hinna flokkanna. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og nú fær Besti tækifæri til að sanna sig sem "ekkert rugl"-flokkur sem setur hag venjulegs fólks í forgang og ætlar að láta náungakærleik vera sitt hreyfiafl. Það er ekkert víst að það klikki (svo ég vitni í Einar Ágúst).
---

Fyrst er getið um nýja borgarstjórann í blöðum árið 1987 þegar hann sigraði í ljóðakeppni Þjóðviljans með ljóðinu Speglar. Hann átti líka ljóðið í öðru sæti, Amsterdam. Gerður Kristný átti ljóðið í þriðja sæti. Árið eftir gaf Jón út fyrsta verkið sitt, súrrealísku ljóðabókina Börn ævintýranna. Fyrsta viðtalið við Jón er líklega þetta Lesbókarviðtal frá 1988 e. Hrafn Jökulsson - "Það sem heillar mig mest við geðveiki er hið tæra og hreina augnablik hinnar algeru sturlunar," segir Jón og var kvótið viku síðar endurbirt í Pressunni í svona "Kvót vikunnar" smádálki. Skáldsagan Miðnætursólborgin kom út hjá Smekkleysu 1989 og var Jón þá tíður gestur á Smekkleysukvöldum þar sem hann las upp úr verkum sínum - oftast undir óánægjubauli áhorfenda sem vildu rokk en ekkert skáldarugl. Súrrealíska skáldið Jón dó svo með eitísinu og fljótlega upp úr því fann hann fjölina sína í gríni. Mér fannast aldrei neitt varið í Jón skáld (allavega ekki við hliðina á snillingnum Jóhamri), en ég man að ég hugsaði þegar ég heyrði fyrst Hótel Volkswagen í útvarpsþættinum Heimsenda að þetta væri algjör snilld og upphaf nýrra tíma. Það reyndist rétt. 
---

Yoko Ono Plastic Ono Band - The sun is down
Heyrði um aðila sem hefur það að atvinnu að snúast í kringum útlendina, jafnt fræga og ófræga, sem koma til Íslands. Hann bar þeim flestum vel söguna. Öllum nema körlunum frá Magma (sem töluðu mjög niður til alls þess sem íslenskt er, enda helvítis arðræningjar sem ber að varast) og Yoko Ono. Hún er víst algjör tík. Kemur fram við fólk eins og algjör nóboddí og er hvöss og andstyggileg. Kannski það sé japanska yfirstéttaruppeldið? Það kom ný Yoko plata í fyrra, Between My Head and the Sky. Hún stílaði plötuna á Yoko Ono Plastic Ono Band, sem er fyrsta þannig síðan 1973. Það er fínt lið með henni, Sean litli, kærastan hans og Cornelius hinn japanski snilli. Yoko er alltaf blaðrandi um ást og kærleika, en er svo með hina hendina á bankabókinni og svipunni. Hún mætti byrja á að sýna þessa ást alla með því að koma fram við fólkið sem stjanar í kringum hana eins og fólk, en ekki eins og skepnur. Skammastu þín Yoko Ono!
---

Devo - Don't shoot (I'm a man)
Ein af tíu bestu hljómsveitum allra tíma er snúin aftur með Something for Everybody, níundu hljóðversplötuna og þá fyrstu síðan Smooth Noodle Maps kom út 1990. Þetta eru orðin gamalmenni, söngvarinn Mark Mothersbaugh varð sextugur í maí (djísús kræst!), svo ég ætla ekki að reyna að segja að þetta stöff sé ferskt og geðveikt kúl. Samt, þetta er ágætis plata. Svo fara þeir á túr og ætli maður reyni ekki sitt ýtrasta til að ná þeim, enda er DEVO ein af 10 bestu hljómsveitum allra tíma, eins og ég var að enda við að segja.
---

Ruddinn - Not the end of the road
Svefniherbergisrokkarinn Bertel, aka Ruddinn, lætur ekki deigan síga og hamast nú við að klára þriðju plötuna sína. Í Not the end of the Road, lag og texti eftir Ruddann, syngur Heiða og Bretinn Jed Stephens spilar á bassa. Lagið er forsmekkur af þriðju plötu Ruddans sem mun bera nafnið I need a vacation. Heiða syngur með Ruddanum í 5 lögum. Hún syngur einsömul í 2 lögum og á texta í laginu "Too distant for us". Á plötunni kemur hinn dularfulli Soulviper einnig fram í laginu "Supersonic Situation". Stefnt er á að klára plötuna í haust.

12.06.10
Ég vaknaði með ógeðslega gott lag á heilanum í morgun: Nausea með X.
---

Hlustendagetraunin í fyrsta PP var níðþung: Hvar var Grammið fyrst með verslun? Sjálfur hélt ég að fyrsta búðin hefði verið á Vesturgötu (#53 b). Þar man ég eftir búðinni fyrst. Þarna fór maður og lét Einar Örn rugla í sér. Var of stressaður til að rífa kjaft við þennan brjálaða söngvara í Purrki Pillnikk. Búðin var í þessum skúr og líka í kjallaranum. Allt fullt af slefandi spennandi plötum, enda er maður eins og eitt opið sár fyrir tónlistarbakteríum þegar maður er 15-16 ára. Grammið hafði þó verið allra fyrst við Hverfisgötu. Í húsnæði sem Bílastæðasjóður var þar þar til nýverið. Næstum því við hliðina á Gráa Kettinum. Síðan flutti búðin á Vesturgötu 53b og síðan í kjallarann á Hverfisgötu 50, þar sem Hjá Báru var. Verslunin endaði síðan á Laugavegi 17, bakhúsi, beint á móti BMM. Þarna var Popphúsið Plötuportið (Popphúsið var í Bankastræti) áður og síðar voru þarna allskonar hippalegar búðir og æfingarhúsnæði (sem gekk þá aftur undir nafninu Grammið). Nú er búið að rífa þetta og gera garð. Jólamarkaðurinn var þarna í fyrra.
---
Það verður önnur hlustendagetraun í þætti kvöldsins (Feldberg - Hjaltalín), sem verður ekki síður níðþung (og ó-gúgglvæn). Það er rosaleg þátttaka í þessu, allavega hátt í 500 svör (og flest "Vesturgata"). Fólk sendir á popppunktur@ruv.is.
---

(Þessi mynd er tekin á Rykkrokki um haustið 1987. Sjón er með Triumph beltissylgjuna sem var uppsprettan að Johnny Triumph)
Ég eyddi miklu púðri í að fatta súrrealisma á svipuðum tíma og ég fór í Grammið. Íslensku súrrealistarnir í "Medúsu-hópnum" voru gríðarlega spennandi og ég fór á flest sem hópurinn stóð fyrir. Galleríið þeirra hét Skruggubúð og var í litla kofanum við Suðurgötu þar sem VG er/var. Fór þangað og glápti gáttaður á spennandi verkin. Keypti heftin og ljóðabækurnar, svo ekki sé nú talað um spólurnar tvær með Fan Houtens Kókó. Ég fann hvað súrrealisminn er en "skildi" það ekki. Kannski á maður bara að skilja það þannig - ekki skilja heldur finna? Einu sinni skrifaði ég ritgerð um súrrealisma í MK og ætlaði að taka viðtal við Sjón. Mætti heim til hans og mömmu hans á Bárugötu klukkan svona ellefu um miðjan virkan dag, en Sjón var svo þunnur að hann nennti ekki að tala við mig. Mér fannst það ekkert voðalega súrrealískt enda dáldið vesen að taka strætó frá Álfhólsvegi á Bárugötu. Varð örugglega ógeðslega fúll og fór í Grammið og hlustaði á reiðustu verk Crass í gegnum headfóns og kreppti hnefana í súrrealískri heift. Nei nei. Hér er Víðsjá að ræða súrrealisma (og Besta flokkinn) í sínum bráðskemmtilega gáfumannastíl með tilgerðarlegri "nútímatónlist" undir. Dúndur stöff! Ég skrifaði nokkur súrrealísk ljóð á þessum tíma og fékk klapp á bakið frá Medúsumönnum. Það var nú ekki slæmt - svona álíka og þjálfarinn í amerískri hafnarboltamynd myndi klappa á bak litla stráksins. Mitt besta súrrealíska ljóð heitir Nauðgunarhraðlestin. Ég finn það nú ekki sama hvað ég leita. En ég fann ljóðaheftið Beðið eftir Hauk eftir mig og Steina gítarleikara í S.H.Draum. Við sömdum þetta á meðan við biðum eftir Hauk trommara á æfingu og gáfum svo út í 5 eintökum. Sýnishorn! 

List í dósum
andvaka,
fáðu þér eintak eða tvö
þrír apar
því umbúðirnar eru komnar úr prentun
kræktu glóð í frosinn lim mávsins
og yljaðu þér á kuldanum
---

Vax - Hot in here
Austfirska bandið Vax er stuðband gott og vaxandi (ho ho). Ég hitti þá á fylliríi á Aldrei fór ég suður 2008 og eftir það báðu þeir mig að spila á bassa í þessu hressa stuðlagi. Það var nú lítið mál. Þeir spila á Föstudagsforleik á Bræðslunni í lok Júlí, en eru annars bara að vinna að plötu sem verður 3ja skífan og kemur út með haustinu. Að auki er hljómborðsdeild VAX að spila inn með Bjartmari Guðlaugs og verður að spila með honum á Sódómu 16. júní ásamt Bergrisunum.

11.06.10
Einu sinni reyndi ég að vera fótboltaáhugamaður og halda með Breiðablik. Mætti á fullt af leikjum og hékk yfir þessu. Breiðablik tapaði a.m.k. helmingnum og þá hefði ég átt að vera fúll, en mér var eiginlega alveg sama hvort liðið tapaði eða sigraði. Í síðasta leiknum sem ég mætti á vann Breiðablik HK 11-0 og mér fannst það svo mikið óverkill að ég hef ekki nennt á leik síðan. Þetta eru bara einhverjir gaurar að eltast við bolta. HM er allt annað mál. Fyrir það fyrsta er þetta bara á 4 ára fresti og svo er allur heimurinn undir. Ég nenni samt ekki að vera með hátimbraðar lýsingar á póstmódernísku sammannlegu innihaldi keppninnar (eins og kaffilattélepjandi finnst voða sniðugt um þessar mundir), þetta eru ennþá bara gaurar að elta bolta. 


Enn og aftur er Wiki mín helsta heimild og uppspretta upplýsinga. Ég ætla auðvitað að halda með mestu lúser liðunum. Kemur þar Norður Kórea sterk inn. Liðið hefur ekki spilað á HM síðan 1966 (var náttúrlega allt annað lið þá enda 44 ár síðan!), en þá lenti landið öllum að óvörum í 8. sæti. Þeir hafa annað hvort ekki tekið þátt í keppninni síðan, eða dregið sig úr keppni á síðustu stundu. En nú er sem sé N-Kórea mætt í G-riðli. Þetta er náttúrlega stórundarlegt fríkland (og eitt af axis of evil, hvorki meira né minna) og ég er viss um að það eru eintómir heilaþvegnir stórsnillingar í liðinu. Eru ekki allir heilaþvegnir í N-Kóreu? Þeir hafa eflaust mesta löngun allra liða að gleðja leiðtogann og vera stolt þjóðarinnar. Þeirra bíður rottuát og pyntingar ef þeir standa sig ekki. Fyrsti leikur Norður Kórea er á móti Brasilíu 15. júní (sama dag og Jón Gnarr verður borgarstjóri!) og verður það eflaust heimssögulegur viðburður því N-Kórea mun rústa Brasilíu í leik sem lengi verður í minnum hafður, 7-2. Hér er smá um liðið á sportrás BBC. 

Svo held ég auðvitað með Eyjaálfuliðunum Ástralíu og Nýja-Sjálandi og öllum í Afríku því þar vilja menn sanna sig. Annars tekur maður bara afstöðu eftir hverjum leik. England - USA á morgun er t.d. góður leikur og ég mun náttúrlega halda með USA. Djöfull er gaman að þessu!
---
Næsti PoppPunktur (vinsælasti þátturinn í dag!) er á dagskrá annað kvöld. Fínn leikur - Hjaltalín á móti Feldberg:

---

Nóra - Bólaheiðfall
Hin ágæta Nóra var að gefa út plötu. Það kom fréttatilkynning: Reykvíska hljómsveitin Nóra er um þessar mundir að gefa út sína fyrstu hljómplötu. Hún nefnist „Er einhver að hlusta?“ og er væntanleg í verslanir í dag, föstudaginn 11. júní. Aðdáendur hafa beðið plötunnar með eftirvæntingu en lag af plötunni, „Sjónskekkja“, sat á vinsældalista Rásar 2 í fimm vikur fyrir áramót. 
Að þessu tilefni býður Nóra til útgáfuhófs á Íslenska Barnum við Austurvöll í dag, föstudaginn 11.júní klukkan 17:00. Hljómsveitin spilar lög af plötunni, auk þess sem sérstök Nórutilboð verða á barnum.
Platan var tekin upp í Tankanum á Flateyri síðasta sumar og upptökum stjórnaði Önundur Hafsteinn Pálsson en um hljóðblöndun og hljómjöfnun sá Axel Árnason. Nóra gefur plötuna út sjálf en um dreifingu sér Record Records. „Er einhver að hlusta?“ inniheldur 10 frumsamin lög sem öll eru sungin á íslensku.
Systkinin Egill og Auður Viðarsbörn leiða þar saman raddir sínar en aðrir meðlimir eru Frank Arthur Blöndahl Cassata, Hrafn Fritzson og Bragi Páll Sigurðarson. Þau hyggjast fylgja plötunni vel eftir í sumar með tónleikahaldi og uppákomum, bæði í borginni og víðar um land. Hægt er að hlusta á þrjú lög af plötunni á facebook síðu sveitarinnar.


Hljómsveit Birgis Gunnlaugssonar - Lokkar og hey
Áfram heldur hið endalausa pródjekt Bítlarnir á íslensku! Hér er lag Pauls A World without love, snúið yfir á íslensku af Birgi sjálfum. Þetta kom út á 8 laga 12" árið 1988, en upprunalega árið 1964. Þá með Peter og Gordon, en Peter þessi var bróðir stelpunnar sem Palli var að slá sér upp með á þessum árum. Þetta er frægasta lagið með Peter og Gordon. Hljómsveit Birgis Gunnlaugssonar spilaði á hinum ýmsu stöðum (Þórskaffi, Hótel Sögu...) seventís, eitís, næntís, núllís og er eflaust enn að. Textinn er ef til vill versti texti sem gefinn hefur verið út á íslensku og er þar nokkru til að jafna. Ís lokkar og hey, þarna lá eitt deig, þú ert sæt, hreint ágæt, hér við Laugarnes... (ég hefði nú haft "Laugalæk" því það rýmar næstum því við ágæt.) 

(DV 16. júní 1988)

10.06.10

Ég ætlaði alltaf að tékka á Fabrikkunni þótt mér hafi nú fundist hæpið um staðinn fullgróft. Simmi og Jói hljóta að vera einhverskonar snillingar - hæpsnillingar? - því hæpið skilaði svo geðveikum árangri að það er búið að vera stútfullt síðan staðurinn opnaði. Alltaf fullt og biðröð í hádeginu og á kvöldin, svo það er mesta vitið - nema maður vilji endilega hanga í röð - að mæta svona á milli kl. 17 og 17:30. En ef það er biðröð lætur maður taka niður nafnið sitt og fer út og gónir upp á háhýsið eða eitthvað. Fer smá rúnt, eða fær sér kaffi á Kaffitári.
En allavega. Matseðilinn er spennandi og skemmtilega uppsettur á blaði. Pleisið er Ikea hittir Hard Rock, bara töff og þægilegt. Afgreiðslufólkið ekkert rugl heldur almennilegt fagfólk. Ég skellti mér á Fabrikkuborgarann (1.295 kr. með frönskum) - "stolt staðarins". Hann kom fljótt og lítur svona út:

Er mildur undir tönn og bragðast mitt á milli þess að vera djúsí, slísí og heilsusamlegur. Verulega góður bara og ég er strax farinn að slefa yfir öllum hinum hamborgurunum sem ég ætla að prófa. Lufsan fékk sér Ungfrú Reykjavík, eitthvað kjúklinga-spelt dæmi með pestó. Var mjög ánægð með hann. Það heyrðist ekki múkk í krökkunum því þeir voru með headfóns að horfa á teiknimyndir. Þau borðuðu matinn sinn upp til agna þar að auki (samlokur og franskar). Í eftirrétt kom besta skyrkaka sem ég hef smakkað á ævinni og Jóa Fel súkkilaðikaka sem var fín. Matseðilinn má skoða á netinu og eins og sést er staðurinn með fín verð miðað við sambærilega staði. Íslensk tónlist var spiluð á þægilegum styrk en ég myndi taka Söknuð Villa Vill út. Alveg óþarfi að minna mann á að maður drepst í miðjum borgara. Fullt hús stiga og ég skelli mér aftur við fyrsta tækifæri!
---

Pollapönk - Kjólakallinn
Meira pollapönk með þeim Botnleðjubræðurum (+ Adda og Guðna úr Spock, Mugison o.s.frv.) er komin út - 15 laga ýlfrandi gott barnapönkrokk kvikindi. Þéttari og betri plata en sú fyrri, meira í hana lagt, eins og sagt er, en fjörið og hnyttnin allt um lykjandi sem fyrr. Megnið af þessu hefði getað verið Botnleðjulög, en þá hefðu textarnir verið öðruvísi og eitthvað meira hipp og kúl í gangi. Menn fá nebblega svo mikið frelsi ef þeir segjast vera að gera barnamúsík. Þá getur maður bara gert það sem manni sýnist og þarf ekki að þykjast vera eitthvað hipp og kúl.


Steinka Bjarna - Bjössi bolla / Ellimóð
Steinka Bjarna, stjarna af Revíukynslóðinni, söng Strax í dag á Sumar á Sýrlandi Stuðmanna og meistari JFM dreif eðlilega í því 2 árum síðar (1977) að gera heila plötu með ofurhressu kellunni (hún var 54. ára þegar platan kom út). J.M.-Sextettinn spilaði undir (Jakob, Þórður og Tómar Stuðmenn + popplandsliðið) og þetta var 14 laga stuðplata með mynd af Steinku og Ámundi Ámundasyni útgefanda (ÁÁ records) að djúsa í kagga framan á. Þetta var stuðmúsík - mest kóverlög en allt með íslenskum textum - sem fékk vonda dóma alls staðar - gagnrýnendur skyldu ekki til hvers þessi plata hafði verið gert - "hún höfðar hvorki til unga fólksins né fólks af revíukynslóðinni", þeim fannst textarnir ömurlegir og söngurinn lélegur. Helsti smellur plötunnar varð þó hið fjöruga stuðlag Bjössi bolla - Lag eftir "Johnson" - sem ég veit nú bara ekki hvaða lag er upprunalega. Hitt sýnishornið hér er lagið Ellimóð, góður blús eftir Steinku sjálfa, bæði lag og texti. Steinunn, sem var systir söngkonunnar Hallbjargar Bjarnadóttur, lést árið 1994. Þá kom þetta í Mogganum: Andlát STEINUNN BJARNADÓTTIR, söng- og leikkona, lést á Charing Cross sjúkrahúsinu í Fulham í London á annan dag jóla, tæplega 72 ára. Steinunn Lilja Bjarnadóttir Cumine fæddist á Akranesi 15. febrúar árið 1923. Hún varð snemma þekkt fyrir söng og leik, kom fram ásamt Hallbjörgu systur sinni og lék í ýmsum revíum og leikritum. Hún stundaði nám við Royal Academy of Dramatic Arts í London árin 1946-1950 og útskrifaðist þaðan með mjög góðum vitnisburði. Að námi loknu fluttist hún til Íslands og giftist Alfreð Kristinssyni. Þau skildu. Synir þeirra eru Bjarni Geir og Kristinn Halldór. Steinunn fluttist á ný til London árið 1967, þar sem hún giftist eftirlifandi eiginmanni sínum, Douglas Cumine, og bjuggu þau í Kensington.

Ýtarefni: Mynd af Steinku og Stuðmönnum frá 1975 / ViðtalÁrna Þórarinssonar við Steinku í Helgarpóstinum 1981. þar má m.a. lesa þessa snilld:

09.06.10

Meistari Haffi Haff kynnir frumraun sína, Freak, á þrennum tónleikum á Nasa í dag. Ég ætla að reyna mitt ýtrasta til að komast á ókeypis fjölskyldugiggið kl. 17:00. Miðað við lögin sem hafa heyrst só far þá er Freak með mest líklegustu plötunum sem maður getur notað á brettinu í sumar. 
---
Spurning dagsins: Hvort viltu frekar að Kínverjar kaupi Ísland eða að Davíð Oddsson verði aftur forsætisráðherra? (og yrði þá "raðherra"). Eða kannski bara bæði? Er Davíð ekki bestur bara og Kínverjar topplið? Það eru allavega alltaf jakkafataklæddir Kínverjar eitthvað að sniglast hérna fyrir utan og áðan sá ég svaka bílalest í lögreglufylgd leggja upp frá Hótel Sögu. Örugglega Kínverjarnir að fara að skrifa upp á gjaldeyrisskiptasamninginn.
---
Voðalega er Grenjaðarstaðir asnalegt nafn. Sorrí fólk sem býr á Grenjaðarstöðum.
---

Moses Hightower - Vandratað
Hljómsveitin Moses Hightower með flúnkunýtt lag, Vandratað. Það er af fyrstu plötunni sem kemur út öðru hvoru megin við mánaðamótin júní/júlí og heitir því viðkunnalega nafni Búum til börn. Ef svo líklega vill til að þú vitir ekkert hverjir Moses Hightower eru má benda á Facebooksíðuna. Útgáfutónleikarnir verða 8. júlí.


For a minor reflection - Dansi dans
Ósungin Sigur Rósar músík, mjög bráðnandi ísjaka dreymið. Fyrsta platan þeirra heitir Reistu þig við, sólin er komin á loft... en nú er komin ný plata sem heitir álíka þjálu nafni, eða Höldum í átt að óreiðu. For a minor reflection er að gera góða hluti og hér er lagið sem greip fastast, allavega í fyrstu umferð. For a Myspace.


Ljótu hálfvitarnir - Hafið blátt
Þriðja platan komin með þessu ljóta hálfvitastöffi sem þú þekkir. Allt við það sama og rúmlega það. Náskilt hálfvita-fyrirbæri er hin ágæta rokksýning Rokk, sem fer á svið Þjóðleikhússins annað kvöld og á föstudagskvöld. Hér má kaupa miða.


Ellý Vilhjálms - Unz ég fann þig
Ekki Bítlalag, per se, ekki frekar en Twist & Shout, en útgáfa Bítlanna á Till there was you á With the Beatles er líklega þekktasta útgáfan af þessu lagi. Þetta er eina Broadway-lagið sem Bítlarnir tóku upp. Útgáfa Ellýjar kom út árið 1966 á LP plötunni Lög úr söngleikjum og kvikmyndum (SG-009). Ísl texta gerði Þorsteinn Valdimarsson.

08.06.10

Herbert var mjög hress heim að sækja. Vinur minn Steinn Skaptason var að láta hann fá sólóplötu með Ómari Óskarssyni, Middle class man, sem Herbert söng inn á nokkur lög. Þessi plata kom út 1974 og er líklega það fyrsta sem Herbert söng inn á plötu. Herbert leyfði okkur að heyra nokkur ný lög af nýrri sólóplötu sem væntanleg er á árinu. Ég heyrði ekki betur en þetta væru allt meira og minna súperhittarar. Áður höfðum við Steinn tékkað á nytjamörkuðum. Fann nýsjálenska maóríaplötu - Rotorua whaka maori concert party - í Nytjamarkaði Kristniboðssambandsins í Austurveri (200 kr.) og One on one með Cheap Trick (300 kr.) í Nytjamarkaði Samhjálp. Fann þar einnig jólaplötuna Jólastund (200 kr.)
---
Fór loksins og fékk mér sushi á hinum góða sushi-stað SuZushii í Kringlunni. Fór einnig í sundlaug sem ég hafði ekki komið í áður, Garðabæjarlaug - hún slapp við góðærið. Þessu hefur vitaskuld verið gerð skil í veitingah og sund/fjöll
---
Ljótt er að sjá myndir af öskugrárri Þórsmörk (t.d. í Fbl í dag) og lesa um spjöllin, t.d. hjá Páli Ásgeiri. Það eru engar ýkjur að segja að Þórsmörk - þá sérstaklega svæðið í kringum Bása - sé alfallegasta svæði landsins. Það er alltaf verið að minna mann á að ekkert er öruggt í lífinu. Fyrir hrun hélt maður að allt yrði æðislegt og öruggt á Íslandi það sem eftir væri. Alltaf nóg af peningum og vinnu. Sérstaklega vinnu. Ég man að maður sagði oft: "Hvað sem má nú segja um Ísland, þá er allavega alltaf hægt að fá vinnu hérna". Það að allt yrði alltaf æðislegt var svona sú tilfinning sem árin á undan hruni höfðu innrætt manni (kannski af því maður var svo vitlaus og óraunsær). Svo bara einn daginn: Púff! Sama núna. Eldgos upp úr þurru og Þórsmörk orðin grá. Samt leggur enginn árar í bát. Það er bara að bretta upp ermarnar og sjá það besta í stöðunni (eins og t.d. einn skálavörðurinn í sjónvarpsfréttum í gær - að allt sé í steik kallaði hún "einstaka náttúruupplifun"). Það er alveg óþarfi að væla. "Ekkert hefur sligað þessa þjóð meira en endalaus og botnlaus jákvæðni og bjartsýni", segir Jónas. Kannski má þá bara biðja um jákvæðni og bjartsýni, sem er ekki botnlaus og endalaus, heldur raunsæ. Það færi enginn í sokkana ef þjóðin væri sliguð af neikvæðni og svartsýni. Ég meina, við drepumst öll fyrr eða síðar og sólin brennir öllu sínu vetni á endanum. Ef við fáum þá ekki loftstein í hausinn á morgun. Ætlarðu að leggjast fyrir og væla þig í kör út af þessu eða halda bara áfram og reyna að hafa gaman aððí?
---

Sverrir Stormsker - Söngur veiðimannsins
Stefán Hilmarsson syngur frumsamið lag Sverris, sem vitnar í She loves you á köflum. Þetta var síðasta lagið á jólasafnplötunni Jólastund (Skífan 1987) og þurfti að lyfta og færa arm plötuspilarans til að "njóta Stormskers", eins og stóð á bakhlið plötunnar.

06.06.10
Ýmis frábær augnablik hafa komið upp í Popppunkti í gegnum árin. Þegar Rúnar Júl hitti ekki á dartspjaldið með pílunni, þegar Pétur Kristjánsson hoppaði á bítlaskónum sínum, þegar Steinn Ármann nærri gerði út af við Krumma í Mínus í "poppglímunni" (sem var bönnuð fljótlega eftir það) og þegar enginn vissi hver Rósa Ingólfs var í "leynigestinum" og hún var nær dauða en lífi af hiti innan í einhverjum bangsabúningi. Í þættinum í gær bættist við þennan "golden moments"-sarp þegar Björgvin Halldórsson lék Iggy Pop fyrir Halla og Ladda. Klassík!
---
Sá í Mogganum að Kjartan í Sigur Rós ætlar að klára síðustu Sigga Ármann plötuna. Frábært!
---
Ég var einu sinni úti að keyra á meðan "kosningabaráttan" stóð yfir og þá kom Anarchy in the UK á Rás 2. Þá fattaði ég eins og hvað Besti flokkurinn er. Hann er pönkið sem allir hötuðu þegar það kom fram. Progghundar vældu: Þetta er ekki músík! Þetta lið kann ekkert að spila! Sjáið útganginn á þessu! Ojjj! Og þegar nýja tónlistin var komin til að vera héldu progghundar áfram að væla í aðsendum blaðagreinum. Ég fann eina bráðskemmtilega og pirraða. Prófaðu að setja "Agnes" inn í staðinn fyrir "Ragnar":

(DV 27. janúar 1982)
---

Egill S - Djúggedí Gúgg
Spikfeit safnplata er á leiðinni frá Kima útgáfunni. Hitaveitan heitir hún og kemur út seinna í mánuðinum. Þetta er 14 laga skronster og lögin eru með Memfismafíunni og Óttari Proppé og Möggu Stínu, Morðingjunum, Reykjavík! og Mugison, Agli S, Retron, Me, the slumbering Napoleon, Snorra Helgasyni, FM Belfast, Metro Sirion (Retro Stefson og Miri saman), DJ Flugvél og Geimskip, Skakkamanage & Prins Póló, Hjálmum og Helga Björns, Hjaltalín, og Sudden Weather Change saman með Nóló. Hér er lagið með Agli S, gríðargott og ferskandi, eins og glænýr ilmsteinn í pissuskál sálarinnar (eða eitthvað svoeliðis). Þess má svo geta að á Rjómanum og á Grapevine má sækja samvinnulagið Sumarást með Reykjavík! og Mugison af þessari sömu safnplötu.


Ómar Ragnarsson & Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar - Gamli kagginn
Seríunni "Bítlarnir á íslensku" er hvergi nærri lokið því sífellt berast fréttir af lögum sem ég hafði ekki hugmynd um. Hér kemur nú eitt metnaðarfyllsta innleggið til þessa, enda hefur þetta lag ekki verið gefið út, heldur er þetta ofursjaldséð upptaka úr Útvarpssal. Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar flytur ásamt Ómari Ragnarssyni lagið Gamli kagginn (Yellow Submarine). Ómar á sjálfur textann sem hann hefur sagt að fjalli um ferðlag frá RVK til Kirkjubæjarklausturs, fyrir þann tíma sem sæmileg brú var yfir Markarfljót. Upptakan var upphaflega flutt í þættinum „Söngur og sunnudagsgrín“ árið 1967. Þetta hefur aldrei komið út og varla heyrst síðan þetta var flutt í þættinum um árið. Upptakan er reyndar mjög löskuð, bandið gamalt og beyglað eins og heyrist á köflum.

05.06.10

Stuð í Rvk. Ég ofan á Æsufelli 4 og allt fullt af fjölmiðlafólki. Það sést varla út úr augum fyrir öskufalli af eldgosi í Eyjafjallajökli og verið er að tilkynna að Jón Gnarr verði næsti borgarstjóri... Vá, fríkaður draumur, maður! 
---
Sko. Grín og ekki grín. Er allt bara eitt stórt grín? Uuu... já pretty much. Lífið verður allavega ekkert auðveldara ef það er þungt og þróað og flókið og erfitt og dimmt. Ég þreytist ekki á að benda á Geðorð Geðræktar þar sem fyrsta boðið er einmitt Hugsaðu jákvætt, það er léttara. Erfiði skal tæklað með léttleika, en samt auðvitað ekki með einhverju rugli og flissi út í loftið. Hefur fólk alveg gleymt myndinni La vita è bella þar sem Roberto Benigni grínaði sig í gegnum útrýmingarbúðirnar? Reyndar væmin og leiðinleg mynd, en kemur kannski pointinu til skila. Hvort haldiði að skili meiri árangri til að efla móralinn ef ráðamenn koma fram eins og náinn ættingi þeirra sé nýlátinn (eins og manni finnst svipurinn á Jóhönnu og Steingrími stundum vera), eða séu bara léttir áðí, frískir og öryggir með sig? Hvað er annars það versta sem gæti gerst fyrir okkur? Tortíming jarðarinnar? 
---
Bolir Besta flokksins verða til sölu í Kolaportinu í dag. Lækkað verð!
---
Og alls ekki gleyma POPPPUNKTI í kvöld á Rúv kl. 19:40! Fyrsti leikurinn á 6. önn. Útúrsteiktur leikur, HLH á móti KK band!
---
Guðlaugur Þór fékk ógeðslega mikinn pening frá allskonar liði. Verst þykir mér að sjá að reiðhjólasalan Örninn hafi látið hann hafa 75.000 kall - eða tvisvar sinnum það sem ég greiddi fyrir mitt góða Trek hjól. Til hvers í andskotanum var Örninn að láta Guðlaug Þór hafa 75.000 kall? Ég bara skil þetta ekki.
---

Óðmenn - Þær sviku
Hið sögufræga og frábæra tvöfalda albúm Óðmanna er að koma út á CD á vegum Shadoks í Þýskalandi “world wide“, en útgáfan hefur þegar endurútgefið albúmið á vinýl (og fullt af öðrum íslenskum hippaplötum). Einmitt í ár eru 40 ár frá því að albúmið kom fyrst út á merki Parlophone. Jóhann G Jóhannsson driffjöður Óðmanna kom fram með Bjössa Thor og bandi í Salnum í gærkvöldi og kemur aftur fram á aukatónleikum þar í kvöld (Jazz & Bues hátíð Kópavogs í Salnum - sjá hér). Flutt verða lög eins og Spilltur heimur og nokkur lög af tvöfalda albúminu auk Cream laga eins og Sunshine Of Your Love o.fl. Massíf snilld!

03.06.10


Siggi Ármann 1973 - 2010

Fallinn er frá Siggi Ármann - Sigurður Ármann Árnason. Um þennan geðþekka trúbador og Kópavogsbúa heyrði ég fyrst árið 2001 þegar Jóhann Jóhannsson og Sigtryggur Baldursson voru að gera plötu með honum. Smekkleysa gaf plötuna út og hún hefði líklega orðið undir í flóðinu ef strákarnir í Sigur Rós hefðu ekki kveikt á henni. Þeir tóku Sigga undir sinn verndarvæng - ef við orðum það dálítið klisjulega - og fyrir þeirra atbeina gerði Siggi það verulega gott. Hann hitaði upp fyrir Sigur Rós, bæði hér heima og svo á ferðalögum um heiminn. Ég rak póstverslun Smekkleysu á þessum tíma og platan hans Sigga, Mindscape, fór nú að seljast af þónokkru afli. "Trúbadorinn sem Sigur Rós fílar" varð ansi heitt "vörumerki". 
Viðkvæmnisleg og súpereinlæg lög Sigga voru í hrópandi andstöðu við útlit hans og atgervi. Hann var kraftalega vaxinn enda líkamsræktarmaður, og þegar ég fékk hann í útvarpsþátt til mín til að velja óskalög, spilaði hann hart núrokk - Be quiet and drive (far away) með The Deftones, Bullet in the head með Rage against the machine, og reyndar A forest líka með The Cure. Það var þessi mótsögn sem virkaði vel og gerði hann spennandi -"viðkvæma heljarmennið" var frumleg lýsing sem var vænleg til árangurs.
Önnur plata Sigga, Music for the addicted, kom út 2006. Í millitíðinni hafði hann gert læfdisk í takmörkuðu upplagi með kóvermynd eftir Jónsa í SR (Siggi Ármann í Listasafn Reykjavíkur 2003). Það voru flóknari útsetningar á þessari annarri stúdíóplötu, en fegurðin og einfaldleikinn í tónlist Sigga enn á sínum stað. Lagasmíðarnar voru mun sterkari en á fyrstu plötunni og ljóst að Siggi var að þróast mikið og þroskast sem höfundur.
Um Music for the Addicted segir á Tónlist.is: Siggi Ármann hefur skapað sér sess sem einn sérstæðasti trúbador þjóðarinnar og er þessi plata unninn í samvinnu við tónlistarmenn á borð við Jóhann Jóhannson, Kjartan Sveinsson og Sigtrygg Baldursson, auk margra annarra. Siggi Ármann lék sem upphitunar atriði fyrir Sigur Rós á tónleikaferð þeirra um Bandaríkin og Kanada haustið 2002 og hefur verið að vinna að Music for the Addicted síðan þá. Gætir margra nýrra grasa á plötu þessari ef miðað er við fyrri verk Sigga Ármanns. 
Síðustu misserin hringdi Siggi nokkrum sinnum í mig og sagðist vera að vinna að nýrri plötu. Ég var farinn að hlakka til að heyra meira en verð víst bara að gera mér að góðu það sem kom. Eftir lifir minningin um góðan dreng og sannan listamann. Hvíl í friði Siggi Ármann.


Siggi Ármann - Every second
Af fyrri plötu Sigga, Mindscape 2001. Einfalt og ljúft.


Siggi Ármann - Big boys cry
Af seinni plötunni, Music for the Addicted 2006. Enn einfalt og ljúft, en meiri þungi og breidd í útsetningum og lagasmíðarnar orðnar mun sterkari en á fyrri plötunni. Þetta er meistaraverk Sigga.
---
 
 
 

Andartaksþögn á meðan maður veltir fyrir sér lífinu, dauðanum, tilgangnum, tilgangsleysinu og öllu þessu dóti. 
 
 
 

---

Og svo bara áfram með smjörið: Það er allt hægt ef maður vill. Það er t.d. hægt að fá Rí-mix aftur í búðirnar ef maður stofnar Facebook síðu þar að lútandi. Sjálfum finnst mér Rí-mix ekkert spes, en það er gaman að svona gostengdum samfélagsmálum samt!
---

Það er allt að verða kreisí á Betri Reykjavík, sem er iðandi hresst spjalltorg um málefni borgarinnar, umræðuvettvangur grasrótarinnar. Fólk leggur fram hugmyndir og annað fólk setur fram meðmæli eða mótmæli. Svaka lýðræðislegt. Þjónar borgarbúa eiga svo að lúslesa síðuna og bregðast við af skynsemi.
---
Ég var að minnast á 16 eyrnahlífabúðir hér í gær og velta upp þeim möguleika að ég komi Erðanúmúsík kassettum onlæn. Fékk svo email þar sem kemur fram að allt með hljómsveitinni 16 eyrnahlífabúðir sé þegar fáanlegt onlæn.
---

Alasdair Roberts - Unyoked oxen turn
Ég hef nú satt að segja aldrei hlustað á Alasdair fyrr en núna og þetta er samt mjög spennandi stöff. Hann er að spila með Benna Hemm Hemm í kvöld í íslensku óperunni. Allt um það hér! Þetta lag er af plötunni Spolis sem Drag City gaf út í fyrra. Og svo er hér Alasdair á wiki
---
Alasdair lætur ekki staðar numið eftir giggið með Benna heldur kemur hann einnig fram á þrennum aukatónleikum.

Þann 4. júní kemur hann fram á Venue við Tryggvagötu 22 ásamt gestum. Það verða heiðursmennirnir Eysteinn Pétursson, sem kemur fram í fyrsta skipti í langan tíma, og Markús Bjarnason sem sjá um upphitun. Tónleikarnir hefjast kl. 21 og miðaverð er 1.500 kr. Forsala miða er í  Havarí. Alasdair mun einnig spila í Havarí fyrir búðargesti fyrr um daginn, eða kl. 17. Svo mun hann leika fyrir Hörgdæla í Leikhúsinu á 
Möðruvöllum þann 6. júní.

Um Alasdair Roberts:
Alasdair Roberts er skoskur lagahöfundur og söngvari sem hóf ferillinn  í jaðarrokkbandinu Appendix Out. Sú hljómsveit komst á samning hjá hinu virta útgáfufélagi Drag City frá Bandaríkjunum. Eftir að sveitin lagði upp laupana þá hóf Alasdair að gefa út eigin tónlist hjá Drag 
City. Eftir hann liggja 3 breiðskífur og 1 stuttskífa sem allar hafa komið út hjá Drag City ásamt allskyns hliðar- og samstarfsverkefni, meðal annars með Íslandsvininum Will Oldham. Plötur Alasdair hafa í hvívetna fengið góða dóma og hann er í augnablikinu á tónleikaferðalagi með Joanna Newsom.

Markús Bjarnason:
Markús er mörgum kunnugur einna helst sem söngvari þeirra frábæru hljómsveita Skáta og Sofandi. Skátar hættu fyrir nokkru síðan en 
hljómsveitin Sofandi hefur ekki verið starfandi síðustu ár en það kann að breytast innan tíðar. Markús hefur unnið að sólóefni síðasta árið, 
hefur komið fram í nokkur skipti en er nú loks tilbúinn með plötu. Platan Now I know kemur út í næstu viku hjá Brak-hljómplötun og 
inniheldur 7 æpandi góða smelli.


Eysteinn Pétursson - Ókindarkvæði
Eysteinn Pétursson er eðlisfræðingur sem starfar hjá Landspítalanum. Hann syngur og spilar íslensk þjóðlög með sérstökum hætti og tróð upp í ófá skipti á námsárum sínum í Kaupmannahöfn, hann hefur þó haft sig hægan seinni ár. Eysteinn hefur unnið að plötu síðustu misseri með syni sínum, Svavari Pétri, úr Skakkamanage, Létt á Bárunni, Prins Póló og Rúnk. Hann kemur fram á tónleikunum með gítar að vopni og mun spila fáein lög af væntanlegri plötu sinni.

02.06.10
Er ekki kominn tími til að setja kassettu-útgáfur Erðanúmúsik onlæn? Til dæmis safnkassetturnar Rúllustiginn og Snarl 1, 2 og 3? Hver myndi til dæmis ekki vilja hlusta á 16 eyrnahlífabúðir akkúrat núna? 
---

Besti vann heimavinnuna sína í gær. Hér er hinn glæsilegi Fjármálahópur að berja saman niðurstöður sínar til að setja í púkkið. Barði er mjög öflugur enda hefur hann aldrei farið á hausinn. Niðurstöður okkar Bjössa og Barða voru að stunda ætti "Ömmuhagfræði", halda í og efla það besta í borginni, finna tekjur á nýjan og frumlega hátt og skera niður fullt af fitu, beisiklí.


Hér er fyrsta vínarbrauðið sem ég sé á þessu mjög svo undarlega ferðalagi. Er þetta það sem koma skal? Þetta er ferðalag sem ég í villtustu draumum hefði ekki getað órað fyrir fyrir svona 3 mánuðum. Eins og Biggi Baldurs vinur minn sagði þá er þessi staðreynd að jafn ólíklegir menn og Jón Gnarr, Einar Örn og Óttarr Proppé séu að setjast sem ráðandi meirihluti í borgarstjórn eitthvað sem ekki hefði verið hægt að upphugsa í draumi, hvað þá í "alvörunni". Um kvöldið mættu fulltrúar Samfó og fólk kynnti sig. Virtist mikill húmanískur samhugur í öllum enda mikil krafa í samfélaginu um að ekkert lélegt verði gert, heldur bara það besta. Það er reyndar ekki til króna til að gera neitt en það er aukaatriði! Jón Gnarr lánaði Degi B fyrstu seríuna af The Wire (eins og sjá má myndrænt á Facebooksíðu Besta) og Dagur lofaði að kíkja á hana. Sjálfur er ég nú ekki kominn lengra en að sofna yfir fyrsta þætti fyrstu seríu.
---
Og vá: Djöfull var síðasti þáttur Lost glataður! Allir lausir endar skildir eftir laflausir (eins og við var að búast). Ég sé samt ekki eftir neinu. Þetta var mjög gott framan af. Ég vissi alveg að handritshöfundarnir voru búnir að missa plottið eftir sirka aðra seríu en ég hélt áfram að horfa, þó ekki væri fyrir annað en að horfa á gullfallegt landslag á Hawaii.
---
En hér er ein sería sem þarf ekkert plott: Sjötta sería POPPPUNKTS hefst á laugardaginn kl. 19:40. HLH flokkurinn og KK band etja kappi í dúndur steiktum og mjög skemmtilegum leik. Ég tók myndir á símann minn:

---
((((((( Þriðji hluti ársins 2010 )))))))