02.08.08
Íslenskur eðall ber nafn með rentboy. Nýjar útgáfur af gömlum íslenzkum lögum, misvinsælum og misgóðum, en öllum stórgóðum (að sjálfsögðu). http://www.myspace.com/islenzkuredall. Þetta eru demo einsog er, og hlustist sem slík. Gríðargott og frábær hugmynd - Seinna meir er best.
---
Meira myspace (þó mér sé illa við það helvítis fyrirbæri - þetta er svo hægt og hallærislegt). Tesla Girls er bráðhugguleg hljómsveit. Mæli með laginu Ást við fyrstu sýn. Líklega eina DAF-kóverið á íslensku til þessa. Wanker of the 1st Degree er líka á myspace. Plata með honum er í aðsigi.
---
Nú hef ég sáralítinn áhuga á Eric Clapton, eða allavega tónlistarbauki hans sl. áratugi (fínn sixtís og svona), en ég er samt að lesa ævisögu hans með áfergju enda safaríkt stöff og mér finnst gaman að lesa ævisögur poppara. Er með íslensku þýðinguna sem Orri Harðarson þýðir með glæsibrag. Aumingja Orri lenti í algjörri hroðvirknismartröð því saurblaðið titilsíðan - það eina sem Orri skipti sér ekki af fyrir útgáfuna - er í algjöru rugli með þremur stafsetningavillum. Fólk opnar kannski bókina í bókabúð og þetta blasir við:

Hvernig er þetta hægt? En það er algjör óþarfi að örvænta enda er restin af bókinni ekki eftir þessu heldur vandvirknin uppmáluð og alveg þrælskemmtileg lesning.
---

Quest for Fire - Uchina
Ef Ham hefðu verið proggaðir Japanar og með flautuleikara hefðu þeir kannski hljómað eitthvað líkt Quest for Fire eins og þeir gera á plötu sem finnska Ektro útgáfan sendi nýlega frá sér.

30.07.08
Costa del Ægisíða:

Ég gat því miður ekki verið meira kúl á svipinn enda með sólina beint í fésið.
---
Hinn stórgóði neytendabloggari Kári Harðarson vísar í norskan virtúal tíkallakassa. Þessir kassar eru mikil nostalgía fyrir skarfa eins og mig. Maður eyddi ófáum tíköllunum í þetta í gamla daga. Ég man eftir einum í Þyrli í Hvalfirði. Nú held ég það sé einn svona á Árbæjarsafni. Verst að maður er alveg jafn slappur í virtúalinu og í alvörunni í gamla daga.
---
Minni á æsilegan Plípp hérna á eftir kl. 10.10. Lið rótara, Hrói rót og Golli rót, etur kappi við Lið slasaðra (Bóas Rvk! og Guðmundur Baggalútur – aldrei að vita nema hann hvetji til nauðgana). Síðan verður dregið um röð næstu leikja, enda er þetta síðasti leikurinn í 16-liða úrslitum...

29.07.08

Sprengjuhöllin - Sumar í Múla
Trommuintró sem Brian Wilson gæti hlustað á samfellt í tvö ár byrjar nýjan sumarsmell Sprengjuhallarinnar. Svo flæða 13th Floor Elevatorleg vatnsorgel og glamrandi gluggakarmar og B.Ebbahrjúf söngrödd saman til sjávar og landsmenn þurfa ekki að hafa áhyggjur af neinu nema kreppunni™ og fæðuörygginu™. En hvaða Múli er þetta? Jón Múli? Múlakaffi? Einhver Múli úr sameiginlegri æskuminningu? Skiptir ekki öllu.
---
Myndin hér að ofan er tekin á Laugaveginum. Í náttúrunni er ágætt að leggja fésið í svörðinn og minnast þess að þú ert á leið þangað aftur. Til fullkominnar náttúruupplifunar er ekki verra að fluga fari suðandi framhjá og að lækur renni nálægt. Létt um máða steina, jafnvel. Stundum sést þotuprump á himni. Þá geturðu hugsað um eitthvað annað. Skarkala, skítugar stórborgir og kámuga fingur. Myndina Into the Wild kannski ef þú hefur séð hana.

Það er gaman út í náttúrunni. Þarf bara helst að vera gott veður.

Hér er ég að klifra upp úr gilinu sem Syðri-Emstruá rennur um.  Þetta var smá lífsháski, ekkert fyrir lofthrædda. Það besta við svona ferðir er að þær lifa með manni. Maður sækir í minningar og stillir þeim upp við hliðina á daglegu lífi. Og fer að sæka sig upp fyrir næstu ferð. Annars er leiðarlýsingin komin á Sund/fjöll.

28.07.08
Fjölskyldan tók massífan hvítan rusl laugardag. Fyrst tívolí í Hafnarfirði með banjóleikandi tivolíhetjum hafsins frá Bretlandi og gegnheilu rippoffi og okri. Krakkarnir hafa gaman að þessu en ég hef ekki áhuga á að láta hrista mig, hvorki gegn gjaldi eður ei. Svo Smáralind á útsölur. Ég keypti unglingajakka hjá Dressmann á helmingsafslætti (3000 kjall) og er búinn að henda jakkanum frá Gap sem ég hafði gegnið í streit í 3 ár og var byrjaður að trosna all verulega. Dagurinn fullkomnaður á KFC/Taco Bell í Hafnarfirði þar sem ég skvapaði mig upp á fjögurra tegunda Big Bell Menu, alls ekki slæmt væni minn. Á sunnudaginn bara pikknikk á Reykjalundi og almennt afslappelsi.
---
Í síðasta 16-liða leiknum í Plípp mætast Lið rótara og Lið slasaðra. Fulltrúar rótara eru Hrói rót og Golli rót en slasaðir eru Guðmundur Baggalútur (handarmeiðsl) og Bóas Rvk! (rifið nýra). Búast má við gríðarlegum átökum en keppnin fer að vanda fram kl. 10:10 á Rás 2 á miðvikudagsmorgun.
--- 

Retro Stefson - Montana
Unglingastuðsveitin góða er í gírnum og stefnir á plötu í haust sem er auðvitað beðið með glýju á bestu bæjum. Hér er sallafínn forsmekkur. Það skemmtilegasta við bandið er að það er ekki líkt neinu og tekur óvænta áhrifavaldana og sullar þeim saman í eitthvað alveg nýtt. 

26.07.08

Enn á ný leitast Björgum Íslandi við að bjarga okkur og þessu örfoka landi sem er ekki einu sinni með hæstu Big Mac vísitölu í heimi lengur. Hugsjónafólkið berst gegn skrímslum kapítalismans og eyðileggingarinnar. Öllum brögðum er beytt í baráttunni eins og má lesa í þessari frásögn saklauss fórnarlambs. Þar segir meðal annars: Þarna stóð ég ásamt félaga mínum, Elvari. Sannkristnum sómapilti frá Sauðárkróki. Ella vini mínum blöskraði algjörlega munnsöfnuðurinn á þessari umræddu Miriam Rose. Þegar Elli hélt að hámarki mótmælanna væri náð, reif Miriam niður um sig buxurnar og otaði loðinni rottunni í áttina að okkur og reyndi að spræna á okkur. Eru þetta heiðarleg mótmæli?
Jú endilega ota rottunni sem mest, segi ég. Ég er viss um að Friðriki Sóf myndi snúast hugur ef hann fengi hrúgur af ilmandi mótmælarottum í flasið. Ég myndi allavega lippast niður ef ég væri vondur álkall.
---
Baggalútur láta ekki kalla sig nauðgara án þess að mótmæla og fara fram á afsökunarbeiðni hjá ráðskonunni. Þetta er æsispenanndi atburðarrás, ekki ósvipuð og í byrjun Tinna og Pikkarónanna.
---

Eleanoora Rosenholm - Japanilainen puutarha
Diskó sem hvaða fjöldamorðingjahúsmóðir gæti stolt dansað við. Frá Pori, Finnlandi, og það er Noora Tommila sem syngur. Bræður hennar af munaðarleysingjahælinu leika undir en myndir af þeim má finna hér. Þess má geta að platan heitir Vainajan muotokuva og kom út í fyrra.


The Fibonaccis - Somnabulist
Einhverra hluta vegna minnir þessi finnska hérna að ofan mig á listabandið The Fibonaccis frá LA á 9. áratugnum. Platan þeirra kom til Íslands og hljómaði í samkvæmum Medúsuhópsins enda í svipuðum fílingi. Vönduð heimasíða sveitarinnar er hér

25.07.08
Djöfull klikkaði ég á því að bjóða mig ekki fram gegn ÓRG. Ég hefði örugglega unnið. Fyrst hefðu náttúrlega allir skammað mig fyrir að eyða peningum skattborgara með þessari vitleysu. Ég gæti haldið alveg jafn góð boð og ÓRG en mynda vanda mig að vera ekki alltaf að bjóða sömu silkihúfunum, listaliði eins og Rassa prump og Ólafi Elíasson, sem Dorritti finnst sniðugt, eða nýríkum plebbmillum eins og Björgólfi og hvaðþeirheita. Jæja kannski Rassi fengi að koma en bara ef hann kæmi með gítarinn. Þetta er náttúrlega svo óraunhæft að ég nenni ekki að fara á flug yfir gestalistanum. Gylfi Ægisson kæmi þó pottþétt mjög fljótlega (og vonandi með mynd með sér).
---
Ég hef ekki "flaggað fyrir forsetanum" síðan Kristján Eldjárn var ann.
---
Það sem maður skilur síst varðandi þessa austurísku karluglu þarna með kjallarabaukið er hvernig hann nennti eiginlega að standa í þessu.
---
"Maður þarf að velja hvort maður vill vera vera á flottum bíl og vera þræll, eða vera frjáls á druslu," segir Salmann Tamini. Góður. Hvað ég gæfi nú ekki fyrir að vera á skuldlausri drusli núna.
---
Þetta er fullmikið af hinu góða," segir Hjálmar Sigmarsson, ráðskona Karlahóps Femínistafélags Íslands, um hræðilegt nýtt lag með Baggalúti sem allir heyra að hvetur til hópnauðguna og mannáts. Svívirðilegt! Annars alltaf gott í gúrkunni að leyfa krökkunum í Femínistafélaginu að tjá sig um eitthvað þegar vantar funheitt efni.
---

Scars on Broadway - Stoner-hate
Ég er alger amatör í hefímetali en System of a down finnst mér þó geðveik hljómsveit sem ég hef hlustað gríðarlega mikið á, aðallega í ræktinni þar sem þetta þrælvirkar. Þeir eru í einhverri pásu, eða allavega þangað til þeir fá að fara í Eurovision fyrir Armeníu, en nú hafa komið tvær plötur úr þeirra ranni. Sólóplatan hans Serj Tankian var alls ekkert spes og alltof hæg til að virka á bretti, en hinn aðalkallinn, Daron Malakian, hefur nú gefið út plötu með bandinu Scars on Broadway, sem SOAD-trymbillinn er líka í ásamt öðrum tattúveruðum gaurum með kleinuhring (ímynda ég mér). Sú plata, sem heitir bara Scars on Broadway, er satt að segja mun skemmtilegri en sólóplatan hans Serj. Slatti af hröðu efni og allnokkur leikur í gangi, stundum þó full einföld tónlist einhvern veginn, vantar þessa gríðarlegu uppátækjasemi sem einkennir bestu lögin með SOAD. Mér heyrist hann vera að syngja um Manson í þessu lagi. Er það ekki líklegur sækóhippi?

24.07.08
Á hvaða tímapunkti var það ákveðið að þessi nýjasta Batman mynd væri best mynd í heimi? Mér finnst eins og það hafi verið löngu ákveðið áður en myndin kom í bíó og svo gekk það svona ægilega fínt eftir. Er það af því að Heath er dáinn? Mig langar eiginlega ekkert á þessa mynd. Sé hana í mesta lagi í sjónvarpinu svona 2011. Eða sofna yfir henni eins og gerðist með Batman Begins, sem átti líka að vera besta ofurhetjumynd í heimi og blablabla. Langar satt að segja mun meira á Iron man. Man eftir þeim karli úr blöðunum sem ég fletti stundum þegar ég fór með mömmu til Deddu, en sonur Deddu átti svona ofurhetjublöð í hrönnum inn í herbergi og svo stalst maður í þetta. Kannski ef sonur Deddu hefði átt Batmanblöð að maður væri spenntari. Eru menn ekki almennt að sjá þetta dót vegna æskuljómans? Svona eins og með þessa fótboltadellu sem allir eru fastir í. Af því þeir hafa haldið með þessum liðum síðan í barnæsku? Áfram QPR!
---
Ég vildi frekar að einhver væri að gera myndir eins og Blue Velvet eða Happyness. Lynch og Toddolský eða hvað hann heitir sem gerði Happyness virðast heillum horfnir. Það er ekkert framleitt nema eitthvað drasl með ofurhetjum lengur. Bíóferðir mínar miðast helst við barnamyndir núorðið. Ég er t.d. farinn að sæka mig upp fyrir Transformers 2 næsta sumar. Dagbjartur er alveg brjálaður í Transformers. Hasbro dótaframleiðandinn er alveg að gera sig.
---
Nei nei, hvaða vitleysa og svartsýnisþrugl. Coen bræður halda þessu við. Og margir aðrir. Lufsan er búin að fá leyfi til að yfirgefa heimilið og sjá Mömmu míu. Bara ef það væri nú einhver mynd sem ég gæti farið á... 
---
Í bakþanka mínum í dag reyni ég að gera grein fyrir auðnarþörfinni. Ég á enn eftir að skrifa leiðarlýsinguna af Laugarveginum og setja í flokkinn Sund/fjöll. Hlýt að komast í það bráðlega. 

23.07.08
Núna á eftir kl. 10.10 er sjöundi þáttur Plípp. Þá eigast við Keflavíkurstelpur (Heiða og Elíza) og Félag Sumarsmellaeiganda (Ingó frá Bahama og Bjössi í Múgsefjun). Ætti að verða blóðugt upp á axlir.
---
Okrið er oltið vel yfir 1000 og enginn friður í augsýn. Mér var nær.
---
Café d'Haiti við hliðina á Krúa Thai á Tryggvagötu er sneddí lítið kaffihús þar sem framandi blökkukona reiðir fram gott kaffi til drykkju og teikaveis. Vinakaffi á Borgarnesi er ágætt kaffi- og maulhús í gamla Nauthóli (kaffihúsinu í Nauthólsvík) sem hefur verið fluttur til Borgarness. Svo sem lítið afgerandi við staðinn, hvorki merkilegur matseðill né afgerandi verð í hvora áttina sem er, reyndar lipur þjónusta. Bara allt í lagi og snöggtum skárra en Hyrnan. Dússi opnar náttúrlega ekki fyrr en kl. 18 svo manni eru skorður settar. Tja, þetta er nú kannski ekki stórt vandamál. Ekki eins og maður sé alltaf svangur í Borgarnesi.
---
Mér tókst að klára Rokkað í Vittula, sem ég greip með á Laugaveginn. Það er æðisleg bók. Fullt hús! Annað nýtt á menningarafurðum er Kung Fu Panda sem Db gefur óhikað fullt hús líka.

22.07.08
Í Borgarfirði sá ég "sumarbústaðinn" sem KB-stjórinn er að reisa til minningar um sig upp á hól. Í fjarska leit þetta út eins og ný Bónusverslun sem væri verið að byggja í glænýju úthverfi. Risastór byggingarkraninn stóð hreyfingarlaus yfir þessu eins og váfrétt.
---
Ég heyrði líka í þyrlunni hans Óla í Samskip eða hvað sem hann heitir. Hann er víst alltaf að fljúga henni eftir laxveiðiánum sem eru svo steindauðar dögum saman eftir á því laxarnir fríka út yfir þyrlunni. En það má ekki vera of nastí við Óla í Samskip því hann dælir svoleiðis peningunum í rokkið með Kraumi, stóð til dæmis undir sumargleði Kima records alla síðustu viku. Samt eitthvað glatað við þetta...
---
Þetta er gott pönk. Meira svona! Látum ekki gerfipönkið komast upp með neitt múður. Þó gæti ég alveg eins trúað að þetta stönt sé á vegum auglýsingastofunnar. Það ætti a.m.k. að nýtast símaáskrift jafn mikið að fá frétt af liði að rífa niður auglýsingaplaggöt eins og að setja gaddaól á Pétur Jóhann. 
---
Ég sá að Flatus lifir!-veggjakrotið er kominn á sinn stað, eða reyndar við hliðina á auglýsingaborðanum uppi við Esju. Það er líka gott pönk. Meira pönk takk, minna auglýsingarúnk.
---
Bubbi má ekki opna á sér kjaftinn án þess að allt verði vitlaust. Þá koma allir út úr skápunum sem þola ekki Bubba og fá tækifæri til að spýta öfundssjúkir á skráplaust Bubba grey, "sem á jeppa og trophywife upp í sveit", en ekki þeir. Á sama hátt lekur slímið út um skráargötin og fær ástæðu til að slumma sér á Björk, Egil Helgason, Pabba Bjarkar™, eða hvern þann sem vogar sér að blanda sér í tuðið. 

Hva, má ég ekki hafa skoðun? 

Hva, má ég ekki hafa skoðun á því hvaða skoðun þú hefur?

Hva, má ég ekki hafa skoðun á því hvaða skoðun þú hefur á skoðuninni? 

Hva, má ég ekki hafa skoðun á því hvaða skoðun þú hefur á skoðuninni sem þú hafðir á skoðuninni sem hann hafði?

Og svo framvegis. 

Ekki nenni ég að blanda mér í þennan bjánaskap, enda kann ég ágætlega við Bubba, Björk og Sigur Rós og hlusta jöfnum höndum á þau eftir því sem þau gefa eitthvað að viti út og þau mættu öll sem eitt eyða allri sinni orku í að mótmæla lélegu aðgengi fatlaðra á opinberum stöðum með styrkktartónleikum mín vegna. Hér er nokkur sýnishorn úr "umræðunni" (sem vitanlega teygist í ýmsar fáránegar áttir eins og vanalega):
- "Björk er gift nýlistamanni en Bubbi fyrrum fegurðardrottningu. Bubbi á Range og Björk engan." 
- "Ég mun styrkja kallin um 5.000 kr. ef hann lofar að eyða honum ekki stax í hlutabréf, lax eða nýjan Range."
- "...heldur en sellátinn, lágmenningar-ædól-gúrúinn og jeppakarlinn Bubbi Morthens. Hann hefur sungið um stál, hníf og fiska á færibandi. Hvað meira? Ekki jack! Hann tapar verðbréfum, gerist öfundsjúkur og fær límsniffsflassbakk."
- "Það er með ólíkindum að þurfa hlusta á Bubba tala um hag alþýðunnar. Áhugamál Bubbar nr: 1. 2 og 3 er Bubbi sjáflur. Það hefur hann sýnt og sannað undanfarin ár. Bubbi gerir EKKERT nema hann hagnist sjálfur á því. Það er hans vandamál."

Eða með öðrum orðum: Get a læf, eða jafnvel: Zzzzzzz...

Þetta er þó nokkuð kúl innlegg: "Mér er farið að finnast að fólk sé byrjað að líta á álver sem einhverja þróunaraðstoð við landsbyggðina eins og þetta sé eitthvað sveltandi fólk í Afríku."
---
Í þætti Dodda litla og Andra Freys, Litly hafmeyjunni, var ég beðinn um eitthvað guilty pleasures í músik. Ég hugsaði mig lengi um og fattaði ekki neitt. Má ekki hlusta á allt í dag? Er nokkuð hallærislegt? Kannski ef ég væri leyni-Celine Dion fan að þetta virkaði en ég er það sem betur fer ekki. Ég fíla þó fullt af drasli sem er ekki kúl að segjast fíla, enda væri annað óeðlilegt. Það eru bara börn sem eltast við það sem á að þykja kúl. Það hefur t.d. verið voða kúl sl. 10 ár eða svo að fíla Beach Boys og vitna í sýrusprettu Brians Wilsonar í listsköpun sinni, en á sama tíma hafa Bee Gees þótt ekkert spes. Þó eru Bee Gees frábærir og ég setti þá fram sem mitt "guilty pleasure" þó þeir séu reyndar ekki alveg nógu hallærislegir. Þeir eiga vitanlega mörg skeið. Fyrsta sixtís skeiðið, sem er mitt uppáhalds og endaði í fremur máttlausu gutli. Svo var gutlað máttlaust þar til bræðurnir ráku tærnar í diskóið með glæsilegum árangri. Hófst þá síðara gullskeiðið, diskó Bee Gees. En allavega hér er eitt magnað frá fyrsta tímabilinu:

The Bee Gees - Holiday
Þeir sem brostu ekki í myndatökum voru fljótlega reknir.


10cc - Clockwork creep
Á meðan, segjum Nick Drake, þykir það fínasta í dag til að segjast fíla, eða jafnvel vitna í með innísig og vælandi tónsmíðum, er hin stólpafína hljómsveit 10cc alveg úti í kuldanum. Ég á allar plöturnar á vinýl enda ekkert svo erfitt að finna þær á íslenskum útsölustöðum, þetta var vinsælt band hérna og svona. Þetta lag er af Sheet Music, ljómandi reffilegt lag sem sullast í ýmsar áttir, progg en samt popp. Algjör snilld.


Billy Joel - Sometimes a fantasy
Billy Joel má alls ekki fíla, en ég geri það samt. Hann er svo mikill lúði eitthvað en með góðar melódíur. Svo hefur dempaða gítarhjakkið sjaldan náð annari eins fullkomnun og hjá honum (heyr þetta lag og hið magnaða It's still rock n roll to me, þar sem gamli maðurinn reyndi að bíta af sér vonda nýbylgjukauða 1980.


The Descendents - Myage
Ég er löngu hættur að hafa þemað guilty pleasures í dag. Nú erða bara skítapönk frá Kaliforníu af plötunni Milo goes to collage frá 1980. Talandi um gott pönk og svona.


Wire - One of us
Sú var tíðin að mér þótti fyrstu þrjár plötur ensku artpönksveitarinnar Wire með því allra besta. Sú skoðun hefur ekkert breyst svo mikið síðan. Þeir eru enn að, eldgamlir og lifraskemmdir. Object 47, ný plata, var að velta út og þetta er fyrsta lagið á plötunni og minnir ansi á gamlar gleðistundir.

21.07.08
Veðurbarinn útilegumaður rakar sig og kemur sér í borgargír á ný. Óbyggðir með moldarlykt minningin ein... þangað til næst.




14.07.08
Seinni hluta ágúst mun ég selja hluti úr eignasafni mínu í Kolaportinu. Nánar auglýst síðar.
---
En ég á stefnumót. Stefnumót við náttúruna. Og þrjú hundruð túrista sem ég fæ í flasið því ég labba Laugaveginn öfugt. Bless á meðan.

13.07.08
Mágkona mín segir að bæði Björgólfur Thor og Jón Ásgeir hafi verið á B5 í gær. B5, en ekki spilavíti í Mónakó? Djöfull er kreppan orðin hörð.
---
Á Húnavöku kom Merzedes Club á eftir Abbababb! og tók 6 lög. Þær raddir sem heyrst hafa um að í sveitinni séu ekki færir hljóðfæraleikarar hljóta að þagna snarlega því fagmennskan lak af hverjum meðlimi. Flutningur var óaðfinnanlegur og með nýtísku þráðlausum tækjum tókst hljóðfæraleikurum að framkalla nákvæmlega sama sánd og á plötunni. Söngkonan söng líka gallalaust og hljómaði alveg eins og á plötunni, sömu effektar og allt. Hvaða rugl er þetta í fólki sem segir hana slappa? Hinn ógurlegi Gazmaður, sem nú er orðinn svartur, gat hrist brjóstin í takt og stökk af sviðinu og lét börnin þukla sig. Ceres skók sig fimlega og hrópaði Blönduós! og fleira stuðhvetjandi. Ég tel fullvíst að sveitin eigi mikla framtíð fyrir sér og hlakka til að heyra plötu númer fimm.
---
Boðið var upp á markað og keypti ég 400 grömm af bitafiski til að japla á á Laugaveginum. Einnig var í boði 300 metra kaka og Hjörtur Howser birtist á bílastæði enda fluttur á Blönduós og kann vel við sig. Ég keyrði þvert og endilangt um bæinn og sá margt flott, til dæmis leifar af Krútti.
---
Í Hyrnunni fékk Heiða verstu pízzu í heimi, offisjallí, en ég hafði vit á að éta bara Sóma. Að vanda voru unglingar í Borgarnesi mættir til að sniglast um, kaupa bland í poka fyrir 65 og glápa á aðkomufólk. Því miður opnar Dússi ekki fyrr en 18 því annars hefði það verið málið. Landnámssetrið er of fínt. Borgarnes er flottur bær og minnir á Hafnarfjörð með hrauninu og gróðrinum.
---
Hræðilegt menningarslys sá ég á heimleið. Viðbjóðsleg inn og útlánsstofnun hefur troðið ógeðslegu risastóru auglýsingaskilti á vegginn hjá malarnámunni í Esjunni svo að hið fornsögulega FLATUS LIFIR! graffití (sem var orðið FLATUS LIFIR ENN! á síðustu árum) er horfið undir ferlíkið. Hryðjuverkahópurinn á bakvið Flatus lifir hlýtur að íhuga mótleik við svona ömurlegum tilburðum og skemmdarverkastarfssemi. Búúú á auglýsingamennina! 
---
Tveir rúnkarar eiga saman unaðsstund í Atlavík.

12.07.08
FÁFV (Frægir á förnum vegi): Sá Utanríkisráðherra á hjóli. Hún var með hjálm. Ég var að kaupa ís hjá Hagamelsís sem eins og alþjóð veit býður upp á besta ísinn fyrir utan hugsanlega Brynju á Akureyri. 

11.07.08

Cheap Time - People talk
Zúri bloggar sjaldan en er þó jafnan með puttann á púlsinum. Í nýlegri færslu benti hann á Cheap Time sem spila "í anda" Ramones og Buzzcocks. Þetta ku band frá Nashville, Tennessee og er að grautast í pönkinu af hressleika og með smjörsýrulegum hljómgæðum. Þetta fannst mér eitt albesta lagið af hinni ágætu plötu. Einfalt og ekkert helvítis vesen.
---

The Vines - Merrygoround
Æ já, stundum vill maður bara eitthvað einfalt. Áströlsku Vines eru að gefa út plötu nr. 4, Melodia. Þeir hafa nú stundum hitt nagla en oft verið hálf glataðir í Oasisrugli. Söngvarinn Craig ku með Asperger og er stundum með eitthvað rugl. Hér er skitsófrenískt lag af glænýju plötunni.
---
Full mikið í lagt hjá 24st að segja að "barist sé" um Popppunkt. Vonandi endar þetta á skjánum, kannski einhvern tímann á næsta ári. Þetta er allavega í útvarpinu núna og næst, á miðvikudaginn, keppa Töframennirnir Ingó Geirdal og Bjarni töframaður á móti systkinunum Ernu Hrönn í Bermúda og Jenna í Brain police. Plípp!
---

Seljavallalaug er nýjasta nýtt í Bakþönkum, reyndar Bakþanki nr. 80. Það er naumast að hægt er að þusa. Tók að mér, eftir langt hlé, að gagnrýna plötu í dag í Fbl, sjálfa Merzedes Club, enda hálfpartinn búinn að gera það hér að neðan. Kannski maður gaggist á einhverjum fleiri plötum svona ef maður er í stuði. Abbababb-hópurinn mun svo vera að spila á Húnavöku á morgun, ásamt einmitt MClub. Eins gott að ég rakkaði ekki plötuna niður því þá hefði ég verið buffaður svo ærlega í spað að það hefði mátt smyrja mig oná hrökkbrauð. Stuðið er á Blönduósi, troðið verður upp um kl. 14 að mér skilst.

08.07.08
Mér hefur ekki blöskrað neitt í nokkurn tíma nema þetta með Bíóbjössa og Ramses, en það er sægur af öðrum sem getur – og hefur – tjáð réttmæta blöskrun sína á því. Svo gæti ég sagt eitthvað um niðurlægingu pönksins en nenni því ekki. Í útvarpinu heyrði ég lag með Teiti hinum færeyska af nýrri plötu, held ég, fínt lag. Beinaxílafóninn minnir mig á lag með Devo svo það kemur líka. Annars er maður bara frekar andlaus en þokkalega hress enda sumar og það styttist í Laugarvegsgöngu með náttúruóverdósi og kúk í poka.


Teitur - Catherine the Waitress
Sungið er um Kötu frá Skúvoy, gengilbeinuna sem færði Teiti reglulega reyktan lunda og stropuð langvíuegg á Kaffihúsinu Roð. Eða bara um eitthvað sem hann sá á videó.


Devo - The Day my baby gave me surprise
Af hinni alltof góðu breiðskífu Duty now for the future frá því í gamla daga.

06.07.08
Á Höfn var humar. Ég gerði algjörlega það sem maður gerir á Humarhátíð og át bæði humarsamloku, langloku og heilu haugana af grilluðum humri. Það lak humar út um eyrun á mér. Og hvítlaukur. Gleðjast gumar. Setið var að humarsumbli með Bjarna töframanni sem sýndi spilagaldra og blés upp blöðrur við borð í tjaldi. Á leiðinni heim stoppuðum við ekki bara til að liggja í hinni frábæru Seljavallarlaug heldur keyptum líka heimalagaðan ís hjá Jöklaís. Leiðin á Höfn er gríðarfalleg en maður fer þetta því miður of sjaldan. 
---
Á leiðinni var meðal annars farið í hljómsveitarleikinn. Hann felst í því að gengið er á hringinn og fólk nefnir tónlistarfólk eða hljómsveitarnöfn, aftasti staðurinn er notaður. Til dæmis TrabanT, T'PaU, UndertoneS, SupertramP, PortisheaD, DevO, OffsprinG, GusguS, SaxoN, NefrennslI, InnvortiS... og svo framvegis þangað til fólk gefst upp og hættir að nenna þessu. Þá var líka hlustað á væntanlega plötu Merzedes Club. Hún er alveg fín, þannig, kannski bara ekki alveg nógu hörð (helst að Basscop passi við alla þessa vöðva). Þetta minnir einum of á tónsmíðar Mána Svavars í Latabæ. Ef ég væri að gaggrýna hefði ég líklega notað fyrirsögnina Solla stirða í G-streng.
---
Í Plípp næst verða tvö Eurovision-lið: Regína Ósk og Sigga Beinteins (Eurostelpur) mæta Friðriki Ómari og Eyjólfi Kristjánssyni (Eurostrákar). Það ætti að verða yfirgengilega spennandi.
---

Beck - Orphans
Bekkurinn kominn með nýja plötu og veröldin yppir öxlum, enda áttunda platan hans. Honum er nær að vera í Vísindakirkjunni. Nema hann sé það ekki. Nokkuð er um liðið síðan Beck var ferskasti skíturinn en mér heyrist hann engu að síður nokkuð vel ferskmarineraður á þessari plötu – tekur sixtíssækadelíuvinkil á þetta. En últraferskur Beck er samt ekki jafn ferskur og einhver nýgræðingurinn sem hefur nýjabrumið fram yfir. Hinn ofurfeimni Innipúki Cat Power leggur Beck lið í þessu lagi og það er Dangermouse sem pródúsar. 

04.07.08
Hjólfákurinn minn dó í gær. Hvalfjörðurinn varð hans hinsta för. Góðar stundir áttum við saman, ég og Gary Fisher Yahoo. Ég hlýt að hafa keypt hann 1996. Fínt hjól, náttúrlega enginn lúxus, en beisik stöff sem var orðið þreytt. Ég ætlaði að láta lappa upp á greyið. Fór með í Örninn og mjög góður starfsmaður á verkstæði var alveg með puttann á púlsinum og lét mig láta nákvæmlega hvernig útlitið væri, eins og læknir með sjúkling í aðgerð. Það hefði kostað 40.000 kall að koma hjólinu í form, skipta þurfti um eiginlega allt nema stellið og dekkin, þetta var orðið svo lúið. Hægt er að fá betri hjól á 35.000 kall svo Gary Fisher fer á haugana. Ég þakka samveruna. Nú tekst ég við það geysifrábæra verkefni að kaupa mér nýtt hjól. Neytandinn blossar upp. Bera saman. Skoða. Prófa. Tækninni hefur fleygt fram síðan 1996, þetta er allt komið með dempara, álstell og vesen. Það er freistandi að halda sig við Gary Fisher, en Örninn flytur reyndar bara inn betri týpurnar núna svo maður er að horfa fram á 100 kall plús. Þar sem upplagt væri að hjóla miklu meira dags daglega en maður gerir og svo jafnvel til Akureyrar og/eða Hringinn í framtíðinni, þá er kannski alveg eins gott að láta bara vaða á góða og dýra týpu strax. Frábært hjól er svo sem ekki meira en tvær helvítis afborganir af helvítis Renault helvítinu á myntkörfuláni Satans.
---
Talandi um Renault. Manstu eftir þessum:

Renault 4 voru algengir á götunum hér en ég var búinn a gleyma að þessir bílar hefðu verið til. Í Belgrad var ég ánægjulega minntur á tilvist þessara bíla á ný. Þar var allt fullt af þessu.

03.07.08
Áríðandi tilkynning: Abbababb! hópurinn (ég, Heiða, Elvar og Kristján Freyr + sérstakur gestur: Felix Bergsson!) leika og syngja á Humarhátíð, Höfn, á föstudagskvöldið og á Húnavöku, Blönduósi, laugardaginn 12. júlí.
---
Eftir æsispennandi keppni stóðu Jesúfeðgar Pétur Örn og Guðmundur Benediktsson uppi sem sigurvegarar í Plípp í gær. Næst verð ég að fá konur í þáttinn. Mig verkjar í kynjagleraugun enda bara ein kona búin að taka þátt só far (Ólöf Arnalds).
---

Serge Gainsbourg - Evguénie Sokolov
Mér var sent þetta gullfallega lag sem fulltrúi frets á Íslandi. Það er meistari Gainsbourg sem flytur ásamt Sly og Robbie og fleirum. Kom út á reggae-plötunni hans Mauvaises nouvelles des étoiles sem kom út 1981. Evguénie Sokolov er einnig heiti á skáldssögu Gainsbourgs frá því árinu áður sem byggir hugsanlega á ævi Joseph Pujol. Sá vann með neðri hringvöðvanum á sér í Frakklandi á þarsíðustu og síðustu öld og er hinn upprunalega prumpukarl.

02.07.08

Já, sem sé kominn með nýja stöðu. En gamla góða okursíðan er þó auðvitað enn í fullu svíngi.
---
Grímur orðinn bæjarstjóri Bí, Blö... ég þarf alltaf að syngja lagið til að muna hvað bærinn heitir, Búðardal. Það heitir reyndar sveitarstjóri Dalabyggðar. Innipúkinn verður svo líka. Alltaf nóg að gera hjá Grími.
---
Creed er líklega versta hljómsveit í heimi. Nema það sé Nickelback. Á heimasíðu Birkis Fjalars eru línkar í glæsilega Creed-útfærslur á jútjúb. Aldeilis fyndið stöff, sérstaklega seinna myndbandið.
---
Núna á eftir kl. 10.10 á Rás 2: Æsandi Plípp 4 með Krumma og Bó gegn Pétri Erni og Guðmundi Benediktssyni (eþs 3 Jesúsar og Bó).

01.07.08
GWBush var við völd í 8 ár. Ef Obama verður forseti í 2 kjörtímabil verð ég 51 þegar næsti ameríski forseti tekur við. Það er ekkert mál að sætta sig við að vera orðinn fertugur og gott betur, en satt að segja er þetta fimmtugs-eitthvað dáldið ógnvekjandi. Helvítis tími alltaf að bögga mann.
---
Svo má alltaf gera eitthvað trix eins og sprengja Íran til að hinir illu repúblikanar haldi velli. Djöflum alheims hlýtur að vanta eitthvað gott núna. Það er full mikil ró á heimsmálunum. Bara svona undirliggjandi ógn og heimsendafílingur, en það vantar góða skvettu á bálið. Ameríkanar eru farnir að vera alltof kærulausir og Jay Leno alltaf að dissa Bush og svona. Koma svo djöflar, gerið okkur hrædd og óörugg.
---
Og þá meina ég hræddari og óöruggari en við erum núna með sífellda krepputalið, atvinnuleysis og vaxtaokurshækkanasuðið – OG ÞETTA Á BARA EFTIR AÐ VERSNA. Þá kemur gömul sígild lumma upp úr digrum hálsum: virkjum okkur og álum aftur til góðæris.
---
Enn á ný er Benedikt Lafleur hættur við Ermasundið. Þetta er listinn sem honum langar til að bætast á. Athygli fjölmiðla minnkar við hvert sund. Þegar honum tekst þetta loksins verður kannski enginn að fylgjast með.

30.06.08
Við mússu Múgabes! Ég sé ekki betur en karlinn eigi ekki bara eina mussu með mynd af sjálfum sér, heldur fleiri! Hér er hann í glæsilegri grænni versjón. 

Og hér í svartri:

Ætli hann einn megi vera í svona fötum? Hvað myndi gerast ef Svangiræ birtist í svona? Ætli þetta sé fjöldaframleitt? Getur einhver tuskubúð í Kringlunni hafið innflutning? Ég er allur eitt ? um Múgabemussurnar. Hann er kannski út úr heiminum og stjórnlaus morðhundur... en aldrei var Hitler svona töff samt. Alltaf í sömu hallæris nasistalörfunum.

29.06.08

Er það rugl í mér eða er gamli góði Robert Mugabe stundum í litríkri jakkafatamussu með myndum af sjálfum sér á? Djöfull er það kúl. Flott ef Geir Haarde væri alltaf í svona dúndursýrðri mussu með myndum af sjálfum sér á. Hann er kannski mannæta og illmenni en á þó allavega töff mussu. Múgabe, meina ég. Smá svona merki um geðsturlun samt þegar maður er farinn að ganga um í fötum með myndum af sjálfum sér á. Ætli sé hægt að kaupa svona Múgabemussu einhvers staðar? Maður yrði sko ekki alltaf mega halló í svona glæsiklæðnaði. Jólagjöfin í ár.
---
Mennirnir voru svo elskulegir að gefa okkur Arnari Eggerti ilmandi ný eintök af Hjaltalín og Sprengjuhöll á vinýl. Af því við erum vinýlperrar, vildu þeir meina. Ég fattaði þegar ég renndi nögl yfir plöstunina að ég hef ekki komist í tæri við nýjan vinýl svo árum eða áratugum skiptir. Ég fann gamlan en spriklandi draug lifna á ný í brjósti mér. Djöfuls gleði að fá nýtt ilmandi ferskt plast í lúkurnar. Ég sannfærðist endanlega um algjöra yfirburði þessa forms. CD er hreinlega sorp. Ég er jafnvel að spá í að sleppa því að gefa hina boðuðu sólóplötu Allt mjalla á cd, bara beint í vinýlinn. En náttla digital líka. Vera með einhvern díl, x fyrir niðurhal, xx fyrir hal og plast. Útgáfa þessara platna hjá strákunum er annars gríðarvel heppnuð. Þetta er framfortíðin!
---
Mark Prindle er einhver rugludallur með plötugaggrýni. Hann tekur m.a. fyrir Sigur Rós og tekst í dómi um nýju plötuna að blanda dauðu ísbjörnunum inn í myndina. My point is this: until Iceland stops killing all the adorable gigantic bears that wash up on their shore, I'm not going to give any new Sigur Ros records higher than a 6. Já, ímynd Íslands hefur boðið skaða af, bú hú... 
---
Nei, ég nennti ekki í Laugardal, en ég fór á Speed Racer. 

28.06.08
Plötunar með Sprengjuhöllinni og Hjaltalín eru komnar á vinýl og að því tilefni verða böndin með stuð í Kolaportinu í dag á milli 13-15. Ég mæti.
---
Nú á að víkka hugmyndina með Okursíðunni og færa hana inn á síður Fréttablaðsins, þar sem ég starfa hvort sem er. Það hefur þótt rugl að nota þetta ekki þar. Okursíðan heldur auðvitað áfram og verður pönk á meðan það sem kemur í Fbl verður aðeins meira njúveif, jafnvel popp, enda virðulegri miðill. Svo ef þú hefur eitthvað á móti því að okurbréfið þitt birtist hugsanlega líka í Fréttablaðinu, þar sem farið verður dýpra í málið og líklega með svari "okrarans", láttu þá vita. Nöfn sendanda munu fylgja með frá og með 902. færslunni, nema nafnleysis sé sérstaklega óskað. Svo má svo sem senda meira en okurdæmi, eins lengi og það tengist neytendamálum.
---
Næsti Plípp verður geðveikur (miðvikud. 2/7). Þrír Jesúsar og einn Bó, toppaðu það! Sem sé, feðgarnir Pétur Örn og Guðmundur Benediktsson og móti feðgunum Krumma og Björgvini Halldórssyni. Björgvin bað mig um að hafa engar spurningar um ömmu Joeys Ramones.
---
Sá myndina Into the Wild í gær. Gagnrýnd.
---

Simon & Garfunkel - A Simple Desultory Philippic (Or How I Was Robert McNamara'd Into Submission)
Ég held það sé hreinasta sturlun að mæta ekki á Paul Simon á þriðjudaginn. Hrúga af góðum lögum sem stubbur hefur búið til bæði sóló og með Art. Hann mætir með band og þetta er fyrsta giggið hans í túrnum. Held þetta geti alls ekki klikkað. Ég mæti allavega! (Þetta ólíklega lag er af plötunni Parsley, Sage, Rosemary & Thyme frá 1966. Ég hallast að því að fíla Simon & Garfunkel frekar en sólóstöffið, en lög eins og Kodachrome og Mother & Child reunion eru þó vissulega frábær.) Art hlýtur að hafa verið svona hvetjandi.
---
Maggi Strump er á hvílíkri útopnu í mp3-blogginu sínu. Hann er óþreytandi við að plögga væntanleg Airwaves bönd. Þú kemur frá Magga með fullan harðan disk.
---
Djöfull sé ég eftir að hafa verið að væla þetta um góða veðrið í gær. Nú er komið skítaveður og mér verður kennt um allt. Ég er meira að segja búinn að rústa Náttúrugiggi turnanna tveggja. Ég skal hlusta tíu sinnum á nýju plötuna með Garðari Cortez á fullu blasti til að refsa mér.

27.06.08

Girl Talk - Set it off
Nýja platan með Gregg Gillis er loksins komin út. Gregg kallar sig Girl Talk og gerði frábæra plötu fyrir tveim árum, Night Ripper, sem hefur komið sér mjög vel á brettinu. Þetta er listilega saumuð bútasaumsmúsik, samplað og skeitt saman í öfluga heild, gamalt notað til að gera nýtt. Ég er búinn að bíða lengi eftir nýrri plötu enda er alltaf not fyrir gott stöff á brettinu. Og semsé, loksins er ný Girl Talk plata komin, Feed the Animals, og hana má dánlóda og borga fyrir það sem manni dettur í hug. Ég greiddi 6.66$, af því það er svo töff verð. Sækist hér.
---
Ólöf Arnalds syngur baráttulagið Af stað. Ókeypis hér.
---
Nú væri fínt að fá smá rigningu og rok. Í alvöru. Ég vil ekki hljóma vanþakklátur en maður er orðinn þokkalega góður af léttþvalasvitafílingnum. Hafa smá tilbreytingu í þessu, ha veðurguð?

24.06.08
Enn eitt hrunið: Pétur Blöndal og Ögmundur fengnir enn og aftur í sjónvarpssal til að þusa sjálfsstýrðum vaðli: Er hægt að hafaða meira fyrirsjáanlegt? Verða þeir kallaðir aftur til í næstu viku þegar Evran verður 150, bensínlíterinn 200 og lánin hækkuð um 20%?
---
Íslenskt mál. Skv. orðabók er Láfa "grófyrði um sköp konu og kvendýrs". Grófyrðið er þó svo lítið í tísku að það er ekkert gróft. Troddu þessu í láfuna á þér, er nú bara krútt. Lágfóta er hins vegar Tófa.

23.06.08
Ég segi það sama og ég segi alltaf í góða veðrinu í útlöndum: Ekki skil ég hvernig nokkur nennir að gera rassgat í þessu veðri. Maður er bara búinn að sluxa og pikknikka og svamla og nennir því varla heldur.
---
Næsti Plípp (á miðvikudagsmorgun á Rás 2) verður tímamóta. Þá keppa Hemmar (Benni Hemm Hemm & Hemmi Gunn) á móti VKÓP Allstars (Blazroca & Sesar A). Búast má við ótrúlegum spena.

21.06.08
Nýji sumardrykkurinn Rímix er auðvitað kominn á Gos. Maður er alveg á tánum sko.
---
Ég átti 600.000 kall fyrir nokkrum árum (hafði nurlað þessu saman árum saman) og keypti 10.000 hluti í Decode sem þá var á genginu 60. Davíð Oddsson og allir þessir kallar töluðu um fyrirtækið sem það frábærasta síðan Jesús ristaði brauð og ég sá fyrir mér stórgróða á skömmum tíma. Núna er gengið á 0.77 og 600.000-kallinn minn orðinn 7.700-kall. Ég er brjálaður.
---
Nei ég er bara að ljúga. Glætan að mér hefði einhvern tímann tekist að nurla saman í eitt né neitt, hvað þá eitthvað jafn heimskulegt og hlutabréf. Fyrst þyrfti ég að kaupa alla gítara í heimi og fara í allar utanlandsferðir í heimi. Það er líka alveg liðin tíð að maður eigi pening eftir að Vísa kom til sögunnar. Og mér drepleiðast líka peningar. Ég átti slatta af Evrum um daginn og gerði ekki annað en fara á taugum yfir genginu. Einn daginn átti ég svona mikið í íslenskum og hinn svona mikið og svo þurfti maður að fara að spá: hækkar þetta eða lækkar? Ég skipti þessu svo auðvitað á vitlausum tímapunkti. Ég væri líka alltaf á taugum ef ég ætti einhver helvítis hlutabréf. Það vantar í mig allt gambl-element. Ég vil vera kúl og segja: Fokk peningar, ég hef ekki áhuga. En samt stjórna peningar manni alltof mikið. Skapið fer eftir bankainnistæðunni. Manni er rótt ef maður á fyrir skuldunum en allur á iði og jafnvel andvaka ef allt siglir í rugl. Er því ekki freistandi að gefa skít í vestrænt velmegunarrúnk og enda í sjálfbæru peningalausu þorpi í eyðifirði? Nýhippakommúnu með nokkra frjálsa ísbirni á kantinum?
---
Við Biggi hjóluðum Hvalfjörð í gær í geðsjúkri rjómablíðu. Með hjólin í strætó upp á Akranes og svo gamli þjóðvegurinn í bæinn. Ferstikla klikkaði ekki með pulsu og kók og gamla yfirgefna þorpið í Hvalfirði er nokkuð spennandi – minnir á Dharma í Lost. Hvað er í öllum þessum bröggum? Hver á þetta? Er hægt að kaupa þorpið á einu bretti og breyta í nýhippakommúnu? Sjálfbært og heimsendalegt. Hægt að vera með sölubás með grænmeti og listmuni fyrir þá sem álpast þarna um. Meðlimir yrðu að yfirgefa gamla lífið fyrir fullt og allt. Sá sem læddist í burtu og færi í Smáralind yrði skotinn við heimkomu. Nei, ókei, bara settur í "holuna" í viku til að hugsa sinn gang.
---
Annar staður upplagður fyrir kommúnu er Ingjaldssandur. Afskekkt fyrir vestan. Bara verst maður þyrfti að vera svo handlaginn til að gera eitthvað gagn á svona stað. Það þarf endalaust að ditta að og eitthvað endalaust vesen. Ég yrði þá bara að sjá um listmunina fyrir sölubásinn og grænmetið.
---
Svo þarf kannski ekki endilega að stofna nýja kommúnu. Ganga bara til liðs við kommúnu sem er fyrir. Nóg af þeim, sjá http://directory.ic.org/. Eina starfandi kommúnan á Íslandi, samkvæmt landfræðilega listanum, er Sólheimar. Það er eðalpleis. Væri vel til í að búa þar. Og enginn skotinn þótt hann fari í Smáralind.
---
Ég hjólaði Hvalfjörð fyrir einhverjum árum og þá tók það 6 tíma, Akranes-Esjuskáli. Nú eitthvað meira sökum óflýtis. Rosagaman og upplagt. Fáir bílar að bögga mann. Síðasti spölurinn á 101 er hins vegar helvíti. Örmjó rönd í vegakantinum til að hjóla á við hliðina á aðvörunarrifflum sem vonlaust er að hjóla á. Allir á 120, skröltandi tjaldvagnar, kerrur og 16hjóla trukkar. Ég hélt ég myndi drepast. Rifjaði upp brandarann Hvað er það síðasta sem fór í gegnum hausinn á flugunni sem lenti á bílrúðunni, rassinn, nema bara öfugt núna. Hvað var það síðasta sem fór í gegnum rassinn á mér þegar trukkurinn keyrði aftan á hjólið, hausinn.
---
Svo það misskiljist ekki enn frekar: Blogg á auðskildu máli:
Megas: Sell-át. Sjá gamla grein hér. /
Ísbjarnar-væl: Fólk, kommon! /
Ólafur F: Hættu að smæla, það kaus þig enginn /
Góð-ærið: Búið. Húrra!!!

18.06.08
Vó, róleg á laginu... Sextán gestir hafa bent mér á að lagið er 

Narcotic með þýsku hljómsveitinni Liquido

Tveir sendu rétt svar á sömu mínútunni, kl. 16:18, Búdrýgindi og Elmar Freyr Torfason. Þeir aðilar þurfa að minna mig á gjafaeintak af Öllu mjalla þegar hún kemur út, áritað auðvitað. Mestu máli skiptir nú að ég get litið framan í heiminn án þess að vera að raula þetta helvítis lag inn í mér og ekki vitandi hvað þetta er. Ég þakka þeim sem brugðust við á hraða ljóssins! Greinilega mikið magn músiknörda sem les þessa síðu. Var einnig bent á þessa síðu í álika vandræðum. Mun skemmtilegra er þó að spyrja gesti, já eða bara smyrja gesti.
---
Færi hingað orðaskipti af Gestabók:

Halli segir: Hva, má ekki Megas selja sig einsog aðrir. Er hann eitthvað minna andlegur 
fyrir það? Og af hverju er þessu alltaf stillt upp sem einhverjum andstæðum 
þ.e. bissness og list? Og þá að einhver sem reynir að græða pening sé vondur 
meðan hinn sem gerir það ekki er eitthvað voða andlegur og góður. Ég meina 
það þurfa allir að éta, sérstaklega Megas. Er Megas ekki líka sellout þá að selja 
plöturnar sínar? Eða fellur það í andlega og göfuga flokkinn? Annars takk fyrir 
skemmtilegasta bloggið á Íslandi.

Ég segi: Ég er alls ekkert að dissa Megas. Hef sjálfur margoft selt mig. Ekkert að því. 
Málið með Megga er bara að hann hefur hingað til EKKI selt sig þrátt fyrir tilboð 
þar að lútandi og því er um að ræða ákveðin tímamót í poppsögunni. Síðasta 
vígið fallið, ef svo má segja (fyrir utan hugsanlega Bjartmar, sem hefur kannski 
bara ekki fengið nógu góð tilboð ennþá.)
---
Mín helsta martröð er að fá lag á heilann og vita ekki hvað það er. Nú er ég með eitt helvíti á heilanum, eitthvað svona leit næntís, örlí tventís stöff, amerískt líklega í sama flokki og Smash Mouth, Fastball, Cake, Eels, Sugar Ray og það dót, poppað Weezer-dæmi eitthvað, háskólarokk. Þetta var vinsælt á Íslandi. Ég er búinn að bögga alla á Rás 2 með þessu, þeir kannast við lagið en geta samt ekkert hjálpað mér. Svo áður en ég missi vitið kemur hér lagið í munnlegri geymd:

Hvaða lag er þetta?

Sá sem fyrstur getur sagt mér hvaða lag þetta er fær fyrsta eintakið af sólóplötunni Allt mjalla þegar hún kemur út.
---
Þar kom að því. Megas er búinn að sella át. Hann smælar nú framan í heiminn í Toyota-auglýsingu, fyrir 1.5 milljón heyrir maður. Oft hefur Megas verið beðinn um lögin sín í auglýsingar, Reykjavíkurnætur skilst mér í Flugleiðir og eitthvað, en kallinn sagt nei hingað til, veit ekki hvers vegna, ekki nógu vel borgað kannski eða mottó. Það hefur þótt virðingarvert, að Megsar væri ekki eins og sellátarinn Bubbi sem selur notaða bíla og rassgatið á sér eins og drekka vatn. En nú er sem sé síðasta arðan komin í kjaft kapítalistanna og því ber auðvitað að fagna með ferð í Kringluna. Nei, ekki alveg síðasta arðan. Ef mig misminnir ekki þess meira er meistari Bjartmar enn án selláts, ég er samt ekki viss. Minnist einhver að hafa heyrt lag með Bjartmari í auglýsingu? Er Bjartmar andlegi leiðtoginn nú þegar sellát Megasar er staðreynd? Annars er þetta fín auglýsing hjá auglýsingastofunni og aldrei að vita nema ég fengi mér Toyota ef ég væri ekki þræll bílaláns á láni 15/36 og að auki á myndkörfudíl sem hækkar og hækkar. Toyota Aygo væri þá málið. Eyðir engu sú tík.
---
Gaman væri ef Megas væri kominn á bragðið og færði sig upp á skaptið í þessum vel borgaða bransa. Toyota fengju hann í stað Egils Ólafssonar í að lesa, eða Megas væri í annarri hverri auglýsingu veifandi Smjörva og grillkjöti. Vonandi.
---
Móðursýki og hálfvitagangur út af þessum ísbirni. Ágætt er að benda fólki á þetta hjá honum Grími sem kallar á fókus.
---
Forsetinn dælir út Fálkaorðum eins og sælgæti. ekki betur en Kjartan í Sigur Rós hafi fengið eina í gær. Meira ruglið og eins og ég hef bent á á að steypa þessa orðudruslu í ál og senda á hvern kjaft fyrir það eitt að þrauka á þessu veðurbarða vindrassgati. 

17.06.08
Það hljóta að vera einhver not fyrir þennan ísbjörn. Er ekki hægt að þjálfa hann til að finna dóp? Hassbjörninn Herkúles fann 700 kg af hassi hjá ellilífeyrisþega sem var að koma frá Færeyjum. Kannski getur löggan þjálfað hann til að vera "varnar"-dýr. Lögreglan á Akureyri neyddist til að nota varnarbjörninn á fulla unglinga á Bíladögum. Sjö lágu í valnum. Svo má bara drösla honum í Húsdýragarðinn og láta hann vakna úr rotinu í selastíunni. Æðisgengið og blóðugt náttúrusjó þegar selir og björn takast á. Bannað innan 18 ára. Splatter. Ágóði rennur til Kattholts. En það er auðvitað vangefin hugmynd að drösla ísbjörnum aftur til Grænlands. Þar er litið á þá sem meindýr. Svona svipað og ef Grænlendingar kæmu deyfðum rottum í poka aftur til okkar. 
---
Segjum að það kæmu 17 ísbirnir í viðbót. Á hvaða tímapunkti myndu fjölmiðlar hætta æsingnum? Jæja, tólfti björninn bara kominn, á síðu 16. Þetta var ísbjarnarblogg vikunnar.

16.06.08
Birgir er ekki eingöngu byrjaður að blogga aftur heldur líka búinn að kaupa sér múffu. Ég bíð spenntur eftir múffurannsóknum hans. Sjálfur keypti ég mér einu sinni harðgúmmíhosu með titri og pumpu. Þetta var vægast sagt ömurlegt hjálpartæki og þegar ég blóðþrútinn og ófullnægður gafst upp gaf ég ónafngreindum vini mínum tækið. Það nýttist honum ekkert heldur. Nú geymir eilífðin tækið eins og hvert annað titrandi smáblóm. Þrátt fyrir ömurlega reynslu af einu hjálpartæki væri ég alveg til í að reyna fleiri, enda hefur tækninni fleygt fram síðan 1986. Japanar hafa náttúrlega forystu í þessum málum sem fleirum. Maður kaupir sér samt ekkert svona, vitandi að þetta gæti verið gagnlaust drasl, og ekki leigir maður sér svona heldur. Hjálpartækjaleiga Gústa er til dæmis dæmdur bisness til að mistakast. Kannski ætti Goldfingeiri að kaupa nokkrar real dolls, leigja húsnæði og selja út klukkutímann á 5000 kall. Japanakrípin eru náttúrlega byrjuð á þessu (myndband). En ég tek undir með Bigga, samfélagið dæmir karla að ræða svona sem viðbjóð en konur mega ræða píkuna á sér út í eitt, heiðvirðar þingkonur á sviði, ekkert mál, og það þykir agalega fínt og snarlega viðurkennt. Ég sæi Gunnar Birgisson og Árna Johnsen ekki beint fá grænt ljós á Typpasögur í Borgarleikhúsinu.
---
Flautublásarinn í "Stóra bakarís-málinu", hin svokallaða "Bakarís-stelpa", skrifar kjarnyrtan pistil sem birtist á Okursíðunni (#839) í dag.
---
Í næsta PLÍPP, annarri umferð á miðvikudag, mætast lið Óttarra (Felix, Proppé) og lið Frændsemi (Ólöf Arnalds, Siggi Finns). Búast má við velsmurðupopphjóli.
---
Að sitja í farþegasæti í bíl sem keyrir um Borgarfjörð og Húnavatnssýslu er ágætis aðstaða til lagasmíða. ÞÞ (heitir líklega annað á endanum), Ungakaka, Dyntótt og Einbreið brú eru meistaraverkin sem komu út úr ferðinni, en þess ber að geta að öll lögin eru stutt, gætu endað í "syrpu". Var við ættarmót að Laugarbakka þar sem Eiríksjökull bar meistaralega við himinn. Þá var sólarlag einstaklega appelsínugult á þessum slóðum, enda sest sólin ekki á þessum árstíma heldur syndir í hafinu. Afgreiðslukona í Shellsjoppu á Hvammstanga sagðist jafnan fara út í Hindisvík til að fylgjast með sjónarspilinu á Jónsmessu.

13.06.08
Breti með tennur frá helvíti hlær svo mikið að löggan kemur og gasar hann. Sjá.
---
Einu sinni var ég á kafi í Ren & Stimpy og fannst ekkert eins skemmtilegt. Svo fylltist allt af hundlélegum R&S-klónum og ég misst snarlega áhugann. John Kricfalusi, höfundurinn, bloggar hér.
---
Þessir hlekkir og rosalega margir aðrir eru á Boing Boing, líklega besta blogglínkasafninu í dag. Annað gott er á heimasíðu WFMU-stöðvarinnar, hér. Þess má geta að stöðin er besta útvarpsstöð í alheimi og þar má bæði hlusta læf og á eldri þætti mjög langt aftur í tímann.
---

Hef loxinz klárað sjálfsævisögu Marks E. Smiths, leiðtoga The Fall (gaggrýnt). Hann hefur komið hingað þrisvar 1981, 1983 og 2004 þegar ég var svo frækinn að hita upp fyrir hann 2svar á 2 geðsveittum giggum. Síðan þá hefur hann náttla rekið alla í bandinu nema konuna og fengið nýja menn. Sagnfræðileg heimildarvinna er kannski ekki alveg 100% í bókinni eins og sjá má á eftirfarandi kafla um fyrstu heimsókn hans til Íslands. Hér voru teknir upp kaflar á Hex educational Hour plötunni, sem almennt eru talin til helstu meistaraverka The Fall. Í Hljóðrita sem eins og allir vita var búinn til úr hrauni og leit út eins og snjóhús. Á umslaginu má svo sjá myndir frá Íslandsferðinni, m.a. glæsilega mynd af Ása "í Gramminu" í rútu. 

12.06.08
Að móðgast fyrir hönd annarra er Bakþanki dagsins. Ræ ræ ræ...
---
Ég er að vona að bragðlaukarnir á mér séu allir að koma til. Þeir voru í góðu stuði í gær og hreinlega fóru á kostum, maturinn sem Lufsan kom með úr Bónus var alveg æðislegur. Fyrst jarðarber í öskju. Þau voru rosalega bragðgóð. Vanalega fær maður bara bragðlaust rusl og helmingurinn ónýtur í rándýrri öskjunni, en nú var ekki nema eitt ber ónýtt og allt svona líka geðveikt gott. Reyndar risastór ber og maður fór strax að fabúlera um að þetta væri geislavirkt eða sprautað með svínafósturvísum, eða hvað þetta erfðabreytta dót er sprautað með. Það er víst fullt af erfðabreyttu stöffi á markaði hér en okkur er auðvitað haldið í neytendamyrkrinu með það eins og annað. En góð voru berin allavega og askjan "ekki nema á" 329. 
---
Næst var komið að parmesan osti. Vanalega hef ég rifið þetta oná mat og ekki fundið nema örlítinn bragðkeim, en nú kom bragðið á fullum þunga upp í kjaftinum á mér og svona líka massagott bragð. Ég hef áhyggjur af þessu. Kannski er aukið bragðskyn byrjunin á hræðilegum sjúkdómi. 
---
Fyrsti PLÍPP gekk án teljandi klúðurs. Poppblaðamennirnir höfðu þetta, en það var eins og allur vindur færi úr Tónleikahöldurum eftir að hafa verið með stöðuna 2-0 í "Taktu lagið". Þá hringdu þrír inn í röð og völdu útgáfu Poppblaðamanna á Blowin in the wind svo þeir unnu 2-3. Útgáfa Tónleikahaldara á No woman no cry var þó tvímælalaust betri að mínu mati. Í næstu viku keppa svo... tja, það kemur í ljós í dag.

11.06.08
Á nýju plötunni, sem kemur út í haust, verður að öllum líkindum kóverlag með nýjum texta eftir mig sem heitir Rassgat. Rassgat er bæði net og com.
---
Stundum læt ég mér detta í hug að blogga ekki neitt í eitt ár og skrifa frekar eina bók í öllum tímanum sem fer í bloggið. Það er nú alveg hellings tími skal ég segja þér. Mun vænlegra til árangurs í ódauðleikafílingi að skrifa bók en blogga. Það þarf ekki nema að ein tölva út í bæ hrynji að allt mitt blogg sé farið fyrir bí, en kannski alveg að brenna 2000 bækur til að bók drepist endanlega (meira sé mark takandi á Fahrenheit 751 (eða hvað sem það var, nenni ekki að gúggla því). Svo les enginn gamalt blogg en það er alveg séns að einhverjir lesi svona bók alveg kannski 50 árum síðar. Einhver frík að gera bókmenntaritgerð í HÍ árið 2060 eða eitthvað. Ég lifi.
---
Tuttugu ný okurdæmi síðan í gær. Nú er hinn aukni straumur að þakka viðtali sem birtist við mig vegna "Stóra bakarís-málsins", sem má lesa allt um í línkum neðst í viðtalinu. Skildulesning fyrir neytendur.
---
Ef þú ert að lesa þetta eldsnemma minni ég á Popppunkt á Rás 2 núna klukkan 10.10. Æsispennandi byrjun á Popplandsmeistari í Poppunkti 2008 (PLÍPP).

10.06.08
Melabúðin. Ég þoli ekki þá búð. Jú jú, afgreiðslufólkið er ægilega ljúft og almennilegt og kjötborðið þokkalegt en verðin þarna gera mig brjálaðan. Og ekkert merkt. Að versla þarna er rússnesk rúlletta. Maður tekur kannski dós af ólívum og heldur niðrí sér andanum við kassann... skildi þetta kosta 200 kall, 300 kall... nei nei, 459 kr. Æi, ég held ég sleppi þessu þá – svona fílingur. Algjört rugl. Ég tók þá ákvörðun þegar ég greiddi 3000 kall fyrir 1/3 úr plastpoka, það sem átti að vera heilsusamleg heilsubuffamáltíð með salati, að sleppa frekari viðskiptum við þessa okurbúllu. Nú þegar ég hef tekið þessa neytendasinnuðu ákvörðun slepp ég náttúrlega við að nuddast utan í viðskiptavini á þröngum göngunum. Þarna verslar vesturbæjareðallinn, ekkert nema einhverjar leirkerlingar, fiðluleikarar úr sinfóníunni eða vælandi fyrrum bæjarstjórar eins og þessi, og allir að snobba svona líka ægilega með buxurnur á hælunum í þakklæti fyrir að kaupmaðurinn á horninu sé nú enn við líði og á kafi í meltingarveginum á því.
---
Keypti í fyrsta skipti bensín fyrir 8000 kall í gær. Ég óskaði sjálfum mér til hamingju.
---

Fleet Foxes - White Winter Hymnal
Nýjasta hæpið. Strákar frá Seattle, ekki nema 21árs, að gera góða hluti á fyrstu samnefndu plötunni, smá beach boys + þjóðlagaþrungið öðlingspopp. Þegar ég heyrði þetta lag fyrst minnti það mig mjög á þegar ég heyrði fyrst í The Shins (hið magnaða lag New Slang). Fleet Foxes strákarnir ættu að baða sig upp úr hæpinu. Það eru 99% líkar á því að þegar þeir gefa út plötu númer 3 að öllum verði orðið drullusama. Svona virkar bara hæpmaskínan á flöktandi og dyntóttu öldinni. 

09.06.08
Popppunktur snýr aftur! Og nú á Popplandi Rásar 2. Popppunktsmeistarar Popplands mun standa uppi í september eftir æsandi 16-liða útsláttarkeppni. Að þessu sinni eru liðin tveggja manna og gífurlega blönduð en þó eru yfirleitt popparar af ýmsum sauðahúsum í liðunum. Skrallið hefst núna á miðvikudaginn kl. 10 (um morgun) í Popplandi. Fyrstu lið til að keppa eru lið Poppblaðamanna (Atli Fannar og Biggi í Maus) á móti Tónleikahöldurum (Guðbjartur Finnbjörnsson og Grímur Atlason). Svo koma hin ýmsustu og skrítnustu lið til með að keppa. Massíft stuð.
---
Viðbætur að vanda á okursíðu og í sund/fjöll þar sem gönguhópruinn Blómey fór í fjölmenna ferð upp á þvert og endilangt Meðalfellið í gær. Hvalfjörður er algjörlega málið og ég er að hugsa um að hjóla hann aftur frá Akranesi eins og ég gerði um árið. Þetta er orðin náttúruparadís síðan göngin komu.

06.06.08
Smá mistök hjá auglýsingadeild...

05.06.08
Maður hefði getað verið á fjöllum þegar jarðskjálftinn kom. Jörðin hreinlega rifnaði undir fótum manns og maður lá ofan í glænýrri rifu þegar lætin voru yfirstaðin. Dustaði sig hríðskjálfandi og skíthræddur. Snéri sér við og þá kom ísbjörn og sló mann með hramminum, vamm... dauður. En hvað gera fréttamenn í næstu viku ef hvorki jarðskjálfti og ísbjörn reka á fjörur okkar? Geimverulending, eldgos, alþingismaður uppvís að mannáti? Við skulum vona að það verði eitthvað. Annars erða bara gúrka.
---
Séríslenskt gluggaveður. Eins og í Grindavíkurbók eftir Guðberg Bergsson. Maður hættir sér á hjóli í vinnuna. Geðveikur mótvindur á leiðinni. Og frekjulegar vindhvinur annað slagið og moldrok. Djöfulsins falsveður. Voða gott út um gluggann. En maður fauk þá allavega í einum rikk heim til sín.
---
Mér finnst Bill ágætur en Hillary glötuð. Hvað er ég? Helvítis karlremba? Obama lofar voða góðu. Ég hef reyndar ekki látið dáleiðast af ræðuhöldum hans en hann bíður af sér góðan þokka, eins og sagt er. En ætli gamla hvíthærða klessan vinni þetta ekki. Því verður eflaust komið inn hjá amer-bolnum að Obama sé snobbaður uppskafningur en McCain "einn af oss" og myndir af honum að gantast á rednekk-bar munu ráða úrslitum. Eða kannski ekki! 
---
Jón Ársæll hringdi í mig í gær. Ég var farinn að undirbúa ræðuna um að ég væri ekkert merkilegur, líf mitt væri alveg glamúrlaust og að ég ætti ekkert að vera í þættinum hans, þegar ég komst að því að hann var bara að spyrja mig út í næsta viðfangsefni sitt. Ég varð aðeins sár að hann skyldi ekki ætla að gera þátt um mig en líka feginn. Var farinn að sjá hann fyrir mér sofandi á stofugólfinu með myndatökumanninum innan um barnaleikföngin í þrjá daga. Leist ekkert á það að þurfa að svara "Hver ertu?"-spurningum í þrjá daga samfleytt. Hálfgert Jóns-tanamó.
Jón Ársæll er sem sé með besta þátt sinn til þessa í bígerð og sýnir hann á sunnudaginn. Hann fylgdist með undarlegasta og frábærasta manni í heimi, Kristni Jóni Guðmundssyni, snillingi. Hver ertu? spurði Jón. Ætli ég sé ekki bara Pétur Pan, svaraði Kiddi. Sjón er sögu ríkari á sunnudaginn!

04.06.08
Meiri músek, minna mas um dauðan ísbjörn...


Bo Diddley - Bo Diddley
Dáinn Diddley (1928 - 2008). Ekki meira Bo Diddley bít. Grúvei bít. Það voru ekki margir hljómar í lögunum hjá honum, stundum bara einn. Var með flotta gítarar, sérhannaða af Gretsch. Ég mun eflaust lesa mér betur til síðar um ævi og störf Bós. 


Neon Neon - Dream cars
Íslandsvinurinn Gruff Rhys úr Super Furry Animals og Boom Bip í tribjút plötu um kallinn sem hannaði kaggann í Back to the Future-myndunum (John DeLorean). Skratti skemmtileg útkoma, mörg góð lög. Klárlega ein af plötum ársins só far, stöff sem minnir mig á bæði JJ Burnell, Young marble giants, Gorillaz og eitthvað meira ungt og kúl og hipp. 


Ladytron - Black car
Liverpoolband, 4. platan Velocifero komin út. Electroklassað popp. Æsandi. Voða. Ömurlegt umslag samt.


White denim – Darksided computer mouth
Band frá Austin, Texas. Captain Beefheat og Meat Puppets í blandara. Geðveilað pönkprogg á diskinn þinn. Eins og mörg lög í einu í einu í einu.


Weezer - Troublemaker
Sjötta platan komin (Weezer (Rauða platan)) og enn er þeim legið á hálsi að vera ekki eins æðislegir og á fyrstu tveim plötunum. Veit það ekki. Þetta er alveg ágætt sellátrokk. Ekkert flókið við þetta. Miklu betra en margt.

03.06.08
Það er allt í tómu rugli á Mogganum eftir að Stimmi hætti. Menn halda að plastálft sé alvöru álft og birta þá svakalegu frétt að kría hafi sest ofan á alvöru álft, sem er í raun plastálft. Guðbjörn Magnússon, æringinn sem fokkar svona í Mogganum og sendi þeim myndirnar, segir álftina ekkert hafa kippt sér upp við það þótt krían blakaði vængjunum... nei, enda úr plasti. Mistökin aftan á blaðinu eru ekki síður slæm. Þar er frétt um einhverja Hönnu Grásleppusafn en með er birt mynd af fjórum stelpum. Hvergi er reynt að útskýra hver þessara stelpna sé Hanna Grásleppusafn sem talað er um í greininni. Hanna Grásleppusafn. Voðalega er það eitthvað bjánalegt viðurnefni annars. 
---
Reykjavík! er í miðri plötuupptöku. Bóas reif á sér nýrað en nýtt lag liggur frammi, Æjiplís, og lofar góðu.
---

Bubbi Morthens - Femmi
Hefi hlustað aðeins á nýju Bubbaplötuna. Hún er nokkuð ágæt, mjög traust Bubba-plata, heyrist mér við fyrstu umferð. Misjöfn lög sándlega séð, ekki þessi leiðinlegi "heildartónn" sem alltof margir halda að sé málið. Ferskir sprettir inn á milli þar sem Pétur Ben gerir eitthvað kúl (eins og í þessu lagi). Platan er fáanleg á síma frá og með hádegi í dag (via Vodafone) en cd kemur 11. apríl og 300 vynílplötur eitthvað seinna.

01.06.08
Seven ages of rock, þættina sem Rúv sýnir þessar vikurnar, ber að taka sagnfræðilega með miklum fyrirvara. Það er náttúrlega bara verið að gefa manni sýnishorn og auðvitað meikaði fyrsti þátturinn engan sens því hvorki var minnst á Elvis né Bítlana þótt verið væri að tala um "fæðingu rokksins". Samt ágætis þættir, þannig. Það verður bara að salta þá vel.
---
Það er ekki hægt að vera annað en jákvæður í garð þeirrar "bylgju" soulsyngjandi smápía, sem vinsældir Amy Winehouse hafa leitt af sér. Þetta er ágætis músik, sumarlegt og svalt stöff. Njótum þess þar til næsti grafargröftur fer af stað. Glamrokkrívæval hlýtur að vera á næsta leiti. Við skulum gefa gömlum brýnum orðið um stund:

Lulu - To Sir with love
Eitt af bestu lögum allra tíma söng Lulu í samnefndri mynd um góða blökkumanna-kennarann, Sidney Poitier. Magnþrungið lag.


Evie Sands - I can't let go
Magnað lag. Enskur Northern-soul hittari frá 1967 með söngkonu frá Brooklyn. Evie er enn að. Nýjasta platan heitir Women in Prison. Ég sé ekki betur en Michael Jackson hafi með lítaaðgerðum verið að reyna að líta út eins og hún.


The Shangri-Las - Remember (Walking in the sand)
Girl-grúppurnar voru heitar um 1963. Oftast þannig að einhver gaur tók nokkar stelpur upp á arma sína og dældi í þær hitturum. Þessar frá NY áttu 2 hittara, þennan og Leader of the Pack. Sá sem pimpaði The Shangri-Las var karakterinn George "Shadow" Morton, sem átti þá stórkostlegu sándeffekt-hugmynd að blanda mávagargi í þetta lag og mótorhjóladrunum í Leader of the pack. Magnað lag.


Duffy - Rockferry
Það er ekkert nýtt að dramatískt soul 7. áratugarins sé endurvakið og hnoðað í nýtt deig, Saint Etienne, hin nýsjálensku The Brunettes, ensku Pipettes of fleiri. Það er bara nýtt að þessi músik njóti einhverra vinsælda. Veilska Duffy er að meikaða bigg tæm þessa daga með fyrstu plötunni sinni, Rockferry. Kölluð Dusty II og hvað eina. Titillagið er gott eins og margt á hinni fínu plötu hennar. Hún lítur m.a.s. út eins og hún sé frá 1965.

(Bakk tú ðe fjúttjér)