19.07.10

10 x snilld:
1. Flatus lifir á sínum stað á veggnum undir Esjunni þökk sé hressum graffitímönnum.
2. Ómar er snilld en nú er verið að safna fyrir honum. Þig munar ekkert um 1000 kall.
3. Café Haítí er flutt í stærra húsnæði við höfnina en arabíska kaffið er enn það besta í bænum. Ekkert latté sull, bara arabíska leðju takk.
4. Sund, fjöll og ís. Klassískt stöff.
5. Fyrirgefðu rembuna en gott veður á Íslandi er bara betra en annað gott veður því það er svo sjaldgæft.
6. Laugardalurinn í góðu veðri - eins og útlönd!


7. Þrautabrautin í Laugardal - sama landslag og í Teletubbies!
8. Valdi koppasali. Alltaf góður.
9. Að vera í stuði því annað er væl. Sbr. Geðorðin tíu
10. Frí. Alltaf gott að fá frí.

17.07.10

Svaka sumar loksins og þá er maður gjörsamlega upp fyrir haus við að búa til ægimagnað Popppunkts-spil inni fyrir þykkum gardínum. Það er ekkert vit í þessu! Hvað ætlar Ríkisstjórnin að gera í þessu? Jæja, þetta fer að verða búið, og vonandi lafir sumarið eitthvað áfram. Popppunktur svo í kvöld, fínn leikur: Lay low og félagar í Benny Crespo's gang á móti Lights on the highway. 
---
Sæl og velkomin í plögghornið. Byrjum á einu svakalegu:


Vegna flutninga til útlanda eru Bjössi og Pétur að selja (næstum) allt fokking plötusafnið sitt! Þeir verða í Kolaportinu 24. og 25. júlí næstkomandi í bás 5E. YFIR 1500 TITLAR: Indie/Alternative/Electronic o.fl. Fjöldi ófáanlegra og sjaldgæfra titla á kostakjörum. Geisladiskar - vínylplötur - DVD. Einnig verða bækur og ýmislegt smálegt til sölu líka.
FORSALA - SKOÐIÐ ALLA TITLA OG VERÐSKRÁ Á http://bit.ly/risaplotusala. Sendið póst með þeim titlum sem þið viljið kaupa á peturvalsson@gmail.com - leggið svo inn á reikning / komið með pening og sækið góssið heim til þeirra á Hverfisgötu 68a
---
Svo má nú aldreilis benda á Húsaskipti.
---
Fimmti singullinn af væntanlegri plötu Togga er kominn út. Platan ætti að koma út í haust „ef ég tek ekki upp á því að eignast fleiri börn fyrir þann tíma,“ segir Toggi og bætir við: „Eftir tvo rólega singla í röð, þá er nauðsynlegt að skella hressum sing-along í loftið. Artwork fyrir föndrara fylgir með. Hægt að sækja hér: http://medialux.com/brag/178-toggi-take-me-dancing-single-free-download“
---

Rökkurró - Sólin mun skína
Ég er mikill áhugamaður um svifkláfa og reyndi einu sinni að halda úti svifkláfa-síðu. Sá fyrir mér að ég myndi ferðast um heiminn og láta mynda mig við svifkláfa, en svo greip raunveruleikinn inn í og hérna sit ég fastur eins og maur í hunangsklessu. Nei nei. En ég þó óhikað skorið upp um að umslag nýrrar plötu Rökkurróar er algjörlega flottasta plötuumslag ársins, enda eins manns svifkláfur framan á í svona líka ljómandi draumkenndu ástandi. Það mun hafa verið Bibbi trommari sem bjó til þessa snilld. Hér kemur fréttatilkynningin: Rökkurró mun á næstu vikum gefa út sína aðra plötu, Í annan heim. Fyrri plata sveitarinnar, Það kólnar í kvöld, hlaut góðar viðtökur bæði hér á landi og ytra þegar hún kom út árið 2007 og hefur lengi verið illfáanleg. Það bíða því margir spenntir eftir nýju efni frá sveitinni.
Upptökur á Í annan heim hófust haustið 2009 með Alex Somers úr Riceboy Sleeps við stjórnvölinn. Á plötunni kennir ýmissa grasa og er margt ólíkt með henni og frumburði sveitarinnar þrátt fyrir að Rökkurró haldi sérkennum sínum. Í annan heim var tekin upp á hinum ýmsu stöðum, m.a. í tónlistarskóla trommuleikara sveitarinnar, í Sigur Rósar hljóðverinu Sundlauginni og í eldhúsinu hjá Alex. Það eru 12 Tónar sem gefa út plötuna á Íslandi líkt og fyrri plötu sveitarinnar og inniheldur hún 9 lög. Hljómsveitin hannaði sjálf umslag og útlit plötunnar. Nú þegar má heyra forsmekkinn af því sem koma skal, en Rökkurró settu nýlega eitt laganna, Sólin mun skína, inn á tónlistarsíðuna www.gogoyoko.com. Hlustið á lagið endurgjaldslaust og/eða kaupið það hér.

14.07.10
Nokkuð fyndið er að heyra að Felix Bergsson eigi að leika The Big Bopper í söngleik um Buddy Holly í haust. Hvað næst - Pétur Jóhann leikur Jóhann Risa? Nei, ég segi svona. Kannski má hengja nokkra sementspoka utan á Felix til að feika vöxt Boppersins. Það er nú gaur sem "grætt" hefur á harmþrungnum dauða sínum. Sonur hans Big Bopper Jr. er eitthvað að rembast við að græða á nafninu líka. Mig minnir að ég hafi lesið það að það hafi þurft að grafa karlinn upp og skipta um legustað og þá hafi sonurinn skipt um líkkistu og selt þá gömlu á Ebay. Ágóðinn átti að renna til þess að gera bíómynd um The Big Bopper, sem óneitanlega er sá minnst frægasti af þessum þremur rokkurum sem létust í flugslysinu 1959. Mjög athyglisvert allt saman. Buddy Holly, sem var bara 22 ára þegar hann dó, er annars mikill snillingur og mikilvægt hjól í færibandi rokksins. Hann var einn sá fyrsti sem fór að semja eigin lög og hafði þannig mikil áhrif á Bítlana og þá kalla alla.
---

Allskonar svaka stuð er nú í borginni á Villa Reykjavík. Meðal atriða er ísgerðarkonan Kitty Travers sem ætlar að búa til nýjar ístegundir. Eftir því sem ég kemst næst leikur hún ís-listir sínar í Hugmyndahúsinu, Grandagarði 2 kl. 17 í dag. Ætli maður fái að smakka?
---

Buff - Draumveruleiki
Húrra! Loksins nýtt lag með Buffinu! Veit ekki eins og hvað þetta er eiginlega - Nýdönsk og Abba í hrærivél með Flaming Lips? - en helv gott er það allavega. Hannes trommari sendi bréf: Hljómsveitin Buff er að senda frá sér nýtt lag, loksins segja sumir, en til hvers segja aðrir. Eitt ár er síðan Buff kom með nýtt lag ef undan er skilin plata þeirra síðasta haust með lögum Magga Eiríks, en það var sumarsmellurinn á síðasta ári Prinsessan mín. Nú hefur sveitin veri lengi að hugsa hvað hún vilji gera í þessum málum og niðurstaðan var sú að gera það sem þeim sýnist, án þess að móðga neinn. Nýja lagið er ekki hið hefðbundna dægurlagablæ og var bara ákveðið að gera það sem mönnum þótti gaman að gera, vinna lagið án nokkurra formerkja og geri bara akkúrat það sem hentaði þessum ópus. 
Lagið er draumkennt enda eru draumar megininntak textans, lagið heitir Draumveruleiki og fjallar um sambland af öllum þeim súrrealísku draumum sem höfundinn hefur dreymt, en höfundur lags og texta er söngvari Buffsins Pétur Örn Guðmundsson.
Lagið var tekið upp í hinu goðsagnakennda stúdíói Geimsteini í Keflavík , og á hinum og þessum stöðum á höfuðborgarsvæðinu.
Ef heldur áfram sem horfir þá mun næsta plata Buffdrengjanna vera eingöngu eftir þeirra eigin höfði, alveg gjörsamlega óháð útvarpsspilun. Kannski þeirra Dúbl í Horn? En auðvitað væri gaman að heyra lagið í útvarpi, og þá er það bara spurning hver þorir ;-)

11.07.10
Nokkrar hræðilegar brúður má sjá í hinu metnaðarfulla Sjóminjasafni. Dagbjartur fór þarna með bekknum sínum og þegar við fórum með Breiðafjarðarferjunni Baldri nokkru síðar fór hann að tala um slasað fólk á skipum og hvar slasaða fólkið væri. Ég skyldi ekkert hvað hann var að tala um en böndin bárust að Sjóminjasafninu. Að þar væri hræðilega slösuð brúða liggjandi í sjúkrarúmi. Við þurftum því að athuga málið. Og vitaskuld fannst slasaða dúkkan um borð í varðskipinu Óðni, sem er hluti af safninu og opið gestum:

Óttinn skín úr augum drengsins, enda er dúkkan dálítið óárennileg. Gaman er að vafra um skipið, allt hefur yfir sér íslenskan seventís sjarma. Á eitt kalltækið hefur verið límd mynd af teiknimyndahetju sem var í blöðunum á þessum tíma. Gott ef hann hét ekki bara Siggi, drykkfeldur Breti sem danglaði í konuna sína:

Kannski það hafi verið þessi náungi sem límdi þetta á kalltækið?

Safnið sjálft er svo inn í húsinu og allskonar sjóminjadót í gangi þar. Þar er þessi harðneskjulega hafnarverkamanna-dúkka, fyrsta dúkkan sem ég hef séð sem er með tóbakshor:

---
Það bar helst til tíðinda í gær að ég smakkaði loks tröllapylsurnar í Ísbúðinni Laugarlæk. Þær eru nokkuð fínar. Sérgerðar fyrir ísbúðina í Kjötpol og líta dáldið asnalega út, en smakkast vel. Hægt er að fá hvítkálssalat í brauðið, sem er gott mál. Hér er kominn góður hliðarkostur í pylsumenninguna og álíka ferskt innlegg og pylsuvagninn í Hafnarfirði sem er með hinar frábæru djúpsteiktu pylsur. Við erum þó sennilega ekki að tala um neitt heilsufæði hérna.
---

Tar Babies - Rejected at the high school dance
Hér er kekkjótt slumma af brjáluðu öskur-prótópönki af sjaldséðri sjötommu úr fórum mínum. Umslagið segir allt sem segja þarf, en ég hef aldrei tékkað á frekari afrekum þessa Greg Prevost sem er aðalið í þessu. Held ég hafi bara aldrei heyrt í The Chesterfield Kings.

10.07.10

Enn er einn snilldarþátturinn af Popppunkti í kvöld. Vinsælasti þáttur landsins sem er ekki HM í fótbolta skv. könnunum. Í kvöld mæta Heiða og félagar í Hellvar og keppa við Breiðbandið, en það band lagði mikið á sig til að komast í þáttinn, samdi sérstakt Popppunkts-lag, snoðaði sig og fjárfesti í Havaí-skyrtum. Mikið framtak. Þetta er svo æsispennandi leikur náttúrlega.
---

Ball í Ferstiklu í sept 1967 þegar ég var að verða tveggja ára. Ég missti af þessu. Exótískt aukaatriði, vægast sagt. Ætli það yrði nú ekki eitthvað sagt ef blökkukonan Lady Shandy sýndi nektardans í pásu hjá Á móti sól í Aratungu?
---

Hér er slóðin á glænýtt vídeó sem Ásdís Sif Gunnarsdóttir gerði við nýútgefið smáskífulag Ólafar Arnalds, Innundir skinni. One little Indian gefur út og þar skrifar sveittur blaðatengiliður: Beautiful, beguiling and poised to win a huge British following in the coming months, the first of Ólöf Arnalds hotly anticipated new material is aired with the release of new single Innundir Skinni, released through One Little Indian on the 28th June 2010. It is backed with a cover of Arthur Russell’s ‘Close My Eyes’. Og einhver annar skrifar smá á íslensku: Fyrri sólóplata Ólafar, ‘Við og við’ kom út árið 2007 og vakti stórkostleg viðbrögð; hlaut m.a. verðlaun sem plata ársins í flokknum ‘ýmis tónlist’ á Íslensku tónlistarverðlaununum. Rétt eins og á nýju plötu Ólafar stjórnaði Kjartan Sveinsson þá upptökum. Á ‘Innundir skinni’ nýtur hann aðstoðar Davíðs Þórs Jónssonar en aðrir sem leggja til vinnu og spilamennsku á plötunni eru m.a. Skúli Sverrisson, Shahzad Ismaily, María Huld Markan Sigfúsdóttir, Daníel Bjarnason, Matthías Hemstock, Róbert Reynisson, Ragnar Kjartansson og Björk. Næst á döfinni hjá Ólöfu eru tónleikar með tveimur stórjöfrum poppsögunnar. Fyrst hitar Ólöf upp á þrennum tónleikum í London og Glasgow fyrir frönsku sveitina Air og síðan heldur hún til San Francisco og leikur þar tvívegis með Jonathan Richman.
---
Í dag er þetta blogg kranablogg fréttatilkynningabirtinga: Listamaðurinn Ummi Guðjónsson sem gaf út sína fyrstu sólóplötu þann 10/04/2010 sendir frá sér aðra smáskífu plötunnar þann 08/07/2010. Annar singull plötunnar er lagið “Ef þú þekkir mig ekki” sem hefur hljómað á öldum ljósvakans síðustu vikurnar og verður lagið ókeypis og aðgengilegt til niðurhlaðs á www.ummi.is frá og með útgáfudeginum.
---
Þá er hér spikfeitur linkur á nýtt lag með The Wintergreens. Íslenska/pólska/skoska tríósins sem gerir út frá Leith í Skotlandi.
---

Original Melody - Menorca
Íslenska rappkombóið Original Melody stefnir á nýja plötu í lok sumars. Hér er lag af henni, sætur sumarsmellur, sem heyrðist í Bjarnfreðarsyni í hinu svokallaði FM partýi Ólafs Ragnars.

07.07.10

Icelandair herferðin er að svínvirka á mig. Þegar ég sé þessa erótísku mynd af Sonny Bono að búa sig undir að gera eitthvað subbulegt með  fisknum og flugfreyjunni langar mig fátt annað en að stökkva upp í næstu vél. Ég verð líka alveg óður í komast eitthvað þegar ég sé auglýsinguna þar sem allir í útlöndum eru að tala um hvað Íslendingar eru spes.
---

Vér feðgar fórum exótíska sumarferð um Suðurnesin. Á leiðinni héngu svokallaðir dauðahnakkar í rassinum á okkur þar til kom tvíbreitt og þeir gátu spænt sig framhjá. Dauðahnakkar heita þeir á vegum úti þar sem þeir gera sitt ýtrasta til að drepast og drepa aðra á fávitabílunum. Þeir héngu svo í rassinum á okkur að maður sá fávitaglottin framan í þeim. Þrátt fyrir dauðahnakka er margt æðislegt á Suðurnesjum. Til dæmis sundlaugin í Sandgerði sem er ódýrasta sundlaug landsins, 200 kall oní, ókeypis fyrir börn. Boðið er upp á eðal saunu, sækadelíska vatnsrennibraut og marga potta. Ströndin við Garð er ógeðslega kúl og erlendis (og það má alveg kalla hana strönd en ekki fjöru því sandurinn er hvítur), byggðasafnið í Garði er flott og vitinn er sá hæsti á landinu og svaka skerí að fara upp í hann. 


Keflavík er svo alltaf jafn spennandi. Klassískt að fá sér eðal djönkfúdd á Ólsen Ólsen og svo bland í poka á stærsta nammibar Suðurnesja, eins og eðalsjoppan Ungó auglýsir réttilega.
---

Ringo Starr - Blindman / Ringo Starr - Y not
Stórmennið Ringo Starr er sjötugur í dag! Og heldur upp áða með giggi í New York. Í afmælisgjöf vill að hann að allir geri pís og lof með puttunum (sjá nánar í myndbandi á Ringostarr.com) kl. 12 á hádegi. Ekki gleyma því. Karlinn er að spila um USA þessa dagana og ég er svona að sjá hvort hann komi til Evrópu upp á að ná honum. Gigg með honum væri eflaust hallærislega æðisleg upplifun. Hér er Blindman, lag sem hann samdi sjálfur og setti sem B-hlið á smáskífu 1972. Lagið er samnefnt spaghettívestra sem hann lék í 1971. Svo er titillagið af nýjustu plötunni, Y not, sem kom út á þessu ári. Það er fyrsta platan sem hann pródúseraði alveg sjálfur. Heill þér meistari Ringo sjötugum! (Viðtal í NYTimes í tilefni dagsins)

06.07.10

Það er aldrei of seint að drekka mjólk beint úr belju. Bragðast eins og G-mjólk. Karítas Hreinsdóttir á Helgavatni sprautar. Fæstum þykir þetta merkilegt nema mér sem hef ekki gert svona áður. Út á svona gengur öll ferðamennska. Að leyfa fólki að gera eitthvað sem það hefur ekki gert áður. Upplifa eitthvað nýtt. Allt fólkið sem kemur hingað á skemmtiferðaskipum finnst voða spennandi að sjá Reykjavík og Ísland af því það hefur aldrei gert það áður. Okkur finnst þetta ekkert merkilegt. Það er ekki heldur aldrei of seint að sjá hvalskurð í Hvalfirði:


Það var reyndar ekkert eftir af þessum hval nema hryggurinn og smá innyfli þegar okkur bar að. Það er búið að girða svæðið af svo áhorfendur glápa úr brekkunni. Það var dáldið fjör þar, vantaði bara pulsuvagn. Þarna er gráupplagt að moka inn ferðamannagjaldeyri, örugglega magnað að sjá hvalflykki saxast niður í göt á planinu. Fyrst að leifa liðinu að sjá hvali svamla í sjó, svo að kippa því niður á jörðina og glápa á töffara í vöðlum brytja hina "blíðu risa hafsins" ofan í göt. Selja því hvalapylsur og hvalabíffdjörkí á meðan. Það er dáldið magnað meira að segja að sjá bara hrygginn einan eftir - þetta er svo risavaxið. (Myndir: Jón Þór Þorleifsson)
---
Ég var í tjaldútilegu í Borgarfirði og rigningin lamdi tjaldið á stundum. Það er nú bara notalegt. Á leiðinni heim sáum við dauða hvalinn og tékkuðum á Hálsi í Hvalfirði, sem er nautabú. Þetta er sveitabúð með beint frá býli stöffi. Það var nú eiginlega ekkert til lengur svona seint á sunnudegi svo maður þarf að koma aftur á skikkanlegum tíma. Snilld svona bændabúðir með snarfersku kjöti og dóti. Dáldið dýrt dótið í þessu, 760 kall fyrir nokkur grömm af bíffdjörkí í poka til dæmis, en maður lætur sig hafaða í nafni íslenskrar samheldni.
---
Enn er allt að verða vitlaust í barbaralandinu. Nú eru það myntkörfuþrælarnir sem vilja sleppa úr fjötrunum. Vístöluþrælarnir eru ekki alveg nógu glaðir með að mynkörfuþrælarnir sleppi svo auðveldlega, vilja eðlilega að eitt yfir alla gangi - helst að öllum verði gefin skuldauppgjöf og allir geti "byrjað upp á nýtt" eins og í lagi með Sprengjuhöllinni. Nýtt í fréttum í gær að heyra hversu mörg gengistryggð lán hver mótmælandi væri með á bakinu. Trúr Geðorðunum 10, og þá sérstaklega #6, hugsa ég að sjálfssögðu um eitthvað allt annað en þetta hark, enda búinn að borga mitt myntkörfulán (ætli sé hægt að fá endurgreitt?) og kóa með vísitöluþrældómnum. Ég skrifaði undir og get ekki annað. Vissi út í hvað ég var að fara. Aumingja bankarnir verða að tóra svo það sé efnahagslegur stöðugleiki, e haggi? Stundum finnst manni samt að þjóðfélagið hangi saman á gömlu límbandi og einn daginn verði maður ryðjandi sér leið inn á hvalskurðarsvæðið í Hvalfirði til að ná sér í afgangsinnyfli í soðið. Eða að Kína kaupi þetta ruglsker og þjóðin verði send röflandi í blokk einhversstaðar í útlöndum. Upp úr svona svartsýni nota ég svo auðvitað Geðorðin, þá sérstaklega #1 og #5.

02.07.10

Popppunkturinn heldur áfram annað kvöld, engin miskun. Næst ætla Logar og Spútník að berjast á banaspjótum. Rosalegt að vanda... Usssss!

01.07.10

Rakst á þessa auglýsingu í gömlu blaði (við hliðina á auglýsingu um að Bryndís Schram sýndi nútímadans á Hótel Borg). Tvennt vekur athygli: hversu kuldaleg sumartískan var 1961 og hin mikla áhersla á apaskinn. Ég man ekki alveg hvað apaskinn er en það er allavega ekki skinn af apa, eins og eðlilegast væri skv. orðana hljóðan. Ég er ekki frá því að mig hafi dreymt apa nýlega. Og svo var ég að lesa um apann Glám í bókinni Svaðilför í Surtsey. Fyrir Dagbjart þ.e.a.s. Sjálfur er ég í Chuck Klosterman og bókinni IV. Chuck er ansi fínn. Hér er sniðug grein sem hann skrifaði um nýjustu Bítlaendurútgáfuna. 
---
Ég er líka búinn að glápa á Breaking Bad sjónvarpsþættina. Þetta eru frábærir þættir sem ég mæli eindregið með. Ríghalda frá fyrstu mínútu. Búið er að gera þrjár seríur og sú fjórða verður tekin til sýninga í haust. Í gær var ég að horfa á annan þátt í þriðju seríu og heyrði ógeðslega flott lag. Ég linnti ekki látum á netinu fyrr en ég vissi hvaða lag með hvaða hljómsveit þetta var:


Timber Timbre - Magic arrow
Timber Timbre er nú aðallega einn Kanadískur gaur sem heitir Taylor Kirk og þetta lag er á breikþrú plötunni hans frá því í fyrra, samnefnd bandinu. Ef þú vilt vita meira erða bara Wiki, þar færðu t.d. að vita að pabbi hans var skógarhöggsmaður. Fílingurinn í laginu minnir ögn á hina algjörlega frábæru hljómsveit Young Marble Giants frá Wales, en eina plata þeirra Colossal Youth (útg. 1980) er lífbreytandi meistaraverk. Það er einmitt tónlist með YMG í fyrsta þættinum af Bored to Death. Það er svona léttgáfumannað indie-gamanþáttur með Jason Schwarzmann, sem sumum finnst líkjast Sigtryggi í Evil Madness (etc) - ágætt stöff. Svona er maður mikill eigin dagskrárstjóri um þessar mundir.
---
Rétt er að benda gosdrykkjaráhugafólki á að í söluturninum Drekanum á Njálsgötu fást nú margar tegundir af sjaldséðu gosi. Eigandinn er svo mikill hugsjónamaður að hann flytur þetta inn sjálfur. Við erum að tala um breskt úrval, gos eins og ýmsar tegundir af Tango og Lilt, tegundir frá DC Jamaica (þó ekki Ginger Beer, því miður) og skoska sullið Irn-Bru. Frábært framtak!

29.06.10
Kleifarkallinn er orðinn bakgrunnsmynd á þessu bloggi, enda keyrði ég yfir Kleifarheiðina tvisvar og þar er ekki annað hægt en að dást að þessari styttu sem vegavinnuflokkurinn reisti 1947. Þetta var heljar ferð á Patreksfjörð til að sjá um poppspurningakeppni í Sjóræningjahúsinu, á Pönk á Patró. Tveir feðgar á ferð, ég og Dagbjartur, Trausti og Tinni, lagt af stað á föstudegi og allir hressir. Þetta var frábær ferð fyrir utan það að hún var mörkuð af vélarbilun í nýkeypta VW Passatinum með spoilernum. Hann bilaði af einhverjum orsökum um borð í Baldri, kom út kraftlaus og vélarbilunarblikkandi, en við skröltum samt til Patró í öðrum gír yfir heiðina. Er hægt að vera meira fökkt en á biluðum bíl á Patró? Allavega eru möguleikar manns takmarkaðir. Bifvélaverkstæði Guðjóns hafði engan tíma í þetta, enda með menn að sunnan að vinna í húsinu. Svanur og Páll í Dekk og smur voru hins vegar hjálpsemin uppmáluð. Fengu háspennukefli sent að sunnan á laugardaginn. Það passaði náttúrlega ekki í svo einhver ættingi lánaði keflið úr sínum bíl á sunnudaginn. Verst að hann var að koma keyrandi frá Búðardal svo við komumst ekki frá Patró fyrr en kl. 18 á sunnudaginn. 75.000 kjall enda sunnudagstaxti. Svo kom ljósið aftur á í Bjarkalundi og bíllinn fór ekki í gang á Shellstæðinu í Borgarnesi. Þá var klukkan hálf eitt og tveir litlir gaurar sofandi í bílnum. Hringdi í lögguna sem sagði mér bara að fá einhvern til að draga mig í bæinn! Áður en ég fékk móðursýkiskast fór bíllinn aftur í gang og ég náði í siðmenninguna. Önnur viðgerð framundan þar. Að eiga notaðan bíl er ávísun á peningaaustur og fúlindi. Ég er til að mynda orðinn geðveikur í skapinu bara við það að skrifa þetta. Svo ekki orð meira um bilaðan bíl.
---

Sjóræningjahúsið á Patró er algjör snilld. Lyftir bæjarstemmingunni upp. Pollapönk voru með þéttan pakka fyrir krakkana og ættu að gera meira af svona því þetta var að svínvirka. Voru með vorksjopp, töluðu við krakkana um hvernig er að vera í rokkbandi, sýndu þeim dótið sitt og svo samdi samkoman saman lag um sjóræningja. Þetta var þrusulag sem var spilað um kvöldið þegar alvöru tónleikar voru settir í gang. Þá fóru krakkarnir upp á svið og tóku lagið. Dagbjartur sá þarna sínu fyrstu rokktónleika og verður vonandi ekki samur aftur. Hann er kominn með Pollapönk á heilann og syngur Vælubílinn út í eitt. Prumpukarlinn var vitanlega dreginn upp á svið. Sá svo um spurningakeppni eftir tónleika sem gekk ókei. Gullfallegar myndir eftir Valla má sjá hér.
---

Á Patró er svo sem ekki mikið að gerast. Fórum tvisvar í sund og héngum á Albínu, búðinni sem selur allt (á, ehemm, ekki svo hagstæðu verði, en hvað getur maður gert?). Helst að maður sjái eitthvað fólk þar. Ég held ég hafi annars ekki séð neitt fólk á förnum vegi sem var ekki með hund í bandi. Smábæjarlífið er ekki svo aðlaðandi, nema kannski í mikilli fjarlægð. Allavega ekki nema maður komi sér í annað tempó innvortis. Fékk allskonar yndislegt fæði hjá Öldu og Davíð í Sjóræningahúsinu og át þar að auki tvo hamborgara, báða með spældu eggi. Einn í Baldri og annan í Bjarkalundi. Báðir fínir! Á Patró er eitt veitingarhús sem heitir Þorpið. Fékk mér pítsu sem var la la. Leit inn í Skjaldborgarbíóið sem er þorpsdjásn. Það var verið að sýna Prince of Persía kl. 20 á sunnudaginn.

---
((((((( Fjórði hluti ársins 2010 )))))))