Japan Blog
5. desember, 2009.
Nú er klukkan orðin meira en hálf ellefu um kvöld og í fyrramálið flýg ég heim eftir rúmlega mánaðardvöl hér í Japan. Þetta er búinn að vera góður tími og ánægjulegt að endurnýja og styrkja tengslin við Japan.
Í dag var ég einn á róli í hinni ágætu stórborg, leyfi ég mér að segja, Fukuoka. Hér er mikið líf, óteljandi búðir og verslanamiðstöðvar hvert sem litið er og krökkt af fólki. Ég bý í stúdíóíbúið í miðbænum þannig að ég hef getað rölt mér um alla miðborgina og drukkið í mig mannlífið og stemninguna hér. Í fyrsta sinn í þessari Japansför borðaði ég amerískan skyndibita í dag, á KFC og svo hef ég sest inn á Starbucks einum þrisvar sinnum.
Í gær borðuðum við saman, ég, Machiko og eiginmaður hennar Mario, sem kom til landsins í gær, en hann er Bandaríkjamaður ættaður frá Kólumbíu – Mori og fleira fólk.
Við borðuðum meðal annars Sashimi ( hrár fiskur, ekki grjón með eins og í Sushi)
Grillaðan fisk
Og svona pott með ýmsu góðgæti – en ég er búinn að steingleyma nafninu á þessu, en þetta er ekki Oden, en samt sömu ættar, ef svo má segja. Svo var fullt af öðrum réttum sem ég myndaði ekki. Með þessu var drukkið heitt Shoshu, bjór og te.
4. desember, 2009,
Í gær fór ég í ferðalag til Hiroshima með Nakano og konunni hans. Þetta er um tveggja tíma akstur frá AIAV.
Við byrjuðum á að fá okkur Okonomiyaki, en þessi réttur er einskonar “þjóðarréttur” í Hiroshima, og á heimasíðu borgarinnar er beinn hlekkur á vídeó af kokki að búa til Okonomiyaki. Þetta bragðaðist stórvel, en lesendur þessarar síðu muna kannski eftir því þegar ég fékk mér Okonomiyaki í Yamaguchi – en þetta var sem sagt “the real thing” með blöndu af sjávarréttum ramen núðlum, káli og fleira góðgæti.
Vel mett fórum við út í rigninguna og skoðuðum “ground zero” eða staðinn sem er beint undir þar sem kjarnorkusprengjan sprakk þann 6. ágúst kl. 8.45 um morguninn árið 1945, en hún sprakk í 580 metra hæð yfir borginni með skelfilegum afleiðingum. Engin viðvörun var gefin, en ekki var samstaða um það hjá Bandaríkjamönnum um hvort gefa ætti út viðvörun eða ekki. Ein úrslitaástæðan fyrir því að Hiroshima varð aðalskotmarkið fyrir atómbombuna var meðal annars það að ekki var talið að í borginni væru vistaðir stríðsfangar frá Bandaríkjunum. Borgin var þar á undan á meðal fjögurra borga sem búið var að velja sem skotmörk, en í borginni var ein af herstöðvum Japana meðal annars. Í aðdraganda sprengjunnar höfðu farið fram viðræður við Sovétmenn um að herja sameiginlega á Japana til að knýja þá til uppgjafar, en Þjóðverjar höfðu gefist upp um vorið. Bandaríkjamenn höfðu eytt 2 milljörðum dala í smíði sprengjunnar og að því er sagt er í minningarsafninu, þá þurfti að réttlæta kostnaðinn með einhverjum hætti. Þeir vildu frekar enda sjálfir seinni heimsstyrjöldina með þessum hætti en að fara í samstarfið með Sovétmönnum, að því er ég las þarna í safninu.
Textinn á “ground zero” minnismerkinu.
Ég fyrir framan memorial Dome semer eitt af fáum húsum sem stóðu eftir nálægt sprengjustaðnum. Húsinu er reynt að halda í þeirri mynd sem það var í eftir sprenginguna.
Þessi á rennur framhjá minningargarðinum, en áin fylltist af líkum þar sem fólk stökk út í vatnið í örvæntingu eftir árásina.
Eitt af minnismerkjunum í friðargarðinum. Dome sést í gegn.
Líkan af miðborginni fyrir sprengingu.
Og svo eftir sprenginguna.
Sundurtætt föt af barni sem lést í árásinni.
Óhugguleg sviðsetning í minningarsafninu af illa brenndu fólki.
2. desember, 2009.
Í dag er sól og gott veður hér í Akiyoshidai. Ég fór út að hlaupa í morgun sem var mjög hressandi. Hér eru fínar hlaupaleiðir og gangstéttir meðfram öllum vegum. Hægt er að hlaupa eftir sveitavegum og í gegnum lítil þorp. Það er það skemmtilega við að fara út að hlaupa á nýjum stöðum að geta skoðað nýtt umhverfi í hvert skipti sem maður fer út.
Þessi mynd er ekki tekin í hlaupaferð, heldur í Ube sl. laugardag. Þetta er fiskbúð með ferskleikann í fyrirrúmi. Fiskarnir svamla um í stóru fiskabúri og maður getur bent á þann sem mann langar í og er hann þá umsvifalaust fiskaður upp úr karinu til að mæta örlögum sínum.
Þarna kennir ýmissa grasa.
Og nýjasta karlmannatískan í Ube, eða þannig. Ekki gefins.
30. nóvember, 2009.
Í gær, sunnudag opnaði sýningin mín hér í AIAV. Það var fremur fámennt, en góðmennt. Fólk áhugasamt og ég spjallaði við gesti, með góðri hjálp starfsfólks AIAV sem túlkaði þegar þess þurfti. Meðal annars kom góður vinur minn sem var með mér í CCA, Katsuhisa Shimizu, alla leið frá Kyoto, og voru það fagnaðarfundir. Einnig kom Mori, sem ég hitti um daginn í Fukuoka. Ég fæ betri myndir af sýningunni bráðum. Á myndinni eru frá hægri til vinstri; sýningargestur, ég, Machiko, Mori, starfsmaður AIAV, einhver kona, og Shimisu krjúpandi.
Machiko segir nokkur orð. Ég sagði líka nokkur orð. Á eftir var listamannaspjall þar sem við sýndum myndir af eldri verkum mínum, Machiko sagði frá og ég stjórnaði power pointinu.
Á opnuninni var boðið upp á te og kaffi, kökur og sælgæti.
Um kvöldið fórum við svo saman út að borða, ég, Machiko, Shimizu, Mori, Naka og kærastan hans. Naka ætlar einmitt að fara með mér til Hiroshima á fimmtudaginn, sem er næst síðasti dagurinn minn hér í AIAV. Á föstudaginn fer ég til Fukuoka og verð þar fram á sunnudag, þegar ég flýg heim.
Við fórum á yakiniku stað í Yamaguchi þar sem boðið var upp á ýmsar kræsingar. Sumar framandi, og kjöt sem hreinlega bráðnaði upp í manni.
Hrá nautalifur í forrétt. Ég borðaði þrjá bita, þetta var bragðmikið og gott, en maður þarf að venjast þessu! Dýft í fremur salta sósu.
Þetta kjöt var grillað á grillinu á borðinu og var hreint sælgæti og bráðnaði á tungunni. Vel fitusprengt.
Meira nautakjöt, annarsstaðar af skepnunni.
Kjötið að grillast, lagt ofaná lauksneiðar. Hitinn er að ofanverðu þannig að enginn hætta var á að fitan kveikti bál. Að neðan var vatn.
Marineraðar garnir. Nokkuð seigar undir tönn, en herramannsmatur.
Ég að stinga upp í mig grilluðu graskeri. Mjög gott.
Ég að dýfa kjötinu í Yakiniku sósuna, og svo …. nammi namm.
Að lokum var það svo grjónagrautur, nema ekki lagaður í mjólk, með sveppum, graslauk og eggi. Alveg stórfínt.
30. nóvember, 2007.
Á laugardaginn þurfti Machiko að fara til Ube að hitta þar listamann sem er þar að vinna að því að skreyta göngugötu í bænum, og ætlar að tengja verkefnið við AIAV á næstunni.
Ég fór með og notaði tækifæri til að labba aðeins um í bænum. Þetta er iðnaðarborg, námuvinnsla og fleira og aðeins annað yfirbragð en í Yamaguchi.
Þegar við vorum búin að ræða við listamanninn og fólkið sem var að vinna með honum, fórum við í heimsókn á fornar slóðir, eða til CCA, gamla skólans okkar, í Kitakyushu. Þarna er ég í CCA galleríinu.
Þar stóð einmitt yfir opnun á verkum listamannsins Jimmy Robert
og ég hitti aftur skólastjórann, Nobuo Nakamura ( að ofan ) og aðstoðarskólastjórann, Akiko Miyake, sem var mjög gaman.
CCA hefur haldið sínu striki síðan ég var þarna. Það koma alltaf góðir listamenn til mánaðardvalar í senn, búa til bók og sýningu og tala við nemendur. Nemendum hefur þó fækkað talsvert frá því í upphafi þegar þeir voru 30. Nú eru þeir bara 6, sem Nobuo þykir bara fínt. En ástæðan er samt líka verslanandi efnahagur í Japan og borgarstjóraskipti í Kitakyushu, en Nobuo og Akiko hafa hingað til verið treg til að koma til móts við bæjarfélagið með því að vera meira aðgengileg fyrir almenning, eða þannig. Vilja halda sömu stefnu og standard með áherslu á alþjóðlega nútímamyndlist, sem rennur ekki alltaf nógu ljúflega niður hjá hinum almenna bæjarbúa.
Oden tjöld í Kokura að utanverðu.
Eftir opnunina fórum við og fengum okkur Oden í útitjaldi í Kokura, sem er stærsta borgin í Kitakyushu. Þetta er sami matur og Namaiki fólkið eldaði hérna í AIAV á dögunum. Þessi tjöld eru þarna allan ársins hring uppi á gangstétt í miðborg Kokura, og njóta mikilla vinsælda einkum á veturna, enda er það notalegt í kuldanum að stinga sér inn í tjald og borða þennan heita, og holla og góða mat.
Kokura er eiginlega meiri stórborg en mig minnti, og hefur henni greinilega vaxið fiskur um hrygg á síðustu 10 árum. Fjör á götum úti, mikið af fólki, bílum og ljósaskiltum.
Oden potturinn í allri sinni dýrð og góðgætið sjóðandi. Maður pantaði sér á diskinn og ég fékk mér nokkrar tegundir. Egg, kolkrabba, ekkert mjög seigur, fiskbúðing,kjötbollu, og eitthvað fleira.
Kokkurinn að skammta á diskinn.
Oden skammtur númer eitt. Egg, dumplings, kjúklingavængur,næpa m.a.
Svo gat maður fengið sér Onigiri, en boðið er upp á girnilegt úrval. Ég er mjög hrifinn af Onigiri. Onigiri er þríhyrnd grjónabolla, þ.e.sushi hrísgrjón hnoðuð saman, og oft er sett eitthvað inn í miðjuna,t.d. lax, súrkál, laxahrogn eða annað.
Kokkarnir að störfum, tveir af þremur.
27. nóvember, 2007
Hér er mikil náttúrufegurð allt í kring. Ég tók nokkrar myndir af blómum og trjám. Myndirnar eru þjappaðar flestar.
Þetta er nú reyndar bara pottablóm, en samt fallegt.
Annað pottablóm.
Og þriðja blómið. Ég vildi að ég gæti sett lyktina af því inn á síðuna líka. Dásamleg lykt.
Tré – smá mistur líka.
Þessi er nú úr fókus.
Þessi tré eru mjög myndræn og flott.
Trjárunni með rauðum blöðum sem eru óðum að detta öll af.
Rautt tré innanum græn.
Rauta tréið aftur. Ég setti það inn í fullum gæðum þannig að það er hægt að smella á myndina og fá hana stóra og flotta.
Ýmsir litir.
Og laufgaður trjástofn.
26. nóvember, 2009
Það hefur verið sólríkt þessa vikuna hér í Akiyoshidai. Í síðustu viku var svo kalt að ég var farinn að sjá eftir að hafa skilið öll hlýju fötin eftir heima. Ég var hreinlega farinn að örvænta, en þessi vika er öll önnur og hlýrri. Ég bregð mér meira að segja í sólbað á hlýrabolnum og horfi á fiðrildin fljúga í kringum mig. Hér eru stór og falleg fiðrildi á sveimi, en ég hef ekki enn náð þeim á mynd.
Eins og þið sjáið ef þið smellið á þennan hlekk þá er búið að búa til auglýsingaplakat fyrir sýninguna. Ástæðan fyrir því að ég er þarna með trompet á lofti, er að á sýningunni verður vídeóverk á 7 sjónvarpsskjám þar sem ég er að spila á trompet. Trompetinn fékkst að láni hjá lögreglunni hér í nágrenninu, en forstöðumaður AIAV þekkir vel til þar. Þetta er því lögreglutrompet af Bach Stradivarious gerð, alveg eðal hljóðfæri.
Ég kíki alltaf á Sumoið í sjónvarpinu um miðjan daginn, en ég er svo heppinn að það er akkúrat í gangi mikil súmó túrnering og þetta er heilmikil skemmtun. Þetta eru flott glímubrögð og glímukapparnir stórir og stæðilegir.
25. nóvember, 2009
Gengið í gegnum bambusskóginn.
25. nóvember, 2009
Ég hef talsvert fjallað um mat, þannig að best að segja aðeins frá drykkjum líka. Hér drekkur maður vatnið beint úr krananum. Smá aukabragð, en samt mjög fínt. Ég laga mér yfirleitt neskaffi heima í herbergi, en fæ mér stundum heitt kaffi úr sjálfsala, en þar er boðið upp á nokkurt úrval, m.a. Fire Black Special kaffið hér að ofan sem er mjög fínt.
Þegar maður fer út að borða er gjarnan Shoshu kartöfluvodka á borðum, oftar heldur en Sake, og svo er stundum bjór, en með matnum er oftast bara vatn drukkið. Helstu tegundir af bjór eru Kirin, Sapparo og Asahi.
Ég fæ mér stundum Kirin Loves Sport drykkinn hér að ofan, en hann er mjög hressandi – eins og Aquarius s sem er til heima.
25. nóvember, 2009.
Sýningin mín opnar á sunnudaginn og undirbúningur stendur yfir. Eftir opnunina er farið að styttast í annan endann á dvöl minni hér.
Galleríið er frekar óvenjulegt, fullt af súlum inni í því. Hérna eru smiðirnir að störfum.
24. nóvember, 2009
Fyrir þá sem voru farnir að sakna matarmynda á síðunni, þá eru hérna myndir af matnum sem ég borðaði þegar ég fór út að borða í Fukuoka á laugardaginn.
Fyrstan skal nefna þennan djúpsjávarfisk með loftnet upp úr höfðinu.
Svona leit hann út matreiddur, og bragðaðist afbragðsvel.
Þá er hér maískorn í tempura. Ekki stöngullinn sjálfur, heldur bara maískornið lagt í tempuradeig og djúpsteikt. Mjög fínn réttur.
Djúpsteikt Tofu er alltaf gott.
Hvað var þetta nú aftur… ég held að þetta hafi verið einhversskonar kjötbolla.
Sashimi í sesam sósu.
Soðið nautakjöt, Daikon ( næpa), egg.
Að venju voru réttirnir bornir fram með reglulegu millibili og allir fengu sér af hverjum og einum rétt.
24. nóvember, 2009
Ég fór í fjallgöngu í gær og gekk upp á fjallið hér fyrir aftan AIAV. Fór meðal annars í gegnum bambusskóg, en bambustré eru hér mjög útbreidd.
Sumsstaðar höfðu tré fallið yfir göngustíginn.
Efst uppi var gott útsýni til allra átt. Hér sést listamiðstöðin þar sem ég dvel.
Og þarna er ég sjálfur uppi á fjalli.
Landslagið þarna er eins og úr einhverju Tolkien ævintýri.
23. nóvember, 2009
Á laugardaginn fór ég í smá ferðlag. Byrjaði á því að fara til Yamaguchi þar sem ég hélt fyrirlestur í Kimachi húsinu sem er einskonar klúbbhús fyrir listamannafélag í borginni sem hittist einu sinni í mánuði, hlustar á fyrirlestra um myndlist, borðar mat og drekkur bjór og shoshu.
Kennari við háskólann í Yamaguchi var með fyrirlestur um japanska myndlistarmanninn Sesshu á undan mér, en nýverið fögnuðu þeir 500 ára ártíð Sesshu. Mjög gaman að kynnast þeim listamanni, sem er mjög þekktur hér í Japan og víðar.
Konurnar elduðu matinn.
Þekki ekki nafnið á þessum rétti, en þarna mátti finna krabbaklær, kjúklingavængi, fisk, fiskibollur litlar, kál, sveppi, núðlur ofl. Þetta er sett á gaseldavél á borðinu þannig að þetta mallar þar allan tímann og bætt er út í pottinn reglulega meiri mat.
Kimachi húsið er 130 ára gamalt og er einnig notað fyrir listamenn sem geta fengið að dvelja þarna í einhverjar vikur í hvert skipti. Sú starfsemi hefur þó minnkað síðari ár. Þekktasti listamaður sem þarna hefur dvalið er bandaríski listamaðurinn David Hammons en hann bjó í húsinu í 6 mánuði árið 1998. Ég fór einmitt á fyrirlestur hjá honum á þeim tíma og sá verk sem hann bjó til meðan hann dvaldi í borginni. Verkið hét Mobile Garden og var japanskur garður á vörubílspalli sem ók um borgina.
Hammons gerði líka fullt af litlum verkum meðan hann dvaldi í húsinu eins og þeim sem er mynd af hér að ofan.
Eftir fyrirlesturinn fékk ég að gista í húsinu og fékk einar 3 sængur undir mig og 3 yfir mig svo mér yrði nú ekki kalt, enda var húsið eins og frystikista, óeinangrað með öllu. Þarna var þó air condition sem hitaði aðeins upp, en með talsverðum hávaða.
Daginn eftir fór ég svo og skoðaði aðal klaustrið á svæðinu, fór svo í listasafn borgarinnar og sá þar flottan efnishönnuð og svo rölti ég um borgina.
Ég lenti í smá ógöngum við að finna Shinkansen hraðlestina, en komst að lokum í lestina og brunaði til Fukuoka á hraða ljóssins.
Í Fukuoka hitti ég gamlan skólafélaga, Hidenobu Mori ( mynd af okkur saman hér að ofan ), skoðaði sýningu sem hann var með, Blue, í fransk- japanska félaginu, og svo fórum við á Asian Triennal of Contemporary Art þar sem maður sá rjómann af asískri list í dag. Eftir það var borðað og svo heim í Shinkansen. Ég gisti aftur í Kimanchi húsinu og fór svo upp í AIAV á sunnudaginn.
Endurnærandi ferðalag og skemmtileg. Ég ætla svo að ferðast aðeins meira í næstu viku, áður en ég fer heim. Fara til Hiroshima og kannski eitthvað meira.
22. nóvember,2009
Nú er sýnt daglega í sjónvarpinu frá keppni í Sumóglímu. Ég dett algjörlega inn í þetta, enda mjög gaman að þessu. Það eru margar hefðir í kringum í íþróttina og gaman að horfa á ritualið. Fyrst taka þeir salt í lúkuna og henda inn á keppnisvöllin og byrja svo að teygja og lyfta löppunum þar til þeir stilla sér upp á móti hvor öðrum. Oft tekur þá nokkuð langan tíma að gera sig klára í glímuna og maður áttar sig ekki alltaf á því hvað er í gangi. Stundum þjófstarta þeir reyndar, en svo allt í einu rjúka þeir í hvorn annan með höfuðið á undan. Glíman er mjög oft bara nokkrar sekúndur og endar á ýmsa vegu, en oft með því að annar aðilinn endasendist útaf keppnisvellinum með tilheyrandi brambolti. Sá sem sigrar sest örstutt á hækjur sér og tekur við einhverju frá dómaranum og fer svo aðeins afsíðist og bíður þar til næsti keppandi á eftir honum kemur. Þá gefur sigurvegarinn honum vatn að drekka, réttir honum svo hvítt blað, og keppandinn hylur munninn með blaðinu og spýtir vatninu út úr sér. Á milli atriða kemur alltaf einhver maður sem opnar blævang og gengur um sviðið og kyrjar einhverar gamlar rímur, líkt og kvæðamannafélagið Iðunn sé mætt á svæðið, en á japanska móðinn. Svo af og til koma drengir í röðum með auglýsingateppi einskonar, þ.e. gamaldags flögg en með til dæmis McDonaldsmerkinu á, þó að flest merkin séu reyndar japönsk.
Ég horfði oft á Súmó þegar ég var hér fyrir 11 árum síðan og það sem vekur athygli mína núna er að útlendingum hefur fjölgað í sportinu. Það eru amk. 4 vestrænir keppendur núna og manni finnst það óneitanlega svolítið skrýtið. Þeir eru flestallir akfeitir að sjálfsögðu, eins og menn þekkja súmómenn, en áðan þegar ég var að horfa birtist þá ekki einn helmassaður og helköttaður vestrænn keppandi, ekki með fituörðu á sér. Þetta leit áhugavert út verð ég að segja. Ég sá tvær glímur með honum, eina vann hann á einhversskonar júdóbragði, en hinni tapaði hann naumlega. Já, menn geta líka unnið á snerpu og glímubrögðum, þó að þyngdin vegi nú þungt oft á tíðum.
20. nóvember, 2009
Á morgun byrjar þriggja daga þemasýning um blóm og þessi mynd er á meðal þeirra mynda sem verða til sýnis. Myndin er gerð með einhverskonar þurrum litum sýndist mér þegar ég skoðaði hana, trélitum jafnvel, en þó ekki.
Önnur mynd sem er til sýnis.
Og sú þriðja. Þessi er gerð með japanskri tækni. Listamaðurinn blandar litina með lími meðal annars.
Franski dansarinn Susan Buirge sem ég minntist á hér á síðunni fyrir stuttu síðan, skoðar sviðið sem hún ætlar að dansa á á morgun. Því miður missi ég af dansinum þar sem ég fer til Yamaguchi í kvöld og gisti þar til á morgun. Fer svo til Fukuoka að hitta gamlan skólafélaga og ramba aðeins um í borginni, sem er miklu stærri en Yamaguchi.
18. nóvember, 2009
Fínn dagur í dag, rólegur og afslappandi í alla staði. Nema reyndar fyrir aumingja fólkið á skrifstofunni sem er svo undirmönnuð að fólkið rétt skríður út nálægt miðnætti og er svo mætt aftur fyrir allar aldir. Ég hef næstum því samviskubit, sofandi út á hverjum morgni.
Í dag skrapp ég með Machiko í bæinn og fór í myndlistarbúðina. Þetta er pínulítil skonsa en með allt fyrir listamanninn. Ég keypti smávegis listadót. Það getur verið verulega hressandi að eignast nýja liti, nýjan penna eða smá pappír.
Eftir þá heimsókn fórum við á sérjapanskan skyndibitastað að fá okkur Okonomiyaki. Þetta er talsvert vinsæll skyndibiti hér í bæ, og sá sem ég fékk var Hirioshima útgáfan af honum. Ég passaði mig auðvitað á að skrásetja viðburðinn á litlu stafrænu myndavélina sonar míns.
Fyrst hellir hann þunnu pönnukökudeigi á pönnuna. Svo hrúgar hann kálinu ofaná.
Þá leggur hann svínakjötið ofaná kálið ( það er hægt að velja um rækjur, smokkfisk og svínakjöt – eða blöndu af öllu sem ég valdi )
Þá er það osturinn. Svo kryddar hann með salti og pipar og einhverju dóti öðru. Spennan magnast.
Á meðan hann leyfði kökunum aðeins að taka sig á pönnunni skellti hann núðlunum á pönnuna við hliðina og leyfði þeim að volgna svolítið. Hægt er að velja um að fá núðlur í kökuna, tvær tegundir í boði, Ramen og Udon núðlur. Ég valdi mér Udon ( þessar hvítu þykku)
Minn maður horfir á sjónvarpið á meðan kökurnar og núðlurnar taka sig á pönnunni, vígalegur með spaðana, tilbúinn að snúa þeim við.
Smá vídeó af eldamennskunni.
Gestirnir geta dundað sér við að lesa Manga teiknimyndasögur á meðan þeir bíða eftir matnum.
Búið snúa kökunum og berja þær dálítið niður. Þetta má ekki verða allt of þykkt.
Þá er að steikja smá eggjahræru á pönnunni. Þegar hún er orðin smá steikt er núðlunum skellt ofaná og svo kökunni og það svo steikt og barið duglega niður í smá tíma.
Þá er komið að þætti húsmóðurinnar á heimilinu, eiginkonu kokksins, en nú mætir hún með sósuna góðu og smyr henni á kökurnar af miklu listfengi og alúð.
Tilbúið á disknum, og búið að krydda vel með allskonar góðu þangi og kryddi. Þetta var alveg frábært.
Maður borðaði þetta með prjónum, drakk vatn með, setti smá rauðan engifer og pínuponsu majones on the site, gekk síðan glaður út í kalt japanskt myrkrið.
18. nóvember, 2009
Namaiki fólkið, þau David, Michael, Yoda og Keiko, eru farin, en í kveðjuskyni fórum við út að borða í Yamaguchi á mánudagskvöldið. David og Michael, listamannatvíeykið, koma svo aftur í desember til að setja upp verkið sitt hérna. Þeir eru með heimasíðu, www.namaiki.com en þar má skoða það sem þeir eru að gera. Mjög áhugavert.
Eins og oft áður þegar farið er út að borða hér eru pantaðir margir réttir sem koma á borðið með reglulegu millibili og allir fá sér af hverjum rétti. Þetta er mjög skemmtileg venja, og maður fær þannig að smakka mjög fjölbreyttan mat á einu kvöldi.
Hrísgrjón með eggjahræru ofaná, tofu í sósu og salat.
Michael sagði mér að það mætti oft sjá eldri konur í Tókýó standa fyrir neðan Ginkgo hnetutré og hrista Ginkgo hnetur niður úr trénu. Hneturnar eru taldar allra meina bót sagði hann, og hafa yngjandi og styrkjandi áhrif.
Hér hafa hneturnar verið ristaðar og svo dýfir maður þeim í salt. Mjög góðar, en þær eru mjúkar að innan, eins og baunir.
Svipmynd innan úr veitingastaðnum. Þetta er eiginlega bar sem býður líka upp á mat.
Á útisviðinu í listamiðstöðinni er búið að búa til sérstakt moldarsvið en á því mun franskur dansari dansa á laugardaginn. Susan Buirge heitir dansarinn, komin fast að sjötugu, en hún er flutt til Japans frá Frakklandi, til að tileikna sér japanska danslist. Hún dansar einungis undir beru lofti eða á milli jarðar og himins, eins og hún segir.
Hér er dæmi um dans sem hún hefur samið.
16. nóvember, 2009.
Smá tískumyndir.
Flottur trefill eftir japanskan textílhönnuð sem ég þekki ekki nafnið á.
Skótískan. Þetta eru reyndar stígvélin hans Michael, sem hann fór helst ekki úr, meira að segja ekki þegar hann fór út að borða.
Handklæðatískan.
Hér eru menn gjarnan með handklæði um hálsinn eins og trefil. Á handklæðinu stendur held ég Tokyo Love eða Tokyo Hotel. Ekki alveg skýrt.
Michael landslagsarkitekt og listamaður og ég að spjalla.
15. nóvember,2009
Það er rólegur sunnudagur hér í Akiyoshidai, ef frá er talinn hávaðinn frá þungarokksgrúppunni sem er að æfa sig hér í næsta stúdíói við mig. Listamiðstöðin leigir stúdíó og hljóðfæri út til fólks hér í nágrenninu og þetta nýtur mikilla vinsælda. Einn vinsælasti tíminn til að vera í stúdíóinu er á nóttunni! Oftast eru þetta bönd skipuð hálfgerðum byrjendum, en einstaka grúppa, eins og þessi sem nú er að hamast hér í næsta herbergi, er greinilega meira pró. Hey, everybody, segir til dæmis í einu viðlaginu frá þeim.
David, Michael og konurnar með þeim, fóru í fjallgöngu áðan, enda miklir náttúruunnendur – en þau eru að undirbúa verk sem þau ætla að setja upp hér í desember eins og ég hef áður minnst á.
Ég þvoði þvott, fór svo á vinnustofuna og á ókeypis óumbeðna þungarokksrokkhljómleika.
Ég plataði húsvörðinn til að koma að laga gardínuna mína sem bilaði um daginn. Hann brást hratt við og kallaði í liðsauka, mann sem er greinilega alvanur biluðum gardínum. Snöfurmannlega gert af þeim, Domo Arigato gosaimashita!
14. nóvember, 2009
Jæja, þá heldur matardagbókin áfram. Aftur var það japönsk kærasta Michaels frá Englandi, Yoda, sem eldaði fyrir hópinn.
Við kláruðum að borða um miðnætti, enda var ekki byrjað að elda fyrr en við komum heim frá því að horfa á brasilíska hipphopp nútíamadansinn.
Í aðalrétt voru Udon núðlur og grænmeti.
Með þessu var borið fram þetta Sushi – vafið í kálblöð og fiskur og engifer inni í. Himneskt!
Einnig var á borðum soðið blandað grænmeti og tofu.
Í milli eftirrétt var svo borið fram Tofu með grænmeti og litlum sveppum í sítrónusafa, með dash af soja sósu. Ummm.
Í eftirmat var japönsk pera ( þessi að ofan ) niðurskorin. Sérlega fersk og áferðin og bragðið líkt og sambland af peru og epli, eins og maður þekkir þá ávexti.
14. nóvember, 2009
Ég fékk óvæntan og óboðinn gest inn í íbúðina mína í gær. Þetta er sama kvikindi og ég birti mynd af hérna á síðunni fyrir meira en viku síðan, en þá var skepnan í formalíni. Þessi var sprellifandi og ekki minna ófrýnileg en þessi í formalíninu. Ég veit ekkert hvað þetta fyrirbæri heitir, einshverskonar ormur með fullt af fótum, einhver blanda af könguló, margfætlu og ormi.
14. nóvember, 2009.
Í dag held ég hafi klárað að púsla saman sýningunni minni og hefst þá undirbúningur undir hana núna á mánudaginn. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um hana að sinni, en hef góða tilfinningu fyrir henni. Þetta verða þrjú verk, blanda af “safe” hlutum, og smá tilraunamennsku. Meira um það síðar. Opnar 29. nóvember ef einhverjir vilja skreppa.
14. nóvember,2009
Í kvöld fór ég og sá nútímadanshóp frá Brasilíu, Grupo de Rua, í YMCA listamiðstöðinni. Þetta var oft mjög flott hjá þeim. Sumar hreyfingarnar voru svipaðar og ég hef séð til dæmis hjá íslenska dansflokknum, en í bland notuðu þeir hreyfingar úr hip hopp dansi. Flottast var þegar þeir hlupu afturábak á fullri ferð, sem þeir gerðu mikið af, og sneru sér í hringi á gólfinu, kútveltu sér fram og til baka. Einnig var gaman að tónlistinni, Ambient, og ljós voru notuð skemmtilega. En ég ætla ekki að fara út á hálan ís og gerast danskrítíker. Dansarar voru allir karlkyns og held ég komnir úr götu hipp hopp umhverfi, amk. einhverjir þeirra.
Þar sem ekki mátti mynda sýninguna á ég engar myndir nema af gestunum að bíða eftir sjóinu.
14. nóvember, 2009
Eins og flestir vita líklega er kristni harla lítið útbreidd í Japan, þó að hún sé vissulega iðkuð hér að einhverju marki. Einstaka kirkjur eru þó til staðar. Ein þessara kirkna er einmitt í Yamaguchi, borginni sem er í ca. 30 mínútna akstursfjarlægð frá Akiyoshidi þar sem ég bý, og kallast hún Yamaguchi Xavier memorial Church. Francis Xavier þessi sem kirkjan er kennd við, var spænskur trúboði sem í apríl árið 1551 fékk góðfúslegt leyfi frá þáverandi 31. lord borgarinnar, Yoshitaka Oushi, til að stunda trúboð. Hann boðaði trúnna í Yamaguchi í 6 mánuði og byggði kirkju á staðnum meðan hann bjó í borginni.
Það er líka skemmtileg staðreynd, og ástæðan fyrir því að myndin af jólatrénu er hér fyrir ofan, að Yamaguchi búar státa sig af því að hafa verið fyrstir af öllum í Japan til að halda jól, en það var auðvitað Xavier sem kom með þann sið með sér til borgarinnar.
Og nú eru jólatréin komin upp með skrauti og öllu.
Japanir stunda flestir einskonar blöndu af Shintoisma og Búddisma en þeim finnst gaman af jólunum og tilstandinu í kringum þau, þó svo að það sé allt öðruvísi en heima á Íslandi.
13. nóvember, 2009
Í dag fór ég í Yamaguchi háskólann og hélt þar fyirlestur fyrir bekk af hönnunarnemum. Eftir mína kynningu hélt Machiko erindi um AIAV, Akiyoshidi International Art Village.
Fyrirlesturinn gekk vel og í lokin sýndi ég þeim nokkrar myndir frá Íslandi. Á einum stað í fyrirlestrinum steig ég upp á stól til að útskýra eitt af verkum mínum og það vakti eftirtekt. Eftirá sagði Machiko mér að þetta hefði verið djarft tiltæki þar sem ég var á útiskónum og hér er aldrei stigið upp á stóla eða inn á gólf íbúðarhúsa nema á sokkaleistunum eða á inniskóm. Svona geta menningarheimar rekist á.
Áhugasamir nemendur fylgjast með fyrirlestrunum.
Yamaguchi háskólinn.
Eftir fyrirlesturinn var boðið upp á kaffi og með því í kaffiteríunni.
Fjórir nemendur í röð til vinstri, aðstoðarkona Machiko, ég og svo prófessorinn – Yumiko Mizutani.
13. nóvember, 2009
Skótískan.
Hérna í Yamaguchi bakka menn nær undantekningarlaust í stæði eins og sést vel á þessari mynd.
Litlir kantaðir bílar eins og þessi fjólublái eru mjög algengir hér í Japan.
Eftir fyrirlesturinn minn fórum við í lista- tækni- og hönnunarsafnið í Yamaguchi, sem kallað er YMCA. Já, ég veit, þetta er sama skammstöfun og í frægu lagi með Village People, en allt annar hlutur.
Þetta var ansi smart sýningu þar sem fókusinn var leturgerð og hi – tech vinnsla með hana allskonar. Á myndinni hér fyrir ofan sástu bara punkta útum allt sem hreyfðust en ef þú tókst mynd af skjánum birtist þessi texti.
Á borðinu voru 6 plötuspilarar og ef maður setti nálina á plötuna þá spilaðist einn tónn og tölurnar á tjaldinu fyrir aftan fóru að rúlla af stað niður tjaldið. Þegar maður tók nálina í burtu, stoppuðu tölurnar. Skemmtilegt.
11. nóvember, 2009
Eftir hina mjög svo endurnærandi ferð í heitu pottana beið manns sannkölluð veisla heima fyrir. Hópurinn sem er hér staddur, Nýsjálendingurinn, David, Englendingurinn,Michael, og japönsku konurnar tvær, höfðu verið búin að elda mat áður en við fórum í pottinn. Þau buðu mér að borða með sér og ég þáði með þökkum.
Maturinn kominn á diskinn.
Mmmmm, Oishiii, frábært.
…. og alveg pakksaddur.
Þessi matur heitir Odem og er dæmigerður vetrardiskur hér í landi. Þetta er hægeldað margskonar grænmeti. Þarna má meðal annars sjá á myndinni að ofan, egg, sæta næpu ( daiku), mjög mjölkennd kartafla af einhverri sort, venjuleg kartafla, þang, nokkrar gerðir af Tofu, og þetta gráa doppótta hlaup það er unnið úr eitraðri kartöflurót og er mjög algengt hér á borðum. Þetta hlaup er án allra kalóría, næringarefna og nánast án alls. Það er mínus. Það dregur til sín en bætir ekki við.
Með þessu var bornar fram niðurkornar eldaðar rætur og grænmeti sem er héðan úr sveitinni ásamt hrísgrjónum. Þetta rann svo ljúflega niður með Kirin bjór.
11. nóvember, 2009
Í gærkvöldi var farin hópferð í Onsen ( heitar laugar ) í lítinn bæ, frekar ofarlega í fjalli, en ég er búinn að gleyma nafninu á bænum. Japanir taka vatn mjög alvarlega og tala um Onsen af mikilli alúð. Ég ímyndaði mér að við værum að fara í einhversskonar Bláa lón, þ.e. einskonar náttúrulegar heitavatnslindir utan dyra, en þegar til kom þá voru þetta ferkantaðar setlaugar innan dyra þar sem fólk baðar sig saman allsnakið. Konur sér og karlar sér, best að taka það fram. Allt í kringum Onseninn eru svo litlir speglar, litlir kollar til að sitja á og hver og einn skolar sig og skrúbbar á kollinum áður en farið er ofaní laugina. Á myndinni hér fyrir ofan er rennandi vatn sem maður var hvattur til að drekka smá lögg af, enda var þarna á ferðinni mikill lífsins elexír, góður fyrir húð og hár, og hafði yngjandi og grennandi áhrif. Ég tók einn gúlsopa og kyngdi og uppgötvaði að þetta var bara hitaveituvatn. En best að fara varlega í að tala um “bara” í þessu samhengi, því eins og ég sagði áðan taka Japanir vatnið mjög alvarlega, hver Onsen er einstakur hvað varðar uppbygging steinefna og fleira. Þetta var allt skilmerkilega útskýrt á þar til gerðum skiltum.
Hér er gengið inn í dýrðina. Kostaði 390 jen inn. Myndin aðeins úr fókus, enda orðið dimmt úti.
Apar eru aðaldýrið í þorpinu og má sjá myndir og styttur af þeim út um allt. Þessi hvíti api vakir yfir gestum þegar þeir koma inn.
Og þessi marmarastytta af apa er ekki langt undan, með þumalinn upp í loft – Okey!!
Mjög fallegar götur þarna í bænum, afskaplega dæmigert japanskt.
Önnur götumynd.
Og eftir að hafa baðað sig allsnakinn með hópi af karlmönnum í Onsen,afslappaður og hress og endurnærður vegna hins einstaka vatns í pottinum, sem kemur beint úr jörðinni ( Japanir kalla heitar laugar sem ekki eru með vatn beint úr jörðinni öðru nafni, sinto, eða álíka ), þá var vel við hæfi að koma við í frjósemishofi þarna skammt undan, eða frjósemisskríni ( shrine ) . Þarna voru getnaðarlimir í algjöru aðalhlutverki og því góður staður til að heimsækja ef maður vill biðja um aukna frjósemi. Þeir voru gerðir bæði úr marmara,graníti, stáli, timbri og fleiri efnum. Sperrtir limir út um allt.
Hér biðjast menn stuttlega fyrir, hringja bjöllunni, klappa höndum einu sinni til að vekja guðina, og fara svo með bæn.
Þessir félagar voru á hillu, veit ekki alveg hvort megi handleika þá eða hvað. Ég lét það amk. alveg vera.
Einn rauður gaur.
11. nóvember, 2009
Eins og áður hefur komið fram kanns David frá Nýja Sjálandi ekkert á gítar þó hann sé búinn að spila í 13 ár, en það er kannski túlkunaratriði að kunna og ekki kunna á hljóðfæri. Hann kann heldur ekki á píanó en æfir sig þó af miklum þrótti. Hann bauð mér að spila fjórhent áðan og ég settist með honum við píanóið og svo lékum við eitt frumsamið á staðnum.
Enn er stefnt að hljómleikum í stóra salnum hér í miðstöðinni, og meira að segja gæti verið að það verði búin til alvöru auglýsingaplaköt og allt, enda eru þeir hönnuðir báðir tveir og fara létt með allt svoleiðis.
David býr í borg, sem er fyrrum höfuðborg Japans, og er í ca. 1,5 klst. fjarlægð fá Tókíó núverandi höfuðborg, en er að fara að flytja í bæ ekki mjög langt í burtu og stunda sjálfbært líferni ásamt um 150 fjölskyldum. Hann bauð mig velkominn að búa þar með mína fjölskyldu, en þar væri nánast hægt að lifa á loftinu. Takk fyrir það David. Hver veit.
11. nóvember, 2009.
Í kvöld verður farin hópferð í Onsen í Yamaguchi. Onsen eru svona náttúrulegar heitar laugar, einhverskonar bláa lón. Onsenarnir hér í Yamaguchi eru víst vel þekktir fyrir gæði og hressleika. Nýsjálendingurinn, Englendingurinn og allir hinir eru að fara.
Sá nýsjálenski er búinn að spila í 13 ár á gítar og var að spekúlera í hvort að það væri nokkur kassagítar á svæðinu. Hann sagði mér að hann hefði gert stórkostlega uppgötvun í gítarspili fyrir 2 vikum síðan, sem breytti alveg öllum túlkunar og samspilsmöguleikum hans. Hann lærði að stilla gítarinn! Nýr heimur opnaðist honum. Ég sagði að það hlyti að hafa verið stórkostlegt. Hann taldi það samt hafa gefið honum mikið að hafa glamrað í 13 ár án þess að kunna að stilla gítarinn, og spila einskonar freedjass allan þennan tíma, einn með sjálfum sér aðallega.
Ég óskaði honum náttúrulega bara til hamingju með þetta stóra skref í hans ferli. Hann spurði mig hvort ég kynni á gítar og ég játti því. Kann að spila rythmagítar og fullt af hljómum og svona. Kanntu þá lög, spurði hann, og ég kinkaði kolli, smávegis já. Honum fannst þetta stórkostlegt. Svo sagði ég honum að ég væri þrautþjálfaður trompetleikari líka. Nú, kanntu þá að lesa nótur, já já sagði ég. Ekki málið.
Nú held ég að hann vilji halda tónleika með mér og ég held að það gæti orðið áhugavert. Englendingurinn myndi þá spila á trommur, þó held ég að hann kunni ekkert á trommur. Hér í miðstöðinni er fullt af trommusettum og fleiri hljóðfærum. Svo er hér eins og eitt stykki hljómleikasalur svona á stærð við Tónlistarhúsið okkar heima, eða næstum því. Áhorfendapallar á mörgum hæðum og mjög fansí.
Við eigum örugglega eftir að ræða þetta betur í Onseninum í kvöld.
11. nóvember, 2009
Þar sem ég er greinilega ekki ennþá búinn að venjast tímamismuninum þá er ég að vakna á furðulegum tímum á nóttinni. Þá er ekkert annað að gera en að lesa, horfa á sjónvarpið, hringja heim með aðstoð Skype ( ótrúlega ódýrt og þægilegt ) og uppfæra bloggið.
Eins og ég sagði í gær þá borðaði ég með fólkinu frá Nýja Sjálandi, Englandi og Japan í gær. Konurnar elduðu og maturinn var að ég held japanskur, eða það er næsta víst. Það ruglaði mig aðeins í ríminu að þau voru að þvælast með rússneska kokkabók á borðinu og ég var ekki viss hvort þær höfðu verið að elda úr henni !&$&
Sá enski, Michael, ( þessi bleikari ) hefur búið hér í 20 ár og vill hvergi annars staðar vera, sagði hann mér. Getur ekki hugsað sér að flytja aftur til Englands. Hann elskar Asíu og að fíla sig sem eilífan túrista, eins og hann sagði sjálfur, að vera alltaf On Vacation. Spennandi, já. Hann er arkitekt að mennt en rekur sumsé grafíska hönnunarstofu í Tókýó. Félagi hans á hönnunarstofunni og í myndlistinni ( ef það er myndlist sem þeir gera – er einhversskonar list eða ekki list – bara eitthvað…..) , þessi dökkhærði, er frá Nýja Sjálandi. Sá flutti nýverið uppi í sveit til að komast í betri tengsl við sjálfan sig og náttúruna. Þeir eru báðir ansi skemmtilegir gaurar. Ég kannski segi betur frá því seinna hvað þeir gera hér í Akiyoshi – en mig grunar að það erði amk. eitthvað tengt mat,matjurtum,brauðgerð og slíku.
En maturinn var m.a. einhversskonar lítill bleikur fiskur heilsteiktur í potti með grænmeti. Beinin ollu mér nokkrum vandræðum, því þau voru svo helv… lítil en þetta var mjög gott. Borðaði bara meira af grænmetinu.
Svo voru heilelduð engifermixuð eggaldin, einhvernveginn soðið saman með engiferi, og var mjög ljúffengt. Með þessu borið fram salat með brotnu sesamkexi og einhverri olíu eða kryddi sem ég kannaðist við héðan.
Það hljóp aldeilis á snærið hjá mér þegar þau drógu upp Mangó Shoshu frá Okinawa. Þau segja að í Okinawa sé þetta aðal drykkurinn. Þetta er sterkt, kannski nálægt 30%, en með sætu mangó bragði. Hreint afbragð.
Sá Nýsjálenski talar fína japönsku en kann ekki mikið af kínverska Kanji letrinu. Hér er hann að læra eitthvað frá Machiko, en hér í Japan kunna skólabörn amk. 2000 Kanji stafi ef ég man rétt – en það er flott að kunna 10.000. Ég held að þeir séu alls 40.000, leiðrétti það síðar ef það er vitlaust hjá mér.
Ég var að segja honum frá súrum hrútspungum og hann vildi endilega skrifa það með Kanji, og fannst það auðvitað stórmerkilegur matur.
10. nóvember, 2009
Ég fór í bæinn með Machiko að ná í tvo listamenn á brautarstöðina og konur þeirra. Annar þeirra er frá Nýja Sjálandi en hinn frá Bretlandi. Þeir hafa báðir búið í Japan í 20 ár og vilja hvergi annars staðar vera. Þeir hafa lengi rekið hönnunarstofu, eða auglýsingastofu, en hafa verið að vinna í myndlist, eða svona nokkurn veginn á því sviði, og gert einskonar ávaxta og grænmetisgarða og plantað trjám og svoleiðis. Hljómar nokkuð spennandi. Verður gaman að sjá hvað þeir gera hérna. Annar þeirra er fluttur út í sveit og mér heyrist hann stefna á algjöra sjálfbærni og hafna hinum utanaðkomandi efnahag. Já, hljómar bara spennandi. Við áttum langt samtal. Svo borðuðum við saman. Birti myndir af því á morgun.
Vídeóið er svo sem engin skemmtun, en gefur smá innsýn í umhverfið hérna.
Þeir áttu til þessar barnastultur, en það var ekki alveg það sem ég var að leita að í búðinni. En stultur eru algjörlega það sem ég ætla að nota í sýningunni minni. Við verðum að panta réttu stulturnar og það tekur amk. 10 daga, þannig að á mánudaginn verður að vera búið að ákveða allt fyrir sýninguna.
Ég fór útí sportvöruverslun að versla inn fyrir sýninguna mína. Gerðum reyndar engin innkaup, vorum frekar að rannsaka og sjá hvað var hægt að fá og hvenær. En afgreiðslumaðurinn var brosmildur og hress.
Kóka kóla bekkurinn. Ekkert meira um þessa mynd að segja svo sem.
Í dag fékk ég mér karrí man, það er svona hveitibolla með karrígumsi inni í , mjög gott, í hádeginum, ásamt djúpsteiktum kjúklingabita. Dæmigerður skyndibiti úti í klukkubúðinni Lawson. Svo er hægt að fá Nikku man, sem er með kjöti inni í, og allskonar aðrar fyllingar, eins og súkkulaði og fleira.
Ég get leigt mér hjól á 50 jen á dag, það er bara grín auðvitað. Hjólaði dáldið í gær og ætla mér stóra hluti á hjólinu. En verð að passa mig að rata heim,þannig að ég fer bara hænuskref í hvert skipti.
Já þið gátuð ykkur rétt til. Ég er kominn með sjónvarp. Ég leigi það á 100 jen á dag, sem er bara í fínu lagi. Það er svo sem ekki mikið á því að græða, en samt gaman að fylgjast með sjónvarpsmenningunni. Ég hef til dæmis tekið eftir því að það eru margir sömu karakterarnir í sjónvarpinu og voru fyrir 11 árum þegar ég var hérna síðast. Og eins og síðast þá finnst manni alltaf eins og það sé eitthvað rosalega dramatískt að gerast, en líklega er það oftast nær ósköp hverdagslegt.
Hvaða dularfulli kassi er þetta? Jú þetta er kassi sem býr til leisergeisla. Þetta er verk eftir japanskan keramiklistamann sem var beðinn að búa til verk til að hafa til frambúðar í AIAV. Geislinn sker svæðið í tvennt, ef svo má að orði komast. Vegna sparnaðar er þó aðeins kveikt á geislanum í 2 tíma á dag. Ég birti myndir af geislanum sjálfum síðar.
9. nóvember, 2009
Ég er mikill áhugamaður um uppvöskun. Íbúðin mín er sem betur fer að mestu leyti vestræn, en uppvöskunaráhöldin eru aðeins öðruvísi en heima. Reyndar eru svampar mikið notaðir til uppvöskunar hér.
Hér er fyrsta uppvaskið mitt.
Það tók smá tíma að venjast harðara undirlagi í rúminu, en ég sef á fremur þunnri dýnu á tatami motturúmi, semer bara eins og að sofa á gólfinu, en bara hærra.
Ég eldaði mér fyrstu máltíðina áðan. Þunnt skorið svínakjöt steikt á pönnu með hinu heimsfræga pikklaða kóreaska káli “Kimchi”. Með þessu steikti ég mér egg. Ég renndi dálítið blint í sjóinn, en hafði fengið ábendingu um matreiðsluna. Þetta heppnaðist bara prýðilega og ég borðaði þetta með bestu lyst.
Húsið sem ég bý í sem er í heilu íbúðahverfi sem byggt var fyrir gestalistamenn er hannað af Arata Isozaki, heimsfrægum japönskum arkitekt. Hann hannaði jafnframt allar aðrar byggingar hér á svæðinu og valdi þennan stað undir listamiðstöðina, í skógi vöxnum dal uppi í sveit. Upphaflega voru húsin umlukin vatni og í vatninu voru fiskar. Þetta olli því að mikill raki safnaðist upp í íbúðunum þannig að það varð að taka vatnið og fiskana burtu. Eftir stendur þetta svona vatnslaust og hálf skrýtið.
Skordýrin hér eru í stærra lagi. Engisprettan og köngulóin voru fyrir utan dyrnar hjá mér þegar ég fór út áðan. Köngulóin reyndar búin að vera þarna lengi sýnist mér.
9. nóvember, 2009.
Síðan ég kom hef ég farið nokkrum sinnum út að borða. Fyrsta daginn fór ég á Sushi veitingahús sem var bara svona venjulegt, ekkert fansí, en samt með allskonar góðu sushi á svona hreyfanlegu belti. Borðaði þar til dæmis laxahrognasushi, eggjavefjushushi, og eitthvað fleira, ásamt auðvitað grænu tei, sem er ómissandi með matnum. Maður setti bollann undir krana sem úr streymdi heitt vatn og fékk sér svo græna teið í duftformi, eins og kakómalt. Þannig gat maður ráðið styrknum. Ég er nú enginn sérstakur te-maður en hérna úti er það sjálfsagt að drekka grænt te við öll tækifæri.
Næst fór ég á karrí veitingahús lengst uppi í sveit. Machiko keyrði bílinn upp fáránlega þröngan stíg og í gegnum búddahlið, og var heppin að taka ekki speglana af fannst mér, það munaði einum millimetra. Japanir borða talvert mikið af karrímat allskonar og hægt að fá allskonar pakka með karrídóti úti í búð.
Ég skellti mér á græna karríið og það var að sjálfsögðu ljúffengt, Oishiiiiiiii. Þetta var passlega sterkt en maður gat sett chilli pipar útá til frekari styrkingar. Ég fór varlega í það. Með í pakkanum sem ég keypti var drykkur, þ.e. matur + drykkur 1.500 jen. Ég hélt auðvitað að þetta væri þá matur og bjór eða kók, eins og á Kentucky, en drykkurinn var sætt mjólkurte sem var borið fram á eftir matnum. Það var líka ljúffengt og gott, sérstaklega ef maður jós slatta af sykri út í, eins og mælt var með.
Það sem gerði karríheimsóknina enn skemmtilegri var að kokkurinn var eini starfsmaðurinn að því er virtist en hann var janframt eigandi veitingahússins sem hann byggði með eigin höndum, og bjó auðvitað í húsinu líka. Kokksi er víst einnig þekktur tónlistarmaður hér um slóðir, með fallega rödd, að sögn, og slær afrískar trommur af miklu listfengi. Sonur hans er víst líka mikill tónlistarmaður og leikur Reggí með hljómsveit sinni um alla Japan.
Í gærkvöldi fór ég svo út að borða ásamt Machiko og manni frá Yokohama, sem er bæði gagnrýnandi og rithöfundur, og svo konu sem er aðalsýningarstjóri listasafnsins í Hiroshima. Það var ánægjulegt að þau tölulu bæði fína ensku, enda verið við nám og störf erlendis. Sýningarstjórinn bjó um tíma í New York og vann þar t.d. við New Museum í 4 ár. Gagnrýnandinn var nýkominn úr mikilli Evrópureisu, hafði farið til Vilníus í Lettlandi, Tirana í Albaníu, Berlínar í Þýskalandi og svo til einhverrar borgar í Póllandi. Ferðin var farin til að skoða myndlistarsýningar og sá hann eitt og annað skemmtilegt, eins og maður sá á myndum í símanum hans.
En nóg um það. Við fórum á mjög dæmigerðan japanskan veitingastað í japanskri þröngri götu eins og þær gerast mest ekta. Staðurinn tók 10 manns í sæti, en flest sætin voru barstólar sem sneru að kokknum. Kokkurinn og kona hans stóðu vaktina í eldhúsinu, en þau að sjálfsögðu bjuggu í húsinu. Þarna sátum við, og kokkurinn, og þau hjónin, elduðu hvern réttinn á fætur öðrum ofaní okkur. Með þessu drukkum við vatn, Shoshu ( sem er einskonar Sake ) og bjór.
Eins og ég sagði áðan þá komu réttirnir á færibandi nánast, og kokkurinn eldaði af miklum móð. Djúpsteiktar ostrur ( sem maður dýfði annað hvort í salt eða barbeque sósu, ekki í hvorutveggja ), heilgrillaður makríll ( mjög dæmigerður réttur ), sashimi (hrár fiskur, makríll held ég ) sem hreinlega bráðnaði uppi í manni, smá kjöt í karrí, næpa með ediki, grænmetisdiskur sem ég kann ekki að nefna, og fleira. Allt borið fram í litlum skálum sem menn fá sér úr, þ.e. öllum réttum er deilt. Svo grænt te á eftir. Eftir þetta var maður bara nokkuð góður. Verðið var 3.000 jen á mann, sem er ekki svo mikið.
Eftir á fórum við á pöbb og þar fékk maður sér bjór á 650 jen. Það er auðvitað fáránlega dýrt fyrir krepptan Íslending, margfalda með 1,35 ca. , rétt eins og það er allt dýrt í dag fyrir Íslendinga í Danmörku, Englandi og öðrum löndum. En svona er þetta. Japan hefur svo sem ekki farið varhluta af efnahagsvandræðunum og hið opinbera er farið að draga saman sem svo aftur kemur niður á menningu og listum m.a. Japanir þurfa þó ekki að glíma við gjaldmiðilskreppu og verðbólgu eins og Íslendingar, en hér hefur verið verðhjöðnun mikið til síðustu ár.
En best að hætta þessu. Koma sér í háttinn, ég er ekki enn búinn að rétta af sólarhringinn, klukkan 9 tímum á undan og er núna þegar þetta er skrifað að verða 6 um morgun hérna úti. En best að enda með einu góðu OISHIIIIIII.
7. nóvember, 2009.
Machiko er frábær og tók vel á móti mér. Hún talar orðið fína ensku, enn betri en þegar við kynntumst í CCA. það sama verður ekki sagt um alla Japana, reyndar er það undantekning, amk. hér úti á landi, að rekast á fólk sem talar ensku að einhverju ráði. Þá kem ég auðvitað sterkur inn með japönskuna mína….eða þannig. Er að æfa mig amk.
Mynd af öfuga kóralrifinu sem ég minntist á áðan. Þetta er flottur staður, 130 ferkílómetrar. Limestone steinar standa upp úr jörðinni um allt svæðið, enda er þetta gamal kóralrif á röngunni. Í febrúar kveikja þeir í öllu svæðinu og þá lítur svæðið út eins og helvíti. Bikasvart og hvítu steinarnir standa upp úr eins og tennur. Svæðið er svo orðið fínt aftur í maí.
Undir öllu er stærsti hellir í Japan sem ég ætla að skoða seinna.
Ein mynd til að sanna það að ég er mættur á svæðið.
Það var fínn dagur í dag, sól og stilla. Ég fór auðvitað bara beint á stuttermabolinn, en Japönum fannst ég full brattur, enda sumarið búið.
Ein létt mannlífsmynd. Sjálfsalarnir auðvitað á sínum stað. Algjör snilld.
“Hvað get ég gert fyrir þig? ” – flott dúkka fyrir utan ísbúðina.
Auðvitað er Doddi búinn að fá sér ís. Skellti mér á einn Akiyoshi special,blandaðan appelsínu og vanillu, í ísbúðinni hjá Akiyoshi Platou.
Þessar risastóru pöddur villast víst stundum inn í listamiðstöðina þar sem ég er að vinna, en aðallega á sumrin skylst mér – sem betur fer ….ojjjj.
Í hellinum 10 km langa sem er undir Akiyoshi Plateou er sagt að búi m.a. augnalausir fiskar eins og þessir hérna að neðan. Þeir eru augnalausir auðvitað af því að þeir hafa ekkert við augu að gera þarna í myrkrinu. þessir fiskar á myndinni eru reyndar frá Mexíkó, þar sem menn hafa ekki náð að finna svona fiska í japanska hellinum.
Í Akiyoshi er ekki mikið af villtum spendýrum, en þó má rekast á íkorna og villisvín. Þetta eru villisvínaungar, en fullvaxið í bakgrunni.
Á náttúrugripasafninu eru svona lítil þrívíddarbox, en með klippimyndum af mönnum og dýrum. Mjög sætt.
Þessir skemmtilegu uppstoppuðu fuglar eru á náttúrugripasafninu. Set inn myndina fyrir stelpurnar mínar. Fyndnir fuglar.
Ég skellti mér á náttúrugripasafnið sem við Akiyoshi Platou sem er stórkostlegur staður, 300 milljón ára gamalt kóralrif sem er búið að snúa á rönguna. Undir öllu saman eru svo fullt af hellum, þar á meðal stærsti hellir í Japan, 10 km langur, og hananú ….
En hér er semsagt þessi fína beinagrind af elg og einhverju dádýri.
Þeir eru víst hættir að láta mann fá ókeypis poka í stórmarkaðnum, en eru með stafla að pappakössum fyrir mann.
Þetta eru fyrstu stórinnkaupin mín. Núðlusúpa, tveir pakkar af sushi sem ég fékk á 50% afslætti, jibbí, soja sósa, þunnt skorið svínakjöt og egg, smá bjór og frosnir rækjubögglar ( veit ekkert hvað þetta heitir annað) og svo auðvitað hið heimsfræga japanska franskbrauð og djús.
Farið að skyggja í Akiyoshi.
6. nóvember 2009.
Hérna ætla ég að búa næsta mánuðinn. Þetta eru íbúðir sem voru byggðar fyrir listamennina sem koma til að vinna hér.
Listamiðstöðin er um 10 ára gömul og allt er hér tipp topp flott og umhverfið stórkostlegt.
6. nóvember 2009.
Incheon flugstöðiní Seoul í Kóreu er held ég flottasta flugstöð sem ég hef komið í. Heathrow er bara fáránlegur í samanburði, enda var sú flugstöð valin sú versta í heimi nýverið.
Í Incheon eru þeir með litlar “menningarmiðstöðvar” á nokkrum stöðum í flustöðinni þar sem fólk fær að búa sjálft til kóreaskt föndur, hlusta á kóreaska lifandi tónlist og aðra viðburði, og starfsmennirnir eru í kóreöskum búningum. Það væri gaman að sjá íslenska útgáfu af þessu í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hér er sýnishorn af því sem er í boði þarna.
Sýnishorn af því hvernig flugstöðin lítur út að innan.
On november 4th I will be heading off to Japan for a one month stay at Akiyoshidi International Art Village, in Yamaguchi Prefecture.