Þið hafið fylgt mér á lífsleið minni núna í rúm átta ár. Ég man þegar mamma færði mér ykkur í heiminn. Svo saklausir og nýjir af nálinni. Við eigum góðar minningar saman, Eins og þegar þið létuð fyrsta blinda stefnumótið mitt fara fjandans til vegna fýlunnar af ykkur. Ég hló ekki þá, en geri það nú, en ekki örvænta, ykkur auðmjúklega fyrirgefið. Munið þið þegar við fórum saman í kvikmyndahúsið? Sama fýlan af ykkur og áður gaf okkur nægt svigrúm í salnum, en þrátt fyrir þægindin þá dauðskammaðist ég mín. Eldri kona lét sig meira að segja hafa fýluna af ykkur allt hléið til þess eins að skamma mig fyrir að þrífa ykkur ekki oftar. Þið vitið vel að það mun ég aldrei gera! Hún kallaði á starfsmann sem að lagði leið sína í stybbuna af ykkur til þess að athuga um hvað málið snerist. Hann sagðist lítið geta gert sem starfsmaður kvikmyndahússins í málum sem þessum, við værum jú borgandi viðskiptavinir rétt eins og hún. Ég veit ekki hvað hann hefði sagt hefði ég sagt honum að þið sluppuð við að borga miðagjaldið. Aumingja konan hreytti einhverju út úr sér og strunsaði að lausu sæti í fremstu röð. Ég hef sjaldan skammast mín svo mikið, og ég er handviss um að ef að eitthvað vandræðalegt atvik þessu líkt hefur átt sér stað í lífi mínu, þá var það vafalítið ykkar sök. Á tímabili voruð þið farnir að fara í mínar fínustu, en ég gat bara ekki slitið ykkur frá mér. Það hef ég aldrei getað.

Í minningargreinum svo sem þessari væri tilvalið að segja að tíminn hafi vissulega flogið á þessum átta árum sem við eyddum saman, en það gerði hann svo sannarlega ekki. Hann gerði það reyndar, í fyrstu, en svo kom þessi óbærilega ólykt. Í upphafi var hún svo ægilega sterk að hver sekúnda varð að heilli eilífð, en þið voruð þeir einu sem að skildu mig virkilega. Enginn annar gat sett sig í mín spor. Ég var orðinn háður ykkur. Lyktin vandist þó, hún var örsmár tollur fyrir átta ára þrotlausa samveru ykkar með mér. Guð, ég er ykkur svo þakklátur að ég fæ því ekki með orðum lýst. Ég neyðist til þess að finna mér einhverja glaðlega minningu með ykkur áður en ég brest í grát aftur. Ó, ef þið bara vissuð hve mikið ég hef grátið af áhyggjum yfir þessari stund. Hvað ætti ég að rifja upp, góðu stundirnar eru eins margar og þær eru ómetanlegar.

Ég veit! Fyrsti brúðuleikurinn okkar! Ég segið það með fullri vissu, að sambærileg uppsetning á Rómeó og Júlíu mun seint eða aldrei sjást eftir ykkar dag. Við fórum í Þjóðleikhúsið og lékum leikritið aftur fyrir starfsfólkið þar í þeirri von um að fá, einn daginn, að sýna það á sviðinu frammi fyrir fullum sal af fólki, klappandi ákaft fyrir óaðfinnanlegri frammistöðu okkar. En þau hlógu að okkur, en ekki með okkur eins og við ætluðum okkur. Þau vísuðu okkur á dyr, spyrjandi hvort þetta væri nokkuð falin myndavél, hvort við værum að reyna að hafa þau að fíflum. Menningarsnauða pakk. Það var reyndar ekki fyrr en við mættum á raunverulegu uppsetningu Þjóðleikhússins á leikritinu sem okkur varð endanlega vísað á dyr, kölluðu á lögregluna. Líklega hefur starfsfólk Þjóðleikhússins ekki eins mikið umburðalyndi gagnvart fýlunni af ykkur og kvikmyndahúsið. Aftur var kvartað undan okkur, tveir starfsmenn komu askvaðandi og báðu okkur vinsamlegast fara sökum hennar. Það var þá sem að við misstum allir stjórn á okkur og ákváðum að grípa tækifærið meðan salurinn var troðinn af fólki. Við skutumst upp á svið og lékum hinn dramatíska endi leikritsins fyrir salinn, á meðan við þustum undan ævareiðum leikurunum út um allt svið. Fáum var skemmt nema okkur, enda ekki að furða, við höfðum ekki æft þetta í tvær vikur! Við komumst reyndar á baksíðu Morgunblaðsins, en ég er ekki viss um hvort það hafi verið þess virði, því að lögreglan hótaði að henda okkur í steininn og jafnvel... Jafnvel senda okkur aftur til sálfræðingsins!

Við viljum ekki hitta þann fúskara aftur. Við vorum sendir til hans, allir þrír, en hann harðneitaði að tala við ykkur, bara mig. Ég ákvað að þegja og reyna frekar að fá hann til þess að gefa okkur eitthvert ráð við margbölvuðum óþefnum af ykkur. En hann missti stjórn á sér rétt eins og við og sló annan ykkar fast frá sér, ég fann það í gegn! Ég sagði honum að svona meðferð yrði ekki liðin, við værum nú að borga fyrir tímann. Hann féllst á að leyfa okkur að hætta meðferðinni óáreyttir ef við yrtum ekki á nokkurn mann um atvikið. En í Þjóðleikhúsið fáum við aldrei aftur inn að fara.

Ó, hvað ég mun sakna ykkar mikið! Sú örlagaríka nótt sem að allt var tekið frá mér. Slökkviliðsmennirnir sáu ykkur ekki þegar þeir fóru inn í húsið okkar sem stóð í björtum logum. Ég vaknaði úti á stétt við það að einn þeirra spurði mig hvort fleiri hefðu verið inni. Ég áttaði mig ekki strax, en lét hann þó vita af ykkur um leið og ég náði áttum, en það var löngu orðið of seint. Þið höfðuð pakkað saman og tekið ólyktina með ykkur til himnaríkis. Þið eruð askan ein, þið verðið að skilja að ég get ekki notað ykkur lengur í þessu ástandi.

Það er kominn tími á að kaupa nýtt par af sokkum. Ég vona innilega að þið fyrirgefið mér einhvern tímann, en svona verður þetta einfaldlega að vera. Ég lofa ykkur, af öllu hjarta, að einn daginn munum við sameinast á ný, en þið fetið í fótspor engla núna, ég verð að bíða míns tíma. Guð blessi ykkur báða tvo.