UM FOKHELT

Fokhelt

Af hverju Fokhelt
Hugleiðingar sýningarstjóra

Við efnahagshrunið síðasta haust varð nánast algjört frost á byggingarmarkaði,  og segja má að landið sé nú allt á leiðinni aftur á fokheldisstig. Í miðjum þessum frostavetri og mitt í endalausu kreppukarpinu og svartagallsrausinu, kom mikill hugur í undirritaðan. Áhugi vaknaði á því að gera eins og eina myndlistarsýningu, þó hvorki hefðu sýningarsalir né sjóðir staðið til boða á þeim.

Einn vordaginn, á leið fram hjá tómum íbúðablokkum á hafnarbakkanum í Hafnarfirði, laust þeirri hugmynd niður, að reyna að fá lánaða íbúð í einni þessara blokka undir sýninguna.  Það var þó viðbúið að það gæti orðið flókið að fá íbúð að láni, hvað þá tvær. Hugurinn reikaði þá á heimaslóðir, í Garðabæinn, og að nýja Akrahverfinu í Arnarneslandinu. Þar stóðu tvö fokheld raðhús að Breiðakri 17-19 sem hentuðu hugmyndinni sérstaklega vel.

Það reyndist sjálfsagt mál að fá húsin lánuð, en ekki hvað… þau stóðu nú bara  þarna tóm og voru til sölu. Verst reyndar ef einhver vildi kaupa húsin mitt í undirbúningnum, en ákveðið var að taka sénsinn.

En þá var að finna listamenn sem vildu taka þátt. Hverjir pössuðu inn í  samhengið? Er þetta boðlegt umhverfi? Eru listamenn ekki orðnir hundleiðir á að vera boðnar einhverjar vonlausar aðstæður til að sýna í. Það var þó ekki aftur snúið og eftir að hafa viðrað hugmyndina við Söru Björnsdóttur á förnum vegi, varð ljóst að þetta var möguleiki. Sýningin var nú orðin fokheld.

Þóroddur Bjarnason