sara-stundir
Sara Riel
Sjálfvirk / Automatic
20. 10. 2018 - 25. 11. 2018
 
Sara Riel opnar einkasýningu sína, Sjálfvirk / Automatic, í Kling & Bang, laugardaginn 20. október kl. 17:00. Til sýnis verða nýjar teikningar, málverk og skúlptúrar. Daglegur gjörningur á meðan á sýningartíma stendur og útgáfa bókar.

Sara hefur síðustu misserin ástundað teikniæfingar þar sem hún þjálfar sig í að komast í flæðiástand, kyrra hugann og kanna heiminn sem býr innra með henni – sjá hvert línan leiðir. Á sýningunni Sjálfvirk fer Sara gegn vísindalegri hugsun eða rökrænum ákvörðunum sem byggja á sundurgreiningu og flokkun. Eins og yfirskrift sýningarinnar gefur til kynna er hér um að ræða eitthvað sem við höfum ef til vill ekki fullkomna stjórn á eða eitthvað sem gerist ósjálfrátt. Sara upphefur mátt ímyndunaraflsins og spunans og freistar þess að treysta innsæinu.
 
Sara Riel (1980) hefur ótvíræða sérstöðu í íslensku listumhverfi. Fáir myndlistarmenn hafa tekist á við jafn stór veggmálverk í almenningsrýmum. Sara byrjaði að mála veggi á unglingsárum og eru verk eftir hana á veggjum um víða veröld, t.d. í Tokyo, Berlín og Reykjavík. Veggmyndir hennar eru fyrir löngu orðnar partur hluti af borgarlandslagi Reykjavíkur. Sara hefur samhliða veggjalist þróað myndmál sitt gegnum mismunandi miðla með blandaðri tækni. Hún hefur einnig verið afkastamikill hönnuður og gert fjölmörg plötuumslög, bókakápur og plaköt. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga hér á landi og erlendis, í minni galleríum sem og virtum sýningarsölum. Sara er meðlimur í Myndhöggvarafélagi Reykjavíkur og alþjóðlegu strætislistagengi sem nefnist Big Geezers.

Á meðan á sýningunni stendur mun Sara teikna daglega (mið-laug) frá 12-15 í Kling & Bang.
24. október verða tónleikar með teikningu, Sara Riel og Ólöf Arnalds á SOE 101 Kitchen í Marshallhúsinu. Listamannaspjall í Kling & Bang verður 15. nóvember kl. 20:.30.

Kling & Bang
Marshallhúsið
Grandagarður 20
101 Reykjavík
Ísland

Opnunartímar
Mið til sun 12 – 18
fim 12 – 21
lokað á mánudögum/þriðjudögum

Aðgangur ókeypis
 
 
 
 
Grandagarğur 20 - 101 Reykjavík kob@this.is