25.09.08
Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki neitt í þessum efnahagshræringum. Hver er ástæðan fyrir þeim? Bara það að einhverjir Kanar gátu ekki borgað húsnæðislánin sín? Það er sagt frá þessu í hamfarastíl dag eftir dag. Samt er ekkert í umhverfinu sem hefur breyst. Engar mannætu-górillur sem hafa ráðist á Hong Kong, stórfelldur uppskerubrestur eða farsóttir. Veit það eitt að lánin mín hækka bara og hækka. Ég skil það. Mér skilst að það sé hægt að redda þessu með því að prenta bara fleiri peningaseðla. Það er nú gott. En hvað ætli séu eiginlega til margir peningar í öllum heiminum? Hefur það ekki verið tekið saman? Og verða þessir gróðapungar loksins ánægðir og sáttir við lífið ef þeim tekst að moka þeim öllum undir rassgatið á sjálfum sér? Svar óskast, þarf ekki endilega að standa á appelsínugulum pappír.
---
Það versta við þessi mál er þó hvað þau eru helvíti hundleiðinleg.
---
Öppdeit: Óskar P. skrifar: Hérna:
http://answers.google.com/answers/threadview?id=548152
komast menn að því að heildarmagn peninga í heiminum sé 40,877 trilljón dollarar, eða
$ 40.877.000.000.000,
sem eru ca.
3.802.491.000.000.000 krónur,
eða ca. 600.000 krónur á hvert mannsbarn í heiminum.
---
Georg að tuddast á Ólafi á nætur- og dagvakt er auðvitað sláandi líkt Herra Fawlty að tuddast á Manuel í Fawlty Towers, besta gríni allri tíma. Þessi líkindi gera Nætur- og Dagvakt ekkert minna frábært stöff. Nú þegar Georg og Ólafur eru komnir á hótel verða þessi líkindi eflaust enn augljósari. Í stiklu fyrir næsta þátt Næturvaktarinnar sé ég að Georg er að hneykslast á pari sem hann telur að sé að fara að stunda saurlifnað á herberginu. Þetta er vitanlega sláandi líkt senu  í  þriðja þætti Fawlty Towers, The Wedding Present. Maður bíður bara spenntur eftir að "koma auga á Fawltíið" í næstu þáttum.
---
Fyrsti Næturvaktarþátturinn var annars fínn. Dáldið hægur kannski. Mér skilst að það fari allt á fullt í næsta þætti. Svartir englar voru líka fínir. Besta svona stöff só far myndi ég halda, nema maður sé bara loksins farinn að gúddera formið, hættur að spá í að þetta sé á Íslandi.
---
Ég verð gestur á ÍNN í kvöld kl. 21 á neytendavakt Raggýjar. Þetta var tekið upp á þriðjudaginn. Stúdíó stöðvarinnar er svo hrátt að mér líður alltaf eins og ég sé að fara að leika í klámmynd þegar ég kem þarna. Ingvi alltaf á svæðinu í svaka stuði. Ég tók með mér heim sýnishorn af töflum sem eiga að minnka hjá manni næturþvaglát. Búið til úr hvönn eða eitthvað og Ingvi er ægilega hrifinn af þessu. Ég er ekki frá því að þetta hafi virkað. Þarf þó að gera frekari samanburðarrannsóknir.

24.09.08
Veit ekki hvað það er, veðrið kannski (ömurlegt vikum saman, finnst manni), en það er ekki mikið að gerast. Eins og alltaf gerist við fjölmiðlaathygli hrúgast okurbréfin inn og ég sit sveittur við að kópípasta. Sit hér og hlusta á Wreckless Eric, sem er enn að. Undir nálinni er tvöföld vinýl plata, Big Smash, en sú inniheldur einnig safnplötu meistarans, Whole Wide World. Eldgamalt stöff en gott. 
---
Íslenskur eðall hefur bætt nokkrum endurunnum eitíslögum í sarpinn. Eðallinn tekur væmnasta lag í heimi, Þitt fyrsta bros, og gerir það nokkurn veginn áhlustanlegt. Það er einstakt afrek út af fyrir sig.

21.09.08
Okursíðan er eins árs í dag og með 1220 okurdæmi á bakinu frá okurpíndum Íslendingum. Það verður ekkert lát á síðunni og hún fer jafnvel að færa út kvíarnar í bættu formi innan skamms. Það er ágætt að fólk sé kannski orðið aðeins meðvitaðra um neytendamál og það hefur sýnt sig að því er fróun í að blása út um sín okurmál á síðunni. Um margt og mikið hefur verið skrifað en hér er ef til vill það helsta:

Topp 10 - Vondu gæjarnir!
1. 10/11 (og aðrar klukkubúðir) = Okur!
Lausn: Ekki koma þér í þá aðstöðu að þurfa að versla í þessum búðum.
2. Lyfja, Lyf & heilsa, o.fl apótek = Okur!
Lausn: Lyfjaver er ódýrarara apótek og e.t.v. einhver fleiri.
3. Byko og Húsasmiðjan = Okur!
Lausn: Múrbúðin og Vörulagerinn hafa fengið jákvæða umsögn. Svo kemur Bauhaus og rústar þessu (skulum við vona).
4. Icelandair = Okur, skrýtnir prísar, dýrt að gera mistök.
Lausn: Iceland Express er ekkert endilega skárra og það getur líka jafnað sig út að þurfa að koma sér í bæinn frá þeim útnáraflugvöllum sem þeir fljúga til. Þessi tvö fyrirtæki hafa mann "á eistunum" ef maður vill sleppa um stund af skerinu og því um að gera að ákveða með löngum fyrirvara að ferðast. Stökkva skal á tilboð og gera samanburð. Og náttúrlega vanda sig óskaplega þegar maður pantar á netinu því þar geta mistök orðið dýr. 
5. Leifsstöð = Okur, ekki ódýrara en í bænum / Dýr kaffitería
Lausn: Bús og sígó er a.m.k. helmingi ódýrarara, nammi ca. 15% (segja þeir), snyrtivörur eitthvað aðeins, en annað er á svipuðum prís. Sértu að spá í að kaupa eitthvað dýrt er betra að bera saman og hringja á undan sér. / Taktu mér þér nesti?
6. Apple á Íslandi = Okur!
Lausn: Láta einhvern kaupa fyrir þig í útlöndum (varla samt hagstætt með genginu núna) / fá þér PC.
7. Krónan = Ekki sú lágvöruverslun sem hún gerir sig út fyrir að vera.
Lausn: Bónus.
8. Te & kaffi / Kaffitár = Okur á kaffi og sérstaklega samlokum og öðrum mat.
Lausn: Ekki éta þarna! 
9. Sambíóin = Okur!
Lausn: Regnboginn er með kreppubíó. Svo má poppa í potti og horfa á gamla spólu!.
10. BT = Okur!
Lausn: Elko virðist í flestum tilfellum vera ódýrari.

Bubblandi og kraumandi undir: Jói Fel, Eymundsson, Tekk kompaní, olíufélögin og símafyrirtækin! Svo ekki sé minnst á BANKANA!!!!!!

Topp 10 - Góðu gæjarnir!

1. Santa María, Laugavegi
Allt á matseðli undir 1000 kall. Meðvitaðir eigendur með samfélagslega ábyrgð.
2. Lyfjaver
Ódýrasta apótek landsins.
3. Dússa-bar á Borgarnesi!
Dússi hefur ekki séð ástæðu til að hækka hjá sér matseðilinn frá því í ágúst 2007! (a.m.k. hafði hann það ekki þann 18.07.08)
4. Tjöruhúsið á Ísafirði
Ekki bara ódýrt heldur hrikalega gott. Lokað á veturna.
5. Símabær
Eins manns operasjón og ekkert okur.
6. LEIFI
Leifasjoppa, Iðufelli 14 – Ódýrasta tóbakið!
7. Ikea
Sænska kaupfélagið er að standa sig. Svo má líka eta þar með allra fjölskyldunni á undir 2000 kall.
8. Tölvuvirkni
Hafa komið vel út í samanburði.
9. Fiskbúðin Hafberg, Gnoðavogi 44
Meðvitað starfsfólk (Sjá #1160).
10. Bónus
Eru skástir, en er það nóg? Væri ekki betra að fá alvöru samkeppni í matvælin? Smá hjálp að utan kannski? Svona Bauhaus-hjálp? Ætli nokkur nenni því.

Bubblandi og kraumandi undir: Bernhöftsbakarí, Asía, 22, Vaka, Hárhorn Torfa rakara!
---
Strákarnir í Ný dönsk voru í ávaxtadeild Hagkaupa og röðuðu ávöxtum í körfur. Hvað stendur til, eruði að fara að gera umslagið fyrir nýju plötuna?, spurði ég Jón Ólafsson. Hann náði ekki að svara áður en ég vaknaði. Ég er hrifinn af hinu einlagi svari sem ég sá einhvers staðar að nýja platan þeirra væri "svona fjórða besta platan okkar". Dáldið annað en hið endalausa "Besta plata Bubba!" 
---
Ég hef haft lagið Synthia með FM Belfast á heilanum alla helgina. Mjög gott lag!
---
Rafmagnsbílar eru framtíðin. Gott þetta hjá Össa og Mitsúbisí. Hef annars greitt afborgun nr. 18 af 36 af Renaultbíl mínum sem ég er með á rekstrar-myntkörfuláni frá Satani sjálfum. Þegar ég verð laus undan því fæ ég mér druslu. Þar næst rafmagnsbíl og svo gamlan Ford Mustang í svona Sveins Andra-flippi. Ég er alveg búinn að læna þessu upp. Ég held að við sjáum svipaða þróun með bíla og síma. Einu sinni voru allir með stóra svarta borðsíma (= bílar í dag). Svo kom gsm og nú eru allir með eitthvað pínkulítið og grúfí. Bráðum verða allir á pínkulitlum og grúfí rafmagnssmábílum. Fólk á Range Rover og pallbílum verður álitið jafn skrýtið og ef einhver væri ennþá með svona Ómars Ragnarssonar-farsímahlunk.
---
Ef Ísland kemst í þetta blessaða Öryggisráð verður þá Ingibjörg Sólrún keyrð á vörubílspalli niður Skólavörðustíg og hyllt á Arnarhóli?

20.09.08
Á morgun verður komið eitt ár síðan ég og Grímur fórum í hlaðborð á Great Wall og auluðumst til að kaupa litla kók í gleri á 350 kall stykkið. Fuss okkar og svei í kjölfar þessara kaupa varð til þess að ég opnaði Okursíðuna sem nú er vitanlega orðin ein helsta von  landsmanna í fárviðri okurs og níðingsskapar. Afmælisveisla Okursíðunnar fer fram í Silfri Egils þar sem ég mun tafsa og horfa aulalega út í loftið.
---
Goth báðum megin er væntanleg 7"-plata Skáta. Annað lagið má heyra á mæspeisinu þeirra.
---
Það var alveg sama á hvaða stöð maður skipti í gær, allsstaðar voru Buff að spila. Ég hlakka annars til að heyra nýju plötuna með Buff. Þótt hinar tvær hafi alveg farið framhjá manni eru þessi nýju popplög með þeim alveg að gera sig.

19.09.08
Fyrst var Kallakaffi í sjónvarpinu, en svo kom fúll Davíð Oddsson eitthvað að rífa kjaft. Þá vaknaði ég upp við vondan draum og fattaði að það var nei vá bara 2005 ennþá. 
---
Skiptir engu þótt við séum með krónu? Djöfulsins bull er þetta. Það skiptir öllu hvort einn dollar sé 60 krónur eða 95. Spurðu bara krakkana í námi erlendis. Spurðu fólkið út í búð. Spurðu bankana, eru þeir ekki alltaf vælandi um að fá að gera upp í evrum. Hver græðir eiginlega á því að það sé króna? Hvaða rugl er þetta í þessu liði? Við verðum fyrir stórkostlegri kjararýrnun akkúrat um þessar mundir þegar gjaldmiðillinn flýgur svona upp enda ekki sjálfbært samfélag. Þurfum að kaupa allt að utan. "Íslenskur" fiskur og kjöt hækkar meira að segja því menn munu kenna um hækkandi aðföngum, fóðri, olíu. Djöfull erum við fokkt (eins og sagt er), en við eigum það líklega skilið (í biblíulegum skilningi). 
---
Annars finnst Dagbjarti Kallakaffi ágætt og honum fannst Búbbarnir ágætir líka. Það breytir viðhorfi manns til hlutana ef krakkinn manns fílar þá. Kallakaffi og Búbbarnir eru semsagt frábærir!
---
Er kominn með forhlustunareintök af tveimur af bestu plötum ársins, Hang on með Motion Boys og How to make friends með FM Belfast. Hefst þá stíf hlustun.
---
Árum saman hafa sögur af neðanjarðarstuttmyndinni Ze Lost ponytail gengið um bæinn. Sumir töldu hana uppspuna, aðrir fullyrtu að hún væri til. Og jú, hún er til og loksins komin á netið: "Það er helst í fréttum að stefna Ríkisstjórnarinnar er í uppnámi eftir að upp komst að Halldór Ásgrímsson er með lítið typpi. Þessi vitneskja er afar undarleg í ljósi þess að Davíð Oddsson er með hólkvítt rassgat."

18.09.08

Lið rótara, Golli og Hrói rót, unnu sannfærandi og glæsilegan sigur á Jesúfeðgum í Plípp. Er þá lokið Popppunktstengdum viðburðum í bili, en svo verður örugglega meira fyrr en síðar.
---
Á heimasíðu auglýsingastofunnar Kraftaverk, sem stofnað var af Kristjáni E. Karlssyni, er að finna tvö góð söfn. Annað er um pönkið (eða öllu heldur Þeysara og safnplötuna Northern Lights playhouse), hitt er með gömlum bíóhúsalógóum. Hin glæsilega smáskífa með Þey, Útfrymi, kom í gífurlega flottum umbúðum þar sem sérstakur plastpoki var utan um slífið. Því ver og miður hef ég látið mitt eintak en á heimasíðunni má sjá þetta, enda sá Kristján um hönnun. Þessi hönnun kom manni þó ekki það mikið á óvart enda átti ég í safni mínu fyrstu LP Buzzcocks, Another Music in a Different Kitchen, sem líka kom í sérstökum plastpoka. Þegar ég vildi vera sérstaklega kúl í skóla mætti ég með skóladraslið í þessum poka. Ekki man ég til þess að þetta hafi vakið sérstaka lukku samnemanda minna. Annað tengt þessari plötu, sem ég á ennþá, er að í matreiðslu átti ég í rökræðum við Elvar, væntanlega, um gildi sólóa. Hann hefur eflaust verið að tala um að vandaður hljóðfæraleikur og sóló gæfu tónlist inntak og gildi og í pönki væri þetta ekki að finna. Ég hef verið á öndverðum meiði og nefnt lagið Moving away from the Pulsebeat, og þá sérstaklega trommusólóið í miðju lagsins, sem dæmi um að víst væru sóló líka í pönkinu. Ekki veit ég samt hvort Þeysarar og Kristján höfðu Buzzcocks pokann til hliðsjónar í Útfrymisgerðinni.
---

Buzzcocks - Moving away from the Pulsebeat
Magazine - The light pours out of me
Pönkbandið Buzzcocks var sem kunnugt er stofnað í Manchester á tónleikum Sex Pistols þar (sjá 24 hour party people). Pete Shelley og Howard Devoto voru aðaldúddarnir og með þeim báðum í bandinu kom klassíska ep-ið Spiral Scratch. Svo skyldu leiðir, Pete hélt áfram að pönka með Buzzcocks og pönkar enn. Ég sá Buzzcocks í Loppen í Köben fyrir nokkrum árum og það var fínt. Howard Devoto hélt í fágaðri átt, stofnaði Magazine, sem var smá proggpönk og gerði mjög góða hluti. Sýnishornið hér er af fyrstu plötunni, Real life. Nú, vegna andláts upprunalega gítarleikara Magazine, er bandið að koma saman aftur í fyrsta skipti síðan 1980 og spilar á tvennum tónleikum í febrúar. Og nema hvað, ég er kominn með miða á giggið í London! Þetta er náttúrlega geðveiki, í ljósi gengis punds og svona, en það var bara ekki hægt að sleppa þessu, enda fara Steinn Skaptason, Trausti Júl og Brjánn Gromm með líka!
---

TV on the Radio - Halfway Home
Hefi verið að renna yfir tvær væntanlegar plötur, Dear Science með Tv on the Radio og Snowflake Midnight með Mercury Rev. Mercury Rev voru síðast æðislegir á Deserter's Songs árið 2000, og halda áfram óspennandi moði á nýju plötunni. Fyrsta plata Tv on the Radio var hins vegar frábær en sú síðasta var ekki eins góð. Á Dear Science, sem er nr. 3, finnst mér bandið aftur vera orðið nokkuð gott. Þetta er mun poppaðri plata en hinar, samt sándlega spennandi og frísk. Held hún komist jafnvel inn á topp 10 yfir árið. Hér er lagið sem byrjar plötuna og gefur strax til kynna að það sé stuð á leiðinni. Hér er svo nokkuð flott myndband við fyrsta singul.
---
Dollarinn er kominn í 95 kall. Er við erum náttúrlega hluti af alþjóðlegu viðskiptaumhverfi, é ræt. Ég hef þó séð það svartara. Einu sinni var dollarinn 110 kall. Það var einmitt á sama tíma og ég var í honímóni á Hawaii eins og fínn maður.

17.09.08
Úrslit í PLÍPP núna kl. 10.10. Rótarar mæta Jesúfeðgum í æsispennandi lokaslag!
---
Ritgerð Birgis Baldurssonar um Guðmund Haraldsson skáld má lesa hér.
---
Ef ég hefði hlustað á Davíð Oddsson og keypt hlutabréf í Decode fyrir eina milljón árið 1999 ætti ég 8335 krónur í dag. Sem betur fer hlustaði ég ekki á ráðleggingar Davíðs Oddssonar. Nokkru síðar fóru hann og Dóri á hnén og samþykktu Írak til að halda í Kanann. Það klikkaði. Svo dreif hann sérstaklega sniðið efrirlaunafrumvarp fyrir sjálfan sig í gegn áður en hann fór í Seðlabankann. Ég vil ekki hljóma eins og Hallgrímur Helgason, sem er með karltuðruna á heilanum, en er ekki hægt að koma honum einhvers staðar annars staðar fyrir en þarna í Seðlabankanum? Ekki traustvekjandi að hafa svona brussu þarna.
--- 
Í dag heyrði ég nýtt orð í útvarpinu, afskiptahraði. Upp á síðkastið hafa líka ný orð eins og skortsala og verðbréfavafningar skotið upp kollinum. Ég sé alltaf fyrir mér blautan tissjú-vöndul sem dottið hefur ofan í klósett þegar ég heyri þetta orð, verðbréfavafningur. Vont orð. Afskiptahraði er mun betra.
---
Steinn Skaptason sendi mér nokkrar fallegar myndir sem hann fann á Hellissandi.is. Ég má til með að deila þeim með ykkur.


Hér eru þeir Leopold og Siggi í Flatey.
---
Hér er tvær flottar myndir af Diamonds í Drimbum 1967.


---
Sé seinni myndin blásin upp sést ekki bara flottur svipur á stelpunni sem gægist heldur líka að lampar og straumbreytar standa upp úr magnaranum. Þá má leiða að því líkum að þetta sé á sjómannadaginn því stelpan í bleiku peysunni sýnist mér vera með barmmerki sjómannadagsins: 

---
Öfugt við það sem gerist iðulega í þáttum eins og CSI fæ ég ekki skýra mynd af karlinum þarna í brekkunni þótt ég stækki hann upp og beiti nýjustu tölvutækni:

CSI eiga mun betra forrit og gætu sakfellt þennan karl á stundinni. Á síðunni er líka "myndband" af Diamonds og Didda Halla á balli 1968.
---
Útrás 1974:

---
Og að lokum: Hippasveitin Nú jæja í Röst á Hellissandi 1973-1974.

Hellissandur.is er topp síða! Þar má lesa fróðleik um böndin hér að ofan og helling í viðbót.

16.09.08
Fátt setur jafn mikinn svip á borgina og "kynlegu kvistirnir". Jóhannes B. Guðmundsson, Jóhannes Grínari, á sinn eigin stað á IMDB, enda var hann í skotfærageymslu Friðriks Þórs. Hann stóð oft við rafmagnskassann á horni Austurstrætis og Lækjargötu og glotti framan í heiminn. Borgnesingurinn Sveinn M. Eiðsson var hins vegar í skotfærageymslu Hrafns Gunnlaugssonar og á líka imdb-síðu. (Það eru reyndar allir á þessu Imdb, meira að segja ég!) Svein sást stundum í bænum og vakti þá jákvæða athygli. Óli blaðasali er löngu hættur og eftirmaður hans Gunnsi Gunn er kominn á trésmíðaverkstæði. Ég held það séu meira um róna í dag heldur en kvisti, og þetta er alltaf sama ógæfuliðið. Stundum illvígt en oftast kannski bara mígandi. (Talandi um rafmagnskassa Jóhannesar grínara, þá sá ég einu sinni rónann með Brian Jones klippinguna míga á téðan kassa in broad daylight).  Nú er það helst "Hlauparinn" sem heldur uppi merki kk. Einn í kvenmannsfötum sem ég man ekki hvað heitir er stundum á svæðinu og Stefán Grímsson sést stundum. Tryggvi Hringur auðvitað líka og er alltaf jafn mikill auðfúsugestur eftir að hann hætti að drekka (ræflarnir sem bögguðu hann um árið skammast sín vonandi ennþá) og einhverjir fleiri. Mér fyndist upplagt að ungir leikstjórar tækju Friðrik og Hrafn sér til fyrirmyndar og finndu sér kynlegan kvist til að hafa í litlum hlutverkum í myndum sínum. Það er ákveðið trade mark.

15.09.08
Algjör snilld væri það ef áætlanir um ferðamannakafbát í Eyjafjörð yrðu að veruleika (sjá Fbl í dag). Enn einn merkisviðburðurinn bættist þá á listann yfir það sem maður gerir á Akureyri. Fyrir eru t.d. Jólahúsið, Kjarnaskógur, Listagilið og Frúin í Hamborg. Það vantar auðvitað alveg ferðamannakafbáta hér. Held ég hafi lesið álíka frétt nýlega um kafbát sem einhver ætlaði að starfrækja við Reykjavíkurhöfn. Skoða hvalina öpp klós. Einu sinni hef ég siglt um í túrista-kafbáti, Atlantis á Hawaii, sem var almagnað, enda er allt neðansjávar spennandi og leyndardómsfullt. Akureyrarkafbáturinn er málið!
---
Svo vantar fleiri kláfa. Einhver ætlaði að hafa kláf á Ísafirði og byggja kaffihús upp á fjalli. Ekkert hefur gerst í því ennþá. Kláfar og kafbátar geta einir bjargað efnahagnum úr þessu. Svifkláfa-síðan mín er í tómu tjóni. Hún er jafn lífleg og árshátíð FL-group, enda hef ég ekki komist í tæri við nýja kláfa lengi. Ekki hef ég rekist á alþjóðleg samtök svifkláfaáhugamanna, en hef svo sem ekki skoðað það í þaula. Wikipedia kemur að vanda sterkast inn með síður um Aerial tramway og Gondola lift.
---
Össi beibí greinir í líflegum bæjarlífspistli frá því að meistari Bragi ætli að gefa út heildarsafn verka Guðmundar Haraldssonar skálds. Guðmund má kalla fyrsta íslenska bloggarann þótt hann skrifaði blogg sín í bækur. Hann skrifaði bara um sjálfan sig. Guðmundur var smávaxinn, kannski löglegur dvergur, og mjög eftirminnilegur úr bæjarlífinu. Hann og "Jóhannes grínari" voru eiginlega aðalmennirnir þótt ekki vilji ég líkja þeim saman að öðru leiti en því að þeir voru eftirminnilegir. Guðmund sá ég einu sinni sníkja pening af kaupmanni í kjötbúð sem var á horninu þar sem Kofi Tómasar frænda er núna. Svo hékk hann oft fyrir framan Landsbankann og kallaði ónotum í mig þegar ég fór að vinna, Djöfull ertu ljótur, eða eitthvað álíka. Mjög hressandi. Nei ég lýg þessu upp á látinn mann. Þetta gerðist nú bara einu sinni. Eitt eftirminnilegasta upphitunaratriði sem ég hef upplifað var þegar Guðmundur tróð upp á 44. tónleikum S.H.Draums (sjá). Meistarinn var auðvitað kominn þarna að frumkvæði Jakobs Magnússonar sem hefur næmt auga fyrir fríksjói. Karlinn var orðinn blindfullur þegar hann las upp og var alltaf skellihlæjandi. Las smá, skellihló af eigin fyndni og sagði Er þetta ekki gott hjá mér? Er þetta ekki gott hjá mér? aftur og aftur. Ógleymanlegt! Heildarsafn verka Guðmundar er auðvitað jólabókin í ár og er þegar komin efst á jólagjafalistann minn.

14.09.08
"Keyptu fimm ára telpu til þess að hópnauðga", "Hafði mök við hund að barni viðstöddu" og "Látin horfa á sjónvarp meðan dótturinni var nauðgað" eru dæmi um fréttir sem láta mann rísa upp úr rúminu, brosa framan í heiminn, hlaupa að tölvunni og byrja að skoða Vísi punktur is. Eða ekki. Krakkar mínir, afkimar heimsins eru viðbjóðslegir, og allt það, og kallið mig kveif, en kommon. Á hvaða missjóni eruð þið? Mætti ég þó fremur biðja um skraufþurra og vandaða fréttamiðla með nákvæmum fréttum um það hvað ég skulda mikið.
---
Journey to the center í 3D er nú engin barnamynd þótt hún sé L. Eftir að hafa hangið yfir auglýsingum (sem eru ofbeldi á kúnnum) og þremur óspennandi stiklum fyrir óspennandi barnamyndir, byrjaði þetta og allir settu upp gleraugun. Fyrsta atriðið er skordýr sem snýr fálmurunum framan í áhorfendur svo þeim líður eins og fálmararnir séu að koma alveg framan í þá. Þá fékk Dagbjartur nóg og heimtaði að yfirgefa salinn. Sem betur fer fengum við endurgreitt.
---
Seinna sagðist hann hafa verið að grínast og heimtar að fara aftur. Auðvitað verður það látið eftir honum þó ekki nema til annars en að hlaupa aftur út þegar fálmararnir koma. Til þess að eru foreldrar, að snúast um krakkana. 
---
Feðgar á ferð fóru þá í Gestastofu tónlistar- og ráðstefnuhússins á Lækjartorgi að skoða líkön af þessu heljarinnar framtíðarmannvirki sem Björgólfar reisa nú með vasapeningnum sínum og klára vonandi áður en þeir fara á hausinn. Puntudúkka auðvaldsins, Óli Elíasson, er búinn að dunda sér við að gera ægilega fínt glerdrasl á fimm trilljónir sem hylja mun húsið og svo verða þarna allskonar salir sem fyllast von bráðar af músikk og almennri gleði. Auk líkanaskoðunar má gúffa í sig súkkulaði og drekka kaffi út í eitt og þykjast vera að detta út um gluggann þarna á þessu misheppnaða húsi á Lækjartorgi sem lítur nú í fyrsta skipti vel út, þökk sé fjármagnseigundum. Einu sinni var Tommaborgari þarna á neðstu hæðinni og Jóhann G seldi plötur og listaverk á annari hæð um hríð. Nú er bara Segafredo kaffi og Gestastofa speisaðs tónlistarhúss: Framtíðin er hér! Fleiri þúsund hugmyndir bárust í nafnasamkeppnina á húsið, þar á meðal "Atla Heimar" og "Jón Leifsstöð", sagði kynningarkonan mér.
---

Of Montreal - For Our Elegant Caste
Skeletal Lamping er nýjasta nýtt frá þessum sprelligosum sem ég sá á Airwaves í fyrra. Ekki eins popp-brött plata og í fyrra heldur ægilegt víravirki og bútasaumsteppi þar sem hvert lag er 400 kaflar og svona. Nei ég lýg því. En maður venst þessu furðufljótt, hafandi kannski hlaupið 12 km og haft etta í á meðan. Jafnvel ein af betri plötum ársins þegar upp er staðið. Ég er náttúrlega eins og stekkjastaur í löppunum eftir 12 km hlaupið, Laugar-Árbær-Laugar, en það er mjög unaðslegt að skokka í grenjandi rigningu í morgunsárið.


Ruddinn - Anyway you want it
Ruddinn (með Soulviper) - Supersonic situation
Bertel Ólafsson (aka Ruddinn) er ekki fyrr búinn að gefa út Ruddinn 2 að hann varpar fram fleiri lögum. Hér er forsmekkur Ruddans 3, síður sen svo ruddalegt heimabrugg með nýrri reglugerð og verður bara betra og betra. Soulviper er hér.

11.09.08
Meira af Keikó. Nú vilja Hallur og Árni Johnsen fá beinin af hvalinum heim og hafa til sýnis í Vestmannaeyjum. Hei, afhverju ekki bara að grafa hann í þjóðargrafreitnum við hliðina á Jónasi? Ég myndi skrifa undir það bænaskjal.
---
Rafall smaðall... Heimsendir, pfft.
---
Ellefti september í dag, þú veist, þarna þegar WTC hrundu. Svo voru tíu ár í gær síðan Keikó kom til landsins (eða Siggi eins og hann hét einu sinni). Heyrði skemmtilega upprifjun af því í gær hjá Guðmundi í Baggalút á Rás 2 sem talaði við Hall Hallsson hvalaumboðsmann (sem ennþá lætur eins og þetta hafi allt saman verið frábær hugmynd). Ég man vel eftir þessu. Herflugvélinni að lenda í beinni maraþon útsendingu og draumórar um margra hæða hótel í Vestmannaeyjum sem myndi fyllast af túristum að skoða hvalhelvítið í kvínni að rúnka sér á gúmmíslöngu. Hvílík steypa. Stundum er eins og þjóðin sé öll saman á sýru. 
---
Amerískir dagar í Hagkaupum valda mér miklum vonbrigðum að þessu sinni. Árum saman hefur maður einu sinni á ári getað birgt sig upp af rótarbór og öðru gúmmilaði á þessum dögum. Nú voru þeir auglýstir í FBL í gær svo ég endasendist í Kringluna til að hamstra, en nei nei NEI!!!. Enginn rótarbjór í ár!!! "Það eru nokkrir búnir að spyrja að þessu (sem var skrýtið því það var nýbúið að opna) og það kom bara enginn rótarbjór núna," sagði starfsmaður og bætti við: "Þetta hefur alltaf selst upp svo ég skil ekkert í þessu".
---
Mér sýnist dagarnir vera svindl. Ég get ekki séð að nokkuð geðveikt gúmmilaði hafi verið flutt inn sérstaklega að þessu tilefni. Það sem er auglýst er kóka kóla og cherrios (veiii! aldrei séð svoleiðis áður!), fokdýrt Starbucks-kaffi sem er alltaf til hvort sem er og eitthvað dót sem ég hef séð þarna á öllum árstíðum. Sem sé, kreppu-amerískir dagar – bömmer. Kannski innflytjendur séu svona brenndir af því að liggja með tonn af kexi með tyggjóbragði og 30 bretti af hnetusmjörs-sultu-tannkremi. Það er af sem áður var, bú hú.
---

Motion Boys - Queen of Hearts (Midnight version)
Á næstunni fyllist allt af góðu íslensku músikstöffi. Fólk vill gefa út fyrir annað hvort Airwaves eða jól. 1 okt er von á frumraun Motion Boys, plötunni "Hang on". Bandið hefur dælt út slögurum, einir 5 eru komnir: Hold on to your heart Hold me closer to your heart . Waiting to happen, eitt sem ég man ekki hvað heitir og finn ekki á harða diskinum Steal your love, Queen of Hearts og sá síðasti, Five 2 love – allt slefandi gott popp svo ekki er örgrannt á því maður bíða spenntur eftir Hang on. Birgir Ísleifur gerir sér grein fyrir áhrifum þessar síðu og splæsti einu óútgefnu lagi á hana, stuttri chill útgáfu af QOH, tekið upp í Bath kl. 03 um nótt. Þess má svo geta að Doddi úr Trabant (og unun) er farinn að spila á bassa með MBoys og fyllir í skarðið sem Viddi úr Trabant (og unun) skyldi eftir sig. 


Ultra Mega Technobandið Stefán - Box
Sprelligosarnir í UMTS hamast eins og bandbrjálæðingar á plötunni Circus sem var að detta inn. Tíu lög í stífri keyrslu með sirkussyntum, Skríplarödd og hamagangi – og þetta er hvílílkt að gera sig. Þú samstundis út í búð. Ég myndi umsvifalaust mæta í UMTS-spinning þar sem bandið reytti af sér stuðlögin. Þeir ættu að athuga þann möguleika. 


Mammút - Gun
Önnur plata Mammút, Karkari, er komin út eins og alkunna er. Bandið minnir mig alltaf á Tappa tíkarrass, eitthvað í söngnum sem kveikir þessi tengsl, þó er Katrín ekkert lík Björk, þannig. Platan er nokkuð góð og hrein snilldarlög innan um. Skemmtileg tilviljun að Mammút sé með lag sem heitir Gun því Emilíana Torrini er líka með eitt sem heitir Gun á nýju plötunni sinni. Það er eiginlega besta og óvæntasta lagið á þeirri plötu. Nokkur umræða er í gangi út af dómi um Karkara á Rjómanum og má sjá hér


Hungry & the Burger - Cosmonauts
(Úr fréttatilkynningu): Tónlistarofurmennið Árni Rúnar Hlöðversson, einnig þekktur sem Árni Plúseinn, hefur sent frá sér plötuna Lettuce and Tomato undir nafninu Hungry and the Burger. Platan er framleitt og gefin út af World Champion Records í samvinnu við Kimi Records og mun fást í allra helstu plötubúðum í afar takmörkuðu upplagi.  Einnig verður hægt að nálgast plötuna í rafbúðinni http://kimi.grapewire.net.
Er þetta fyrsta útgáfa World Champion Records, en mun sú útgáfa einning gefa út plötu FM Belfast, How To Make Friends á komandi vikum.  Útgáfan er í eigu Árna Rúnars og Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur, sem er með Árna í FM Belfast, auk þess að vera spúsa hans.
Lettuce and Tomato er öll samin og tekin upp í Brooklyn þar sem Árni bjó síðasta vetur. Sérstakan hljóm hennar má rekja til Groovy Tunes Grand Piano hljómborðs sem Árna áskotnaðist í dvöl sinni vestra. Í raun er öll platan samin á þau fáu hljóðfæri sem voru við höndina hverju sinni, til að mynda varð lagið ANTANT til þegar gesti bar að garði með bassa og melodiku.
Tónlistin er draumkennd og flæðandi og vel til þess fallin að róa taugarnar á þessum síðustu og verstu og ekki skemmir verðið heldur en platan kostar í kringum 1500 kallinn.  Kimi Records mæla eindregið með að hlustendur gæði sér á safaríkum hamborgara með miklu káli og tómat á meðan þeir renna plötunni í gegn, til þess að fá sem allra mest úr tónlistinni. 
Hægt er að heyra nokkur lög með Hungry and the Burger á : http://www.myspace.com/hungryandtheburger

10.09.08
Þeir eru greinilega ekki búnir að kveikja á risarafalnum ennþá, nördarnir í Sviss. Ég kveð og vitna í bjartsýnismanninn Stephen Hawkings: "We are just an advanced breed of monkeys on a minor planet of a very average star." 
---
Kannski næ ég þó að gera einn PLÍPP fyrst. Nú keppa Jesúfeðgar og Óttarar um það hvort liðið mætir Róturum í úrslitaleiknum í næstu viku. Kl. 10:10, Rás 2 (ef það verður ekki heimsendir).

09.09.08
Er að hlusta á Brian Wilson plötuna nýju. Auglýsing í draumi fékk mig til þess. Í draumnum var ég eitthvað að hanga baksviðs á tónleikastað og langaði svo að segja Briani hvað hann væri æðislegur. Svo þegar hann kom loksins leit hann út eins og Michael Douglas. Ég sagðonum það samt. Tækni til að auglýsa í draumum fólks er enn í þróun, eða kannski ekki. Minnir að það hafi verið grínast með þetta konsept í Futurama.
---
Er með This filthy world, upptöku af standuppfyrirlestri John Waters um list sína og líf, til langtímameðferðar í flakkaranum. John er fyndinn að vanda en dáldið staðnaður náttúrlega, sem er allt í lagi – hver er ekki staðnaður? Hann minnist á myndina Mom and Dad eftir Kroger Babb. Allir fara til helvítis sem sjá þessa mynd, sögðu kaþólsku nunnurnar svo auðvitað fór ungur John Waters beint í bíó. Aðalið í myndinni er barnsfæðing sýnd í miklum smáatriðum öpp klós. Þetta var á þeim tímum sem aðgengi að klámi var hverfandi svo síðfrakkamenn fjölmenntu á myndina til að sjá píku. John Waters leiðir líkum að því að "einhvern veginn hafi þeim tekist að blokkera barnið að koma út..."
---
Píkan er enn talin vafasöm þrátt fyrir Píkusögur. Henni skal ekki flíka á torgum. Það hefur ekki fengið næga auglýsingu að ljósmynd eftir Þórdísi Erlu, sem sýnir beinustu leið upp í leggöng, var fjarlægð af Þjóðminjasafninu. Þótti ekki húsum hæf. "Píka bönnuð á Þjóðminjasafninu" hefði verið flott fyrirsögn. Myndin var hluti af myndaröð Þórdísar frá Landsspítalanum. Margt hefði maður haldið að væri vafasamara en píkan í myndaröð Þórdísar, t.d. mjög brútal mynd frá uppskurði, sem mætti lýsa sem "læknar taka slátur ofan á konu". Þórdís er þarna í hópi annarra ljósmyndara og þetta er mjög flott sýning sem ég mæli með. Henni líkur 14. sept svo það er ekki seinna vænna.
---
Prófaði að hlaupa með eitthvað í eyrunum. Fyrir valinu varð 4533 LCD Soundsystem, sem var beinlínis hönnuð til að hlaupa með. Loksins náði ég því verki. Þetta er svona nytjalist, heillandi konsept, tónlist með tilgang. Eftir það hlustaði ég á upptöku á gömlum Party Zone þætti. Hinn stórfenglegi dansþáttur þjóðarinnar býður upp á upptökur af gömlum þáttum og það er gott að skokka við svona stöff. 

08.09.08
Google Chrome er léttur og þægilegur vafri. Betri en Firefox við fyrstu keyrslu finnst mér. Nota hann þangað til hugsanalöggan, sem mér skylst að Google sé að koma sér upp, bankar upp á.
---

Gunni og Dóri - Lucky man
Ég bauð upp á b-hliðina af þessari singlu frá 1975 árið 2005. Í ljósi nýrra poppsögnulegra upplýsinga finnst mér rétt að bjóða upp á A-hliðina. Það er ljómandi gott tyggjópopp og líklega eitt stysta lag á A-hlið smáskífu Íslendingasögunnar, aðeins 1:33. Gunni er látinn en Dóri samdi Ljósanæturlagið í ár. Hér er poppfróðleikur úr 24st:

---
Á ferð minni til Kef í gær sá ég líka Hjaltalín og Léttsveit T.R. fyrir hlé. Dagbjartur nennti þá ekki meiru. Böndin stóðu sig vel. Andrews Theater lítur út eins og Austurbæjarbíó og Glitnir gaf öllum mintur og vatn.

06.09.08
Sirkus Agora er mættur við Smáralindina. Vér feðgar fjölmenntum í gær og var það hvílík töfrastund. Þetta er sko alvöru sirkus, ekkert Hitt húsið neitt eða listrænt rugl, heldur gamaldags stöff og alveg ekta. Maður fann fyrir tímans tannhjólum í andlitum gamalmenna í sirkusgenginu. Það er mergjað að sjá þetta læf. Allt annað en í sjónvarpinu. Dagbjartur (að verða 5 ára) sat stjarfur af gleði yfir þessu. Það hefði reyndar mátt sleppa hléinu, hann var orðinn áhugalausari eftir hlé.
---
Fyrir fullorðna var smá fyllibyttu- og erótískt grín. Boðið var upp á þónokkuð magnaðar kameltær, óviljandi. Ein háloftadís var orðin ansi búttuð, vaggaði í spikinu og brosti eins og vélmenni. Hún hamaðist á stiga sem eiginmaður hennar hélt uppi með löppunum. Maður dauðvorkendi honum og hjánum hans. Trampólíntrúður var alveg æðislegur. Tólf ára gúmmístelpa lét mann gapa. Poppið kostaði 450 kall og kandíflosið 500, en maður keypti allt enda má okra á manni ef það er sirkus. Það stendur í neytendalögunum. Sirkusinn verður í Rvk til næsta föstudags og ég hvet allt barnafólk að flykkjast á þetta með krakkana. Mér finnst það eiginlega jaðra við mannréttindabrot á börnum ef þau fá ekki að upplifa þetta frábæra sjó. 
---
Hef ekki kynnt mér dagskrá Ljósanætur að neinu ráði. Held samt að Hjaltalín og léttsveit í Andrews theater kl. 15 á morgun sé eitthvað sem maður megi ekki missa af.
---
Tap íslenska karlahandboltalandsliðsins gegn Frökkum kveikti upp í mér hlaupaáhuga. Eftir tapleikinn var ég svo uppvíraður að ég hljóp beina leið 5 km. Svo hljóp ég aftur 5 km, þá 6 km og í gær 8 km í kringum Seltjarnarnes í súld kl. 6 um morgun. Það var svo sem ekkert mál en ég vildi samt að lappirnar á mér væru úr stáli en ekki kjöti og beinum. Kannski er maður miklu betur settur á græjum frá Össuri? Nei, uss, það má ekki segja svona. Í ljósi þessara nýtilkomnu hlaupa slæ ég því föstu hér fyrir almenningssjónum að ég hleyp maraþon í næsta Reykjavíkurhlaupi. Jæja, að minnsta kosti hálfmaraþon!
---
Dr. Gunni með öllum mjalla kemur ekki fyrr en 2009, mars sirka. Nenni ekki að stressa mig á þessu en það er búið að gera trommu, bassa, gítargrunna að 18 lögum. Svo er að slumma ofan á þetta næstu mánuðina. Hringsóla ennþá hvort ég eigi að hafa þetta niðurhal/cd eða niðurhal/vinýl. 

05.09.08
Fiskmarkaðurinn var fínn, heimildarmyndin The Future is unwritten um Joe Strummer er góð og Brian Wilson er búinn að gefa út nýja sólóplötu.


Brian Wilson - Good kind of love
Á meðan Beach Boys-nefnan með tuskuna Mike Love í fararbroddi (hann ferðast um með slefu úr Brian Wilson í dós til að þetta sé meira ekta)  spilaði fyrir mennin á satanísku Repúblikana-ráðstefnunni gaf Brian Wilson út That Lucky old sun, nostalgískan "söngvahring" um sól og Kaliforníu – fyrstu plötuna síðan hann kláraði loksins Smile. Nýja platan er sykruð og sjæní og á engu pari við snilldarverkin, en maður horfir í gegnum fingur sér með svoleiðis enda maðurinn náttúrlega algjör snillingur. Fínt hjá kalli!
---
Alltaf sama sagan með þessa blessuðu tónleikastaði. Nú er Organ hættur.

04.09.08
Lalli og Lufsan halda upp á 6 ára hjúskaparafmæli sitt í dag, sykurbrúðkaup. Ætli maður láti það ekki eftir sér að slafra í sig ýkt flott útlítandi mat á geðveikt svölum veitingarstað!? Er ekki Fiskmarkaðurinn toppurinn? Jónas segir það.
---


The Archies - Sugar Sugar
The Ohio Express - Yummy Yummy Yummy (á ítölsku)
The Archies - Sunshine
The Ohio Express - Nothing's sweeter than my baby
Sykurbrúðkaup kallar á tyggjókúlupopp. Sugar, Honey Honey sungu The Archies á toppinn 1969. The Archies var teiknimyndaband úr teiknimyndaseríunni The Archie show. Svona var hægt í gamla daga þegar tyggjópopp (bubblegum popp) var grasserandi. Unaðsleg mússikk! Hver þekkir t.d. ekki Yummy Yummy Yummy með Ohio Express? Það er fullt af dóti inn á milli þekktustu sykurhnullungana sem enginn hefur heyrt en er æðisgengið. The Ohio Express áttu til að mynda fullt af glæsilegum lögum. Hér er eitt ýkt grúví og æðislegt með flippi í kaupbæta í endann. 
---
Og talandi um sykur. Í þriðju tilraun tókst mér loks að fá gos í heimagerða rótarbjórinn. Á því 4 l af Rótarbjór Dr Gunna, sem er, tja, kannski ekkert svo æðislegur á bragðið, en skárra en ekkert. 2 stjörnur af 4. Nú er bara að þróa þetta áfram.
---
02.10.2044 er Bakþanki dagsins. Staðreyndum hefur ekki verið mikið breytt.
---

Vinsældir Megasar eru nú um stundir í hæstu hæðum. Tökulagaplatan hans Á morgun rýkur úr búðunum og hefur selst hraðast af öllum plötum meistarans. Megas hefur hingað til verið fjarri góðu gamni á internetinu en nú á að bæta úr því á léninu Megas.is.
Heimasíða Megasar opnar á næstu vikum og verður safarík og full af efni, enda af nægu að taka frá löngum ferli. Meðal þeirra fídusa sem boðið verður upp á er „kjaftasöguhornið", þar sem gestir geta sett inn sínar eigin kjaftasögur af Megasi – því meira krassandi, því betra. Um fáa hafa verið sagðar jafn margar kjaftasögur í gegnum tíðina svo það verður spennandi að sjá hvaða æsilegu sögur gestir setja inn.
Megas og Senuþjófarnir kynna plötuna Á morgun á morgun á Nasa. Þetta er í fyrsta skipti síðan í desember sem hópurinn leikur í höfuðborginni. Aðgangseyrir á tónleikana er 2.000 krónur og húsið opnar kl. 21.00. Miðar eru seldir á miði.is og í lúgunni. (úr Fréttablaðinu)

03.09.08
A la Matthías: Heyrði í meistara Gylfa Ægissyni í gær. Hann segist vera byrjaður að hugsa um myndina sem ég pantaði hjá honum, Tinna og Bítlana saman í súrrealískum fílingi. Hann hló og sagðist fyrst hafa ætlað að leysa málið með því að mála Tinna í glugganum á Gula kafbátunum og segja að Bítlarnir væru innan í. Hann hætti við það þó ég hefði auðvitað orðið sáttur við þá útfærslu. Síðan spannst umræðan út í Bakþankann Auðnarþörfin og það fyrirbæri að hafa hægðir á víðavangi (sumir kalla slíkt "kjötkveðjuhátíð"). Gylfi komst í hann krappann í Borgarfirði nýlega og varð að gera stykki afsíðis við hringveginn. Honum var svo brátt í brók að hann hafði ekki hugsað út í hreingerningar. Var eflaust í síða leðurfrakkanum sínum og fálmaði í vasana. Það fyrsta sem kom upp var ávísun upp á 70.000 kall svo hann leitaði betur. Fann ljóð sem Sigurður bróðir hans hafði samið til hans, reif A4ið í fernt og kláraði málið. Annars bara hress.
---
Ég er faglega stoltur af fyrirsögninni "Sáu svín með rakaðan pung", sem ég á í Fbl í dag. Fréttin er um endurkomu Baggalúts.
---

Tours - Language School
Orðspor Johns Peels lifir. Safndiskurinn Perfect Unpop: Peel Show Hits and Long-Lost Lo-Fi Favourites Vol.1 - 1976-1980 er dúndur og vonandi sá fyrsti í langri röð. Útgefandinn Cherry Red segir á heimasíðu sinni: Perfect Unpop is based on a dangerous assumption: that if you were ever touched by John Peel'senthusiasm for spiky 70s pop, then by now you've probably found yourself a copy of the Undertones Teenage Kicks . The same applies to raw, beautiful singles by the Buzzcocks, Joy Division, the Clash and the first five Fall albums none of which are included here.
Instead, here's a collection of Peel favourites a little less likely to be anthologised, eulogised, or to crop up on your iPod. Anyone who ever cuddled up alone at night with Peel will recognise the glee with which he pounced on these devil may- care, slightly broken pop songs. Indie also-rans these bands may have been in the Sting n Bono scheme of things, but add up all these flashes of underdog genius, and here's a CD to rival any other from the era of the questionable stringy tie.
Although we're missing the voice that always seemed to be speaking to us alone, the unearthing of these Nuggets from the play-lists will recreate something of the atmosphere of the Peel Show for his under-cover legions, and hopefully some young Johnny-cum-Latelies as well. Make no mistake; we're talking all-time highlights here where six seconds of dead air would be followed by a sheepish, slightly breathless admission that Peel had been off bopping around the studio!
Tóndæmið hér, einfalt og popppönkað strákapopp, er með einhverju bandi sem heitir Tours og ég nenni hreinlega ekki að reyna að finna eitthvað um á alnetinu. Þar er þó eflaust eitthvað ef maður nennir að skoðaða. En lagið er ýkt hressandi. 

02.09.08
Inn og inn, sko. Ég hef nú aldrei komist svo innarlega að það hafi ekki verið skammt út aftur. En jú, ég var tekinn inn og settur á einhvern stað þar sem ekki fór mikið fyrir mér, sagði Megas mér í Eru ekki allir í stuði. Hann kannast vel við flöktandi álit landsmanna, stundum ertu heitur, stundum kaldur. Nú er Megas funheitur og hefur selt meira af plötum á mánuði en Bubbi á þremur. Það hefði einhvern tímann þótt furðulega óvænt tíðindi því um árabil seldi Bubbi 15.000 plötur án þess að blása úr nös. Og ekki er hægt að kenna um að Fjórir naglar sé svona léleg, fín plata sem fékk fullt hús stiga hjá báðum stærstu blöðunum. Hvað er þá að? Er þjóðin komin með óverdós af Ásbirni? Kallar hún á meiri tónlist og minna mas? Hvað um það: Megas heldur útgáfutónleika fyrir Á morgun á Nasa á föstudagskvöldið.
---

Lúxus - Monday morning
Fullt af plötum eru stórlega vanmetnar, svo vanræktar af plötukaupendum að manni fallast hendur. Ein þeirra er Have a nice trip með Lúxus sem var sædprójekt Björns Jörunds. Platan kom út 2000 og sýnir Björn í geðveikt góðu Bowie stuði. Þetta lag er mér kært því ég man svo vel eftir að hafa heyrt það. Sumt man maður, lagalega séð. Ég var t.d. í sumarbústað í Finnlandi þegar ég heyrði Beautiful stranger með Madonnu í útvarpinu í fyrsta skipti. Vá hvað þetta er gott lag, hugsaði ég. Þetta er ennþá uppáhalds-Madonnu lagið mitt. Í fyrra heyrði ég þetta Monday morning lag hans Björns þegar ég kom út í bíl eftir langt sessjón á fæðingardeildinni. Elísabet Láta var nýfædd og þurfti vegna gulu að fá nýtt blóð. Hún lá, pínkulítil og gul, með leiðslur í sér í hitakassa. Maður var hræðilega meir eitthvað. Læknirinn flautaði With a little help from my friends, sem var líka uppörvandi. En svo fór ég í bílinn til að fara heim að sofa og þá var þetta í útvarpinu. Þá einhvern veginn vissi ég að allt yrði ókei. Magnað.

01.09.08

Kolaportstryllingurinn tókst ljómandi vel. Losnaði við helminginn af draslinu mínu og fékk útborguð mánaðarlaun í ummönunargeiranum í staðinn. Fátt kom á óvart. Gríðarlítill áhugi var á teiknimyndablöðunum, en ég losnaði samt við helminginn af þeim. Más-söngur inútíkerlinga sló ekki í gegn og ég á ennþá þrjá diska með slíkri snilld, heildarsafn verka Insols hreyfðist ekki og ég seldi bara einn af tíu diskum með tyrkneskri samtímatónlist. Nýja vinnuherbergið mitt er því velstöffað unaðslegu dóti sem aldrei fyrr.
---
Það er aldeilis að Matti Jóh kjaftakerling er í stuði. Ég margreyndi að halda úti dagbókum fyrir tíma alnetsins, en gafst alltaf upp í sirka febrúar. Ætli ég hafi bara nokkuð nennt þessu bara fyrir mig einan. Ég hef allavega sýnt fádæma dugnað hér á blögginu miðað við bækurnar og aldrei hætt nema í svona sirka hálfan dag einu sinni þegar Dagbjartur var nýfæddur. Þá kom ég með þessa dramatísku yfirlýsingu:

Það gerist ekki betra. Takk fyrir og bless.
(Og mynd af mér haldandi á Dagbjarti nýfæddum með)

Ég hélt semsé að líf mitt, eins og ég þekkti það til þessa, væri á enda. Svo var nú auðvitað ekki og ég byrjaður að blögga stuttu síðar. Til verðandi feðra segi ég: Þetta er ekkert svo mikil breyting.
---
En Matti kjaftakerling, semsé. Aldrei skrifaði ég neitt svona djúsí eins og hann er með í mínar dagbækur, enda kannski ekkert djúsí að ske. Dagbók frá 1980 fyllti ég samviskusamlega á hverjum degi, enda var þetta svona míní dagbók frá Fjölvís með 4 línum á dag. Dagbókin er ágæt lýsing á hversdagslegu lífi pönkunglings. Laugardaginn 12. apríl 1980 spila ég í fyrsta skipti læf með hljómsveitinni Dordinglum í Kópavpogsbíói kl. 14. Þetta var giggið sem Bubbi sló í gegn með Utangarðsmönnum. Fræbbblarnir voru þarna líka á toppnum. Ég skrifa:

12. apríl: Kvíði fyrir en allt reddast. Spilum. Erum klappaðir upp en förum ekki upp. Er heima um kvöldið.

(Það er ekki ofsögum sagt að mig hafi kviði fyrir að stíga á svið. Ég var hreinlega að drepast og allur annar sviðsskrekkur er grín miðað við þetta. Næsta gigg var skömmu síðar, Hæfileikakeppni Kópavogs.)

14. apríl: Skrópa í smíði. Æfum uppi í Félagsheimili. Spilum prógrammið svona 3-4 sinnum yfir. M og P fara á miðilsfund.

16. apríl: Glataður dagur uhhh. Fer í sund með Gunnsa. Spilum á Hæfileikakeppninni en vinnum ekki neitt. Fáum þó drullulegt spjald með nafni á.

(Svona er árið. Vonbrigði, kvíði og óöryggi unglingsins.)

31. des: Amma Lára deyr. Ósköp venjuleg áramót. Fullt af fólki kemur. Sprengi með Nirði. Farvel.
---
Næsta dagbók fyrir 1981 er fyllt út fram í september. Hér er ég í pönkbandinu F/8 og að vinna í Vinnuskólanum.

21. ágúst: Góður dagur í vinnunni. Flakka mest með Herði og Bormann um bæinn. Förum í Kópasel með borð og stóla og náum í það eftir hd. Fer í bankann í hd og tek allt út, 3600 kr. Fer eftir vinnu með pabba niðrí Tónkvísl og kaupi MM gítarmagnara á 5500 kr á borðið. Fer með Hauk til Dagnýjar og horfum á TV þar. Hjálpa Bjössa með dótið sitt heim og næ í Voxinn til Steina.

(Æsispennandi dagur semsé - keypti magnara og allt.)
---
Ef ég væri á ellilaunum eins og Matti gæti ég skrifað þetta allt upp. Geri það kannski einn daginn. Í dag gæti ég þó skrifað mun meira djúsí dagbækur en þegar ég var pönknörd. Hér er snarritskoðuð útgáfa af samtímanum enda er ég enginn Matti kjaftakerling.

30.08.08
Tek 2 lög með Felixi á Mosfellstorgi. Bakkstage með Audda og Simma, sem eru kynnar kvöldsins. Þeir segjast XXXXXXXXX og ekki er laust við að XXXXX og XXXXX hafi XXXXXXXXX. Það er ekki spurning að XXXXXXXXXXX er ekki allur þar sem hann er séður. XXXXXX á víst að hafa XXXXXXXX í XXXXXX. Auddi er XXXXXXXXX en Simmi segist búinn að XXXXXXXXXX. Á leiðinni heim segir Felix mér að XXXXXXXXXXX hafi sagt sér að XXXXXXX hafi ekki enn borgað sér fyrir XXXXXXXXXXXXX.

30.08.08

Kolaportstryllingurinn í dag frá 11 - 17! 
Menningarafurðasala aldarinnar!
Allt á að seljast!!!
---
Reyndar verða engin föt til sölu eins og sagt er í banner hér að ofan. Lufsan bannaði mér að selja gamla t-boli af mér. Það er hins vegar allt vaðandi í góðu stöffi þarna á hlægilegu verði.
---
Jóhannes Karl Sveinsson rekur Gunna Þórðar Kanada-kontaktinn áfram og skrifar: Gunnar Þórðarson aðstoði Vonfjord hjónin, Karen og Len, við upptöku á lítilli plötu með söngsveitinni “Hekla singers” sem þau starfræktu í kringum 1970. Þau ferðuðust um Kanada og sungu íslensk lög. Len varð síðar skipulagsstjóri í borginni Victoria á Vancouvereyju rétt utan við borgina Vancouver. Það sem er enn merkilegra er að hjónin Len og Karen eru bæði með 100% íslenskt blóð þótt þau séu þriðju kynslóðar vestur-íslendingar, og Lindi sonur þeirra þar með líka.
Ég komst í kynni við þau í tengslum við húsaskipti, þ.e. fékk lánað húsið þeirra á Vancouver eyju og þau húsið okkar í Reykjavík fyrir nokkrum árum. Þau sögðu okkur söguna af Gunna Þórðar og sungu fyrir okkur ýmis íslensk lög með flottum röddunum þótt þau tali reyndar ekki íslensku. Len Vopnfjord sýnir góða takta á 12 strengja gítar og vill meina að bæði Neil Young og Joni Mitchell séu af íslenskum ættum. Þau eru komin á eftirlaun en halda gangandi starfi vestur-íslendinga á vesturströnd Kanada og eru með útvarpsþætti á netinu. Miklir snillingar. Í næsta húsi við þau bjó vinkona þeirra einn þekktasti rithöfundur Kandamanna, en hún er einmitt gift þekktasta bankaræninga Kanada sem hefur nýverið tekið upp fyrri iðju eftir 15-20 ára glæpalaust líf. 
---
Einhver var að segja að það væri ekkert eftirsóknarvert að gista á hóteli í Reykjavík. Ég er því ósammála. Ég og Lufsan áttum rómantíska nótt á Hótel Loftleiðum (eða hvað sem það heitir) um árið. Í boði var japönsk matarveisla og gistinótt á pakkadíl. Það var mjög gaman en verst að ég fékk heiftarlega flensu í miðjum klíðum. Ég væri alveg til í að gista á Hótel Sögu (eða hvað sem það heitir) eða Hótel Esju (eða hvað sem það heitir). Hvað þá á Hótel Holti eða Hótel Borg. Örugglega næs. Hótel Saga er rétt hjá mér og ég væri alveg til í að vera á einhverjum fundi þar fram á kvöld og gista svo í staðinn fyrir að fara heim (2 mín labb). Ég myndi svo segja að það væru eðlileg vinnubrögð eins og hver annar vinstri grænn í samtryggingarstuði. Ég gisti reyndar líka á Hótel Hjálpræðishernum einu sinni þegar kompan mín á Óðinsgötu var í klessu. Það var ekkert svo næs. Var í pínku holu herbergi og sá út á Suðurgötu. Það var enginn glamúr og hálf eymdarlegt. Ég er reyndar nokkuð ánægður með Hjálpræðisherinn svona yfirleitt. Ef ég yrði snögglega snartrúaður myndi ég að sjálfssögðu ganga til liðs við þá enda enginn annar sértrúarhópur sem hefur vit á því að vera í svona töff búningum. Svo myndi ég standa með gítarinn alla daga og syngja lög til dýrðar Jésum á Lækjartorgi. Ef bara...

29.08.08
Sigurbjörn Einarsson biskup hafði húmor. Ég hringdi í hann fyrir svona 4 mánuðum. Félagi úr spinning fullyrti að hann hefði séð hann á bretti í líkamsræktinni á Grand Hotel. 
- Gamli biskupinn var bara sveittur á brettinu maður.
- Gamli biskupinn? Sigurbjörn?
- Já já, Sigurbjörn.
Ég ætlaði að taka viðtal við hinn 96 ára biskup fyrir Fbl og auðvitað fá mynd af honum á brettinu. Sá fyrir mér að hann væri með skýluklút með gylltum krossi framan á. Fyrirsögnin yrði auðvitað Biskup á bretti. Ég hringdi í Sigurbjörn en hann skellihló af þessu bulli. Sagðist aldrei hafa æft íþróttir nema einu sinni fótbolta sem ungur maður. Kvaddi svo með virktum. Og nú hefur hann kvatt fyrir fullt og allt. 
---

Major Maker - Funky lady
Gunna Þórðar kóver frá Kanada! Ég póstaði Gunna Þórðarlögum hér að neðan og það dró dilk á eftir sér. Snorri Helga Pé í Sprengjuhöllinni skrifar: Ég fór til Kanada með Sprengjuhöllinni í maí og við vorum að spila með hljómsveit sem heitir Major Maker frá Toronto með vestur-Íslendinginn Lindy Vopnfjord í broddi fylkingar. Ég nefndi þetta eitthvað við pabba og hann sagði mér að þegar að Ríó Tríó (m. Gunnari Þórðars innanborðs) hafi verið að túra um Kanada um ´74 hafi þeir fengið að gista hjá Leonard og Karen Vopnfjord í Vancouver.
Þá hafi Lindy verið 3 ára gamall og þeir í Ríó Tríó hafi séð um að passa hann á daginn á meðan að foreldrar hans hafi verið í vinnu. Ári seinna hafi svo Gunnar sent Vopnfjord-fjölskyldunni sína fyrstu sólóplötu sem þakklætisvottorð fyrir gestrisnina. 
Svo þegar að ég hitti Lindy nærri 30 árum seinna er þessi plata ennþá uppáhaldsplatan hans. M.a. sagði hann mér söguna af því að hafa verið í miklu veseni við að kópía hana frá vínyl yfir í mp3 og spilaði hana fyrir mig í I-podinum sínu. 
---
Við höfum stundum verið að spá í að selja íbúðina. Tvisvar á hápunkti góðærisins komu salar frá Remax og ætluðu að láta okkur hafa ókeypis fasteignamat. Annar var út úr spíttaður. Meira að segja ég sá það. Við heyrðum aldrei í honum aftur. Svo kom kvenmaður sem virtist vera nokkuð eðlilegur. Skoðaði allt hátt og lágt og sagðist ætla að koma með verðmatið daginn eftir. Heyrði aldrei í henni heldur! Ekki góð auglýsing fyrir Remax, þetta fólk.
---
Halló!
Nýja platan með Skakkamanage er tilbúin og kemur út í byrjun október.
Því finnst okkur við hæfi að gefa út smáskífu af nýju plötunni.
Fylgdu slóðinni hér að neðan og smáskífan er þín!
Bestu kveðjur,
Hljómsveitin Skakkamanage
Slóðin er: www.skakkapopp.is

27.08.08

Popplandsmeistarinn í Popppunkti #12
Þá er fjórðu keppni átta liða úrslita lokið og að þessu sinni voru það Töframenn sem fóru með sigur úr býtum eftir æsispennandi leik við Keflvískar söngkonur.
Lið Töframanna er skipað þeim Bjarna töframanni og Ingó töframanni en Heiða Eiríksdóttir og Elíza Geirsdóttir skipuðu lið Keflvískra söngkvenna. Matti var spyrill dagsins en Dr. Gunni stóð vaktina í dómarasætinu að vanda og að þessu sinni mætti hann með 1 árs gamla aðstoðardömu, Elísabet Láru Gunnarsdóttur, eins og sjá má á myndinni. Í næstu viku hefjast svo undanúrslit keppninnar og í fyrri undanúrslitaleiknum keppa Rótarar og sigurvegarar dagsins, Töframenn. Jesúfeðgar og Óttarar mætast svo að hálfum mánuði liðnum en úrslitaþátturinn verður sendur í loftið miðvikudagsmorguninn 17. september n.k. (af Popplandsvefnum)
---
Ég græja mig nú fyrir Kolaportstryllinginn á laugardaginn. Þetta verður spikfeit menningarafurðasala, a.m.k. fyrir þá sem fíla svipaða hluti og ég (verk Harry Crews, árganga af Weirdo, myndir Hitchcocks á vhs, kántrískyrtur í XL, cd með söng inúítakerlinga... svo mjög fátt eitt sé nefnt). Og eins og ég hef ætt til verður þetta allt hræódýrt, eða það finnst mér allavega. Sárafátt sem kostar meira en 500 kall og fullt sem kostar bara 100 kall.
---
Ég fór í Góða hirðirinn og tók eftir því að þar hefur draslið hækkað duglega í verði. Mér brá. Karl þarna sagði þegar ég spurði að það væri bara svo rosaleg eftirspurn eftir draslinu að þeir hefðu getað hækkað svona mikið. 200 manns bíðandi fyrir utan á hverjum degi þegar opnar.
---
Ég veit að "strákarnir okkar" stóðu sig svaka vel og manni vöknaði um augun í mærðarlegu þjóðarstolti þegar Ólafur fyrirliði talaði um að hann væri að gera þetta fyrir 300.000 sem töluðu sama tungumál og hann (eða eitthvað álíka) en er samt ekki óþarfi að kalla það að lenda í öðru sæti "sigur". Gull er gull og silfur er silfur og það er svo sem fínt líka, bara ekki eins fínt. Samt rosalega fínt "miðað við"... Og til fjandans með alla stjórmálamennina sem nudda sér utan í strákana í augljósum atkvæðaveiðum.

26.08.08
Skrýtið að enginn hafi rímað bömmer við hömmer til þessa.
---
Minni á síðasta Plípp í áttaliða í fyrramálið, Kef-lingar gegn Töframönnum.

25.08.08
Umboðsmaður neytenda - sem er líka talsmaður neytenda - er með ágætis hugmynd fyrir Árna Mathiesen, fjármálaráðherra: Hann leggur til að fjármálaráðherra felli niður virðisaukaskatt og toll af litlum póstsendingum frá útlöndum. Þá yrði ódýrara að kaupa bækur og geisladiska (og fleira) frá útlöndum, og ekki veitir af. Það eru allir orðnir þreyttir á þessum fáránlegu álögum Ríkisins. Árni fjármála hefur enn ekki svarað umboðsmanninum. Kannski getum við lagst á árarnar. 

Skrifaðu Fjármálaráðuneytinu

Textinn gæti e.t.v. verið svona:

Kæri Herra Fjármálaráðherra,
Ertu til í að gera það sem umboðsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, hefur beðið þig um: að fella niður virðisaukaskatt og toll af litlum póstsendingum frá útlöndum - þetta er fáránlegt rugl og við erum eina landið sem er jafn smásmugulegt. Ekki veitir af smá hjálp í kreppunni.
Bkv. (þitt nafn)

Ef það koma, segjum 100 bréf, er ég viss um að Árna gengur í málið.
---
Ömurlegur leikur, skíttap og leiðindi. En "við" samt næstbest. Veiiii... En nú nenni ég ekki að hugsa meira um handbolta í bili. Uppfullur af baráttuanda komst ég þó að raun um að ég get hlaupið 5 km í einum rikk eftir sjávarsíðunni.
---
Í Kolaportinu sá ég nokkrar plötur sem ég hefði alveg verið til í að kaupa. Ekki enn með textablaði á 3000, Ísland og Sturla Spilverksins á 1500 og 1000. Keypti þó ekkert. Búinn að heyra þetta.

24.08.08
Gott og blessað að þjóðin fái handboltatækifæri til að finnast hún stórasta þjóð í heimi. Bara krúttlegt allt saman, bullandi þjóðremba er alveg ágæt einstöku sinnum í hófi. Leiðinlegast við fílinginn eru öll fyrirtækin sem djömpa vagoninn og berja sér á brjóst í takt. Skóvinnustofa Sigfúss styður strákana! Fimm krónu afsláttur af öllu blandi í poka hjá Sillasjoppu í tilefni af árangri landsliðsins! Við höfum alltaf stutt strákana, í alvöru – Innrömmun Hannesar! Kannski er það samt bara krúttlegt líka. Allavega nenni ég ekki að vera með einhver leiðindi, maður sér það til dæmis hér hvað slíkt hefði verið hallærislegt eitthvað. Eins og að kúka á afmæliskökuna í barnaafmæli. Ég glápi á þetta. En ég fer ekki í Smáralind. Og svo, ööö, Áfram íslandi! (Og fáið ykkur Morðingja í kaupbæti).
---
(Persónuleg bloggfærsla um laugardag í lífi mínu:) Ég var mættur með Skufsuna í vagni á Lækjartorg til að sjá hlauparana í gær. Sjálf Beta Rokk var að fá sér kaffi á Segafredo. Tvöfaldur kaffi latti kostar þar 360 kall, 20 kall ódýrara en á T&K og KT. Ekki eins og það skipti einhverju. Á leið heim sáum við sándtékk hjá Latabæ á Háskólalóðinni. Svo varð ég að míga í beð við Tæknigarð því mér varð svo brátt í brók. Löggan var eitthvað að rúnta þarna rétt áður. Hefði verið glatað að vera böstaður. Tók massíft áðí í Laugum í 100 mín extraspinning Gunnhildar. Var þar á undan 55 mín á þrektæki. 2.5 kg léttari en daginn áður, samt ekki nóg til að eiga móralskan rétt á að drekka nýjan gosdrykk. Vantar enn 10 kg til ég verði ánægður með átakið. Fórum í Bónus í Árbæ, svo á Ruby Tuesday í Árbæ. Rosafínt. Be Kind Rewind og What happens in Vegas komnar á flakkarann en ég festist við Wildhogs á Bíórásinni og þar við sat. Sá í Atlasinum að Madrid er til. Er í New Mexico. Sofnaður um 22.
---
Þetta hefði getað verið helgi rómantískra gamanmynda ef við hefðum nennt að glápa á What happens in Vegas því á föstudaginn sáum við Forgetting Sarah Marshall (--> menningarafurðir).

22.08.08
Í æsku var ég sólginn í Mad bækur. Fór oft í fornbókabúðirnar í bænum og fékk að gramsa í kössum, körlum til ekki svo mikillar ánægju. Þessar búðir voru reknar af sönnum táfýlukörlum. Ég man eftir einni svona búð á horni Frakkastígs og Njálsgötu, þar sem nú er sjoppa. Þar var illur andi, eins og það væri ekki bara verið að selja klám undir borðum heldur eitthvað enn svæsnara líka. Maður lét sig þó hafaða fyrir Madbækur. Mun líklegra var að rekast á góðar bækur í búðinni á Laufásvegi 4, sem var mikill haugur. Stundum, þegar engar Madbækur var að hafa, tók maður kannski eina bók af Íslenskri fyndni í staðinn, sem var alltaf jafn mikið törnoff. Allavega ekkert fyrir 14 ára.
---
Fornbókabúðirnar voru eini vettvangur kláms á Íslandi til forna. Léttara efni lá frammi en ef þú vissir leyniorðið, og þorðir að spyrja illúðlegan kallinn, gastu farið í kassana bakvið með dönsku hardkori. Þar lágu velkt blöð sem höfðu gengið mann fram af runkandi manni og báru tilgangi sínum oft klístrað vitni. Fornbókabúðirnar voru internet fortíðarinnar.
---
Ég heyrði frábæra sögu um miskilning sem er alltof góð til að vera í Íslenskri fyndni. Páll Einarsson, uppfinningamaður, ættleiddi þrastarunga og kom honum til fugls. Hann kallaði þröstinn Hauk. Þegar Haukur var orðinn myndarlegur fór Páll með hann til Ísafjarðar til að látu mömmu sína sjá um frekara uppeldi. Á svipuðum tíma var bróðir Páls á pollamóti á Akureyri. Þaðan fór hann til Ísafjarðar með krakkana sína og einn aukalegan, 10 ára vin þeirra sem heitir Haukur. Páls og bróðir hans svipar saman í útliti og kona ruglaða þeim saman á götu. Konan þekkir til 10 ára stráksins og spyr Pál hvernig Haukur hafi það. Páll heldur að konan sé að spyrja um þröstinn og svarar: "Heyrðu, ég var nú bara næstum því búinn að snúa hann úr hálsliðnum í gær. Helvítið var búinn að skíta út um allt hús, en ég held þetta skáni héðan af því hann er kominn á kvennafar."
---

Geirfuglarnir - Hraðar!
Út er komin hljómdiskurinn Árni Bergmann með Geirfuglunum. Þetta er þrumudiskur og ekkert harmóníkuvæl, halelúja. Það ber til tíðinda að í fyrsta laginu er sungið um að millifæra á milli reikninga, sem er töff. Það er í laginu Heavy Metal Queen sem samstundis minnti mig textalega á Metal Baby með Teenage Fanclub. Svo kemur mjög Valgeirs Guðjónssonarlegt lag, sem við frekari athugun reynist vera eftir Valgeir Guðjónsson og jafnvel sungið af honum líka. Svo kemur lagið hérna að ofan, ofurfrábær rokkslagari sem samstundis setur nýtt klúbbamet í spretthlaupi innanhúss. Þá tekur við gott bland himnesks léttmetis, ballads og stígðu á pedalann. 14 lög á 48 mín svo það er mikið fyrir snúðinn. Bestu Geirfuglarnir til þessa!
---
Í ár eru 32 ár síðan árið 1976 var. Pældu í því!? Það ár voru ýmsir síðhærðir popparar á landinu að spá í fönkí mússikk. Hér koma frábær dæmi. 


Jón Ragnarsson - Uss, ekki hafa hátt
Funheitt titillag einu sólóplötu Jóns frá 1976, létt fönkað með yfirskeggjuðum léttperverta texta a la seventís. Ég læt höfund texta á bakhlið albúms hafa orðið (Svavar Gests að öllum líkindum):

"Hjarta þitt í mínum höndum skal aldrei verða kalt"?! 
---

Engilbert Jensen - Bomm shagga lagga lagga
Erkitöffarinn Engilbert Jensen gerði sólóplötuna "...skyggni ágætt" í London með Gunna Þórðar 1976. Þar er margt um fína drætti, fáa þó jafn fína og þetta lag sem er eftir Arnar Sigurbjörnsson, gítarleikara Brimklóar, með texta eftir hvern annan en Hr. Eggertsson. Úrvals lúxusléttdiskó.


Gunnar Þórðarson - Funky lady
Gunnar Þórðarson - That's the way it is
Gunni Þórðar var hreinlega í algjöru kasti 1975-76. Fyrir utan að gera plötur eins og Engilberts, Eniga Meniga, fyrri Vísnaplötuna, Látum sem ekkert C, Lonlí blú bojs og ég veit ekki hvað og hvað, gerði hann líka sína fyrstu sólóplötu sem heitir eftir skapara sínum. Þetta er vanmetin plata og góð, full af eðalefni, t.d. epíska snilldarverkinu Manitoba þar sem Gunnar syngur um flutninga landans til Vesturheims. Gunnar syngur allt sjálfur með sinni frábæru söngrödd. Í Funky lady er meistarinn að spekúlera í fönkinu, en í hinu sýnishorninu, má heyra sterk Beach Boys áhrif, enda hefur Gunnar oft viðurkennt ást sína á þeim snillingum (eða þeim snillingi). Næst þegar þú sérð þessa plötu í kassa í Kolaportinu skaltu ekki hugsa sig tvisvar um.

20.08.08
Fór á Batman. Ofmetið jukk og Heath er ekkert spes, stelur þessu öllu frá Jack Nicholson sem talar líka með fullan munninn og er alltaf af reka út úr sér tunguna þegar hann leikur geðveikt illmenni. Reyndar voru svona fyrstu 2 tímarnir nokkuð þéttir en sá síðasti var fullkomið óverdós og manni var bæði farið að leiðast og kominn með hausverk af þessu endalausa skor-sargi, drunum og ófókuseruðum myndatökum. Mamma mia er örugglega betri. 
---
Ég hef ekki varann á mér varðandi Mömmu míu vegna tónlistar Abba heldur vegna væmnu leikarana sem eru í þessu. Leiðist Streep og Brosnan er ömurlegasti Bond sögunnar. Abba eru hins vegar algjörir snillingar og hafa gert ódauðleg meistaraverk í formi 3 mín. popplaga. Langar þó frekar að sjá Öbburnar sjálfar syngja þetta með fýlusvip í smekkbuxum en einhverjar pempíulegar leikaradruslur. Ég er þó búinn að kaupa mér flakkara svo Lufsan heimtar ábyggilega að við horfum á þetta.
---
Hugmynd fyrir sjónvarpsstöðvar: Taka viðtal við bankastjórana í hverjum mánuði og spyrja hvað þeir ætli nú að gera við allar milljónirnar sem þeir voru að fá í vasann. Afhverju ekki? Annars fékk ég 880 kr fyrir 3 rétta og hef þegar eytt peningunum (í ís) svo það þýðir ekkert fyrir óprúttna aðila að reyna að leggjast upp á mig með gylliboð. 
---
Umboðsmaður neytenda er með ágætis mál í gangi, að ríkið hætti nú þessu hallæri að láta mann borga vsk, toll og umsýslugjald þegar maður kaupir eitthvað smávegis dót að utan. Ekkert annað land í heiminum klípur jafn smásmugulega af landsmönnum og það er náttúrlega algjörlega ólíðandi. Lesið. Nú þarf bara að svara spurningunni: Hvenær verður þessi tillaga samþykkt? 

19.08.08
Ég skil ekki afhverju ekki er miklu meiri munur á Obama og McCain í skoðunakönnunum - er þetta lið alveg klikkað? Ég skil reyndar ekki heldur hvaða 3 prósent þetta eru sem vilja Ólaf F sem borgarstjóra.
---
Ekki þarf að fjölyrða svo ýkja um yfirburði Conans O'Briens yfir flatneskjunni Jay Leno. Conan tekur við af Jay 1. júní á næsta ári og þá fær maður kannski að sjá þættina án teljandi fyrirhafnar. Það væri þó eftir öllu að Skjár einn væri hættur loksins þegar þetta gerist – eða búið að breyta þessu í sjónvarpsþáttaleigu (a la VOD), sem mér finnst allt stefna í. Það má finna Conan ef maður leggur það á sig, t.d. á CNBC tvisvar í viku kl. 8 á ísl. tíma laugardaga og sunnudaga. Þar sá ég þátt á sunnudaginn þar sem trúbadorinn Mason Jennings flutti lagið hér að neðan. Ef einhver veit um auðvelda leið til að sjá Conan þætti má láta vita í gbók.


Mason Jennings - Your new man
Trúbador frá Minneapolis sem minnir aðeins á Jonathan Richman í einfaldleika sínum. Á heimasíðunni er hægt að hlusta á allar plöturnar hans (7 stk) og lesa textana. Þar er líka nýjasta platan, In the Ever, sem mér heyrist bara vera alveg frábær. Þetta lag er af henni.
---
Nýju Franz Ferdinand lagi má hlaða hér rippuðu af vinýl. Mér fannst það slappt við fyrstu hlustun, mun betra í annað skipti - maður gefur nýrri plötu frá þeim alveg séns. Of Montreal, sem mér fannst eiga bestu plötuna í fyrra, eru tilbúin með nýja, Skeletal Lamping, og lagi af henni má hlaða hér. Ég hef hlustað á það þrisvar og finnst það ennþá óáhugavert. Vonandi verður eitthvað skárra í gangi á plötunni. Úrvals krautpoppi frá Fujiya & Miyagi má hala hjá Fluxblog, laginu Knickerbocker af nýrri plötu. Toppefni.
---
Það hitnar í hamsi Plípp í fyrramálið þegar Hemmar og Óttarar eigast við. Rás 2 kl. 10:10.

17.08.08
Aaaarrrrggggghhhh!!!!!! ÉG VANN Í LOTTÓINU!!!!!!!!!! Vúúúúúúuúúú!!!!!!!!!!! Þrír réttir!!!! Hvað ætli maður fái fyrir það? 200 kall? En það var einn með 65 millur. Vonandi var það ekki annar hvor forstjóri KB banka. Lítil nýbreytni í því fyrir þá. 
---
Ég auglýsi eftir bókum. Einhver þarf að skrifa "Draumaland", en bara ekki um virkjanamál heldur um það hvernig Ísland breyttist úr því að einfaldur lottóvinningur var mánaðarlaun þess ríkasta, í það að 7faldur pottur varð mánaðarlaun þess ríkasta. Velta þarf upp spurningum, eins og: er þessi þróun eftirsóknarverð? Er hún merki um heilbrigði þjóðfélagsins eða merki um sturlun og viðbjóð? Einnig: Hvað gerir maður við 65 millur á mánuði í örþjóðfélagi eins og okkar? Bókin þarf að vera skemmtileg og ekki tuðkennd eins og umræða um þjóðfélagsmál verður oft. Einnig er þörf á fleiri kaffiborðsbókum á Íslandi. Ég hafði upphaflega hugsað Eru ekki allir í stuði sem kaffiborðsbók en hún varð aldrei nógu flott til þess, klikkaði á lokaspretti leiáts, vantaði litmyndir og meira hipp og kúl umbrot. Kaffiborðsbækur sem ég sé upplagðar eru tvær, annars vegar NAMMIBÓKIN, saga sælgætisgerðar og gosframleiðslu á Íslandi frá örófi og FULLIR ÍSLENDINGAR, saga drykkju og glaums á Íslandi. Bæði verkin verða að vera "ríkulega skreytt litmyndum". 
---
"Dylgjumaskína" þykir það að dylgja um að Óli F hafi verið á galeiðunni. Ekkert veit ég um það, enda aldrei á þeirri gölnu leiðu. Önnur dylgjumaskína er að dylgja um að Davíð Oddsson hafi fengið flog þegar GSE var ráðinn í verkefni og ekki linnt látum fyrr en fyrirliggjandi niðurstaða varð ljós. Þetta segja bæði Hallgrímur Helgason og Illugi Jökulsson í blaðagreinum sínum í gær. Nú veit ég ekkert um málið - kannski fékk kallinn brjálæðiskast og sjallamýs hlupu örvinglaðar um kofagólfið - en sjallar neita náttúrlega öllum svona dylgjum og leyfa GSE og JFM að halda áfram störfum til að sýna fram á hversu æðislegir þeir séu. Og því verða þetta bara dylgjur áfram, orð á móti orði, og svona er allt í íslensku samfélagi, orð á móti orði, sannleikurinn kemur aldrei í ljós fyrr en kannski í ævisögu einhvers löngu síðar þegar allir hafa misst áhugann. Svona er Ísland: dylgjur og undirferli og plott og krapp. Og það er lélegt og leiðinlegt. Hlutaðeigendur ættu að skammast sín og við ættum að hafa vit á því að gera eitthvað í málinu næst þegar við fáum til þess tækifæri vopnuð blýöntum á bakvið sturtuhengi lýðræðisins. Reynslan sýnir þó auðvitað að við gerum það ekki. Enda ekki boðið upp á þann möguleika.

16.08.08
Stórglæsileg bílasýning Krúsers í Holtagörðum (eða N1 húsi þarna neðan við Holtagarða). Allt tryllingslega fullt af geðveikum köggum og það sem er best: Ókeypis inn! (Opið á sunnudag líka).
---
Áríðandi tilkynning: Kolaportið laugardaginn 30. ágúst kl. 11 - 17: Ég sel muni úr eignasafni mínu, aðallega CDs, bækur og (teiknimynda)blöð, en eflaust mun fleira sem ég dreg fram. Þetta er eftir 2 vikur. Sé fólk alveg á flóamarkstánum í dag má benda á markaðinn hjá KR-heimilinu (kl. 12 - 17).
---

Steinn Skaptason hefur nú lokið epískri poppfræðifrásögn af Rauða æfingarskúrnum í Kópavogi. Er hér um að ræða þrekvirki í poppfræði sem enginn áhugamaður ætti að láta fram hjá sér fara.
---
Ekkert plan, ekkert plott, bara oltið áfram í valdagræðgi og almennu rugli. Hér er ágæt færsla um borgarmálafólk í boði Möggu. Það má þó alveg bæta Marsibil við á lista heiðvirða stjórnmálamanna, held ég, sjaldséð múv sem hún sýnir verandi í þessum bransa.
---
Hér eru nokkrir hittarar:


The Delta Spirit - Trashcan
Gríðar hressandi slagari með strax-grípandi riffi. Bandið er frá San Diego og má lesa um hér. Lagið er af flúnkunýrri plötu, Ode to Sunshine.
---

Ben Folds & Regina Spektor - You don't know me
Annar glæsilegur slagari, nú í boði píanópopparans Bens Folds (hér). Lagið er af flúnkunýrri plötu, Way to normal.
---

Emilíana Torrini - Big Jumps
Síðast var um klárt meistaraverk að ræða hjá Emmu Torr, svo maður bíður nú spenntur. Síðast bjóst maður svo sem ekki við neinu sérstöku, en nú gerir maður það, svo kannski eru væntingarnar of miklar. Hef lauslega rennt yfir plötuna, hún virðist vera miklu fjölbreyttari en sú síðast (og því laus við "heildarsvipinn" sem margir misskilja sem eitthvað gæðavottorð) og mér sýnist allt fullt af góðgæti. Platan heitir Me and Armini og kemur út 8. sept. Er flúnkuný, sem sé.

15.08.08
Kemur þá færeyska stórsöngkonan Sölva Ford ekkert á Menningarnótt? Mig sem var farið að hlakka svo til.
---
"Höldum áfram"? Hefði ekki verið hreinlegra að kalla nýja málefnasamninginn "Sorrí, við vissum ekki að Ólafur væri svona ruglaður"?
---
Þeg'ég snéri aftur á Sorpu með enn meira drasl var lyktin horfin eins og úldin dögg fyrir sólu. Steini Sleggja vill meina að þessi fýla hafi komið frá lýsisverksmiðju þarna við hliðina. Aumingja fólkið í hverfinu segi ég þá bara.
---

Wanker of the 1st Degree - Euphoria
Wankerinn er Jósef Karl og hann hefur gert diskinn Retrograde! með tölvupoppi. Fjárfesta má á tónlist.is eða skoða stöffið nánar á mittspeis.
---
Og á þessum tímapunkti er rétt að fjarlægja EP-plötuna AÐ GEFNU TILEFNI af veraldarvefnum. Gerð voru 42 tölusett cd-eintök af plötunni en þúsundir höluðu henni niður. Ég nenni ekki að gera AÐ GEFNU TILEFNI 2 en áhugasömum um tónskreytingar við borgarmálefni er bent á lagið Borgarblús af Höfuðlausnum Megasar. 

14.08.08
Versta lykt sem ég hafði fundið var dauði kötturinn á öskuhaugunum sirka 1980. Þá var ég í unglingavinnunni og haugurinn var einhvers staðar í grend við Smáratorg í dag. Það var hryllileg lykt. Í sumar fann ég ógeðslega lykt á kamarnum í Hrafntinnuskeri. Það var samt ekki eins vond lykt og af dauða kettinum. Áðan fann ég þó hugsanlega enn verri lykt en dauða köttinn. Ég var á Sorpu og reyndi að halda niðrí mér andanum meðan ég henti draslinu mínu. Óóóóógeðsleg lykt var af öllu svæðinu aldrei þessu vant og það versta er að hún loðir enn við innvols bílsins míns. Hvað var þetta eiginlega? Það er erfitt að lýsa lykt en þetta var kannski svipuð lykt og af fjöldagröf sem notuð hefði verið sem klósett af elliheimilinu Grund í heilan mánuð.
---
Síðastu færslu mætti túlka sem metafor yfir borgarmálin ef ég væri í USSR árið 1975.
--- 
Fréttatilkynning: Hljómsveitirnar Slugs, Vafasöm Síðmótun, Viðurstyggð og Kid Twist með tónleika á á Café Amsterdam, Hafnarstræti 5, Laugardaginn 16. ágúst n.k. Tónleikarnir hefjast kl. 23:00 og er ókeypis inn.
---
Aldrei hafði ég heyrt það áður að Hr. Borgarstjóri sé allar nætur á galeiðunni eins og draga mátti ályktun af Kastljósinu í gær. Hvar eru papparassarnir? Koma svo, búa til enn einn borgarstjórnarmeirihlutann. Fjölmiðlafólk, munið að spyrja: Ætlar Gísli Marteinn að borga sjálfur undir sig á þessa fundi sína, hvað eru margir á biðlaunum vegna ruglsins, hvað hefur þetta últra-flipp Sjálfgræðisflokksins kostað í heildina og hvenær á einhver að koma og þrífa leikvöllinn á bakvið 10-11 á Hjarðarhaga?
---
Ég er spámiðill. Daginn áður en Just 4 Kids fór á hausinn sagði ég við Lufsuna: Alveg er ég viss um að þetta Just 4 Kids dæmi muni fara á hvínandi kúpuna bráðlega (enda lítill grundvöllur með Toys R us með betra úrval og betri verð). Og voila. Á Íslandi eru alltaf gerð sömu mistökin, a.m.k. í góðæri. Þá gleymist að hér búa bara 300.000 manns (eða reyndar: 316.252 miðað við tölur Hagstofunnar frá því í apríl - vá okkur fjölgar sem rottum). Þess vegna veður ruglið uppi og verður minnisvarði um rugl, fréttastofan NFS kemur mjög snemma upp í hugann og það er nú bara of snemma morguns til að ég muni meira. En allavega. Spámiðilshæfileikar mínir segja mér að hið svokallaða Korputorg (aka Krepputrog), hvíta ljóta ferlíkið á milli Rvk og Mosf, muni eitthvað seinna en áætlað var taka til óspiltra málanna við að selja okkur enn meira dót. Þar eiga að vera sömu búðir og vanalega plús trompið, húsgagnabúðin ILVA, einhvers konar posh Ikea (og þar af leiðandi dýrari búð). Rúmfatalagersfæreyingurinn keypti víst ILVA dæmið og eftir því sem mér skilst eru Ilvubúðir í Bretlandi hættar og því varla mikil lukka yfir dæminu. Einu sinni sagði skiltið framan á Krepputroginu "Opnum í ágúst", nú segir það "Opnum í haust". Kannski næsta skilti segi: "Opnum ekki fyrr en það kemur álver í Mosfellsbæ".
---
Ég fer stundum í Holtagarða enda er Hagkaup með eina flottustu búð á landinu þar. Eins og komið hefur fram nýt ég þess að skoða mig um í matvörubúðum þar sem úrvalið endurspeglar unaðsemdir kapítalismans og eðalborinn rétt minn til fullrar nýtingar náttúruaflanna. Búðir í útlöndum eru oft algjörlega yfirþyrmandi, sérstaklega í Ameríku, þar sem unaðsemdir kapítalismans hafa náð hæstu mögulegu hæðum og þar er líka svo mikið af drasli sem ég hef aldrei smakkað en langar til að smakka. Já og rótarbjór. Á Íslandi hafa búðir Hagkaupa vinninginn (ég tala nú ekki um þegar þessir öðlingar halda ameríska daga). Nóatún er plebbalegt í samanburði en Fjarðarkaup er reyndar mjög fín búð, þó þeir haldi aldrei ameríska daga. Við Lufsan kaupum alltaf í jólamatinn í Fk. Af öllum búðum Hagkaupa tel ég Holtagarðaútibúið best þótt Kringlan og Smáralind séu reyndar mjög góð líka. Margt gerir staðinn góðann. Hann er við hliðina á Bónus. Svo maður er búinn að kaupa allt sem maður þarf. Ekki verslar maður í Hagkaupum nema það sem ekki er til annars staðar, til hvers að kaupa Smörva á 190 þegar hann fæst í Bónus á 110? (Svo órannsakað dæmi sé tekið). Annað gott er að Hagkaup í Holtagörðum er nánast tómt í hvert skipti sem ég fer þarna. Einstaka hræða á ferð (eðlilega, enda Bónus við hliðina). Boðið er upp á ágætis úrval af smakki. Ég og Dagbjartur vorum þarna í gær og átum niðursneydda ávexti, snakk, lífrænt súkkulaði og fleira úr smakkboxum á víð og dreif um búðina. Ekki skil ég hvernig menn nenna að halda þessari verslun úti en ég er þakklátur þeim og lofa að kaupa alltaf eitthvað þegar ég fer þarna. Þó ekki nema væri af nammibarnum. Áfram Holtagarðar (og fara svo að koma með ameríska daga og helst einhvern almennilegan rótarbjór, takk.)
---
Suður Ossetía blamm blamm blamm. Karlpungar máta saman tittlinga og fátæklingar liggja í valnum. Alltaf sama sagan af Homo Sap. Ég man annars eftir liðinu frá Georgiu á Eurovision. Þeir voru með blinda söngkonu sem söng drepleiðinlegt drasl og var hún studd um svæðið. Stuðningsliðið fór mikinn. Maður rakst ítrekað á hvíta fánann með rauðu krossunum. Ah, Belgrad. Mikið vildi ég komast í kíló af kirsuberjum núna, en jæja, maður hefur alltaf aðalbláberin. Hér er mynd af mér í gamla kastalahverfinu með öðlingsbílnum Yugo sem GVA tók:

---
Annars er meint puttun Beta Rokk á Ninu Hagen gróflega orðum aukin. Hið rétta, samkvæmt Sigga í gestabók, er að Beta sleikti einungis annað brjóstið á Nínu. Hlutaðeigendur er beðnir velvirðingar á misminninu.

13.08.08
Mér sýnist helsta tromp Ríkisstjórnarinnar vera að "gera ekki neitt" og láta allt ganga upp í eilífðri hamingju. Er ekki málið að stofna flokk fyrir næstu kosningar með stefnuskrána við ætlum ekki að gera neitt nema þyggja launin okkar því allt leysist af sjálfu hvort sem er..? 
---
Vinna við plötualbúmið Dr. Gunni með öllum mjalla (vinnuheiti) hófst á mánudag kl. 11.15 í Stúdíó Skúlagata 4. Á tveim dögum hefur Biggi barið inn ellefu trommugrunna sem er vel af sér vikið. Þá eru bara sjö eftir því þetta verður 18 laga plata. Meistaraverk, auðvitað.
---
Besta plata The Fall er tvímælalaust Slates. Hún var nýkomin út þegar bandið spilaði hér í fyrra skiptið 1981 og maður lá í þessu fyrir gigg í Austurbæjarbíói. Ég man enn eftir nærbuxum plötunnar sem voru pappírspokalegar. Hér má að öllum líkindum enn hala verkinu.
---
PLÍPP: Friffarnir og Jesúfeðgar eigast við í æsandi viðureign núna kl. 10.10. 
---
Erða rugl í mér eða puttaði Beta Rokk einu sinni Nínu Hagen á tónleikum? Aldrei hef ég puttað neinn á tónleikum og ekki einu sinni verið puttaður sjálfur en einu sinni reyndar var ég næstum því búinn að brenna gat á kjól Söru Cracknell með vindli þegar ég vafraði þrumudrukkinn á svið hjá Saint Etienne. Bandið hafði tekið aukagigg á Púlsinum (hét staðurinn líklega) en spilaði í Kolaportinu kvöldið áður. Þá mætti ég ófullur og minnist giggsins helst fyrir ömurlegt sánd. Ég ætlaði aldeilis að tjútta á Púlsinum en var borinn út eftir þetta með vindilinn. Ó, minningar...
---
(Jón skrifar: Staðurinn sem St Etienne spilaði á hét Venus á þessu tímabili, Dj Margeir og einhverjir félagar hans ráku hann á þessu tímabili. En staðurinn hét bóhem stuttu áður.)
---
Talandi um puttanir þá hefur Íslenzkur eðall nú sett í loftið versjón af Ég fer á puttanum. Þess má geta að á plötualbúminu Dr. Gunni með öllum mjalla (vinnuheiti) er sungið um puttun (og fleira) í laginu Við hittumst í dauðatjaldinu. 

11.08.08
Ísafjörður í viku. Bláber. Vá. Farðu í Hestfjörð og fylltu fötur. Eða bara hvert sem er þarna á svæðinu. Hef aldrei séð svona mikið af bláberjum, það er að segja aðalbláberjum, ekkert bláberjarusl eins og hér er í nágrenninu. AÐAL. Vestfirðir í ágúst. Ég held maður verði að vera árlegur þar framvegis. Ef maður flytur ekki bara for gúdd. Satt að segja voða lítið spennandi að koma til Rvk aftur. Það er söknuður af víðlendinu. Krakkarnir bara úti allan daginn að veltast um í náttúrunni. Svaka fínt veður í viku, fjallgöngur og át, veiðar og fjörur. Slökkt á farsímanum. Engin blogg lesin. Gæti alveg hugsað mér þetta svona áfram. En ég sé náttúrlega ekki heildarmyndina. Snjóinn og einangrunina. Lítið að marka hásumar. 
---
Svo má líka hafa slökkt á farsímanum í Rvk og hætta að lesa blogg.
---
Var að hjakkast í gegnum Eric Clapton bókina. Hann virðist vera hundleiðinlegur náungi. Allavega er hann ekkert að lifna sérstaklega við í þessari bók. Ægilegt endalaust sukk, grútur af aur og svo bara helvítis alkavæl yfir sjálfum sér.
---

Í hliðarsíður hafa eðalstaðirnir Tjöruhúsið og Amma Habbý (sjá mynd - diner á Súðavík - snilld!) bæst í Veitingah og Reykhólalaug bæst í fjöll/sund.

(Bakk tú ðe fjúttjér II)