Iguana eðlur þurfa umhverfi þar sem hitastigið er mjög hátt. Hitastigið undir UVB perunni (aðal UVB perunni ef þær eru margar í búrinu) ætti að vera á milli 30 og 35°C og hitinn annars staðar í búrinu ætti að vera minni, en þó ekki undir 26°C. Í búrinu ættu að vera mismunandi heit svæði svo eðlan geti stýrt líkamshitanum með því að flakka á milli þeirra. Hitinn að degi til er oftast gefinn með venjulegri hitaperu (fást í öllum ljósabúðum) eða svokölluðum DayGlow hitaperum sem eiga að vera spes fyrir skriðdýr, en þó eru þær aldrei mikið frábruðnar hinum hefðbundnu hitaperum og kosta umtalsvert meira í þokkabót.
Hversu öfluga peru þú færð þér fer eftir því hversu stórt búrið er, hversu langt peran á að vera frá sólbaðstað eðlunnar og hvort það sé gler eða plast á milli perunnar og eðlunnar, en það er í lagi með hitaperurnar svo lengi sem þú gætir ítrustu varúðar vegna eldhættu.
Það er líka prýðisgóð hugmynd að hafa dimmer á hitaperunum, þannig hefurðu fullkoma stjórn á hitanum sem þær gefa frá sér.

Hitasteinar eru ekki fyrir iguana eðlur! Ekki nóg með að þeir hafi lítið um hita búrsins að segja, heldur eru þeir stórhættulegir fyrir iguana eðlurnar. Þær skynja hitann öðruvísi en við og fatta ekki að þegar þær liggja of lengi á steininum fer að myndast slæmt brunasár á maganum á þeim.

Ekki giska út í loftið þegar kemur að hitastigi í búrinu! Keyptu þér góða hitamæla og staðsettu þá hér og þar í búrinu og hafðu gott auga með þeim.

Best er að nota perustæði sem umlykur hitaperuna til hliðanna og athugaðu að ef þú ert að nota peru sem að er öflugri en 150W, þá þarftu sérstakt perustæði sem að þolir þann hita, annars stafar eldhætta af perunni. Einnig er mjög mikilvægt að ef peran er staðsett inni í búrinu, að eðlan geti ekki klifrað á hana eða snert hana og brennt sig. Þá er gott að útbúa varnarnet eins og á myndinni hér fyrir neðan. Hægt er að útbúa þessi net úr sterku vírneti sem að fæst í byggingavöruverslunum.
Ef þú átt eðlu sem að er lítil og líkleg til þess að príla í varnarnetinu eða hanga á því skaltu íhuga að hagræða hönnun búrsins þannig að hægt sé að staðsetja hitaperuna utan þess.

Hitapera með varnarneti
Þetta einfalda varnarnet var útbúið úr litlum bút af vírneti, sem er haldið á sínum stað með varnarstöngunum sem að komu fastar með lampanum. Brúnir vírnetsins hafa verið sveigðar inn á við þannig að engir hættulegir, hvassir endar stingist út.



Hitastig að nóttu til:

Eins og öll önnur dýr þurfa iguana eðlur að hafa sólarhringinn skiptan upp í dag og nótt. Mælt er með ellefu eða tólf klukkustunda dagtíma sem þýðir að þú verður að hafa slökkt á ljósunum á nóttinni í tólf eða þrettán klukkustundir. Best er að gera þetta með því að hafa ljósin tímastillt með þar til gerðu tæki ef ske skyldi að þú gleymir að slökkva eða kveikja á réttum tíma eða sést vant við látin/n þegar að því kemur. Reglulegur sólarhringur gerir eðlunni kleift að koma sér upp föstu ferli, mundu að stöðugleiki er besti vinur iguana eðlunnar. Óreglulegur sólarhringur getur leitt til stress, árásagirni, lystarleysi og að eðlan gleymi hvar hún á að gera þarfir sínar og driti úti um allt búr. Hitastigið ætti að vera lægra á nóttunni hjá iguana eðlunum, en samt sem áður má hitastigið ekki fara undir 24°C að nóttu til. Ég veit um þrjár góðar leiðir til þess að viðhalda hitastiginu að nóttu til án þess að nein þeirra gefi frá sér ljós sem að ruglar sólarhring eðlunnar:

1: Staðsettu búrið upp við ofn og stilltu hann á þann hita sem að gefur rétt hitastig að nóttu. Síðan skaltu setja daghitabúnaðinn (hitaljósið/in) upp með ofninn enn á þeirri hitastillingu sem að viðhélt réttum hita að nóttu til. Eini gallinn við þennan möguleika er sá að nú er ofninn þinn orðinn eign eðlunnar þinnar og þú mátt ekki breyta hitastillingunni á ofninum nema með tilliti til hitans í búrinu en ekki í herberginu sem að ofninn er í.

2: Hægt er að kaupa sérstakar hitamottur í flestum dýrabúðum sem að límast undir gler og halda hita á yfirborði þess, góð hugmynd er að staðsetja slíka mottu undir staðnum þar sem að eðlan sefur. Gallinn við þennan kost er annars vegar sá að aðeins má líma þessar mottur undir gler vegna eldhættu sem gæti annars skapast og hins vegar sá að sumar eðlur sofa nánast aldrei á sama stað í búrinu tvisvar, heldur sofna bara þar sem þær voru staddar þegar að ljósin slökknuðu.

3: CHE (Ceramic Heat Emmiter) pera. Þessar perur gefa frá sér mikin hita, en ekkert ljós og því tilvalin kostur til þess að viðhalda hita að næturlagi. Eingöngu má nota þessar perur með sérstökum perustæðum sem að þola mikin hita vegna eldhættu sem að gæti annars skapast. Ég veit um eina verslun sem að selur svona perur/getur útvegað þær og það er Fiskó í Kópavoginum, því þeir eru með umboðið fyrir Exo Terra skriðdýravörurnar. Hér er hægt að fræðast um peruna, en þessi ákveðna tegund CHE pera gengur bara í þar til gerðan CHE lampa sem vissulega er frá sama fyrirtæki og framleiðir peruna. Lampinn er þó sérstaklega varinn með grind og það sparar þér að minsta kosti eitthverja vinnu. Eini gallinn við þennan kost er sá að oftast þarf að kveikja á CHE perunni þegar þú slekkur á öllum hinum perunum, hægt er að fá sérstakt kerfi sem að gerir það fyrir þig, en einfaldari lausn væri að fá CHE peru sem að gefur frá sér minni hita og hafa hana í gangi allan daginn.

Að auki er hægt að notast við t.d. venjuleg hitateppi, en ég hef heyrt að sé hitateppi skilið eftir í gangi of lengi muni óhjákvæmilega kvikna í því, svo ég verð að mæla gegn því.