Metabolic Bone Disease

Metabolic Bone Disease, eða MBD er sjúkdómur (ekki smitandi!) sem að herjar á allt of margar eðlur og gefa skriðdýralæknar erlendis oftast upp að í kringum 80% iguana eðlanna sem þeir fá til sín þjáist af MBD. MBD veldur því að beinin í eðlunni verða svampkennd og brotna við minsta átak og gróa aftur saman snúin og skökk ef þau ná að gróa aftur. Á endanum lamast eðlan og deyr í kjölfarið ef ekkert er að gert. Skaði að völdum MBD er óafturkallanlegur.
Þar sem þetta er svo gífurlega algengt er um að gera að vita hvernig á að þekkja einkennin, koma í veg fyrir þetta og hvernig skal laga þetta ef skaðinn er skeður. Góðu fréttirnar eru að auðvelt er að koma í veg fyrir MBD með því að einfaldlega hugsa vel og rétt um eðluna sína.

Hvað veldur MBD?

Það er ýmislegt sem getur orsakað MBD. Eitthvað einstakt atriði sem betur má fara í umhirðu eðlunnar getur valdið MBD og einnig geta margir þættir unnið saman að því að valda sjúkdómnum. Langflest tilfelli MBD má rekja til slæmrar umhirðu á eðlunni eða þá vankunnáttu eigandans. Í grófu máli er MBD kalkskortur og samsvarar nokkurnvegin beinkröm hjá okkur mannfólkinu. Í einstaka tilfellum, sem heyra til undantekninga, orsakast MBD af ójafnvægi hormóna af völdum annara sjúkdóma sem hrjá eðluna. Langoftast eru orsakir MBD ein eða fleiri af eftirfarandi:
-Skortur á kalki í fæðu.
-Ekkert UVB ljós, eða UVB ljósið er lengra frá eðlunni en 30 cm. Eða jafnvel of kraftlítið UVB ljós.
-Ekki rétt hitastig í búrinu.

Kalk er verulega mikilvægt. Þrátt fyrir að vera til margs nytjanlegt, er það fyrst og fremst notað í að byggja upp hraust bein og einnig á það mikin þátt í því að halda taugakerfinu heilbrigðu. Í hraustu dýri er kalkið í jafnvægi í líkamanum. Kalkið spilar með öðrum efnum, svo sem D3 vítamíni og fosfór og er stjórnað af ýmsum hormónum. Ef of mikið eða of lítið er af kalki mun jafnvægið tapast. Ein orsakanna fyrir MBD er skortur á kalki í fæðu og ætti kalkið að vera í hlutfallinu 2x kalk á móti 1x fosfór, sem sagt tvöfalt meira kalk heldur en fosfór. Ef eðlan fær ekki nægt kalk, mun hún finna aðra leið til þess að fá nóg kalk til þess að halda taugakerfinu starfandi, og það kalk mun hún sækja í sín eigin bein og það leiðir að MBD.

UVB ljós er einnig verulega mikilvægt ef maður vill forðast MBD. Þegar eðlan fær UVB geisla tekur húð hennar að framleiða D3 vítamín. Þetta vítamín er nauðsynlegt eðlunni til þess að vinna kalk úr fæðunni. Án UVB ljóss geta iguana eðlur ekki unnið D3 vítamínið (þær geta ekki unnið það úr fæðunni, heldur verða að fá það með UVB ljósi). Án D3 vítamínsins getur líkami eðlunnar ekki unnið kalk úr fæðunni. Gott UVB ljós er því nauðsynlegt ef eðlan á að vera hraust og lifa vel og lengi.

Að lokum er nauðsynlegt að ganga úr skugga um að rétt hitastig sé í búri eðlunnar. Þar sem iguana eðlur hafa kalt blóð þurfa þær að nota hitann í umhverfinu til þess að meltingarfærin nái að virka. Iguana eðlur sem eru hafðar í of lágu hitastigi munu ekki geta melt fæðuna nógu vel og ná því ekki að taka upp nógu mikið af næringarefnum, þar á meðal kalki. Þetta getur valdið MBD.

Það er ein önnur orsök fyrir MBD sem ber að minnast á, en það er fengitímabilið. -Þá einkum hjá kvendýrunum. Þegar fengitímabilið gengur í garð (mismunandi tímabil eftir því hvaðan eðlan kemur úr heiminum), taka kvendýrin upp á því að mynda egg óháð því hvort þær hafi nokkurn tíman komið nálægt karldýri (þessu er svipað háttað hjá hænum). Þegar eggjaskurnin fer að myndast þarf eðlan óvenjulega mikið af kalki, þannig að á fengitímabilinu eru kvendýrin sérstaklega berskjölduð gagnvart MBD. Eigendur kynþroska kvendýra ættu því alltaf að hafa augun opin fyrir einkennum MBD og ættu þar að auki að bæta kalki í fæðuna.

Einkennin.

MBD sýnir sig á marga vegu, en oftast eru fyrstu einkennin mjúk og brothætt bein. Ef að iguana eðla brýtur bein, þá er hún mjög líklega með MBD. Margir eigendur átta sig ekki á því að eðlan þeirra hafi MBD fyrr en hún brýtur bein vegna eitthvers sem heilbrygð eðla hefði sloppið ómeidd frá eins og að klifra eða stökkva. Á meðan beinin veikjast reynir líkami eðlunnar að styrkja þau með því að leggja yfir álagspunkta trefjavef, þetta lætur útlimina tútna út (sérstakelga læri og framfætur) og minna þeir þá einna helst á Stjána Bláa. Afturfæturnir geta svignað varanlega við álagið sem að vöðvarnir leggja á þá. Beinbrot af völdum MBD geta orsakað snúin og bjöguð bök, tær og útlimi. Oft verður mænuskaði sem leiðir til varanlegrar lömunar á eðlunni.

alternatetext
Á myndinni hér að ofan er iguana eðlan Quasi, en hún lenti í MBD, takið eftir bognum hryggnum. Myndin er tekin af Desiree Wong.

Annað algengt einkenni MBD er mjúkt eða svampkennt kjálkabein. Rétt eins og með útlimina gæti kjálkabeinið tútnað út vegna trefjavefjarins. Það getur þá orðið erfitt og sársaukafullt fyrir eðluna að borða og eru líkur á því að hún svelti sig í hel. Í alvarlegum tilfellum þá dregst neðri kjálkinn saman, þannig að hann verður styttri en sá efri, en á heilbrygðum eðlum eru þeir nánast nákvæmlega jafnlangir. Þegar neðri kjálkinn er orðinn styttri en sá efri geta komið upp ýmis vandamál í góminum.

Ef MBD kemst í taugakerfið má finna eðluna titra eða skjálfa þegar haldið er á henni, en það gera hraustar eðlur ekki, jafnvel þótt þær séu að farast úr hræðslu. Útlimirnir gætu einnig verið veikburða. Í slæmum tilfellum lamast eðlan, þá oftast afturfæturnir og halinn og dregur eðlan sig þá um með frafótunum og hættir að geta klifrað.

Það þarf ekki nema eitt þessara einkenna til þess að iguana eðlan þjáist mikið og verði vansæl. Eðlur sem þjást af MBD sýna oft almenn einkenni lasleika, svo sem deyfð, slappleika og lystarleysi. Ef þú sérð eitthvert einkennana skaltu fara með eðluna STRAX til dýralæknis og lýsa þeim. Ef ekkert er gert í málunum mun MBD varanlega afmynda eðluna þína, lama hana og jafnvel drepa hana.

Lækningin.

Sem betur fer er hægt að lækna MBD auðveldlega ef brugðist er við í tæka tíð. Það eru til margar mismunandi leiðir til að lækna MBD og fer valið eftir því á hversu háu stigi sjúkdómurinn er. Brotin bein munu vera stillt saman og látin gróa rétt. Kalk er gefið í sprautu og bætt út í mat og sterkara UVB ljós fengið (eða auka pera eða perur sem fyrir eru færðar nær eðlunni). Dýralæknirinn mun einnig mæla með lagfæringu á umönnun dýrsins ef með þarf. Einnig eru veikburða vöðvar og lamaðir útlimir meðhöndlaðir. Mörg einkennana hverfa eftir að hafist er handa við að meðhöndla sjúkdóminn, en bein sem hafa gróið saman snúin eða bognað munu haldast út æfi eðlunnar. Einnig ef eðlan lamast að miklu leyti er líklegt að hún nái sér aldrei að fullu frá lömuninni, en lömun á afmörkuðu svæði hverfur oftast við meðhöndlun sem og titringur og veikleiki vöðva. Beinin munu verða sterk aftur og matarlystin mun aukast að nýju.

Niðurstaða.

Margar eðlur hafa náð sér að fullu eftir MBD og hafa lifað góðu lífi þrátt fyrir lömun og/eða afmynduð bein. En hvers vegna að láta eðluna þína ganga í gegn um MBD ef svo auðvelt er að koma í veg fyrir sjúkdóminn með smávegis þekkingu og réttri umhirðu? Viltar iguana eðlur þjást aldrei af MBD. Þessi sjúkdómur stafar eingöngu af vanhirðu eða þekkingarleysi eigenda eðlanna. Heilsa eðlunnar þinnar er á þinni ábyrgð, hún reiðir sig á þig varðandi mat, hreinlæti og aðrar nauðsynjar. Ekki bregðast henni, annars mun hún þjást verulega fyrir þær sakir.