Hér verður farið yfir einkenni, orsakir og lækningar við nokkrum algengari kvillum sem geta hrjáð iguana eðlur. En mundu að þessi síða er eingan vegin staðgengill fyrir dýralækni, ef eitthvað amar að eðlunni þinni er best að fara með hana til dýralæknis, þó ekki sé nema til öryggis. Einnig er mælt með því að farið sé með iguana eðlur reglulega í skoðun hjá dýralækni.
Til að auðvelda lesendum að leita hjálpar erlendis er enska heiti sjúkdómanna haft í sviga aftan við það íslenska.

Þvagsýrugigt (Gout) - Bólgur og stirðleiki í liðamótum.

Einkenni:
-Bólgin og aum liðamót.
-Aðrir bólgnir vefir, svo sem augun.
-Dofi og hreyfingarleysi.
-Hreystrið lítur út fyrir að vera óheilbrygt.

Orsakir:
-Of mikið af prótíni í fæðu, sem leiðir til uppsöfnunar þvagsýru (sem myndast við meltingu prótína) í blóðinu. Þvagsýran kristallast og festist í vefjum liðamótanna, lungna, nýrna og lifrar.
-Krónískur ofþurrkur/nýrnabilun.

Meðhöndlun:
Nauðsynlegt er að láta dýralækni meðhöndla eðluna!
Lyfjagjöf, breyting á umönnun eðlunnar og jafnvel skurðaðgerð.
Það er ekki til nein lækning við þvagsýrugigt. Þessi sjúkdómur veldur varanlegum sjársauka og bæklun. Alvarleg tilfelli valda dauða. Það er eins með þennan sjúkdóm og marga aðra kvilla sem hrjáð geta eðluna að best er að sporna við því að eðlan sýkist með réttri umhirðu.


Óvirkur skjaldkirtill (Hypothyroidism/Goiter)

Þetta er sjúkdómur sem kemur upp þegar ekki er rétt magn joðs í líkamanum. Skjaldkyrtillinn, sem myndar hormón sem stýra meltingu, orku, vexti, skaplyndi og hamskiptum, þarf joð til þess að virka rétt. Ef ekki er nóg af joði mun skjaldkyrtillinn bólgna (sem leiðir til bólgins háls og er kallað skjaldkyrtilsauki) og mun ekki framleiða nægilega mikið magn hormóna.

Einkenni:
-Dofi, hreyfingarleysi.
-Eðlan virkar þrútin.
-Eðlan er óvenju skapmild, þrátt fyrir að vera jafnvel ótamin og mikið sé haldið á henni.

Orsakir:
-Of mikið af goitrogenum í fæðunni. Goitrogen eru efni sem að sporna við því að líkaminn vinni joð. Þessi efni finnast í fæðu eins og spergilkáli (brokkólí), blómkáli, hvítkáli, fóðurmergkáli, kínakáli og brussel káli.

Forvörn/meðhöndlun:
Reyndu að gefa lítið af fæðu sem inniheldur goitrogen og ef þú gefur eðlunni slíka fæðu, þá skaltu gera það í litlu magni og sárasjaldan. Ef skjaldkyrtillinn verður ofvirkur eða er það nú þegar skaltu snarhætta að gefa fæðu sem inniheldur goitrogen. Joðgjöf er ekki nauðsynleg. Eina sem hér vantar upp á er fjölbreytt og rétt mataræði.


Nýrnabilun (Kidney Disease/Failure).

Þetta gerist þegar nýrun hafa skemmst og virka ekki lengur rétt og valda þar með uppbyggingu spilliefna í blóðflæðinu og ójöfnu magni ýmissa efna í líkamanum eins og til dæmis kalki og fosfór.

Einkenni:
-Dofi, hreyfingarleysi.
-Slappleiki.
-Eðlan missir stjórn á útlimum.
-Lystamissir og þyngdartap.
-Aukin þorsti.
-Minna þvaglát í einu, en oftar en venjulega.
-Þykkara og gulleitara þvag.
-Ofþurrkur.
-Harðlífi/hægðartregða.
-Bólgin háls og búkur.

Orsakir:
-Slæmt mataræði (oft of mikið af prótínum).
-Krónískur ofþurrkur.
-fúkkalyf/sýklalyf notað of lengi.
-Stundum eru orsakir óþekktar.

Forvarnir:
-Rétt mataræði sem ekki inniheldur nein dýraprótín.
-Eðlan fær aðgang að nógu fersku vatni allan daginn.
-Eðlan er úðuð reglulega með blómaúðara og böðuð nokkrum sinnum í viku.
-Halda skal réttu rakastigi í eðlubúrinu.
-Forðast skal að nota fúkkalyf/sýklalyf of lengi.

Meðhöndlun:
-Leita skal til dýralæknis STRAX!!
Nýrnabilun getur leitt til dauða á skömmum tíma, oft ekki lengur en einum til tveimur sólarhringjum eftir að fyrstu einkenna verður vart!
Algeng meðhöndlun dýralækna er:
-Vatni sprautað í kviðinn og stundum upp í munninn (þá með nálarlausri sprautu).
-Dregið úr fosfatmagni í blóði með efnum sem að binda fosfat.
-Kalkmagn í blóði aukið með kalkmeðferð (oft sprautað kalki í æð).
-Stundum er eðlunni gefin anabólískir sterar.

Ef gripið er inn í í tæka tíð er hægt að bjarga eðlum sem þjást af nýrnabilun. Hins vegar eru skemmdirnar sem þegar eru orðnar á nýrunum varanlegar og líkur eru á því að sjúkdómurinn geti tekið sig upp síðar meir. Langtímameðferð er oftast nauðsynleg.


Munnrot (Stomalitis / Mouth rot)

Þetta er sýking í munni sem að oftast kemur fram vegna annarar sýkingar annars staðar í eðlunni.

Einkenni:
-Byrjunarstig: Eðlan er treg til þess að borða og munnvatnið verður þykkara.
-Lengra komið: Gulhvítur gröftur sem minnir á eitthvers konar ost í eða við munninn. Vefir munnsins leysast upp og tennur detta úr.

Orsakir:
-Munnrot orsakast af sýkingu annars staðar í eðlunni eða ef að eðlunni er mikið strýtt og/eða eðlan er mikið stressuð.

Meðhöndlun:
-Leita skal til dýralæknis!
Dýralæknirinn mun sýna þér hvernig á að hreinsa munninn, losa um aðskotahluti, gröft og dauða húð - Hvernig á að bera smyrsl á sýkta svæðið, bregðast við blæðingum o.s.frv. Meðal annars gæti læknirinn mælt með:
-Að munnurinn verði skolaður með Betadíni.
-Gröftur og/eða dautt skinn fjarlægt með eyrnapinna, flísatöngum eða öðru áhaldi.
-Eðlunni er gefið fúkkalyf sem hefur áhrif á allan líkamann ef munnrotið orsakaðist af öðrum sýkingum. Þetta er sérstaklega mikilvægt, vegna þess að ef aðeins er fengist við munnrotið, mun það koma strax aftur ef að orsakasýkingin er ekki læknuð í leiðinni.
-Læknirinn mun spyrja þig spurninga um umhirðu þína á dýrinu og kemur með uppástungur um hvað mætti betur fara til að koma í veg fyrir svona lagað.