Ásamt næringarríku fæði getur verið gott að gefa eðlunni vítamín eða viðbætt næringarefni út í matinn. Mörgum skriðdýralæknum greinir á um hvort vítamíngjöf fyrir iguana eðlur sé nauðsynleg, sumir segja að ef að eðlan er á réttu mataræði, þá ætti hún ekki að þurfa viðbætt vítamín og steinefni, en aðrir segja að það sé betra að vera öruggur og gefa vítamín og steinefni reglulega. Þar sem úrvalið á matseðli hinnar íslensku iguana eðlu er frekar dræmt, þá ætla ég að mæla með því að gefin séu vítamín reglulega út í matinn. Þá ber að athuga að þótt það sé góð hugmynd að bæta vítamínum í mat eðlunnar, þá getur það einnig verið hættulegt ef rangt er farið að. Helsta hættan sem hér er á ferð er sú að bæði A og D vítamín geta verið banvæn í of stórum skömmtum, svo gæta ber varúðar þegar skammtastærðir eru ákveðnar.
Að auki hefur lítið verið rannsakað hversu mikið af vítamínum iguana eðlur þurfa, svo skammtastærðir geta verið mismunandi eftir því hvaðan upplýsingarnar koma.

Sérstök eðluvítamín.

Það eru til margar tegundir af sérstökum eðluvítamínum, en flestar gerðirnar eru ófullnægjandi eða jafnvel hættulegar fyrir eðlurnar. Mörg innihalda viðbættan fosfór og D3 vítamín, en samkvæmt nýlegri rannsókn sem gerð var á iguana eðlum og viðbættu D3 í mataræði, þá gerir viðbætt D3 í mataræði ekkert gagn og talið er að það geti jafnvel verið skaðlegt. Það er vitað með fullri vissu að ofskömmtun á D3 vítamínun getur verið banvæn.
Öruggustu eðluvítamínin innihalda lítið eða ekkert af A vítamíni og ekkert D3. Ég hef enn ekki séð neitt skriðdýravítamín á sölu hérlendis sem ég get mælt með fyrir iguana eðlur. Að auki mæli ég ekki með vítamínum sem eiga að fara út í vatnið hjá eðlunni, því það er mjög misjafnt hversu mikið og hvort eðlan drekkur daglega, svo skammtastærðirnar eru í tómu rugli og ómögulegt er að sjá út hvort hún sé að fá of mikið eða of lítið af vítamínunum.

Aðrar leiðir.

Flestir reyndir iguana eigendur sem gefa eðlunum sínum vítamín notast við aðrar tegundir vítamína en þessar eðluvítamínstegundir. Góð leið til þessa er að kaupa vítamín sem gerð eru fyrir manneskjur og fást í öllum apótekum. Ef vítamínin eru í töfluformi, þá þarf að duftmylja töflurnar áður en lengra er haldið. Gott er þá að geyma duftið í saltstaukum til að auðvelda jafna dreyfingu yfir matinn síðar meir, en muna að merkja þann stauk eðlunni sérstaklega svo hann verði ekki notaður á mat fyrir mannfólk fyrir misskilning.

Kalk.

Iguana eðlur þurfa að fá dágóðan skammt af kalki til að halda beinunum sínum hraustum og sterkum. Besta leiðin til að tryggja að eðlan fái nóg kalk er að kaupa hreint kalk í töflu eða duftformi í apótekum. Öruggast er að velja tegund sem að inniheldur engin aukaefni. Besta tegundin sem ég finn hérlendis í fljótu bragði er tegundin "Kalk úr ostruskel", sem er í töfluformi og fæst í flestum apótekum.

Fjölvítamín.

Margir iguana eigendur gefa eðlunum sínum fjölvítamín út í matinn. Þessi vítamín eru í töfluformi, þannig að það þarf að duftmylja töflurnar áður en þeim er bætt út í matinn. Fjölvítamín sem gerð eru sérstaklega fyrir konur eru mjög snyðug vegna aukins kalkinnihalds. Varast ber þó ofskömmtun á A og D vítamínum.

Prótín.

Þar sem flest grænmeti er frekar prótínsnautt, þá getur það verið snyðugt að bæta prótínum við mat eðlunnar (en VARIST OFSKÖMMTUN, en hún er banvæn). Besta leiðin er að bæta tættu, þroskuðu alfalfa við matinn eða sérstökum alfalfa töflum (mig minnir að þær fáist í Heilsuhúsinu), þá duftmuldum. Þessu ætti að bæta við rétt fyrir matargjöf, en ekki áður en maturinn er settur í geymslu.

Hvernig, hversu mikið og hversu oft...

Þar sem vítamínupptaka iguana eðla hefur ekki verið fullrannsökuð, þá getur verið erfitt að ákveða réttar skammtastærðir. Heilsukvillar af völdum vítamínskorts í iguana eðlum eru algengir, en það er sjaldséð að þær þjáist af ofskömmtun. Viðbættum vítamínum er bætt í matinn rétt áður en hann er borinn fram fyrir eðluna. "Tánings" iguana eðlur (aldur c.a. á bilinu 2 - 6 ára) vaxa hraðar og því trúa margir að þær þurfi meira af vítamínum. Það er oftast mælt með því að táningseðlum sé gefin lítil klípa (á milli þumals og vísifingurs) af vítamínum út í aðra hverja máltíð. Fullorðnum eðlum er gefið sama magn, en aðeins einu sinni til tvisvar í viku. Klípan ætti að vera lítil og það er ekki nauðsynlegt að hylja alla máltíðina. Egghafandi kvendýr ættu að fá aðeins meira kalk en venjulega.

Frosið fæði.

Ef þú ert að gefa eðlunni þinni mat sem þú hefur geymt í frysti, þá er mælt með því að þú bætir þíamíni (B1 vítamín) út í hann áður en þú berð hann fram fyrir eðluna. Frystingin brýtur nefnilega niður þíamínið þannig að frystan mat ætti alltaf að bæta með dálitlu þíamíni til að bæta skaðann.