Eitt af mestu þrætueplum nútímans varðandi iguana eðlur er hvort þær þurfi á dýraprótínum að halda (svo sem kjöt, egg eða mjólkurvörur). Fyrir þessu rifrildi eru nokkrar ástæður og er ein þeirra sú að fyrir mörgum árum héldu illa upplýstar vefsíður og iguana bækur því fram að eðlurnar þyrftu nauðsynlega á dýraprótíni að halda, og því miður ber enn á slíkum upplýsingum í dag. Að auki, þá borða iguana eðlur nánast allt sem þeim er boðið og því halda margir að ef þær borða kjöt, þá hljóti það að vera gott fyrir þær (MJÖG RANGT!). Í þriðja lagi, þá virðast margir trúa því að öll dýr verði að éta dýraprótín til þess að vera hraust og dafna vel (RANGT RANGT!! Sjáið bara alla grasbítana eins og hesta og kýr!). Enn aðrir halda því fram að þær verði að éta skordýr þegar þær eru ungar (AFTUR MJÖG RANGT!). Þetta gæti verið vegna þess að við sjálf (svona flest öll alla vega) erum alætur og dýrin sem við þekkjum best, eins og hundar og kettir, eru kjötætur. Þannig virðast margir freistast til þess að trúa því að iguana eðlurnar sé það líka.

Hver er munurinn á plöntu- og dýraprótíni?

Plöntu- og dýraprótín eru eins að því leitinu til að þau eru bæði búin til úr amínósýrum. Meginmunurinn er sá að dýraafurðir innihalda annað magn af amínósýrum og mun hærra magn prótína en flestar plöntur (en sumar plöntur innihalda samt mikið magn prótína eins og t.d. tófú). Á ströngu grænmetisfæði er því mikilvægt að nærast á mismunandi plöntum til þess að halda úrvali prótína og amínósýra nægilega háu.

Hvers vegna þessar áhyggjur af dýraprótínum í mataræðinu þeirra?

Það eru nokkrar ástæður fyrir því að dýraafurðir séu slæmur matarkostur fyrir eðluna þína. Til að mynda innihalda dýraafurðir oftast gífurlegt magn af fitu og kólesteróli, en þetta er ekkert hollara fyrir eðluna heldur en það er fyrir þig. Í öðru lagi, þá eru líkamar iguana eðla þróaðir til þess að nýta sem best plöntufæði. Þær eru ekki hæfar til þess að vinna almennilega úr þessum háu prótínskömmtum sem finnast í dýraafurðum. Líkamar þeirra breyta afgangsafurðum of mikillar prótínneyslu í þvagsýru, sem seytlast svo í líkamsvefi, kristallast og valda þvagsýrugikt (e. "gout"). Nýrun þeirra lenda þá undir miklu álagi til þess að fjarlæga allan þennan úrgang prótínvinnslunnar úr blóðinu og leiðir til þess að nýrun skemmast og á endanum hætta að vinna. Þar sem flestar iguana eðlur í manna höndum eru örlítið of þurrar getur of mikil prótínneysla aukið enn meira á álagið sem þegar er á nýrunum.

En éta viltar iguana eðlur ekki pöddur?

Það hefur engum enn tekist að sýna fram á að iguana eðlur éti pöddur eða aðrar dýraafurðir að neinu ráði úti í náttúrunni. Einstaka padda eða smádýr gæti verið á röngum stað á röngum tíma þegar eðlan er að narta í laufblöð, en það er fáheyrt að eðlurnar leggi það á sig að elta uppi og góma lifandi bráð. Helst er þá um að ræða eðlur sem að eru á svæðum þar sem skyndilegur skortur er á jurtum (vegna t.d. skógarhöggs eða þurrkatímabils) og þær eru sveltar yfir í að leita uppi aðrar leiðir til þess að nærast.

En mun eðlan mín ekki hamlast vaxtarlega ef ég gef henni ekki dýraprótín þegar hún er "táningur" og er að vaxa hratt?.

Nei. Iguana eðlur sem eru á réttu jurtafæði munu verða alveg jafnstórar og þær sem að fá dýraprótín. Dýraprótín gæti leitt til þess að eðlan vaxi örlítið hraðar, en það minnkar líka lífslíkur hennar úr yfir tuttugu árum niður í ca. átta ár... Þetta eru ekki gáfuleg skipti að mínu mati... Að auki er dauðdagi að völdum nýrnabilunar langur og kvalarfullur og engin iguana eigandi ætti að þurfa að horfa upp á eðluna sína þjást svona mikið og lengi.

Er til "öruggt" magn dýraprótína sem ég get gefið eðlunni án þess að hún veikist?

Sennilega. En vandamálið er að sem stendur veit engin hvað þetta "örugga" magn er. Að gefa eðlunni þinni bita af ostasamlokuni þinni mun sennilega ekki skaða hana (En ekki borða samlokuna eftir að eðlan hefur snert hana!!) - rétt eins og það er ekkert stórmál ef við förum og fáum okkur hamborgara og mjólkurhristing annað veifið. Það verður bara vandamál hjá okkur þegar við étum ruslfæði oft í viku. Spurningin er hins vegar sú að þar sem við vitum ekki hversu mikið magn dýraprótína er í lagi, hvers vegna ættum við þá að taka áhættuna? Viljum við virkilega leggja líf eðlunnar okkar í hættu með glæfralegum línudansi á milli magns sem er í lagi og magns sem reynist banvænt? Getum við einu sinni vonast til þess að halda þeim dansi uppi ef við vitum ekki einu sinni hvar mörkin liggja?

Niðurstaða.

Með allar þessar spurningar í huga varðandi dýraprótín, hvað vitum við? Við vitum að það hafa engar rannsóknir stutt að dýraafurðir séu fastur partur af mataræði viltra iguana eðla. Við vitum að of mikið dýraprótín veldur heilsukvillum og styttir mögulega æfi þeirra um rúmlega helming. Við vitum að iguana eðlur sem aldar eru á ströngu jurtafæði vaxa og dafna vel og eru líklegri til þess að ná mun hærri aldri. Þannig að ef þú íhugar þetta aðeins, þá er í raun engin góð ástæða til þess að gefa iguana eðlum dýraafurðir, og það er hellingur af ástæðum til þess að sleppa því alfarið.